Miðstöð íslenskra bókmennta stendur á næstu dögum fyrir þýðendaþingi þar sem um 30 þýðendur íslenskra bókmennta koma saman til skrafs og ráðagerða. Dagskráin fer fram í Veröld - húsi Vigdísar Finnbogadóttur dagana 11. til 12. september og kemur rétt í kjölfarið á Bókmenntahátíð í Reykjavík sem fram fer dagana 6. til 9. september. Ég held erindi fyrir þýðendahópinn mánudaginn 11. september sem ber titilinn "Sendiherrar án diplómatískra réttinda: Hugleiðing um íslenskunám og þýðendur íslenskra bókmennta". Þar hyggst ég ræða um tengslin á milli okkar dýrmætu þýðenda og kennslu í íslensku sem öðru máli hér við Háskóla Íslands og við aðrar hliðstæðra námsbrautir víða um heim.
Síðustu vikuna í apríl held ég þrjá fyrirlestra við breska háskóla sem tengjast útgáfu Echoes of Valhalla: The Afterlife of Eddas and Sagas, sem bókaforlagið Reaktion Books sendi frá sér um miðjan marsmánuð. Fyrsta fyrirlesturinn flyt ég við University of Leeds þriðjudaginn 25. apríl kl. 17.30 og ber hann titilinn "Brothers in Arms? Snorri Sturluson and Stan Lee as Rewriters of Nordic Myth." Fimmtudaginn 27. apríl flyt ég annan fyrirlestur við University College í London kl. 17.30 og ber hann titilinn "Ibsen's Hiördis, Bottomley's Hallgerd, Shakespeare's Lady Macbeth". Þriðja og síðasta fyrirlesturinn flyt ég við Department of Anglo-Saxon, Norse and Celtic í Cambridge-háskóla 28. apríl kl. 17.00 en hann ber titilinn "Echoes of Valhalla in Viking Metal: The influences of Snorri Sturluson and Led Zeppelin."
Út er komin bók mín, Echoes of Valhalla. The Afterlife of the Eddas and Sagas. Eins og titillinn gefur til kynna er fjallað hér um framhaldslíf íslenskra miðaldabókmennta en sjónum er einkum beint að teiknimyndasögum, kvikmyndum, ferðabókum, leikritum og tónlist. Meðal þeirra listamanna sem við sögu koma eru teiknararnir Jack Kirby og Peter Madsen, leikskáldin Henrik Ibsen and Gordon Bottomley, ferðabókahöfundarnir Frederick Metcalfe og Poul Vad, tónskáldin Richard Wagner og Edward Elgar, rokkararnir Jimmy Page og Robert Plant og kvikmyndaleikstjórarnir Roy William Neill og Richard Fleischer. Þá er einn kafli bókarinnar helgaður endurritaranum Snorra Sturlusyni. Útgefandi Echoes of Valhalla er breska bókaforlagið Reaktion Books en bókinni er dreift í Bandaríkjunum í gegnum University of Chicago Press. Þess má geta að nýlega rataði bókin inn á tíu bóka lista breska dagblaðsins Guardian "Top 10 books about the Vikings". Á þessu misseri held ég fáeina fyrirlestra um efni bókarinnar í Danmörku og Bretlandi. Sá næsti verður við Árnastofnun í Kaupmannahöfn 6. apríl og ber titilinn "Poul Vad, Hrafnkatla and Páll Gíslason."
Á liðnu ári var ég leiðbeinandi eða meðleiðbeinandi að þremur MA ritgerðum; einni í þýðingafræði, einni í ritlist og einni í miðaldafræðum. Natalia Kovachkina lauk við rússneskar þýðingar á átján íslenskum smásögum sem hún valdi og ritaði formála að. Nokkrar þýðingana hafa þegar birst í rússneskum tímaritum og fleiri eru væntanlegar en skemmtilegast væri þó að þetta tilkomikla safn kæmi út á bók í Moskvu fyrr eða síðar. Jóhannes Ólafsson lauk við íslenska þýðingu sína á skáldsögunni Fear and Loathing in Las Vegas eftir Hunter S. Thompson. Ber hún titilinn Uggur og andstyggð í Las Vegas: Villimannslegt ferðalag að hjarta ameríska draumsins og kemur væntanlega út hjá Forlaginu síðar á þessu ári. Í nóvember var Jóhannes í viðtali á Rás 1, Ríkisútvarpinu, um Thompson og þýðingu sína. Loks má nefna MA ritgerð Shirley N. McPhaul, "Vikings and Gods in Fictional Worlds: Remediation of the Viking Age in Narrative-Driven Video Games" en þar er fjallað um nýtt og spennandi efni; tölvuleiki sem sækja sér innblástur í norræna goðafræði og fornsögur. Ég vil óska þeim öllum til hamingju með MA gráðurnar og þessi metnaðarfullu lokaverkefni.
Myth and "Nation Building" er titill á ráðstefnu sem Sorbonne-háskólinn og Grundtvig-lærdómssetrið í Árósum standa að í París 26. til 27. janúar næstkomandi. Þar mun hátt í tugur fræðimanna og -kvenna fjalla um hlutverk norrænna heiðinna goðsagna í þróun evrópskra þjóðríkja á nítjándu öld. Það kemur í minn hlut að fjalla um Ísland í þessu samhengi en fyrirlestur minn á þinginu ber titilinn "'Og hvur sá Ás, sem ata þeir í kvæði': Nordic Myth and Iceland's Independence Movement". Ætlunin er að skoða sérstaklega kvæði Jónasar Hallgrímssonar, þar á meðal "Hulduljóð" og "Ísland" en síðarnefnda kvæðið er ágætt dæmi um það hvernig íslenska þjóðskáldið vinnur úr erlendum fyrirmyndum í verkum sínum. Mun ég sérstaklega ræða tengsl kvæðisins við skrif Oehlenschlägers og Grundtvigs.
"Who invented Þingvellir as a mnemonic place?" er titill á fyrirlestri sem ég flyt á vinnustofunni Nature, Lancscape, Place: Memory Studies and the Nordic Middle Ages sem fram fer í Uppsala í Svíþjóð dagana 19. til 20. janúar 2017. Í fyrirlestrinum hyggst ég gefa yfirlit yfir fjörleg skrif fræðimanna um Þingvelli sem stað minninga og sögulegt minnismerki en einnig hrekja þá viðteknu skoðun að Jónas Hallgrímsson leggi grunn að nútímahugmyndum Íslendinga um staðinn með ljóðum á borði við "Ísland" og "Fjallið Skjaldbreiður". Í grein í Skírni árið 2009 setur Sveinbjörn Rafnsson reyndar fram athyglisverðar kenningar um að Finnur Magnússon og Baldvin Einarsson hafi haft sín áhrif á þessi ljóð Jónasar en ég hyggst benda á að skrif þeirra tveggja eru bergmál enn eldri skrifa um Þingvelli. Ráðstefnan í Svíþjóð er skipulögð af hópi fræðimanna sem hafa áhuga á að beita kenningum minnisfræða við rannsóknir á víkingatímanum og norrænum miðöldum. Hópurinn hefur áður staðið að ýmsum viðburðum og vinnur nú að útgáfu viðamikillar "handbókar" á þessu sviði.
National Poets, Cultural Saints: Canonization and Commemorative Cults of Writers in Europe er titill á nýju fræðiriti sem við Marijan Dović höfum unnið að í sameiningu undanfarin ár. Hér fjöllum við um helgifestu menningarlegra þjóðardýrlinga í Evrópu og beinum sérstaklega sjónum að þjóðskáldum. Að nokkru leyti er bókin framhald þeirra rannsókna sem báru fyrst ávöxt í bókum mínum Ferðalok: Skýrsla handa akademíu (2003) og Ódáinsakur: Helgifesta þjóðardýrlinga (2013) en hún byggir líka á ýmsum fyrirlestrum og greinum sem við Marijan höfum flutt eða birt.
Meintur dauði íslenskrar nútímabókmenntafræði er viðfangsefni greinaraðar sem ég birti á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs, á þriðjudögum núna í desember. Fyrsta greinin, sem bar titilinn "Blómatími bókmenntafræðinnar" og samanstóð af tilvísunum í 42 fræðibækur og ritgerðir, var óbeint viðbragð við útvarpsviðtali Eiríks Guðmundssonar við Gunnar Þorra Pétursson í Víðsjá sem flutt var í byrjun þessa árs. Önnur greinin bar titilinn "Nútímabókmenntafræði í fullu fjöri" en hún var ritdómur um nýútkomið fræðirit Úlfhildar Dagsdóttur, Sjónsbók. Þriðja greinin, "Íslensk bókmenntafræði: Ekki dáin bara flutt?", birtist þriðjudaginn 20. desember en þar ræði ég nokkra þeirra nýrri og eldri strauma sem hafa mótað skrif íslenskra bókmenntafræðinga á síðustu áratugum.
Á morgni 16. nóvember árið 1907 uppgötvuðu Reykvíkingar að framinn hafði verið sérkennilegur glæpur í bænum. Glæpur er þó kannski of dramatískt orð, hann var ekki blóðugri en svo að hann gæti hentað í 'dularfulla' sögu eftir nafntogaðan breskan barnabókahöfund. Ég fjalla um þetta mál og fleiri sem tengjast arfleifð Jónasar Hallgrímssonar í bók okkar Marijan Dović, National Poets, Cultural Saints, sem er væntanlega hjá Brill nú í kringum áramótin en í tilefni af Degi íslenskrar tungu birti ég í dag á vefritinu Hugrás sannsögu-lega úttekt á málinu. Textinn er öðrum þræði innblásin er af skefjalausum lestri mínum á unglingsárunum á sögum Enid Blyton og hinum af skrifum Rúnars Helga Vignissonar um sannsöguna.
Ellefta bindi Sögu Íslands er komið út í ritstjórn Péturs Hrafns Árnasonar og Sigurðar Líndal. Viðamesti hluti verksins (s. 1-260) er sagnfræðilegur kafli Péturs um tímabilið 1919-2009 en að auki er þarna að finna kafla eftir Sigurð um sögu réttafars í landinu (s. 261-316) og kafla minn um menningarsögu Íslands á síðustu öld (s. 317-412). Síðastnefndi kaflinn, sem ber titilinn "Burðarvirki íslenskrar nútímamenningar", varpar ljósi á undirstöður faglegrar listsköpunar í landinu. Í stað þess að fjalla mest um einstaka listamenn og einstök verk þeirra beini ég sjónum að bakjörlum (e. patrons) listamanna, það er þeim einstaklingum, fyrirtækjum, hópum og stofnunum sem ýta undir eða koma í veg fyrir að listaverk verði til og listviðburðir haldnir. Kaflinn skiptist í níu hluta sem hver um sig er helgaður röskum áratug. Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag. Ps. Nokkru eftir útgáfu bókarinnar birtist viðtal í DV við mig, undir yfirskriftinni "Listamenn þurfa hjólastíga," um kaflann minn í Sögu Íslands.