"Who invented Þingvellir as a mnemonic place?" er titill á fyrirlestri sem ég flyt á vinnustofunni Nature, Lancscape, Place: Memory Studies and the Nordic Middle Ages sem fram fer í Uppsala í Svíþjóð dagana 19. til 20. janúar 2017. Í fyrirlestrinum hyggst ég gefa yfirlit yfir fjörleg skrif fræðimanna um Þingvelli sem stað minninga og sögulegt minnismerki en einnig hrekja þá viðteknu skoðun að Jónas Hallgrímsson leggi grunn að nútímahugmyndum Íslendinga um staðinn með ljóðum á borði við "Ísland" og "Fjallið Skjaldbreiður". Í grein í Skírni árið 2009 setur Sveinbjörn Rafnsson reyndar fram athyglisverðar kenningar um að Finnur Magnússon og Baldvin Einarsson hafi haft sín áhrif á þessi ljóð Jónasar en ég hyggst benda á að skrif þeirra tveggja eru bergmál enn eldri skrifa um Þingvelli. Ráðstefnan í Svíþjóð er skipulögð af hópi fræðimanna sem hafa áhuga á að beita kenningum minnisfræða við rannsóknir á víkingatímanum og norrænum miðöldum. Hópurinn hefur áður staðið að ýmsum viðburðum og vinnur nú að útgáfu viðamikillar "handbókar" á þessu sviði.
National Poets, Cultural Saints: Canonization and Commemorative Cults of Writers in Europe er titill á nýju fræðiriti sem við Marijan Dović höfum unnið að í sameiningu undanfarin ár. Hér fjöllum við um helgifestu menningarlegra þjóðardýrlinga í Evrópu og beinum sérstaklega sjónum að þjóðskáldum. Að nokkru leyti er bókin framhald þeirra rannsókna sem báru fyrst ávöxt í bókum mínum Ferðalok: Skýrsla handa akademíu (2003) og Ódáinsakur: Helgifesta þjóðardýrlinga (2013) en hún byggir líka á ýmsum fyrirlestrum og greinum sem við Marijan höfum flutt eða birt.
Meintur dauði íslenskrar nútímabókmenntafræði er viðfangsefni greinaraðar sem ég birti á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs, á þriðjudögum núna í desember. Fyrsta greinin, sem bar titilinn "Blómatími bókmenntafræðinnar" og samanstóð af tilvísunum í 42 fræðibækur og ritgerðir, var óbeint viðbragð við útvarpsviðtali Eiríks Guðmundssonar við Gunnar Þorra Pétursson í Víðsjá sem flutt var í byrjun þessa árs. Önnur greinin bar titilinn "Nútímabókmenntafræði í fullu fjöri" en hún var ritdómur um nýútkomið fræðirit Úlfhildar Dagsdóttur, Sjónsbók. Þriðja greinin, "Íslensk bókmenntafræði: Ekki dáin bara flutt?", birtist þriðjudaginn 20. desember en þar ræði ég nokkra þeirra nýrri og eldri strauma sem hafa mótað skrif íslenskra bókmenntafræðinga á síðustu áratugum.
Á morgni 16. nóvember árið 1907 uppgötvuðu Reykvíkingar að framinn hafði verið sérkennilegur glæpur í bænum. Glæpur er þó kannski of dramatískt orð, hann var ekki blóðugri en svo að hann gæti hentað í 'dularfulla' sögu eftir nafntogaðan breskan barnabókahöfund. Ég fjalla um þetta mál og fleiri sem tengjast arfleifð Jónasar Hallgrímssonar í bók okkar Marijan Dović, National Poets, Cultural Saints, sem er væntanlega hjá Brill nú í kringum áramótin en í tilefni af Degi íslenskrar tungu birti ég í dag á vefritinu Hugrás sannsögu-lega úttekt á málinu. Textinn er öðrum þræði innblásin er af skefjalausum lestri mínum á unglingsárunum á sögum Enid Blyton og hinum af skrifum Rúnars Helga Vignissonar um sannsöguna.
Ellefta bindi Sögu Íslands er komið út í ritstjórn Péturs Hrafns Árnasonar og Sigurðar Líndal. Viðamesti hluti verksins (s. 1-260) er sagnfræðilegur kafli Péturs um tímabilið 1919-2009 en að auki er þarna að finna kafla eftir Sigurð um sögu réttafars í landinu (s. 261-316) og kafla minn um menningarsögu Íslands á síðustu öld (s. 317-412). Síðastnefndi kaflinn, sem ber titilinn "Burðarvirki íslenskrar nútímamenningar", varpar ljósi á undirstöður faglegrar listsköpunar í landinu. Í stað þess að fjalla mest um einstaka listamenn og einstök verk þeirra beini ég sjónum að bakjörlum (e. patrons) listamanna, það er þeim einstaklingum, fyrirtækjum, hópum og stofnunum sem ýta undir eða koma í veg fyrir að listaverk verði til og listviðburðir haldnir. Kaflinn skiptist í níu hluta sem hver um sig er helgaður röskum áratug. Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag. Ps. Nokkru eftir útgáfu bókarinnar birtist viðtal í DV við mig, undir yfirskriftinni "Listamenn þurfa hjólastíga," um kaflann minn í Sögu Íslands.
Hvað mælti Óðinn? er titill á teiknimyndasögu sem við Bjarni Hinriksson höfum unnið að síðasta aldarfjórðunginn. Sagan er nú komin út undir merkjum Gisp! en Froskur útgáfa annast dreifinguna. Verkið er frjálsleg endursköpun á eddukvæðinu Vafþrúðnismálum, einu elsta og vanmetnasta snilldarverki íslenskrar bókmenntasögu. Kvæðið lýsir háskalegri fróðleikskeppni Óðins og jötunsins Vafþrúðnis en birtir um leið heimsmynd heiðinna manna með eftirminnilegum hætti. Samkvæmt Vafþrúðni var jörðin upphaflega smíðuð úr skrokki jötunsins Ýmis en hann spáir jafnframt fyrir um endalok Óðins og fleiri guða í Ragnarökum. Kvæðið er túlkað í litríkum teikningum Bjarna en jafnframt ort upp á nútímamáli af okkur Jóni Halli Stefánssyni. Við efnum til útgáfufagnaðar á Kaffi Laugalæk/Gallerí Laugalæk föstudaginn 21. október kl. 17.00.
Sjónhverfingar er titill á ritþingi um Sjón sem haldið verður í Gerðubergi núna á laugardaginn, 22. október, frá kl. 14.00 til 16.30. Stjórnandi er Gunnþórunn Guðmundsdóttir en við Guðni Elísson erum í hlutverki spyrla. Tónlist flytur Ásgerður Júníusdóttir, mezzosópran og Tinna Þorsteinsdóttir leikur með á píanó. Ætlunin er að fara vítt og breitt yfir feril skáldsins og spyrja hann meðal annars um nýútkomna skáldsögu, Ég er sofandi hurð, sem bindur lokahnútinn á þríleikinn sem hófst sem skáldsögunni Augu þín sáu mig árið 1999. Heildarverkið hefur hlotið titilinn Codex og á lokabindið vafalítið eftir að vekja mikla athygli.
Eins og fram kom í nýlegri frétt á vef Árnastofnunnar heldur gagnagrunnurinn Wikisaga: Lýsandi heimildaskrá Eglu og Njálu, áfram að stækka og dafna. Í sumar hafa þrír framhaldsnemendur við Hugvísindasvið, þau Andri M. Kristjánsson, Barbora Davidkova og Ermenegilda Müller, starfað við verkefnið með styrk frá RANNÍS. Þau hafa bætt við heimildum um sögurnar tvær og skrifað og ritstýrt fjölda lýsinga á þessu heimildum. Við Svanhildur Óskarsdóttir erum ritstjórar efnisins og munum á næstu vikum og mánuðum vinna í þessu nýja efni, auk þess sem til stendur að fá nemendur sem sækja námskeið á sviðinu í haust til að vinna færslur fyrir vefinn.
"Þrautreyndur nýgræðingur: Fyrstu skrif Elíasar Marar" er titill á grein sem ég birti í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar. Þar reyni ég að leiðrétta þá vanhugsuðu fullyrðingu, sem ég lét frá mér í grein í Ritinu fyrir áratug, að Elías hafi verið nýgræðingur á ritvellinum þegar hann birti fyrstu skáldsögu sína árið 1946. Í nýju greininni rek ég í grófum dráttum feril Elíasar á stríðsárunum og vek athygli á nokkrum þeim þáttum sem kunna að hafa mótað hann sem höfundum. Niðurstaðan er sú að mörg þeirra viðfangsefna sem hann glímdi við í síðari verkum sínum - svo sem áfengisnautn, Ástandið, kynhneigð, kynlíf og móðurmissir - dúkka upp í elstu smásögum hans og ljóðum. Þessi nýja grein er óbeint framhald af grein sem ég birti á vefritinu Hugrás árið 2012 um vaxandi gengi Elíasar í bókmenntaumræðunni.
"Náttröllið: Hugleiðing um óljós landamæri menningarlífsins" er titill á grein sem ég birti nýverið á Hugrás: Vefriti Hugvísindasviðs. Það bendi ég meðal annars á að "stafræn tækni og veraldarvefurinn valda því að íslenskar menningarstofnanir eiga í vaxandi samkeppni við alþjóðlegar efnisveitur. Spotify, Amazon og YouTube eru orðnar veigamiklir bakjarlar (e.patrons) í burðarvirki íslenskrar nútímamenningar. Nú um stundir á Rás 1 í samkeppni við BBC World Service, Stöð 2 á í samkeppni við Netflix, Íslenska óperan á í samkeppni við beinar útsendingar í kvikmyndahúsum á uppfærslum Metropolitan-óperunnar í New York." Í framhaldi bið ég lesendur um að velta fyrir sér áhrifum þessara og annarra breytinga á íslenska menningu (eða öllu heldur skilgreiningar okkar á þessu rótgróna hugtaki).