Posted on Færðu inn athugasemd

Málfarsviðmið í íslenskum skáldsögum

Í nýlegu útvarpsviðtali við Þórdísi Gísladóttur rithöfund kom fram að hún væri „mjög meðvituð um hve ólík hefðbundin bókmenntaíslenska sé talmáli. „Ég held að við þurfum aðeins að slaka meira á í íslenskum bókmenntum og taka aðeins nútímann inn,“ segir hún. „Ef þú ert að skrifa samtímabókmenntir allavega, þá þarftu aðeins að hugsa um að vera í samtímanum.““ Ég tók þessi ummæli upp hér í gær og tengdi þau við þá skoðun sem ég hef lengi haldið fram, að ýmis viðmið í íslenskum málstaðli séu úrelt og löngu kominn tími á að endurskoða málstaðalinn og færa hann nær máli almennings. Málfarsviðmið sem eru fjarri máli því máli sem er talað í landinu valda rofi milli ritmáls og talmáls sem er stórhættulegt íslenskunni til lengdar.

Í umræðum var bent á að talmál og slangur hefði iðulega verið notað í íslenskum bókmenntum – með misjöfnum árangri – en úreltist stundum fljótt og yrði ankannalegt. Elsta dæmið um þetta er líklega Vögguvísa eftir Elías Mar frá 1950 þar sem málfar persóna einkenndist af slangri og margs konar „málvillum“. Fleiri tegundir frávika má nefna – Sigríður Hagalín Björnsdóttir lætur persónu í nýrri bók sinni Deus tala án þess að nota viðtengingarhátt, og Fríða Ísberg sagði í viðtali um skáldsöguna Merkingu frá 2021: „Að sama skapi lét ég Tristan tala á sérstakan hátt til að sjá hvort það hefði áhrif á samkennd gagnvart honum. Yrði hann settur skör lægra, myndi hann strax verða fordæmdur af því hann segir einhvern meginn en ekki einhvern veginn?“

Ég hef lesið einar átta íslenskar skáldsögur sem komu út fyrir jólin. Þær eru mjög ólíkar að efni, efnistökum, málfari og stíl, en eitt eiga þær þó sameiginlegt: Í þeim er undantekningarlítið eða undantekningarlaust farið eftir þeim viðmiðum um „rétt“ mál sem hafa verið viðtekin og viðurkennd undanfarna áratugi – frá því snemma á tuttugustu öld. Þetta gildir ekki bara um texta bókarhöfunda, heldur líka um það sem persónum bókanna er lagt í munn. Nú vitum við að mér langar er eðlilegt mál allnokkurs hluta þjóðarinnar. Sama gildir um ég vill, og mörgu ungu fólki er líka eðlilegt að segja það var hrint mér. Ég man samt ekki eftir því að ein einasta persóna í þeim bókum sem ég hef lesið að undanförnu – eða áður – hafi talað á þennan hátt.

Í þeim dæmum sem hér hafa verið nefnd um frávik frá málstaðlinum í skáldsögum, og öðrum dæmum sem ég man eftir, þjóna frávikin ákveðnum tilgangi – þau einkenna persónuna, flokka hana, setja hana jafnvel „skör lægra“ en ella eins og Fríða Ísberg sagði. Hvernig stendur á því að persónur í bókunum fá ekki að tala eðlilega og hversdagslega íslensku á jafnréttisgrundvelli? Af hverju fá ekki sumar persónur að segja mig langar og ég vil en aðrar mér langar og ég vill án þess að það þurfi að lesa eitthvað í það, annað en að við tölum ekki öll eins? Ég veit ekki hvort þetta er þáttur í því sem Þórdís var að fara, en mér finnst þetta a.m.k. mikilvæg spurning: Af hverju geta ekki einu sinni persónur í bókum slitið sig frá aldargömlum viðmiðum?

Posted on Færðu inn athugasemd

Nýjar sagnmyndir?

Í gær var spurt hér út í myndina hefurður sem fyrirspyrjandi hafði séð – og fleiri hliðstæðar – þar sem búast mætti við hefurðu í þýddri bók frá 1974. Ég hef aldrei tekið eftir þessu áður en við nánari athugun kemur í ljós að töluvert af dæmum má finna um myndir af þessu tagi. Það elsta sem ég rakst á í fljótu bragði er „Hvað ætlarður þjer þá að gera?“ í Vestra 1904. Í Morgunblaðinu 1918 segir: „Hvað viltur sagði John Francis.“ Í Lögbergi 1923 segir: „hefurður nokkra hugmynd um hvað mikið hann varðar mig?“ Í Morgunblaðinu 1974 segir: „Geturður gefið þér tíma til að hafa áhugamál utan starfsins?“ Eitt og eitt slíkt dæmi gæti verið prentvilla, en dæmin á tímarit.is skipta hundruðum þannig að hér er greinilega eitthvað meira á ferðum.

Í flestum þessum dæmum er um spurningar að ræða, en einnig er nokkuð af dæmum um fullyrðingarsetningar þar sem annar liður en frumlag fer á undan sögn, t.d. „viljirðu hana ekki, þá geturður farið“ í Þjóðviljanum 1948, „kannski hefurður rétt fyrir þér“ í Þjóðviljanum 1973, „Síðan geturður hirt dótið þitt og farið heim“ í Tímanum 1970, o.fl. En ekki nóg með það – einnig má finna ýmis dæmi um að -r sé bætt við boðháttarmyndir sagna sem einnig enda á -ðu (eða -du eða -tu eftir stofngerð), t.d. „Farður hægar, Haukur“ í Dvöl 1935, „Láttur nú sjá, að þú hafir lært að stjórna skapi þínu“ í Sunnudagsblaði Tímans 1973, „Nei, komdur sæll og blessaður“ í Foringjanum 1975, „Ég ílendist hér austur frá, vertur viss“ í Vikunni 1974, o.m.fl.

Eins og sjá má í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar eru myndir af þessu tagi talsvert algengar í óformlegu máli á 21. öld, og þar koma ýmsar sagnir við sögu. Nefna má „Veistur hvað aðföng til landbúnaðarins kosta í gjaldeyri?“ á Málefnin.com 2013, „Vertur góður sonur eða dóttir“ á Twitter 2015, „Hafður samband við næsta byggingarverktaka!“ á Bland.is 2007, „Gerður þetta bara sjálf“ á Málefnin.com 2013, „Farður til heimilislæknisins þíns og láttu líta á þetta“ á Hugi.is 2007, „Komdur á facebook“ á Twitter 2015, „Talaður við fagfólk og reyndu að slaka á“ á Bland.is 2003, „Láttur endilega kíkja á þig“ á Bland.is 2013, „Kallaður mig crazy“ á Bland.is 2014, „Finndur þér öruggari og hraðvirkari vafra“ á Málefnin.com 2005, o.m.fl.

Í fljótu bragði virðist þetta mjög undarleg breyting. Viðbótin -ðu (eða ­-du eða -tu) í spurnar- og boðháttarmyndum er komin af annarrar persónu fornafninu þú og þar á því ekkert -r heima. Forsendan fyrir því að -r sé bætt við hlýtur því að vera að tengsl -ðu við þú í huga málnotenda hafi dofnað. Það er svo sem ekki óhugsandi því að þarna er bæði skipt um samhljóð og sérhljóð, ð sett í stað þ og u í stað ú, og þótt þar sé vissulega um lík hljóð að ræða er hugsanlegt að einhverjir málnotendur átti sig ekki á tengslunum og -ðu sé fyrir þeim eins og hver önnur sagnending, án tengsla við þú. En þótt þetta hugsanlega tengslarof sé nauðsynleg forsenda fyrir -r-viðbótinni er það ekki nægjanleg forsenda – skýrir sem sé ekki hvers vegna -r er bætt við.

Án þess að ég viti það með vissu held ég að þessar -r-myndir hljóti á einhvern hátt að eiga rætur í þeirri hugmynd – eða tilfinningu – eða vitneskju – málnotenda að stundum eigi að skrifa r í lok orða eða orðhluta þótt það heyrist ekki í framburði. Það er alkunna að í samsettum orðum er oft á reiki hvort r á að vera á skilum samsetningarliða eða ekki og sú óvissa leiðir oft til þess að málnotendur skrifa r þar sem það á ekki að vera – þekkt dæmi um það er mánaða(r)mót. Ég efast um (án þess að geta fullyrt nokkuð um það) að framangreindar sagnmyndir séu bornar fram með -r í lokin þótt það sé skrifað en r-ið sýnir hins vegar hugmyndir þeirra sem skrifa það um gerð þessara sagnmynda – þau skilja þær þannig að þær eigi að enda á -ður frekar en -ðu.

Þótt það hvarfli ekki að mér að um ensk áhrif sé að ræða væri freistandi að reyna að tengja þetta -r-innskot við það sem á ensku heitir linking r eða intrusive r. Þetta er þekkt fyrirbæri í ensku sem felst í því að r-hljóði er skotið inn milli sérhljóða til að forðast svokallað hljóðgap (hiatus). Í sumum tilvikum á þetta r sér sögulegar rætur og er táknað í stafsetningu en aðeins borið fram ef sérhljóð fer á eftir og þá er talað um linking r, en í öðrum tilvikum er því skotið inn án þess að það eigi sér aðrar forsendur en hljóðfræðilegar, og þá er það kallað intrusive r. En í íslensku sagnmyndunum kemur -r fram óháð því hvort eftirfarandi orð hefst á sérhljóði, auk þess sem óvíst er að það sé yfirleitt borið fram eins og áður segir. Það er því væntanlega annars eðlis.

Að lokum má spyrja hvort þetta sé dæmi um málbreytingu sem sé í gangi og að breiðast út, en ég efast um að svo sé. Eins og hér hefur komið fram eru dæmi um þetta allt frá upphafi 20. aldar en það er athyglisvert að stór hluti dæma um hefurður og geturður sem eru langalgengustu myndirnar af þessu tagi á tímarit.is er frá níunda áratug síðustu aldar – dæmum um -r-myndir í formlegu máli virðist hafa fækkað talsvert á seinni árum. Fjöldi dæma af samfélagsmiðlum sýnir vissulega að þessar myndir eru sprelllifandi en ég hef á tilfinningunni að þarna sé fremur um að ræða afleiðingar af samspili breyttrar skynjunar einstakra málnotenda á viðbótinni -ðu og óvissu um ritun r í lok orða en raunverulega málbreytingu. En þetta eru bara getgátur.

Posted on Færðu inn athugasemd

Enska í strætó, einu sinni enn

Áðan fór ég aldrei þessu vant í strætó þar sem ég tók meðfylgjandi mynd. Hún sýnir upplýsingamiða sem eru eingöngu á ensku. Á öðrum þeirra eru meira að segja mikilvægar öryggisupplýsingar. Ég hef margoft áður kvartað undan þessu við Strætó á undanförnum fimm árum og ýmist verið lofað bót og betrun eða ekki fengið nein svör. Það væri auðvitað sáralítið mál að útbúa miða með þessum upplýsingum á íslensku. Það er sjálfsagt að hafa þarna upplýsingar á ensku en það er hins vegar forkastanlegt og óafsakanlegt að þær skulu ekki vera á íslensku líka, sérstaklega þar sem um öryggisupplýsingar er að ræða. Þetta er líka í hrópandi ósamræmi við málstefnu Reykjavíkurborgar þótt hún taki strangt tekið ekki til Strætó.


Ég gerði eina tilraunina enn til að skrifa Strætó um þetta en á ekki von á því miðað við fyrri reynslu að það skili árangri. Einhverjum kann að finnast þetta smáatriði sem ekki sé ástæða til að gera veður út af en mér finnst þetta grafalvarlegt mál. Annaðhvort taka stjórnendur Strætó ekki eftir því að þetta er eingöngu á ensku eða hugsa ekki út í að það sé eitthvað athugavert við það – eða þeim er bara alveg sama. Hver sem skýringin er finnst mér þetta vera dapurlegt dæmi um undirlægjuhátt okkar og meðvitundarleysi gagnvart enskunni. Það er þeim mun verra sem þetta er fyrirtæki í opinberri eigu – ég veit að verktakar aka fyrir Strætó á ýmsum leiðum en það ætti að vera einfalt að setja þeim skilyrði um að hafa upplýsingar í vögnum á íslensku.

Posted on Færðu inn athugasemd

Þvoð

Í Málvöndunarþættinum sá ég vitnað í dæmi um lýsingarháttinn þvoð af sögninni þvo, og þótti ekki til fyrirmyndar. Það er vitanlega rétt að hefðbundinn lýsingarháttur sagnarinnar er þvegið, en þar með er ekki sagt að þvoð sé alveg út í hött. Þessi sögn er nefnilega ein þeirra sagna sem hafa breytt um beygingu og er ekki lengur sterk eins og hún var í fornu máli en þar beygðist hún í kennimyndum þvá þó þógum þvegið. Í nafnhættinum hefur breyst í vo eins og í flestum öðrum orðum með , og út frá þessum nýja nafnhætti hefur orðið til veika þátíðin þvoði. Nútíðin er aftur á móti ekki veika myndin þvoi eins og búast mætti við (nema í viðtengingarhætti) heldur ennþá þvæ, þar sem æ er i-hljóðvarp af hinu forna á í nafnhættinum.

Sterka myndin þvegið hefur líka haldist í lýsingarhætti þátíðar – og þó. Áður fyrr var myndin þvoð nefnilega algeng, og jafnvel aðalmyndin. Í Íslenzkum rjettritunarreglum sem hinn mikli málhreinsunarmaður Halldór Kr. Friðriksson gaf út 1859 eru myndirnar þvegið og þveginn nefndar sem dæmi um að bera skuli fram ei þótt ritað sé e, en í neðanmálsgrein við þessar myndir segir: „Líka er sagt þvoð, þvoður.“ Í Íslenzkri málmyndalýsingu sama höfundar frá 1861 er veika beygingin, þ. á m. lýsingarhátturinn þvoð, gefin sem aðalbeyging en í neðanmálsgrein kemur fram að sögnin beygist líka sterkt: „þvo, jeg þvæ, þó, þvægi, þvegið.“ Það er því ljóst að lýsingarhátturinn þvoð hefur verið mjög algengur á seinni hluta 19. aldar – og fram á þá 20.

Í Islandsk grammatik eftir Valtý Guðmundsson frá 1922 er bæði sterka og veika beygingin sýnd, en í neðanmálsgrein við þá sterku segir „Ogsaa (og hyppigst) svagt“, þ.e. „Einnig (og venjulega) veik“. En á þeim hundrað árum sem síðan eru liðin hefur myndin þvoð verið hrakin úr málinu að mestu. Engin dæmi eru um hana á tímarit.is þannig að trúlegt er að hún hafi einkum verið bundin við talmál – Jón G. Friðjónsson segir í Morgunblaðinu 2007: „Veika myndin þvoð er kunn úr talmáli en ekki styðst hún við málvenju.“ Vissulega hefur þessi mynd verið sjaldgæf síðustu áratugi, en hefur þó örugglega aldrei horfið alveg úr málinu – í Risamálheildinni eru tæp 50 dæmi um hana, öll af samfélagsmiðlum. Málvenjan er því sennilega órofin.

Þær sterku sagnir sem hafa orðið veikar á undanförnum öldum hafa flestar gengið alla leið, þ.e. allar myndir þeirra fara eftir hefðbundnu beygingarmynstri veikra sagna. Í mörgum tilvikum lifir sterki lýsingarhátturinn þó enn í sértækri merkingu – þótt bjargað, falið og hjálpað sé venjulegur lýsingarháttur sagnanna bjarga, fela og hjálpa eru myndirnar borgið, fólgið og hólpinn notaðar í ákveðnum orðasamböndum. Í samræmi við það mætti búast við að þvoð væri hinn venjulegi lýsingarháttur af þvo en þvegið væri notað í einhverjum orðasamböndum – en þannig er það ekki. Ég ætla ekki að mæla sérstaklega með myndinni þvoð en hún er ekki óeðlileg og á sér langa hefð í málinu – mér finnst sjálfsagt að sýna henni umburðarlyndi.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvað er íslenskt orð?

Í morgun var hér spurt hvort computer says no væri íslenska. Þetta er þekktur frasi sem á uppruna sinn í gamanþáttunum Little Britain frá því upp úr aldamótum og fólk bregður oft fyrir sig þótt annars sé verið að tala íslensku. Í fljótu bragði kann það að virðast fráleitt að spyrja hvort þetta sé íslenska – þetta er setning sem er tekin í heilu lagi úr ensku og öll orðin ensk. En þetta er samt gagnleg spurning því að hún knýr mann til að velta því fyrir sér hvernig við skilgreinum íslensku og íslensk orð. Hvaða skilyrði þarf orð eða orðasamband að uppfylla til að geta talist íslenska? Ef hægt er að rekja orð til frumnorrænu er það ótvírætt íslenska, en hvað með öll þau orð sem hafa bæst í málið frá upphafi Íslandsbyggðar? Er ekkert þeirra íslenska?

Auðvitað væri fráleitt að neita öllum þeim orðum um að teljast íslensk og engum dettur það í hug. Fjölmörg tökuorð almennt hafa lagað sig algerlega að hljóðkerfi og beygingakerfi málsins – orð eins og prestur, sápa, bíll og ótalmörg fleiri. Aðlögun dugir þó ekki alltaf til – orð eins og rúta þótti til skamms tíma vafasamt vegna uppruna síns þótt það falli alveg að málinu. Hins vegar njóta ýmis tökuorð fullrar viðurkenningar enda þótt þau hafi ekki lagað sig fullkomlega að íslensku málkerfi – orð eins og biskup „ætti“ t.d. að hafa nefnifallsendingu og vera *biskupur og nafnið Jón „ætti“ að vera *Jónn. Orð eins og bíó, partí, mótor og lager falla ekki fullkomlega að íslensku hljóðkerfi en varla er samt hægt að neita þeim um þegnrétt í málinu.

En ný orð koma ekki eingöngu úr erlendum málum. Það er sífellt verið að búa til nýyrði sem sum hver eiga sér beinar erlendar fyrirmyndir en önnur ekki. Stundum eiga þessi orð sér enga ættingja í málinu – eru bara hljóðastrengur sem er gefin ákveðin merking. Nýlegt dæmi um það er orðið kvár sem kom fram í nýyrðasamkeppni Samtakanna ´78 árið 2020 og er notað um kynsegin fólk, hliðstætt orðunum karl og kona. En oftast eru þessi nýyrði þó leidd af orðum sem fyrir eru í málinu með afleiðslu eða samsetningu – dæmi um það eru orðin hittingur og fagn sem hér var nýlega fjallað um. Þótt íslenskur uppruni þessara orða sé ótvíræður dugir það samt ekki endilega til að málnotendur sætti sig við þau – en þau hljóta samt að teljast íslenska.

Um þetta mætti skrifa langt mál en ég legg til að við setjum okkur eftirfarandi viðmið: Frumforsenda fyrir því að hugsanlegt sé að telja eitthvert orð eða orðasamband íslenskt er að það sé notað í setningarlegu samhengi með orðum sem eru ótvírætt íslensk. Það þýðir að computer says no getur ekki talist íslenska vegna þess að það er heil setning þar sem öll orðin eru ensk. Aftur á móti gætu orð eins og næs, kúl, kósí, beila, ókei, tsjilla, fótósjoppa og fjölmörg fleiri talist íslenska samkvæmt þessu viðmiði þótt þau falli misvel að málkerfinu – og líka orð eins og aksjúalí og beisiklí sem nýlega voru hér til umræðu. Hvort sem okkur líkar betur eða verr eru öll þessi orð iðulega notuð í íslenskum setningum innan um íslensk orð.

Ég legg áherslu á að þótt notkun í íslensku setningarsamhengi sé að mínu mati forsenda fyrir því að hægt sé að telja orð íslenskt þýðir það ekki að slík notkun geri orðið sjálfkrafa íslenskt. Þar þarf fleira að koma til, a.m.k. nokkur hefð – orðið þarf að vera komið í töluverða notkun í íslensku samhengi (og svo má auðvitað deila um hvað „töluverð notkun“ sé). Mörgum gæti líka fundist eðlilegt að gera kröfu um einhverja lágmarksaðlögun að málkerfinu en erfitt gæti reynst að ná samstöðu um viðmið í því efni. Og svo getur málkerfið líka breyst. Íslensk orð hafa fram undir þetta ekki byrjað á tsj-, en hugsanlega má segja að tilkoma framburðar eins og tsjald á orðinu tjald geri það að verkum að orðið tsjilla brjóti ekki endilega hljóðskipunarreglur málsins.

Ég held sem sé að það sé borin von að við getum svarað því í eitt skipti fyrir öll þannig að öllum líki hvort eitthvert tiltekið orð sé íslenskt eða ekki. Og ég held líka að það sé í góðu lagi. Á endanum er það málsamfélagið sem sker úr um þetta – ef málnotendur vilja nota eitthvert orð í íslensku gera þeir það og kæra sig kollótta um hvort það er kallað íslenskt eða ekki. Hér má rifja upp það sem Halldór Halldórsson prófessor sagði í skilgreiningu á réttu máli í Stíganda 1943: „Það mætti því segja, að það eitt sé rétt mál, sem hlotið hefir þá viðurkenningu að vera rétt mál.“ Skilgreining á íslensku orði er þá: „Það mætti því segja að það eitt sé íslenskt orð sem hlotið hefur þá viðurkenningu að vera íslenskt orð.“ Ég held að við komumst ekki mikið lengra.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að efla hatur

Herferð Jafnréttisstofu, „Orðin okkar“, er rekin undir kjörorðinu „Notum orðin okkar til að uppræta hatur, ekki efla það“. Um daginn var spurt hér út í þessa orðanotkun – fyrirspyrjanda fannst óeðlilegt að tala um að efla neikvæða hegðun og vildi heldur tala um að auka hatur, ýta undir hatur eða eitthvað slíkt. Málið snýst sem sé um það hvort sögnin efla vísi í eðli sínu til einhvers sem er jákvætt eða æskilegt. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin skýrð 'gera (e-ð) öflugri, styrkja (e-ð)' og í Íslenskri orðabók hún skýrð 'styrkja' en einnig 'halda, stofna til'. Í hvorugu tilvikinu kemur beinlínis fram að sögnin sé aðallega eða eingöngu notuð í jákvæðri merkingu þótt hugsanlega megi draga þá ályktun af notkunardæmum sem tekin eru.

Sambandið efla hatur er meira en 150 ára gamalt í málinu – elsta dæmið í Gefn 1870: „blaðamennirnir eru búnir að æsa þjóðirnar og efla hatur og illindi á allar lundir.“ Ýmis dæmi eru um efla með öðrum orðum sem telja má neikvæð. Í Degi 1922 segir: „Þeir vilja efla ófriðinn í landinu, með því að kjósa á þing hinn skæða ófriðarsegg Ingólf Bjarnarson í Fjósatungu.“ Í DV 1983 segir: „Verðlagsstjóri hefur um nokkurt skeið beitt öllu skrifstofuliði sínu til þess að efla styrjöld gegn Reykjavíkurborg.“ Í Morgunblaðinu 1969 segir: „Skriffinnarnir sitja sem sé við sinn keip og reyna að efla óvild í stað athafna.“ Í Alþýðumanninum 1933 segir: „Þeir vilja fara inn á þing til þess að hrópa og hafa hátt, auka glundroðann, efla sundrungina.“

Þarna eru, auk haturs, orðin ófriður, styrjöld, óvild og sundrung, en einnig má finna dæmi um óvináttu, reiði, fjandskap og ýmis fleiri neikvæð orð. Það er því enginn vafi á að mörgum finnst ekkert athugavert við að nota sögnina efla um eitthvað sem er neikvætt eða óæskilegt. En hitt er líka ljóst að margfalt algengara er að sögnin sé notuð í jákvæðri eða hlutlausri merkingu. Við getum litið svo á að sögnin hafi tvo merkingarþætti – grunnmerking hennar sé hlutlaus, 'auka, styrkja', en auk þess hafi hún í máli margra, en ekki allra, merkingarþáttinn 'jákvætt'. Það er ekkert að því að við notum ekki öll sögnina á alveg sama hátt – hvorugt er réttara en hitt, og þessi munur er ekki þess eðlis að líklegt sé að hann valdi misskilningi.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að blóta þorra – í þolfalli eða þágufalli

Þótt þorrablót séu gömul var ekki farið að nota sambandið blóta þorra fyrr en nýlega – elsta dæmi um það er í Tímanum 1954: „Eyfirðingafélagið í Reykjavík hefir jafnan haldið við hinum þjóðlega sið, er mjög tíðkaðist heima í héraði, að blóta þorra.“ Í Morgunblaðinu sama ár segir: „Blótaður verður þorri í „þurrki““ og „Senn er þorri á enda. Taka menn nú að blóta hann.“ Orðið þorri er eins í öllum aukaföllum og fallið sést því ekki í sambandinu blóta þorra en dæmið blóta hann sýnir að um þolfall er að ræða. Sama gildir um þolmyndina, blótaður verður þorri – germyndarandlag í þolfalli fær nefnifall þegar það er gert að frumlagi í þolmynd, en ef þorri stæði í þágufalli í blóta þorra ætti fallið að haldast í þolmynd sem yrði þá þorra blótað.

Slík dæmi eru reyndar til, það elsta í Degi 1963: „Enn er þorra blótað að fornum sið.“ Í fyrirsögn í Vísi 1965 segir: „Blótað þorra í Glasgow.“ Athyglisverð dæmi eru í auglýsingu frá Ferðafélagi Íslands 1976. Í Þjóðviljanum segir: „Þorri blótaður í Þórsmörk“ en í öðrum blöðum stendur „Þorra blótað í Þórsmörk“. Þarna er trúlegt að prófarkalesari Þjóðviljans hafi breytt setningunni. Töluvert má finna af hliðstæðum þolmyndardæmum en einnig koma fyrir fáein germyndardæmi þar sem ákveðinn greinir sýnir að um þágufall er að ræða, það elsta í Fréttum – Eyjafréttum 1991: „Enda Austfirðingar að blóta þorranum.“ Í Bæjarins besta 1995 segir: „Undanfarnar tvær vikur hafa fjölmargir landsmenn haldið við þeim gamla sið að blóta þorranum.“

Sögnin blóta merkti í fornu máli 'dýrka' eða 'fórna', en merkingin 'formæla' bættist síðar við – trúlegt er „að kristnum mönnum hafi þótt það athæfi heiðingja að blóta goð ófagurt“ segir Jón G. Friðjónsson. Í Málfarsbankanum segir: „Merki sögnin dýrka stýrir hún þolfalli: blóta þorrann, goðin. Merki hún hins vegar fórna eða formæla stýrir hún þágufalli: blóta dýri til árs og friðar; blóta einhverju í sand og ösku.“ En af hverju í ósköpunum ætti fólk að dýrka þorrann? Hann var löngum erfiður – talað er um að þreyja þorrann og hann „gefur grið ei nein“, „engri skepnu eirir“ o.s.frv. Það er eðlilegra að líta svo á að um sé að ræða merkinguna 'fórna' – blóta þorra merkir þá 'færa þorranum fórnir' til að blíðka hann og þorra er þá þágufall en ekki þolfall.

Þegar blóta merkir 'fórna' vísar andlagið í nútímamáli yfirleitt til þess sem fórnað er, en „[í] fornu máli merkti orðasambandið blóta goðum 'færa goðum fórn' segir Jón G. Friðjónsson. Bæði í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og Íslenskri orðabók kemur líka fram að í merkingunni 'fórna' geti sögnin tekið tvö þágufallsandlög – blóta einhverjum einhverju. Dæmi um þetta má finna í Dagsbrún 1896: „menn gátu ekki gert sér guðina hliðholla eður vinveitta með öðru en því, að blóta þeim dýrum eða mönnum.“ Í blóta þorra má líta svo á að þorra svari til fyrra andlagsins – þorrinn er þiggjandi fórnarinnar. Þetta er hliðstætt því þegar seinna andlagi sagnarinnar gefa er sleppt – talað er um að gefa skepnum án þess að tilgreina hvað gefið er.

Eins og áður segir er sambandið blóta þorra ekki gamalt – frá því um miðja síðustu öld. Vitanlega var sögnin til með þolfalli í merkingunni 'dýrka' og því ekki óeðlilegt að þolfall væri oftast notað í þessu sambandi. Ekki er ólíklegt að tengsl þágufallsins við merkinguna 'bölva, formæla' hafi haft þau áhrif að fólk hafi forðast þágufall í blóta þorra til að koma í veg fyrir samfall við þá merkingu, þótt nú megi reyndar finna dæmi um að leikið sé með hana í auglýsingum og þorranum bölvað í sand og ösku („veldu helvítis, andskotans, djöfulsins Goða og Kjarnafæði“). Mér finnst samt eðlilegast að líta svo á að þarna sé um merkinguna 'fórna' að ræða og sé því ekkert athugavert við að blóta þorranum þótt þolfallið sé vitaskuld líka eðlilegt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Mikilvægi jákvæðrar umræðu

Í þessum hópi er lagt bann við athugasemdum um málfar og málnotkun einstaklinga og hópa. Til að sýna hvað ég vil forðast með þessu langar mig að rifja upp nokkur dæmi um athugasemdir úr öðrum málfarshópum. Fyrsta dæmið er frá því um daginn þegar slagorðinu Það sést hverjir drekka Kristal var breytt í Það sést hver drekka Kristal. Næsta dæmi er síðan rétt fyrir jól, þegar blaðakona á Morgunblaðinu notaði óvenjulega en rétta beygingarmynd (spúst) í frétt um eldgos við Sundhnúkagíg. Þriðja dæmið er nokkurra ára gamalt og kannski grófast. Það sýnir viðbrögð við innleggi um framburð tiltekins ráðherra á ákveðnu hljóðasambandi (rn) – þessi framburður er vissulega sjaldgæfur en þó er um vel þekkta mállýsku að ræða.

(1) „Þetta er kolruglað. Það er verið að stórskemma okkar fallega mál“; „Þetta er bara hallærislegt en það er kannski tískan í dag“; „Þessa bull málnotkun skal enginn maður fá mig til að nota“; „Alger fáviska; þetta er svo heimskulegt að engum tárum tekur, það á að nota óákveðna fornafnið rétt, annað er heimska“; „Ömurlegt“; „Alveg einstaklega hálfvitalegt, og getur hreinlega ekki verið málfræðilega rétt; skelfileg rétthugsunarhandaflsmálþróun“; „Þeir sýna íslensku máli lítilsvirðingu“; „Rétt ein málvillan; þetta er meira ruglið“; „Fáránlegt“; „Málfarsleg fátækt, eymd og volæði villuráfandi málvillinga“; „Sorglegt metnaðarleysi“; „Glatað“, „Algjört rugl“; „Hallærisleg aðför að tungumálinu“; „Asnalegt bara, smábarna mál“.

(2) „Unga fólkið er að meika það á Mogganum“; „Þvílíkt orðalag er þetta háskólamenntuð manneskja sem hefur slíkt orðalag“; „Nei nú er mér allri lokið, sá eða sú sem skrifaði þetta hefði ekki átt að komast upp úr fyrsta bekk“; „Úr hvaða skóla útskrifaðist hann?“; „Þetta lið er ekki talandi“; „Er ekki hægt að fá inn á fjölmiðla talandi fullorðið fólk. Eru þetta illa talandi/skrifandi krakkar í aukavinnu með skóla“; „Fara blaðamenn ekki i skóla?; algjörlega ómenntaðir dregnir beint upp úr fjóshaug“; „Eru blaðamenn ekki búnir að eyða meirihluta æfinnar í skóla en rita svona bull í opinberan fjölmiðil??“; „á hverju er þetta lið????“; „Þau eru 3gja að verða 5“; „Hvernig er hægt að birta svona frétt á „barnamáli“?“.

(3) „ekki boðlegt af menntamálaráðherra landsins“; „linmælgi“; „skrítið að heyra þetta latmæli“; „hefur ekki þótt til fyrirmyndar“; „snilld að hafa menntamálaráðherra sem er ekki talandi á eigin tungu“; „kann ekki að bera fram réttilega“; „svona mannvitsbrekkur eru við stjórnvölinn í menntamálum þjóðarinnar“; „bull og getuleysi“; „talkennarar og skólar […] hafa lausnir við svona málhelti“; „ambögur og málhelti“; „ekkert til sóma“; „ofreyni sig við að reyna að vanda sig“; „mögulegt að tunguhaft valdi þessum framburði hjá ráðherranum“; „afleitt að vera svona linmælt“; „klúðra svona feitt“; „of ung til að valda embættinu“; „stressast svona og gengur í barndóm þegar hún talar“; „menntamálaráðherra þjóðarinnar er ótalandi á eigin tungu“.

Þetta eru bara sýnishorn – í öllum tilvikum voru athugasemdir í sama dúr miklu fleiri. Það er ótrúlegt að einhverjum skuli finnast eðlilegt að skrifa á þann hátt sem þarna er gert, jafnvel um tiltekið nafngreint fólk og tengja málfar þess við meinta andlega og líkamlega ágalla – það er auðvitað mannfjandsamlegt og nálgast að vera meiðyrði. En þar fyrir utan á ég bágt með að sjá að orðfæri af þessu tagi sé íslenskri tungu til framdráttar, eða það sé hrein og skær ást á tungumálinu sem liggur þarna að baki. Aftur á móti veit ég fjölmörg dæmi um að svona umræða hefur hrakið fólk úr þeim hópum sem um er að ræða og fælt það frá þátttöku í málfarsumræðu. Ég er einn þeirra og orðræða af þessu tagi varð einmitt til þess að ég stofnaði þennan hóp.

Sumum finnst óeðlilegt að banna neikvæðar athugasemdir og umræðu í hópnum og eiga erfitt með að sætta sig við það, og svo leggur fólk vissulega mismunandi skilning í það hvað sé neikvætt. Það er ekki bannað að hrósa fólki, en að öðru leyti lít ég svo á að öll vísun í málfar og málnotkun tiltekinna einstaklinga og hópa sé óheimil vegna þess að þótt ekki sé endilega verið að amast við einhverju finnst fæstum þægilegt að verið sé að vekja athygli á málfari þeirra. Það er hins vegar oft hægt að vekja umræðu um tiltekin málfarsatriði með almennum spurningum með hlutlausu orðalagi í stað þess að hneykslast eða vísa í málfar einstaklinga, og það er í góðu lagi. Ef fólk sættir sig ekki við þetta er auðvelt að finna vettvang fyrir neikvæðni.

Posted on Færðu inn athugasemd

„Bjargar lögfræðin íslenskunni?“

Í gær fór ég á fróðlegt málþing á vegum Lögréttu, félags laganema við Háskólann í Reykjavík. Yfirskrift þingsins var „Bjargar lögfræðin íslenskunni?“ og frummælendur voru þrír lögfræðingar úr ólíkum áttum. Það var mikill samhljómur í máli þeirra um að lagasetning og eftirfylgni stjórnvalda gæti komið íslenskunni að verulegu gagni. Ég er sammála því mati og hef reyndar skrifað um dugleysi stjórnvalda við að framfylgja þeim lögum sem þó eru til og varða íslenska tungu, svo sem ákvæðum um málstefnu sveitarfélaga í Sveitarstjórnarlögum, ákvæðum um fyrirtækjaheiti í Lögum um verslunarskrár, firmu og prókúruumboð og ákvæðum um auglýsingar á íslensku í Lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Á málþinginu var einnig talað um Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslenskt táknmáls frá 2011. Þessi lög voru ágæt á sínum tíma og eru góð svo langt sem þau ná – en þau ná alltof skammt og hafa of þröngt gildissvið. Í fyrstu grein þeirra segir: „Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi“ og í annarri grein segir: „Þjóðtungan er sameiginlegt mál landsmanna. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs. Allir sem eru búsettir hér á landi skulu eiga þess kost að læra og nota íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðlífi svo sem nánar er mælt fyrir um í sérlögum.“ Ég veit reyndar ekki til þess að þessi sérlög hafi verið sett en þar kann vanþekkingu minni að vera um að kenna.

Það er stór galli á lögunum að þau taka eingöngu til opinberra aðila. Í 8. grein segir: „Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum og annarra stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu“ og í 4. grein segir: „Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð.“ Í lögunum er ekki stakt orð um skyldur einstaklinga, fyrirtækja og félagasamtaka til að nota íslensku, hvað þá ákvæði um aðgerðir ef svo er ekki gert. Í öðrum lögum eru ákvæði um íslensk nöfn fyrirtækja og að auglýsingar sem eiga að höfða til íslenskra neytenda skuli vera á íslensku en þeim lögum er slælega framfylgt eins og áður segir.

Það er kominn tími til að uppfæra Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls og mér finnst mikilvægt að við þá uppfærslu verði gildissvið laganna víkkað þannig að þau taki einnig til einkaaðila – fyrirtækja og félagasamtaka. Það er eðlilegt að þeim verði gert skylt að nota íslensku, t.d. í auglýsingum og kynningarefni. Það kemur að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að enska – eða annað erlent tungumál – verði einnig notað, en frumskilyrði á að vera að íslenska sé alls staðar í öndvegi. Það þarf einnig að gera atvinnurekendum, bæði opinberum aðilum og einkaaðilum, skylt að gera erlendu starfsfólki kleift að stunda íslenskunám með vinnu. Í lögunum verða að vera ákvæði um viðurlög ef út af er brugðið, og þeim þarf að beita.

Öðru máli gegnir um ákvæði sem varða mál og málnotkun einstaklinga. Fyrir utan Lög um mannanöfn sem eru sér á báti (og ættu að falla brott að mínu mati) eru slík ákvæði mér vitanlega aðeins í Lögum um ríkisborgararétt þar sem í upptalningu skilyrða fyrir ríkisborgararétti segir: „Umsækjandi hafi staðist próf í íslensku samkvæmt kröfum sem ráðherra setur í reglugerð.“ Á málþinginu var nefnt að þetta próf væri létt, jafnvel of létt. Um það get ég ekki dæmt en vel má vera að ástæða sé til að þyngja prófið. Hins vegar sækir ekki nema lítill hluti þeirra útlendinga sem hér búa um íslenskan ríkisborgararétt þannig að auknar kröfur til þeirra hefðu lítil almenn áhrif á íslenskukunnáttu innflytjenda, heldur hefðu fyrst og fremst táknrænt gildi.

En að öðru leyti finnst mér ekki koma til álita að setja nein ákvæði í lög um mál, málnotkun og málkunnáttu einstaklinga. Það væri að mínu mati alvarleg takmörkun á tjáningarfrelsi fólks, byði heim margvíslegri misbeitingu og mismunun og ýtti undir þjóðernishroka. Það er ekki hægt að halda lífi í íslenskunni með lögum – hún lifir ekki nema við, notendur hennar, viljum að hún lifi. Það er hægt – og þarf – að styrkja íslenskuna á ýmsan hátt, með kennslu í íslensku sem öðru máli, með gerð afþreyingar- og fræðsluefnis á íslensku, o.s.frv. En hinn margþvældi frasi „vilji er allt sem þarf“ á ekki við hér (og raunar sjaldnast) – það þarf líka aðgerðir, fyrst og fremst vitundarvakningu um að íslenskan skipti máli og það þurfi að hlúa að henni.

Posted on Færðu inn athugasemd

Öráreitni?

Í dag og undanfarið hefur töluvert verið rætt hér um athugasemdir sem gerðar eru við „ófullkomna“ íslensku fólks sem er að læra málið. Sum þeirra sem taka þátt í umræðunni segjast þekkja slíkar athugasemdir vel en önnur segjast ekkert kannast við slíkt þrátt fyrir að umgangast innflytjendur mikið. Í sjálfu sér þarf þetta ekkert að vera óeðlilegt – auðvitað eru aðstæður misjafnar, við umgöngumst ekki öll sama eða sams konar fólk og reynsla okkar getur því verið ólík í þessu efni eins og öðrum. Það er samt athyglisvert að Íslendingar virðast sjaldnast kannast við athugasemdir af þessu tagi en innflytjendur þekkja þær yfirleitt vel. Þótt ég geti auðvitað ekki fullyrt neitt um þetta grunar mig að þessi munur sé ekki tilviljun.

Mér finnst mun líklegra að þarna sé iðulega um að ræða öráreitni sem við sem eigum íslensku að móðurmáli tökum ekki eftir, af því að við verðum ekki fyrir henni. „Öráreitni er hugtak sem notað er yfir hversdagslegar athafnir, athugasemdir eða umhverfisþætti sem eru niðrandi eða niðurlægjandi fyrir fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum og eiga sinn þátt í jaðarsetningu þess“ segir á vefnum Hinsegin frá Ö til A. Oft eru þetta góðlátlegar athugasemdir eða grín sem ekki er illa meint en verkar samt stuðandi á fólk sem fyrir því verður þótt öðrum finnist það jafnvel krúttlegt. Vissulega má gæta þess að lenda ekki í ofurviðkvæmni hvað þetta varðar en það skiptir máli að við hugum að því hvernig við bregðumst við frávikum í máli innflytjenda.