Þegar hinn þrítugi kjarneðlisfræðingur, Þorbjörn Sigurgeirsson, kom heim frá Bandaríkjunum haustið 1947 (sjá kafla IVa) hafði hann tekið endanlega ákvörðun um það, að hér skildi hann framvegis búa og starfa. Segja má, að með þeirri ákvörðun hafi rannsóknarandinn frá Eðlisfræðistofnuninni í Kaupmannahöfn fyrir alvöru náð að teygja sig til Íslands. Þótt Þorbjörn hafi einnig orðið fyrir margskonar áhrifum í Bandaríkjunum, þá var hann samt ávallt „einn af lærisveinum Níelsar Bohr“ í hugum landsmanna.
Fljótlega eftir heimkomuna birtust viðtöl við Þorbjörn í dagblöðum um dvöl hans í Bandaríkjunum og rannsóknir hans þar. Rætt var um aðstöðuna til eðlisfræðirannsókna við Princetonháskóla, erindi hans til Los Alamos og að sjálfsögðu um kjarnorkumál almennt. Þar kemur einnig fram, að Þorbjörn hafði haft með sér búnað til geislamælinga frá Princeton, ýmist tæki sem hann hafði smíðað sjálfur, eða eignast ódýrt. Hann var þá þegar búinn að fá aðstöðu til rannsókna í kjallara Aðalbyggingar Háskólans og hafði tekið að sér stundakennslu við verkfræðideild skólans. Sem kunnugt er var það einmitt Þorbjörn, sem innleiddi nútíma eðlisfræði í verklegu kennsluna í fyrrihlutanáminu í verkfræði hér heima.
- Þjóðviljinn, 1. okt. 1947: Vírusar, kjarnorka og dauðageislar I & II.
- Morgunblaðið, 18. okt. 1947: Mannkyn sem ræður yfir ótakmarkaðri orku er í hættu statt.
Átján árum síðar komu þessi málefni aftur til umræðu í upphafi ágætis viðtals við Þorbjörn:
- Tímarit Máls og menningar, 1965: Íslenzk vísindastarfsemi.
Auk stundakennslu við Háskólann, tók Þorbjörn einnig að sér eðlisfræðikennslu við Menntaskólann í Reykjavík og hélt því áfram, allt til hann varð prófessor í eðlisfræði við Háskóla Íslands, haustið 1957.
Til viðbótar stundakennslunni þennan fyrsta áratug, vann Þorbjörn ásamt fyrrum kennara sínum í Menntaskólanum á Akureyri, Trausta Einarssyni, að jarðeðlisfræðiathugunum í Heklugosinu 1947. Að beiðni Bandaríkjamannsins H.C. Ureys, sendi Þorbjörn honum berg- og vatnssýni frá Heklu til geislamælinga, en mældi jafnframt sjálfur geislavirkni nýrra hraunlaga með Geiger–Müller teljaranum, sem hann hafði smíðað í Princeton. Í ljós kom, að virknin var hin sama og í eldri lögum. Einnig notaði Þorbjörn mælinn til að kanna geislavirkni í bergi víðar á Suðurlandi:
- Þorbjörn Sigurgeirsson, 1951: Skýrsla um mælingar á geislamagni íslenzkra bergtegunda, gerðar sumarið 1948.
Árið 1949 tók Þorbjörn við starfi framkvæmdastjóra Rannsóknarráðs ríkisins og sinnti því með miklum ágætum til 1957, þegar hann varð prófessor við Háskóla Íslands. Hjá Rannsóknarráði fékk hann ekki mikil tækifæri til að stunda rannsóknir í kjarneðlisfræði, enda var öll aðstaða til slíkra verka vægast sagt ófullkomin.
Sem framkvæmdastjóri Rannsóknarráðs, vann Þorbjörn því að margskonar öðrum verkefnum, ýmist einn eða með öðrum. Hann kannaði til dæmis hitadreifinguna í Geysi með sérhönnuðum búnaði, rannsakaði þang og þaragróður á ýmsum stöðum, meðal annars í Breiðafirði og vann við þyngdarmælingar í samvinnu við franskan Grænlandsleiðangur. Einnig skrifaði hann alþýðlegar greinar.
- Þorbjörn Sigurgeirsson, 1949: Hitamælingar í Geysi.
- Þorbjörn Sigurgeirsson, 1949: Úr þróunarsögu atómvísindanna.
- Þorbjörn Sigurgeirsson, 1949: Geimgeislar.
- Marteinn Björnsson & Þorbjörn Sigurgeirsson, 1951: Athuganir á þaragróðri í Breiðafirði.
- Trausti Einarsson, Þorbjörn Sigurgeirsson & Gunnar Böðvarsson, 1951: The French-Icelandic gravity measurements in southern Iceland in 1950.
- Þorbjörn Sigurgeirsson, 1952: Kristalgerð íssins.
Áhugi Þorbjörns á jarðsegulmælingum, viðfangsefni sem síðar átti eftir að verða hans aðal rannsóknarsvið hérlendis, mun fyrst hafa vaknað á árunum 1950 til 1951. Þá fylgdist hann með mælingum ungs hollensks doktorsnema, J. Hospers, á segulstefnu í bergi hér á landi. Ekki leið á löngu þar til Hospers varð vel þekktur fyrir þessar rannsóknir.
- Þjóðviljinn, 11. maí 1952: Íslenzk hraun sanna segulsviðsnúning.
- Þjóðviljinn, 11. janúar 1953: Hraun í Elliðaárvogi rann fyrir um 5000 árum: Aldur mós undan hrauninu ákvarðaður með geislunarmælingum við kjarnarannsóknarstofnun Chicagoháskóla.
Haustið 1952 fékk Þorbjörn leyfi frá starfi sínu fyrir Rannsóknarráð til að vinna tímabundið með kennilega starfshópnum hjá CERN, sem þá var í Kaupmannahöfn og undir stjórn Níelsar Bohr. Hann notaði jafnframt tímann til að kynna sér segulmælingar í Danmörku og undirbúa svipaðar mælingar hér heima. Í kafla IVc verður rætt nánar um segulmælingaþáttinn í rannsóknum Þorbjörns eftir heimkomuna frá Kaupmannahöfn, sumarið 1953. Þess má þó geta hér, að kjarneðlisfræðin kom honum síðar að góðum notum við hönnun og smíði mikilvægra segulmælingatækja.
Áhugasamir lesendur geta fengið nánari upplýsingar um Þorbjörn og rannsóknir hans í yfirlitinu
- Einar H. Guðmundsson, 2021: Thorbjörn Sigurgeirsson (1917-1988): a brief overview of his life and scientific work.
Þar er meðal annars hægt að nálgast ritaskrá Þorbjörns og ýmsar gagnlegar heimildir um ævi hans og störf. Í þessum og næsta kafla er svo getið frekari heimilda um verk Þorbjörns á árunum 1952 til 1966 og tengsl hans og samstarfsmanna hans við danska og alþjóðlega eðlisfræðiheiminn á sama tímabili.
CERN
Rétt er að geta þess strax, að skammstöfunin CERN stendur fyrir Conseil Européen pour la Recherche Nucléaire (European Council for Nuclear Research). Um var að ræða undirbúnings- eða bráðabirgðaráð, sem var formlega skipað í febrúar 1952 og átti að undirbúa stofnun Vestur-Evrópskrar rannsóknarmiðstöðvar í kjarna- og öreindafræði. Á sínum tíma kölluðu Íslendingar ráðið ýmist Kjarnorkuráð Evrópu, Kjarnorkuvísindaráð Evrópu eða Kjarnorkunefnd Evrópu.
Hér er ástæða til að nefna, að saga CERN er til í þremur bindum, sem ná yfir tímabilið frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar til ársins 1996:
- Hermann, A., L. Belloni, U. Mersits, D. Pestre & J. Krige, 1987: History of CERN I: Launching the European Organization for Nuclear Research.
- Hermann, A., L. Weiss, D. Pestre, U. Mersits & J. Krige, 1990: History of CERN II: Building and Running the Laboratory, 1954-1965.
- Krige, J. (ritstj.), 1996: History of CERN III.
Sjá einnig:
- Schopper, H. & L. Di Lella, 2015: 60 Years of CERN Experiments and Discoveries.
- Fabjan, C.W., T. Taylor, D. Treille & H. Wenninger, 2017: Technology Meets Research - 60 Years of CERN Technology: Selected Highlights.
Á vefsíðu CERN má svo finna tiltölulega stutt, en fróðlegt yfirlit um sögu stofnunarinnar. Hvað þátttöku Dana varðar, hef ég í þessari umfjöllun einkum stuðst við eftirfarandi heimild:
- Klaus Rasmussen, 2002: Det danske engagement i CERN 1950-70.
CERN – Bohr, Þorbjörn og fleiri
Aðdragandinn að skipun Kjarnorkuráðsins á febrúarfundinum 1952 hafði verið langur og strangur og umræður voru þá þegar hafnar um heppilega staðsetningu fyrir stofnunina. Margir vildu hreppa hnossið, til dæmis gerðu Danir sér miklar vonir um að Kaupmannahöfn og Eðlisfræðistofnun Bohrs yrðu fyrir valinu. Eftir frekar jákvæð viðbrögð við hugmyndum Bohrs á samráðsfundi í París í desember 1951 birtist þessi forsíðufrétt í Politiken: “Kæmpemæssigt Unesco-projekt: Europas atom-center maaske i København.” Hér heima mátti sjá þessar væntingar endurspeglast í íslenskum dagblöðum:
- Þjóðviljinn, 12. janúar 1952: Khöfn miðstöð kjarnorkurannsókna Verstur-Evrópu.
Dönum varð þó ekki að ósk sinni, því strax á þriðja fundi Kjarnorkuráðsins í október 1952 var ákveðið stofnunin yrði staðsett í útjaðri Genfar í Sviss. Þegar hún var svo formlega sett á laggirnar í september 1954, var svissnesk-bandaríski eðlisfræðingurinn F. Bloch skipaður fyrsti forstöðumaðurinn. Stofnunin hlaut jafnframt nýtt nafn, Organisation Européenne pour la Recherche Nucléaire (European Organization for Nuclear Research; Rannsóknarstofnun Evrópu í kjarneðlisfræði), en skammstöfuninni CERN var þó haldið til að forðast rugling. Í dag stendur CERN fyrir Laboratoire européen pour la physique des particules (European laboratory for particle physics; Rannsóknarstofnun Evrópu í öreindafræði).
- Morgunblaðið, 31. júlí 1954: "Kjarnorkuvísindaráð Evrópu" stofnað.
- Þjóðviljinn, 7. nóvember 1954: Þjóðverji formaður kjarnorkunefndar Evrópu. (Þjóðverji?)
Vonbrigði Dana voru talsverð, þegar þeir fréttu af ákvörðuninni um staðsetninguna í Genf. Við það neyddust þeir til að horfast í augu við þá staðreynd, að Kaupmannahöfn var ekki lengur sama stórveldið í heimi evrópskrar eðlisfræði og verið hafði á millistríðsárunum. Margir þeirra hefðu þó sennilega tekið undir orðin, sem eðlisfræðingurinn V.F. Weisskopf lét falla um Bohr undir lok minningargreinar um vin sinn í árslok 1962:
CERN exists because of Niels Bohr. It was Niels Bohr's personality, Niels Bohr'sweight, and Niels Bohr's work that made this place possible. There were other personalities who started and conceived the idea of CERN. The enthusiasm and the ideas of the other people would not have been enough, however, if a man of his stature had not supported it, and not only supported it, if he had not participated actively in every important act of founding and developing, if he had not sat together with the others and worried about every detail.
Sennilega hafa tilfinningarnar borið Weisskopf ofurliði í þetta skiptið, því auk þeirra Bohrs og Rabis höfðu fjölmargir aðrir dugmiklir einstaklingar lagst á árarnar til að koma skipinu í höfn. Meðal þeirra má nefna eðlisfræðingana E. Amaldi, P. Auger, L. Kowarsky, F. Perrin og W. Heisenberg, sem og ýmsa háttsetta stjórnmálamenn. Hitt er þó rétt hjá Weisskopf, að áhrif Bohrs á framgang þessara mála voru mikil á árunum 1950 til 1954.
- Kowarski, L.,1961: An Account of the Origin and Beginnings of CERN.
- Amaldi, E., 1985: Niels Bohr and the Early History of CERN.
- Krige, J., 2004: I. Rabi and the Birth of CERN.
- Schopper, H., 2005: CERN’s Early History Revisited.
- Krige, J., 2005: Isidor I. Rabi and CERN.
- Petitjean, P., 2006: Pierre Auger and the Founding of CERN.
- De Rose, F., 2014: Origins: the Early Days of CERN.
Upphaf vísindastarfsins
Eins og áður sagði, var Kjarnorkuráðið skipað í febrúar 1952 og hóf fljótlega störf. Fulltrúar Dana voru í byrjun eðlisfræðingarnir Niels Bohr og J.C. Jacobsen og stærðfræðingurinn J. Nielsen.
Á fundi ráðsins í maí 1952 var ákveðið, að formaður þess yrði E. Amaldi frá Róm, en sjálft undirbúningsstarfið skyldi fara fram í fjórum deildum eða starfshópum. Þeir voru:
- Hópur undir stjórn L. Kowarskys í París. Verkefni hans var að fjalla um almennt skipulag komandi stofnunar, fjármál og húsnæði, einkum fyrir tilraunastarfsemina.
- Hópur undir stjórn C.J. Bakkers í Amsterdam. Verkefni hans var að undirbúa hönnun og smíði fyrsta CERN-hraðalsins, sam-hringhraðals, sem næði að minnsta kosti 500 MeV orku. – Niðurstaðan varð hinn svokallaði SC-hraðall, sem náði 600 MeV orku og komst í gagnið 1957.
- Hópur undir stjórn O. Dahls í Bergen. Verkefni hans var að kanna möguleika á smíði risahraðals, samhraðals, í líkingu við hinn bandaríska Kosmótron, sem næði mun meiri orku en sam-hringhraðall B-hópsins og myndi ekki aðeins verða mikilvægasta rannsóknartæki hins nýja samstarfs, heldur jafnframt kraftmesti hraðall í heimi. – Niðurstaðan úr þessu hópstarfi var tillaga um að smíða hinn svonefnda PS-hraðal, sem komst í gagnið 1959.
- Hópur undir stjórn Níelsar Bohr í Kaupmannahöfn. Verkefni hans var að sjá um kennilega útreikninga er tengdust væntanlegri hraðlastarfsemi CERN. – Nánar er fjallað um hópinn hér á eftir.
Hóparnir skyldu eiga tíð samskipti og skiptast á upplýsingum eftir þörfum. Þeim var og ætlað að skila ráðinu niðurstöðum innan 18 mánaða.
Kennilegi hópurinn í Kaupmannahöfn 1952-1957
Síðla árs 1951 var orðið ljóst, að einhver hluti undirbúningsstarfsins yrði vistaður í Kaupmannahöfn. Bohr fór þá þegar að huga að því, hvernig best væri að manna kennilegu starfsemina. Bréf voru send út og eitt þeirra barst til Þorbjörns Sigurgeirssonar í Reykjavík, þar sem honum var boðið að taka þátt í starfinu á akademíska árinu 1952-53. Þorbjörn brást jákvætt við, fékk ársleyfi frá starfi sínu sem framkvæmdastjóri Rannsóknarráðs og hélt til ársdvalar við Eðlisfræðistofnun Bohrs í ágúst 1952. Fyrr um sumarið hafði hann sótt almenna ráðstefnu þar á vegum CERN:
- Alþýðublaðið, 23. mars 1952: Fyrirhuguð ráðstefna um kjarnorkumál í Kaupmannahöfn.
- Vísir, 4. júlí, 1952: Mesti kjarnakljúfur heims verður reistur í Evrópu. Viðtal við Þorbjörn eftir ráðstefnuna.
- CERN-skýrslur um júní-ráðstefnuna 1952 - I & II
Áður en lengra er haldið, má geta þess að finna má almennt yfirlit um störf hins kennilega hóps Kjarnorkuráðsins á árunum 1952-1954 í skýrslunni
- Bohr, N., 1954: „Progress Report of the Theoretical Study Group.“ Í CERN-skýrslunni Reports to Member States 1952-1954, bls. 115-118 (sjá einnig bls. 99).
Hér má svo sjá lista yfir Kaupmannahafnarhópinn á þessu tímabili:
Rétt er að hafa í huga, að Niels Bohr var aðeins stjórnandi hópsins í tvö ár, 1952-54. Árið 1954 var hópurinn gerður að deild í hinni nýstofnuðu Rannsóknarstofnun Evrópu í kjarneðlisfræði (skammsöfuninni CERN var haldið) og fyrrum nemandi Bohrs (og annar af tveimur aðalkennurum Þorbjörns), Christian Møller, tók við. Hann hélt um stjórnartaumana þar til kennilega deildin var flutt frá Kaupmannahöfn til Genfar árið 1957.
- Vefsíða CERN: CERN Theoretical Physics.
- Iliopoulos, J., 1993: Physics in the CERN Theory Division.
- Jarlskog, C., 2014: Theory at CERN turns 62.
- Rasmussen, K., 2002: Det danske engagement i CERN 1950-70. Sjá bls. 56- 70.
- Gudmundsson, E., H. Kiilerich, B. Mottelsson & C. Pethick. 2021: Nordita - The Copenhagen Years: A Scrapbook. Fjallað er um CERN á bls. 5-8.
Þáttur Þorbjörns
Frá upphafi hafði verið ákveðið, að CERN skyldi leggja aðaláherslu á hönnun og smíði háorku samhraðals fyrir róteindir. Fyrstu hugmyndirnar um samhraðla höfðu komið fram á árunum 1944-45 í verkum Svovétmannsins V. Vekslers og Bandaríkjamannsins E.M. McMillans um eindahraðla, sem gætu náð mun hærri orku en hringhraðlar af svipaðri gerð og Bandaríkjamaðurinn E. Lawrence hafði fundið upp árið 1929. Það mun svo hafa verið á árunum um og upp úr 1950, sem Ástralinn M. Oliphant mótaði fyrstu raunhæfu hugmyndirnar um orkumikla samhraðla fyrir róteindir. Álíka hugmyndir urðu einnig til í Bandaríkjunum um svipað leyti í tengslum við hönnun og smíði hraðla með nöfnunum Bevatron og Kosmótron.
- Wikipedia: Particle Accelerator.
- Close, F., M. Marten & C. Sutton, 1987: The Particle Explosion.
- Wilson, E, 1996: Fifty years of synchrotrons.
- Sessler, A. & E. Wilson, 2014: Engines of Discovery: A Century of Particle Accelerators.
Í Kaupmannahöfn vann Þorbjörn að kennilegum verkefnum með tveimur öðrum í hópnum, Þjóðverjanum G. Lüders og Ítalanum E.R. Caianiello. Verkefni þeirra var hluti af undirbúningsvinnunni fyrir smíði róteindahraðalsins PS, sem Niels Bohr vígði 1960 og gegnir enn mikilvægu hlutverki hjá CERN. Vandamálið, sem þeir glímdu aðallega við, var að kanna, hvernig best væri að halda orkumiklum rafhlöðnum eindum á réttri braut í stórum samhröðlum. Þar byggðu þeir einkum á sérstakri aðferð, svokallaðari sterkri samstillingu, sem þrír Bandaríkjamenn, E.D. Courant, M.S. Livingston og H.S. Snyder, höfðu nýlega stungið upp á. Kaupmannahafnarhópurinn vann með forprent að grein þeirra, sem kom ekki út fyrr en í árslok 1952:
- Courant, E. D., M.S. Livingston & H.S. Snyder, 1952: The Strong-Focusing Synchrotron—A New High Energy Accelerator.
Meðan á rannsóknunum stóð, átti hópurinn í Kaupmannahöfn í samvinnu við ýmsa aðra vísindamenn, meðal annars breska hópinn hjá Kjarnorkurannsóknarstofnuninni í Harwell í Englandi. Aðrir, sem unnu að skyldum verkefnum, voru E. Regenstreif í París og K. Johnsen í Bergen. Fá má sæmilegt almennt yfirlit um þetta starf með lestri eftirfarandi heimilda:
- Bohr, N., 1953: „Progress Report of the Theoretical Study Group (1st October- 31 December 1952).“ Í Draft minutes. Fourth CERN-session, Brussels, January 1953. (Sjá viðauka V, nr. IV, lið 2, bls. 13).
- Lüders, G., 1953: Linear theory of betatron oscillations. Í ritinu CERN Proton Synchrotron Group, 1953: Lectures on the Theory and Design of an Alternating-Gradient Proton Synchrotron, bls. 45-67. Sjá þó einkum bls. 45. – Skv. dagskrá ráðstefnunnar (sjá lið 1e) hefur sennilega verið reiknað með, að Þorbjörn tæki þar þátt, en hann var þá kominn til Íslands. Það var því Jacobsen sem fjallaði (að hluta) um verk hans í þessu riti (bls. 159-170; sjá nánar hér á eftir).
- Lawson, J.D., 1997: Early Syncrotrons in Britain, and Early Work for CERN. Komið er inn á verk Þorbjörns og félaga í 8. kafla greinarinnar, sem birtist í CERN-ritinu, 50 Years of Synchrotrons.
Í grein Lawsons segir meðal annars (bls. 22-23):
Niels Bohr, head of the CERN theory study group arranged for Gerhard Lüders from Göttingen and T. Sigurgeirsson from Iceland, to work in Copenhagen on orbit dynamics. At Harwell John Bell also contributed to the orbit theory, and in January 1953 wrote a report on the algebra of strong focusing, which contained a derivation of what is now known as the Courant-Snyder invariant [„Basic Algebra of the Strong-Focussing System“]. [...] Lüders and Sigurgeirsson (who introduced the concept of 'admittance') [Betatron oscillations in the strong focusing synchrotron] together produced a formal theory of orbits in periodic structures, incorporating effects of misalignments responsible for the integral resonances, and also errors in gradient which also gave rise to half-integral resonances [Orbit Instabilities in the New Type Synchrotron]. [...] During 1953 meetings between the sub-groups had been held, at least two of these being in the UK. [...] One such meeting was held at Harwell by the orbits sub-group on 1 March. In addition to Harwell staff, Johnsen and Regenstreif were present, and three members of the theoretical group, Jacobsen, Lüders and Sigurgeirsson. Several conclusions are reached: first, the prospects for making a strong-focusing synchrotron are good; second, because of alignment difficulties, n should be reduced by 4 to 900; third the magnetic field could be non-linear, but if so it must be closely controlled; fourth the frequency and phase need to be carefully controlled in passing through transition energy and finally, the field inhomogeneities at injection will require an injection energy of 50 MeV rather than 4 MeV as previously assumed.
Þarna er meðal annars minnast á hinn þekkta eðlisfræðing, J.S. Bell, sem þá var enn í doktorsnámi. Af lýsingunni má ráða, að þeir Þorbjörn hafi verið að vinna að tengdum verkefnum á þessum tíma og að samskipti hópanna í Kaupmannahöfn og Harwell hafi verið talsverð. Um verk Bells í hraðlavísindum má meðal annars lesa hjá
- Burke, P.G. & I.C. Percival, 1999: John Stewart Bell. 28 July 1928-1 October 1990.
Framlag Þorbjörns var fyrst og fremst fræðileg könnun á því, hvernig segulsviðið í samhraðlinum þyrfti að vera til að halda eindunum saman í grannri bunu alla leið á áfangastað. Hann setti og fram tillögu um það, hvaða lögun rafsegulskaut hraðalsins skyldu hafa til að mynda slíkt svið.
- Þorbjörn Sigurgeirsson: A perturbation treatment of the betatron oscillations in a synchrotron with periodic magnetic field. Skýrsla: CERN T/TS1, Khöfn 1952.
- Þorbjörn Sigurgeirsson: Betatron oscillations in the strong focusing synchrotron. Skýrsla: CERN T/TS2, Khöfn 1952.
- Þorbjörn Sigurgeirsson: Focusing in a synchrotron with periodic field. Perturbation treatment. Skýrsla: CERN T/TS3, Khöfn 1953. Síðar gefin út sem forprtent: CERN 55-14, Khöfn 1955.
Hugmynd Þorbjörns vakti mikinn áhuga í Kaupmannahöfn og til að kanna hana og aðra eiginleika sterkrar samstillingar lét J.C. Jacobsen smíða 6 metra langan samhraðalsboga með 4 metra radíus á Eðlisfræðistofnuninni.
Jacobsen mun hafa skrifað tvær skýrslur um þessar tilraunir: „Comments on: T. Sigurgeirssons: Focussing in a synchrotron with periodic field. Pertubation treatment.“ (CERN/T/JCJ-1) og „Experimental study of a strong-focussing magnetic field.“ (CERN/T/JCJ-2). Ég hef ekki enn náð að skoða skýrslurnar, en sennilega er niðurstöðurnar (allavega að hluta) einnig að finna í grein Jacobsens „Magnetic Studies, Part II“ á síðum 159-170 í ráðstefnuritinu Lectures on the Theory and Design of an Alternating-Gradient Proton Synchrotron frá 1953 og áður var minnst á.
Í grein sinni um Þorbjörn frá 1989 lýsir Páll Theodórsson tilraununum á eftirfarandi hátt (bls. 21-22):
Vorið 1953 hafði [Þorbjörn] lokið [kennilega] verkefninu og rafseglar voru smíðaðir eftir fyrirsögn [hans] og pípu komið fyrir í segulsviðinu. Til að prófa tækið var alfa-geislandi efni sett í annan enda pípunnar en ljósmyndaplata í hinn endann og pípan síðan lofttæmd. Mundu nú alfaagnir sem höfðu rétta upphafsstefnu haldast í mjóum geisla og skila sér í litlum punkti í um 6 metra fjarlægð eftir að þær höfðu verið sveigðar af segulsviðinu í fjórðung hrings? Á ljósmyndaplötunni kom fram lítill svartur depill, tilgátan hafði verið staðfest og áfanga í undirbúningi að smíði risahraðlanna var lokið.
Fyrstu árin eftir að skýrslur Þorbjörns voru prentaðar, var talsvert í þær vitnað og enn þann dag í dag má sjá þeirra getið í fræðigreinum:
- Osswald, S. & fl, 2023: Transverse emittance measurement in 2D and 4D performed on a Low Energy Beam Transport line: benchmarking and data analysis.
PS tekinn í notkun
Sex árum eftir að Þorbjörn hafði skilað sínu framlagi til fræðanna um risahraðla, tókst að ræsa samhraðallinn mikla í CERN í fyrsta sinn, hinn 24. nóvember 1959. Hann var svo vígður formlega 6. febrúar árið eftir.
- CERN Courier, október 2009: A night to remember. In an article from the archives, Hildred Blewett recalls the start-up of the Proton Synchrotron.
Um vígsluna í febrúar 1960 má svo lesa í marshefti CERN Courier sama ár. Einnig var gerð kvikmynd af þessu tilefni: CERN 1960 : le plus grand briseur d'atomes du monde.
- CERN Courier, mars 1960: PS Inauguration.
- Morgunblaðið, 6. Febrúar 1960: Stærsti kjarnakljúfur heims.
- CERN Courier, desember 1984: 25 years ... and still going strong.
- CERN Courier, nóvember 1999: 40 years of CERN’s Proton Synchrotron.
- CERN Bulletin, nóvember 2009: The Proton Synchrotron, going strong at fifty years.
- CERN Courier, janúar 2020: CERN’s proton synchrotron turns 60.
- Brianti, G., 1997: The CERN Synchrotrons.
- Gilardoni, S. & D. Manglunki (ritstj.), 2011: Fifty years of the CERN Proton Synchrotron. Volume I.
Íslendingar og CERN
Vitað er, að á sínum tíma hefði Þorbjörn Sigurgeirsson auðveldega getað fengið gott framtíðarstarf við CERN eða aðrar erlendar eðlisfræðistofnanir, hvort heldur var í Evrópu eða Bandaríkjunum. Sem kunnugt er, kaus hann þó frekar að halda áfram að starfa á Íslandi, þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður.
Þótt Ísland sé ekki fullgildur aðili að CERN, hafa all nokkrir Íslendingar, aðrir en Þorbjörn, stundað rannsóknir við stofnunina í lengri eða skemmri tíma. Þar skal fyrst nefna Ögmund Runólfsson kjarneðlisfræðing. Hann lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Bonn árið 1965 og var síðan allan sinn starfsaldur hjá CERN í Sviss, þar sem hann vann að margs konar vísindarannsóknum og tæknilegum verkefnum.
- Ögmundur Runólfsson, 1965: Messung des Zeemaneffekts, des Starkeffekts und der Hyperfeinstruktur des Cäsiumfluorids mit der Molekülstrahlresonanzmethode. Doktorsritgerð (til á Lbs-Hbs Íslandssafn).
- Ögmundur Runólfsson: Ritaskrá hjá INSPIRE.
- Tíminn, 14. júlí 1989: Kannar tilurð efnis í fumeindaskothríð.
Næst kemur Guðni G. Sigurðsson kjarneðlisfræðingur. Hann lauk doktorsprófi frá Tækniháskólanum í Karlsruhe 1972 og var ritgerð hans byggð á gögnum, sem hann hafði aflað með ársdvöl hjá CERN. Eftir doktorsprófið stundaði hann rannsóknir í eitt ár við Serpukhov rannsóknarstofnunina í Sovétríkjunum og vann síðan sem verkfræðingur við CERN á árunum 1974-79. Hann var sérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskólans 1979-82, en sneri sér eftir það að verkefnum hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Tölvar ehf.
- Guðni G. Sigurðsson, 1972: Die neutralen Zerfälle des η-Mesons und der Zerfall η' → γγ. Doktorsritgerð (til á Lbs-Hbs Íslandssafn).
- Guðni G. Sigurðsson, 1987: „Tilraunir í öreindafræði.“ Í bókinni Í hlutarins eðli: Afmælisrit til heiðurs Þorbirni Sigurgeirssyni prófessor, bls. 381-399.
- DV, 17. febrúar 2001: Guðni G. Sigurðsson eðlisfræðingur.
Árið 1990 hóf Þórður Jónsson eðlisfræðingur athugun á því, hvort Íslendingar gætu gert einhvers konar samstarfssamning við CERN á sviði öreindafræðirannsókna. Vorið 1991 sendi hann utanríkisráðherra erindi um málið, sem Menntamálaráðuneytið áframsendi til Vísindaráðs og Háskóla Íslands. Þrátt fyrir dræmar undirtektir þessara stofnana í fyrstu, var að lokum gerður endurnýjanlegur fimm ára samningur milli CERN og íslenskra stjórnvalda í september árið 1996. Samkvæmt honum hefur Ísland stöðu laustengds ríkis (non-member state) hjá CERN.
Á sínum tíma sýndi stjórn CERN erindi Þórðar strax jákvæðan áhuga, en eins og sjá má tók það fimm til sex ár að koma málinu í gegnum íslenska stjórnunarbáknið. Hér verður ekki farið út í frekari smáatriði, hvað það varðar, en ferlið minnir þó óneitanlega um margt á sjö ára þrautagöngu íslenskra stjarnvísindamanna, áður en henni lauk árið 1997, með fullri þátttöku Íslands í samstarfinu um norræna stjörnusjónaukann á La Palma.
Samningurinn við CERN er enn í gildi og hann hefur gert íslenskum eðlisfræðingum kleift að heimsækja stofnunina og dvelja þar við rannsóknir um lengri eða skemmri tíma. Þá hefur hann gert íslenskum eðlisfræðinemum mögulegt, að taka þátt í sérstökum sumarskólum í öreindafræði:
- Bæjarins besta, 6. September 2007: Vinna hjá einni fremstu rannsóknarmiðstöð heims.
Einn þessara nemenda var grísk-íslenski eðlisfræðingurinn Konstantinos A. Kastanas (Axel Brjánn Kastanas) sem lauk BS-prófi í eðlisfræði við Háskóla Íslands árið 2006. Hann stundaði framhaldsnám við Háskólann í Bergen í Noregi, þar sem hann lauk doktorsprófi árið 2014 fyrir verkefni með ATLAS-nema sterkeindahraðalsins mikla (LHC) í CERN. Hann starfar nú sem kerfisfræðingur við eðlisfræðideild Stokkhólmsháskóla.
- Konstantinos A. Kastanas, 2014: Monitoring and Measurements with the ATLAS Inner Detector and Search for Supersymmetry using ATLAS data. Doktorsritgerð.
- Konstantinos A. Kastanas: Ritaskrá.
Tilraunastöðin ISOLDE í CERN og íslenskir eðlisfræðingar
Í hópi þeirra, sem auk J.C. Jacobsens notuðu hringhraðalinn við Eðlisfræðistofnunina í Kaupmannahöfn á sínum tíma, var nemandi hans, kjarneðlisfræðingurinn O. Kofoed-Hansen. Á árunum kringum 1950 starfaði verkfræðingurinn K.O. Nielsen einnig við stofnunina og vann meðal annars að hönnun og smíði tækis til að aðgreina samsætur. Þeir Kofoed-Hansen og Nielsen tóku höndum saman og framkvæmdu ýmsar tilraunir á árunum 1950-51, þar sem þessi tvö tæki, hringhraðallinn og samsætugreinirinn, voru samnýtt til að kanna vissa eiginleika skammlífra geislavirkra samsæta. Með þessu lögðu þeir grunninn að tækni, sem mætti kalla hraðaltengda samsætugreiningu (on-line isotope seperation). Þessi tækni þeirra félaga var fljótlega þróuð frekar og hefur lengi verið notuð við ISOLDE (Isotope Separator On Line Device), eina af elstu tilraunastöðvum CERN (sjá sögu ISOLDE).
- Kofoed-Hansen, O. & K.O. Nielsen, 1951: Measurements on short-lived radioactive krypton isotopes from fission after isotopic separation.
- Kofoed-Hansen, O., 1976: The Birth of the On-Line Isotope Seperation.
- Riisager, K., 2002: Radioactive beam research notches up 50 years.
- Cornell, J.C., 2004: Radioactive ion beam facilities in Europe: current status and future development.
- Hansen, P.G., 2009: Experiments with Beams of Rare Isotopes: A Fifty-Year Perspective 1951-2001.
- Schopper, H. & Di Lella, L., 2015: 60 Years of CERN Experiments and Discoveries. Sjá kaflann „Highlights at ISOLDE“, bls. 415-436.
Segja má, að kjarni ISOLDE-stöðvarinnar sé einskonar samsætuverksmiðja. Hún tekur við háorku róteindum í afmörkuðum skömmtum frá svokölluðum PSB-hraðli. Sá var upphaflega byggður 1972 til að beina orkumiklum róteindum inn í róteindahraðalinn (PS), sem rætt var um hér að framan. Sú innspýting hjálpar PS til að gefa róteindunum enn hærri orku en áður var mögulegt. Síðan þá, hefur PSB einnig fengið það hlutverk að fóðra aðrar stöðvar með róteindum, þar á meðal ISOLDE.
Þegar róteindirnar koma inn í ISOLDE-stöðina lenda þær í árekstri við sérvalið skotmark og við það myndast ýmsar skammlífar geislavirkar samsætur. Sérstök tækni aðgreinir samsæturnar og beinir á mismunandi staði í stöðinni. Hver áfangastaður fær sína gerð af samsætum og þar gera vísindamenn á þeim sérhæfðar tilraunir.
Meðal þeirra mikilvægu rannsóknarsviða, sem styðjast við ISOLDE, er þéttefnisfræði. Á því sviði fara til dæmis fram Mössbauermælingar undir stjórn Haralds P. Gunnlaugssonar.
Á sínum tíma tók Haraldur meistarapróf við Háskóla Íslands hjá Erni Helgasyni kjarneðlisfræðingi. Síðan fór hann til Kaupmannahafnar, þar sem hann lauk doktorsprófi í eðlisfræði við Háskólann árið 1997, undir leiðsögn J.M. Knudsens. Hann starfaði síðan vð Árósarháskóla og víðar og tók meðal annars þátt í rannsóknum tengdum Mars-förunum Pathfinder, Surveyor og Phoenix.
- Haraldur P. Gunnlaugsson, Mbl, 7. ágúst 1994: Hulunni svipt af yfirborði Mars.
- Haraldur P. Gunnlaugsson og Ásgeir Pétursson, Mbl, 5. júlí 1997: Leyndarmál Mars afhjúpuð.
- DV, 12. Júlí 1997: Ha, þetta var þá hægt! Viðtal við Harald.
- Haraldur Páll Gunnlaugsson, Örn Helgason, Leó Kristjánsson og Sigurður Steinþórsson, 2004: Samanburður Mössbauerrófa af bergi frá Íslandi og Mars.
- Örn Helgason og Haraldur P. Gunnlaugsson, 2004: Fyrstu Mössbauerrófin frá Mars og greining bergsteinda.
- Morgunblaðið, 12. ágúst 2007: Mælir vindinn á Mars. Viðtal við Harald.
- Haraldur P. Gunnlaugsson: Ritaskrá hjá Google Scholar.
Um nokkurt skeið hefur Haraldur stjórnað Mössbauermælingum á geislavirkum samsætum hjá ISOLDE. Að þeim koma ýmsir vísindamenn, þar á meðal þrír frá eðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskólans, þau Sveinn Ólafsson, Hafliði P. Gíslason og Bingcui Qi. Þá stundar fyrrverandi doktorsnemi víð Háskóla Íslands, T.E. Mølholt, einnig rannsóknir með hópnum.
- Ritaskrá Mössbauerhópsins.
- Mbl, 10. okt 2008: Tilraunin tekur nokkur ár.
- Deicher, M., 2002: Radioactive Isotopes in Solid-State Physics.
- Johnston, K. & fl., 2017: The Solid State Physics Programme at ISOLDE: Recent Developments and Perspectives.
Til fróðleiks má geta þess hér, að fyrstu notkun geislavirkra samsæta í rannsóknum í þéttefnisfræði má rekja til George de Hevesy, eins af helstu samstarfsmönnum Níelsar Bohr á upphafsárum Eðlisfræðistofnunarinnar í Kaupmannahöfn. Á árunum kringum 1920 notaði hann geislavirkar blýsamsætur til að kanna sveim atóma í vökvum og föstum efnum. De Hevesy er jafnframt talinn „faðir geislalæknisfræðinnar“.
- IAEA Bulletin, mars 1965: Professor De Hevesy Traces Radioisotope History.
Friðsamleg notkun kjarnorkunnar
Rannsóknirnar sem framkvæmdar eru við ISOLDE (og reyndar við CERN í heild) eru skólabókardæmi um friðsamlega notkun kjarnorku í þágu vísindanna. Rétt er að hafa í huga í þessu sambandi, að ekki var almennt farið að nota orðalagið „friðsamleg notkun kjarnorku“ fyrr en eftir að kjarnorkusprengjunum hafði verið varpað á Hiroshima og Nagasaki í ágúst árið 1945 (sjá kafla IVa).
Geislavirk efni höfðu verið notuð með margvíslegum hætti, allt frá uppgötvun þeirra fyrir tilviljun árið 1896. Meðal annars var fljótlega farið að nýta þau í læknisfræði, líffræði og landbúnaði. Aðgengi að geislavirkum samsætum var lykilatriði í allri hagnýtingu, en það var ekki fyrr en með tilkomu fyrstu hringhraðanna á fjórða áratugi tuttugustu aldar, sem aðrir en útvaldir gátu nálgast þær, án nær óyfirstíganlegs kostnaðar. Í því sambandi má nefna, að aðalhlutverk danska hringhraðalsins, sem tekinn var í gagnið árið 1938 (sjá kafla IVa) var að framleiða geislavirkar samsætur til nota í líffræði og læknisfræði. Hinar mikilvægu rannsóknir Eðlisfræðistofnunar Bohrs með hraðlinum voru þar í öðru sæti. Hið sama gilti um flesta aðra agnahraðla á þeim árum, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu.
Framleiðsla á geislavirkum samsætum jókst til muna með Manhattan verkefninu og tilkomu tengdra stofnana eins og rannsóknarstöðvanna í Hanford, Oak Ridge (sjá einnig hér) og Kanada. Einnig má segja, að kjarnorkuverkfræðin, með tilheyrandi áherslu á orkuframleiðslu með kjarnaofnum, hafi orðið til í Bandaríkjunum á stríðsárunum. Eins og nánar verður komið inn á hér á eftir, notuðu Bandaríkin yfirburði sína á þessu sviði, ekki aðeins til þróunar og framleiðslu kjarnavopna, heldur einnig til að auka áhrif sín erlendis í kalda stríðinu. Þar gegndi Kjarnorkumálanefnd Bandaríkjanna, sem stofnuð var 1947, mikilvægu hlutverki. Meðal annars hafði nefndin frá upphafi yfirumsjón með sölu Bandaríkjamanna á geislavirkum samsætum til annarra landa.
- Creager, A.N.H., 2009: Radioisotopes as Political Instruments, 1946–1953.
Næstu árin eftir kjarnorkuárásirnar á Japan fjölluðu íslensk blöð og tímarit skiljanlega mikið um kjarnorkumál. Mest voru þetta fréttir af tilraunasprengingum og kjarnorkuvá, alls konar vígbúnaðarstandi og kjarnorkuvæðingu, sem og pólitískum yfirlýsingum erlendra ráðamanna um kjarnorkumál, fundum þeirra og ákvörðunum. Umræðan bar oft augljós merki kalda stríðsins, en talsvert var þó birt af fræðsluefni um kjarnorkuna og notkun hennar í friðsamlegum tilgangi. Hér eru nokkrar slíkar ritsmíðar frá árunum 1945 til 1953:
- Björn Franzson, 1945: Hagnýting kjarnorkunnar.
- Óskar B. Bjarnason, 1946: Kjarnorkan.
- Sveinn Þórðarson, 1946: Atóman og orka hennar I & II.
- Lindhard, J. & U. Ekman, 1946: Kjarnorkan í stríði og friði.
- Steinþór Sigurðsson, 1946: Kjarnorka.
- Trausti Einarsson, 1947: Kjarnorkan og vald mannsins yfir efninu.
- Dietz, D., 1947: Kjarnorka á komandi tímum. Ágúst H. Bjarnason (prófessor) íslenskaði. Sjá einnig greinina Árdagar kjarneðlisfræðinnar – Hver var hugsunin? (2020) eftir Ágúst H. Bjarnason (verkfræðing).
- Calder, R, 1948: Leyndardómar kjarnorkunnar.
- Randall, J.S., 1949: Kjarnorkan til lækninga á krabbameini.
- Heilbrigðismál, 1950: Atómorkulækning á Íslandi.
- Sveinn Þórðarson, 1950: Hvenær koma atómorkuverin?
- Tíminn, 1950: Hagnýting kjarnorkunnar.
- Lesbók Morgunblaðsins, 1950: Kjarnageislanir í þágu læknavísinda.
- Óskar B. Bjarnason, 1951: Orka og efni.
- Vísir, 1952: Geislavirk gerfiefni valda straumhvörfum í læknavísindum.
- Lesbók Morgunblaðsins, 1953: Notkun kjarnorkunnar.
- Tímarit rafvirkja, 1953: Kjarnorka – Raforka.
Nokkrar gagnlegar erlendar heimildir um kjarnorku, rannsóknir á henni og friðsamlega hagnýtingu:
- Fried, M.I.,1976: Historical Introduction to the Use of Nuclear Techniques for Food and Agriculture.
- Pais, A., 1986: Inward Bound: Of Matter and Forces in the Physical World.
- Mould, R.F., 1993: A Century of X-Rays and Radioactivity in Medicine: With Emphasis on Photographic Records of the Early Years.
- Waltar, A.E., 2003: The Medical, Agricultural, and Industrial Applications
- of Nuclear Technology.
- Creager, A.N.H., 2013: Life Atomic: A History of Radioisotopes in Science and Medicine.
- Malley, M.C., 2011: Radioactivity: A History of a Mysterious Science.
- Brown, M.A., 2018: The Long-Lived History of Nuclear Medicine.
- Wikipedia: Radiometric Dating.
Atoms for Peace
Á fyrstu árunum eftir lok síðari heimstyrjaldarinnar var tæknileg umræða um kjarnorkumál frekar takmörkuð vegna kalda stríðsins. Fyrir utan nokkra hópa útvaldra, var þekking á vísindalegum smáatriðum um notkun þessa nýja afls nær hverfandi, enda lágu kjarnorkuveldin á slíkum upplýsingum eins og ormar á gulli og leyndarhyggjan var alltumlykjandi. Í Bandaríkjunum varð lítil breyting á, þótt yfirumsjón kjarnorkumála flyttist frá hernum til Kjarnorkumálanefndarinnar árið 1947.
- Sherwin, M.J., 1973: The Atomic Bomb and the Origins of the Cold War: U.S. Atomic-Energy Policy and Diplomacy, 1941-45.
- Paterson, T.G., 1986: The Origins of the Cold War.
- Herken, G., 1980: "A Most Deadly Illusion": The Atomic Secret and American Nuclear Weapons Policy, 1945-1950.
Árið 1953 markaði hins vegar þáttaskil í þessum málum. Um það bil ári eftir að hann tók við embætti Bandaríkjaforseta af H.S. Truman, hélt D. D. Eisenhower merka ræðu á alsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Í ræðunni, sem haldin var 8. desember 1953, setti hann fram hugmyndir sínar um friðsamlega notkun kjarnorkunnar, mannkyninu til heilla. Jafnframt lofaði hann þingheimi, að Bandaríkin myndu framfylgja þeim eftir bestu getu, ef þau fengju til þess stuðning annarra ríkja, ekki síst Sovétríkjanna. Fréttir af ræðunni fóru eins og eldur í sinu um heim allan og hugmyndafræði Eisenhowers var nær samstundis gefið nafnið „Atoms for Peace“.
Hugmyndir Eisenhowers voru í meginatriðum þær, að kjarnorkuveldin, ekki síst Bandaríkin og Sovétríkin, ættu að sameinast um það að gefa hluta af birgðum sínum af úrani og öðrum kjarnkleyfum efnum til sérstakrar alþjóðastofnunar, sem komið yrði á fót á vegum Sameinuðu þjóðanna. Stofnunin sæi um að geyma efnin á öruggum stað og tæki jafnframt að sér að dreifa þeim til annarra ríkja til friðsamlegrar notkunar, meðal annars í landbúnaði og læknavísindum, en ekki síður til raforkuframleiðslu.
Viðbrögðin hér heima við tillögum Eisenhowers er auðveldast að kanna með því að lesa umfjöllun dagblaðanna:
- desember:
- Mbl: Ræða Eisenhowers í gær – Alltaf reiðubúnir að ræða útilokun atómvopna – Koma þarf á fót alþjóðastofnun til friðsamlegrar hagnýtingar atómorku.
- Þjóðv: Í kjarnorkustyrjöld yrði enginn sigurvegari – Hótun um gjöreyðingu og tillaga um kjarnorkustofnun SÞ í ræðu Eisenhowers.
- Alþbl: Eisenhower vill alþjóðakjarnorkustofnun með aðild Rússa – Hún lúti yfirstjórn sameinuðu þjóðanna og stefni að friðsamlegum notum.
- Tíminn: Ræða Eisenhowers um kjarnorkumálin – Leggur til alþjóðlega rannsókn um friðsamlega notkun kjarnorku.
- Vísir: Tillögur Eisenhowers í kjarnorkumálum leið úr öngþveitinu – Ræðu hans á allsherjarþinginu vel tekið.
- desember:
- Mbl: Ræða Eisenhowers fær prýðisviðtökur – Thor Thors aðalfulltrúi Íslands hjá S.Þ.: „Þetta var mikilfengleg ræða“. Einnig ritstjórnargrein: Kjarnorkan í þágu friðar.
- Þjóðv: Andvígir Eisenhower.
- Tíminn: Ræðu Eisenhowers hvarvetna vel fagnað vestan hafs – Einkum er talið að tillaga hans um alþjóðlega kjarnorkustofnun sé mikils vísir.
- Vísir: Rússar hafna samvinnu á sviði kjarnorkumála – Segja Eisenhower hafa hótað kjarnorkustyrjöld – Tillögum hans fagnað af frjálsum þjóðum. Einnig ritstjórnargrein: Leið út úr ógöngum.
- desember:
- Mbl: Sendur á fund Rússastjórnar. Einnig ritstjórnargrein: Beðið eftir svari Rússa.
- Þjóðv: Heilsíðugrein eftir Jóhannes úr Kötlum: Amerískur heimsfriður – Dollaravaldið ekki til viðtals nema einokunarstefna þess sé lögð til grundvallar framtíðarskipan heimsins.
- Alþbl: Daufar undirtektir Rússa.
- Tíminn: Yfirlýsing Rússa um ræðu Eisenhowers: Stríðsæsingar og hótun um kjarnorkustyrjöld!
- desember:
- Mbl: Molotov spurður hvort hann vilji friðsamlegt samstarf – Ekkert svar heyrist enn þá frá Rússum við tillögu Eisenhowers.
- Tíminn: Bohlen ræddi við Molotov í gær.
- desember:
- Þjóðv: Verður gaumgæfilega athugað.
- Tíminn: Rússar íhuga kjarnorkutillögur Eisenhowers.
Eins og sjá má af fréttaflutningnum, var tillögum Eisenhowers fagnað mjög á Vesturlöndum, en formleg svör sovétskra ráðamanna létu á sér standa. Þegar þeir loksins höfðu samband við Bandaríkjastjórn, settu þeir margvísleg skilyrði fyrir þátttöku, sem kröfðust ítarlegra og langdreginna viðræðna.
Það flækti og málin talsvert í upphafi, að innan bandaríska stjórnkerfisins vissu tiltölulega fáir fyrirfram, hvað Eisenhower ætlaði að fjalla um á alsherjarþinginu. Flestir þeirra, sem sáu um kjarnorkumálin, komu algjörlega af fjöllum, þegar þeir fréttu af innihaldi ræðunnar. Fljótlega kom svo í ljós, að Bandaríkin voru langt frá því að vera tilbúin að takast á við þær skuldbindingar sem Eisenhower hafði lofað þingheimi Sameinuðu þjóðanna. Af því leiddi, að frekari tafir voru óumflýjanlegar. Ekki bætti úr skák, að vetnissprengjutilraun Bandaríkjamanna á Kyrrahafseyjunni Bikini, 1. mars 1954, hafði í för með sér gríðarlegt geislavirkt úrfelli, sem olli ótta og skelfingu víða um heim og vakti jafnframt tortryggni í garð Bandaríkjastjórnar.
- Mbl, 17. mars 1954: 120 km frá sprengistað.
- Þjóðv, 17. mars, 1954: Fiskiskip farast í vetnissprengingu.
- Tíminn, 18. mars 1954: Fiskimenn hárlausir og brenndir, fiskurinn eitraður.
- Alþbl, 21. mars 1954: Lítil von um að nýta vetnissprengjuna í friðsamlegum tilgangi. Viðtal við Þorbjörn Sigurgeirsson.
- Thirring, H., 2. júlí 1954: Geislavirkt ryk frá frumeindaverksmiðjum er jafnægilegt og kjarnorkusprengjur.
Eftir mikið þóf náðist loks samkomulag við Sovétmenn um friðsamlega notkun kjarnorkunnar, hinn 23. nóvember 1954. Ákvörðun um að setja á laggirnar alþjóðlega kjarnorkumálastofnun var síðan samþykkt formlega á alsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, 4. desember 1954. Nokkru seinna var svo ákveðið halda alþjóðlega ráðstefnu um friðsamlega notkun kjarnorkunnar sumarið 1955.
- Mbl, 24. nóv 1954: Kjarnorka til friðarþarfa.
- Þjóðv, 24. nóv 1954: Stórveldin koma sér saman um stofnun kjarnorkubanka.
- Þjóðv, 25. nóv 1954: Stofnun kjarnorkubanka getur markað þáttaskil.
- Tíminn, 16. des 1954: Ráðstefna um notkun kjarnorku í friðarþágu.
- Wendt, G. A., des. 1954: A Turning Point. Í CERN Courier heftinu The Promise of Atomic Power.
Strax í desembermánuði 1953 hóf Bandaríkjastjórn mikla áróðursherferð, sem á yfirborðinu snerist eingöngu um notkun kjarnorku í friðsamlegum tilgangi og almenna fræðslu um þau mál. Herferðinni var meðal annars ætlað að vega upp á móti stöðugum pólitískum prédikunum Sovétmanna um frið á jörðu og bann við kjarnorkuvopnum, nokkuð sem Bandaríkjastjórn hafði litla trú á, að væri annað en áróður til stuðnings heimsvaldastefnu kommúnista. Síðar kom reyndar í ljós, að ýmislegt annað en friðsamleg notkun kjarnorkunnar hékk á áróðursspýtu Bandaríkjamanna sjálfra, en frekari umræðu um það efni verður sleppt hér vegna plássleysis (sjá þó heimildaskrána hér á eftir).
Áróðursherferð Bandaríkjamanna var margþætt. Fyrir utan pólitísk samskipti við ráðamenn annarra landa, bæklingaskrif, blaða- og tímaritsgreinar og fréttatilkynningar, létu bandarísk yfirvöld framleiða fjölda kvikmynda um notkun kjarnorkunnar í friðsamlegum tilgangi. Þær voru sýndar víða um lönd, meðal annars á Íslandi. Jafnframt var sett af stað farandsýning um kjarnorkumál, sem á endanum kom til Íslands í ársbyrjun 1956. Þá var lögð áhersla á að koma á fót jákvæðum samskiptum við erlenda vísindamenn og stofnanir, til dæmis með heimboðum, styrkjum og tækja- og bókagjöfum.
Í tilefni fyrstu alþjóðlegu ráðstefnunnar um friðsamlega notkun kjarnorkunnar í Gefn í ágúst 1955 (sjá kafla IVc) gáfu Bandaríkjamenn meðal annars út bækling og flott frímerki með einkunnarorðum, sem tekin voru úr desemberræðu Eisenhowers árið 1953: „To find the way by which the ... inventiveness of man shall ... be ... consecrated to his life.“
- Hewlett, R.G., J.M. Holl & R.M. Anders, 1989: Atoms for Peace and War, 1953-1961: Eisenhower and the Atomic Energy Commission.
- Medhurst, M.J., 1997: Atoms for Peace and Nuclear Hegemony: The Rhetorical Structure of a Cold War Campaign.
- Krige, J., 1999: The Ford Foundation, European Physics and the Cold War.
- Brooks, J., 2000: When the Cold War did not End: The Soviet Peace Offensive of 1953 and the American Response.
- Chernus, I., 2002: Eisenhower's Atoms for Peace.
- Weiss, L., 2003: Atoms for Peace.
- Lavoy, P.R., 2003: The Enduring Effects of Atoms for Peace.
- Krige, J., 2006: Atoms for Peace, Scientific Internationalism, and Scientific Intelligence.
- Krige, J., 2006: American Hegemony and the Postwar Reconstruction of Science in Europe.
- Krige, J., 2008: The Peaceful Atom as Political Weapon: Euratom and American Foreign Policy in the Late 1950s.
- Heymann & J. Martin-Nielsen, 2013: Perspectives on Cold War Science in Small European States.
- Varnum, J., 2014: 60 Years of Atoms for Peace.
- Hicks, J. 2014: Atoms for Peace: The Mixed Legacy of Eisenhower’s Nuclear Gambit.
- Drogan, M., 2016: The Nuclear Imperative: Atoms for Peace and the Development of U.S. Policy on Exporting Nuclear Power, 1953-1955.
Rúmlega tveimur og hálfu ári eftir að alsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti að setja hana á fót, var Alþjóða-kjarnorkumálastofnunin loks stofnuð í júlí 1957. Hún starfar enn og gegnir mikilvægu hlutverki sem umræðuvettvangur aðildarríkjanna og eftirlitsaðili þeirra með friðsamlegri notkun kjarnorku á jarðarkringlunni. Hugmynd Eisenhowers um birgðastöð fyrir kjarnkleyf efni varð þó aldrei að veruleika, en stofnunin tók hins vegar að sér að vera milligönguaðili fyrir dreifingu á slíkum efnum, sem og tæknilegum upplýsingum um kjarnorkumál. Ísland hefur átt aðild að stofnuninni frá upphafi og notið góðs af.
- Fisher, D., 1997: History of the International Atomic Energy Agency: The First Forty Years.
Í vissum skilningi má segja, að með tilkomu Alþjóða-kjarnorkumálastofnunarinnar hafi Niels Bohr loks fengið að upplifa árangur af langri báráttu sinni fyrir friðsamlegri notkun kjarnorkunnar og opnum samskiptum um kjarnorkumál. Ráðamenn í Bandaríkjunum áttuðu sig fljótlega á mikilvægi þess að nýta sér nafn hans í þessu sambandi og þremur mánuðum eftir að kjarnorkumálastofnunin var sett á laggirnar fékk Bohr hin nýstofnuðu friðarverðlaun, Atoms for Peace Award, fyrstur manna.
- Tíminn, 25. október 1957: Að sérhver nái fullum þroska, ætti að vera sameiginleg stefna allra ríkja.
- Morgunblaðið, 29. október 1957: Niels Bohr sæmdur hinum verðmætu kjarnorku-friðarverðlaunum.
Í næsta kafla (IVc) verður meðal annars fjallað um það, hvernig kalda stríðið, frumkvæði Eisenhowers árið 1953 og þó sérstaklega Genfarráðstefnan 1955, mörkuðu þáttaskil í sögu raunvísinda hér á landi. Ráðstefnan setti af stað atburðarás, sem leiddi strax til stofnunar Kjarnfræðanefndar Íslands og innan tveggja ára til sérstakrar geislamælingastofu og nýs prófessorsembættis í eðlisfræði við Háskóla Íslands. Geislamælingastofan breyttist svo fljótlega í Eðlisfræðistofnun Háskólans, sem nokkrum árum síðar varð kjölfestan í Raunvísindastofnun Háskólans. Að þessari þróun stóð hópur úrvalsmanna með kjarneðlisfræðinginn Þorbjörn Sigurgeirsson í broddi fylkingar.