Posted on Færðu inn athugasemd

Enskættað orðalag

Erlend orðasambönd hafa alla tíð streymt inn í málið og yfirleitt klæðst íslenskum búningi að mestu eða öllu leyti, í þeim skilningi að þau innihalda engin framandi hljóð, öll orðin í þeim eru oftast íslensk og beygjast á hefðbundinn hátt. Þau bera það því ekki með sér að þau séu erlend að uppruna og til að átta okkur á því þurfum við að þekkja þau í upprunamálinu. Lengi vel komu slík sambönd úr dönsku og margir minnast þess úr skólagöngu sinni að amast hafi verið við algengum orðasamböndum eins og fyrst og fremst, til að byrja með og fjölmörgum öðrum sem eru hluti af daglegu máli okkar. Nú fá þessi sambönd og önnur álíka að vera í friði víðast hvar nema helst í MR.

Nú eru dönskuslettur alveg fyrir bí, eins og einhvern tíma var sagt, og jafnvel talað um að friða þær. En enskan er yfir okkur og allt um kring, og engin furða að ýmis ensk orðasambönd laumist inn í íslensku. Eitt þeirra er eins og enginn sé/væri morgundagurinn sem er augljóslega íslensk gerð af orðasambandinu as if there were no tomorrow eða like there is no tomorrow. Þetta er ekki gamalt í málinu – elsta dæmið á tímarit.is er frá 2005, en á síðustu 10 árum hefur notkunin stóraukist. Ég kunni ekki við þetta samband í fyrstu en er farinn að venjast því og sé svo sem ekkert athugavert við það.

Önnur nýjung í málinu, greinlega ættuð úr ensku, er að segja sama hvað, án nokkurs framhalds eða skilyrðis. Þrjú dæmi frá þessu ári af tímarit.is:

  • „Það er svo mikil gróska og samhugur hjá öllu þessu frábæra tónlistarfólki á Íslandi, að gera hlutina sama hvað.“
  • „En ef náttúra er á annað borð til þá er hún eitthvað sem lætur ekki alveg að stjórn, á það til að sullast út fyrir, sama hvað.“
  • „Mér finnst þetta ekki allt byggjast á því að búa til atvinnu sama hvað.“

Til skamms tíma hefði orðið að koma eitthvert framhald – sama hvað tautar og raular, sama hvað þú segir, sama hvað gerist, o.s.frv. Enginn vafi er á að þetta eru áhrif frá enska sambandinu no matter what sem einmitt er notað svona.

Enn eitt nýlegt orðalag sem er ættað úr ensku er að segja af ástæðu án þess að nokkurt ákvæðisorð – lýsingarorð eða fornafn – fylgi nafnorðinu. Þrjú nýleg dæmi af tímarit.is:

  • „Þeir ungu leikmenn sem eru komnir í liðið núna eru þar af ástæðu.“
  • „Lokið á salerninu er staðsett ofan á klósettinu af ástæðu en er ekki bara til skrauts.“
  • „Við erum í kór af ástæðu, við viljum alltaf vera að syngja.“

Í íslensku hefur fram til þessa þurft að skilgreina ástæðuna eitthvað nánar – segja af góðri ástæðu, af ákveðinni ástæðu, af þeirri ástæðu o.s.frv. En í ensku er hægt að segja for a reason án nánari útskýringa og þaðan er þetta væntanlega komið.

Erlendur uppruni einn og sér er ekki gild ástæða til að amast við einhverju orðalagi, og þótt samböndin eins og enginn væri morgundagurinn, sama hvað og af ástæðu séu greinilega öll komin úr ensku finnst mér ástæða til að gera upp á milli þeirra. Fyrstnefnda sambandið hvorki breytir né útrýmir einhverju sem fyrir er í málinu – það má alveg segja að það auðgi málið. Í síðarnefndu samböndunum tveimur er aftur á móti verið að breyta hefðbundnu íslensku orðalagi að ástæðulausu. Betra væri að halda sig við hefðina.

Posted on Ein athugasemd

Kynusli

Eins og við vitum öll hefur íslenska þrjú kyn í fallorðum – karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn. Við erum vön því og finnst það eðlilegt, vegna þess að við tengjum þetta við líffræðilegt kyn. Líffræðileg kyn hafa að vísu fram undir þetta bara verið talin tvö, karlkyn og kvenkyn, en við sættum okkur við að það sé til eitthvert þriðja gildi, eitthvað hlutlaust – hvorugkyn, hvorugt kynið.

Þessi tenging við líffræðilega kynið getur valdið því að okkur finnst oft að tungumál sem hafa færri kyn en íslenska séu á einhvern hátt ófullkomin – mál eins og danska með sitt samkyn í nafnorðum í stað karlkyns og kvenkyns, að ekki sé talað um ensku og finnsku með aðeins eitt kyn í nafnorðum (sem jafngildir því að hafa ekkert kyn). En þessi tungumál virðast komast vel af þrátt fyrir þessa kynjafátækt. Og tilfellið er að kyn í tungumálum eru mjög mismörg, allt frá engu sem er langalgengast upp í 20. Hvernig má það vera?

Málið er að kyn í tungumáli er málfræðileg flokkun en ekki líffræðileg. Vissulega eru sterk tengsl milli málfræðilegs og líffræðilegs kyns í mörgum tungumálum, þ. á m. íslensku, en þau eru alls ekki algild eins og alþekkt er. Það eru til hvorugkynsorð eins og fljóð og sprund sem vísa til kvenna, og hvorugkynsorðið skáld hefur svo sterka tengingu við karlmenn að nauðsynlegt hefur þótt að mynda orðin skáldkona og kvenskáld til að vísa til kvenna.

Sama máli gegnir um ýmiss konar aðra málfræðilega flokkun sem hefur tengsl við efnisheiminn – þau tengsl eru sjaldnast alveg föst. Við segjum t.d. að eintala sé notuð til að vísa til eins en fleirtala vísi til fleiri en eins. Samt þekkjum við öll orð eins og buxur og skæri sem vísa til eins hlutar og eru ekki til í eintölu. Orð eins og fólk og fjöldi eru eintöluorð en vísa vitanlega til fleiri en eins. Svo mætti lengi telja.

Því fer fjarri að kynin í íslensku séu öll jafnvæg. Á undanförnum árum hefur andstæðan markað : ómarkað oft verið notuð til að lýsa venslum innan málkerfisins. Ómarkað merkir þá hlutlaust, það sem er sjálfgefið, en markað er það sem er notað við einhverjar sérstakar aðstæður – það er eitthvað sem kallar á notkun þess. Hvorugkynið heitir á latínu neutrum, neuter á ensku, og það merkir 'hlutlaust'.

Það mætti því búast við að hvorugkynið væri ómarkað kyn í íslensku. Á það reynir t.d. þegar vísa þarf til bæði karlkyns- og kvenkynsorða með einu fornafni, eða þegar lýsingarorð í stöðu sagnfyllingar á við bæði karlkyns- og kvenkynsorð. Þá er vissulega oftast notað hvorugkyn – Jón og Gunna eru komin (en ekki komnir eða komnar). Þau eru skemmtileg. Þetta er samt ekki alveg einfalt, sérstaklega þegar um safnheiti er að ræða, en ég get ekki farið út í það hér.

En þarna er um að ræða málfræðileg vensl og vísun innan setninga eða milli setninga. Öðru máli gegnir um vísun út fyrir tungumálið – þegar vísað er til blandaðs hóps karla og kvenna án þess að þau hafi verið nefnd. Þar er yfirleitt notað karlkyn og við segjum Enginn má yfirgefa húsið og Allir tapa á verðbólg­unni án þess að meina að það séu bara karlmenn í þeim hópi. Í þessu felst ekki nein karlremba eða útilokun kvenna – svona virkar tungumálið bara. En hvers vegna notum við ekki hvorugkyn og segjum Öll eru mætt?

Fyrir því eru sögulegar ástæður. Í indóevrópska frummálinu voru tvö kyn – annað var notað um lífverur en hitt um dauða hluti. Hið fyrrnefnda mætti svo sem kalla samkyn en það er sögulega séð fyrirrennari karlkyns, í þeim skilningi að karlkynsbeygingu má hljóðsögulega rekja til þess. Það eru ein­göngu lífverur sem geta verið gerendur í setningum og vegna þess að nefnifall var fall gerandans voru það eingöngu karlkynsorð sem höfðu sérstaka nefnifallsmynd.

Hvorugkynsorðin gátu ekki táknað gerendur og þurftu því ekki á nefnifalli að halda. Þegar tengsl milli merkingar og setningagerðar breyttust og hvorugkynsorð fóru að geta staðið í stöðu sem krafðist nefnifalls urðu þau að koma sér upp nefnifallsmynd, og það var gert með því að taka þolfallsmyndina og láta hana líka þjóna sem nefnifall. Þetta er ástæðan fyrir því að hvorugkynsorð eru alltaf eins í nefnifalli og þolfalli, bæði í eintölu og fleirtölu.

Kvenkyn þróaðist síðan úr hvorugkyninu, en þótt kvenkyn væri komið til fékk það ekki jafnstöðu við karlkynið. Hið gamla samkyn, sem nú var orðið karlkyn af því að kvenkyn var komið til, hélt ýmsum samkynshlutverkum sínum, t.d. því að geta vísað til blandaðs hóps en ekki bara karla. Þess vegna segjum við enn Allir eru mættir og frá málfræðilegu sjónarmiði er ekkert athugavert við það, þótt verið sé að vísa bæði til karla og kvenna.

En málfræðin stjórnar ekki upplifun fólks, og þótt kynbeyging og flokkun orða í kyn sé í grunninn málfræðilegs eðlis verður ekki fram hjá því litið að hún hefur mjög sterk tengsl við líffræðilegt kyn í huga fólks. Ef mörg, bæði konur og þau sem skilgreina sig hvorki sem karl­kyns né kvenkyns, upplifa það þannig að þau séu á einhvern hátt sniðgengnin með notkun karl­kyns í slíkum dæmum, þá finnst mér eðlilegt að velta fyrir sér hvort og hvernig sé hægt að bregðast við því.

Tungumál breytast, líka íslenska. Það er ekkert því til fyrirstöðu að segja Öll eru mætt. Mörg hafa mælt með því. Hópur kvenna innan kirkjunnar hefur t.d. um tíma beitt sér fyrir því að breyta málnotkun í kirkjulegum athöfnum og ritum þannig að málið höfði betur til kvenna. Þetta er það sem hefur verið kallað „mál beggja kynja“. Mér finnst vel hægt að segja t.d. Mörg telja að …, Sum segja að … o.fl. Annað er erfiðara – mér finnst ekki hljóma vel að segja Ýmis vona að ….

Og sumt er alveg ómögulegt. Í staðinn fyrir Enginn vill að … er tæpast hægt að segja Ekkert vill að …. Það er samt hægt að snúa sig út úr þessu með því að nota fleirtöluna: Engin vilja að …. Ég sé ekki að það séu nein málspjöll þótt þetta breytist. Það er ekki verið að koma með neitt nýtt inn í málið – hvorugkynið er til. Þetta er ekki beinlínis breyting á málinu, heldur á notkun þess.

Það er aftur á móti snúnara að fást við karlkynsnafnorð, sambeygingu með þeim og vísun til þeirra. Mjög mörg starfsheiti, þjóðaheiti o.s.frv. eru karlkyns. Kennari er karlkynsorð, málfræðingur er karlkynsorð, Íslendingur er karlkynsorð, Akureyringur er karlkynsorð, o.s.frv. Við höfum þrjá kosti með slík orð. Einn er að búa til hvorugkynsorð í staðinn. Það er ekki einfalt, m.a. vegna þess að við höfum enga beygingarendingu sem gefi hvorugkyn ótvírætt til kynna eins og –ur og –i tákna (oftast) karlkyn og –a táknar (oftast) kvenkyn. En hvorugkynið er endingarlaust – nema veika beygingin, sem er eiginlega frátekin fyrir orð um líffæri og líkamshluta.

Annar kostur væri að halda orðunum óbreyttum en breyta tilvísun og sambeygingu. Þá gætum við t.d. sagt Ég hitti tvo kennara/Akureyringa áðan. Þau voru hress, þ.e. vísað til karlkyns­orðanna kennari og Akureyringur með fornafni í hvorugkyni, ef um fólk af fleiri en einu kyni væri að ræða. Þetta er vel hægt, vegna þess að vísun persónufornafna getur ýmist verið innan málsins eða út fyrir það, og ef við notum þau getum við sagt að við séum ekki að vísa í orðið kennari eða Akureyringur í setningunni á undan, heldur í hópinn sem um er að ræða.

En það versnar í því þegar við förum að skoða sambeygingu innan setningar. Það er eiginlega alveg ómögulegt að segja Bæði kennararnir eru hress eða eitthvað í þá átt, og þar væri raunverulega verið að misþyrma málkerfinu finnst mér. Í sumum tilvikum er hægt að nota eignarfallssamband í stað þess að láta fornafnið samræmast nafnorðinu – segja Sumar/Sum kennaranna eru hressar/ hress. Þriðji kosturinn er svo að halda þessu óbreyttu – segja að í þessu tilviki sé um málfræði­lega flokkun að ræða sem ekki þurfi að tengja við líffræðilegt kyn. Ég hef enga góða lausn á þessu sem trúlegt er að öllum líki.

En mér finnst sjálfsagt að fólk velti því fyrir sér hvort og hvernig hægt sé að draga úr karllægni tungumálsins, og prófi sig áfram með það. Líf íslenskunnar veltur á því að málnotendur tengi sig við hana, finnist hún vera sitt mál. Þess vegna þarf hún að breytast og endurnýja sig til að þjóna þörfum samfélagsins á hverjum tíma, eins og hún hefur alltaf gert. En það er staðreynd að í þeirri íslensku sem við höfum flest alist upp við er karlkyn ómarkað. Það er hluti af málkerfi okkar flestra og við breytum því ekki svo glatt, og mér finnst ekki hægt að ætlast til þess að fólk geri það.

Aðalatriðið í þessu er umburðarlyndi og virðing fyrir öðru fólki og málnotkun þess. Þau sem vilja hafna karlkyni sem ómörkuðu kyni þurfa að hafa í huga að við erum flest alin upp við að karlkynið hafi þetta hlutverk, og í þeirri málnotkun felst engin karlremba. Þau sem vilja halda í karlkynið sem ómarkað kyn þurfa að sýna því skilning að ýmsum finnst karlkynið eingöngu vísa til karlmanna og þar með vera útilokandi. Málið þolir alveg að mismunandi málvenjur séu í gangi samtímis.

Posted on Færðu inn athugasemd

Mannanafnalög og íslensk málstefna

Ein meginröksemd sem beitt er fyrir nauðsyn mannanafnalaga er verndun íslenskunnar og því er oft haldið fram að óheftur straumur erlendra nafna geti haft óæskileg áhrif á málið. Það er í sjálfu sér ekki óhugsandi að mikill fjöldi orða sem koma inn í málið og greina sig frá íslenskum erfðaorðum á einhvern hátt, t.d. í hljóðafari eða beygingum, hafi einhver áhrif á tilfinningu málnotenda fyrir reglum og einkennum íslenskunnar. En til þess þurfa orðin að vera mjög mörg og mikið notuð.

Þá er að hafa í huga að erlend nöfn hafa streymt inn í málið frá fyrstu tíð, og mörg þeirra hafa að geyma hljóðasambönd sem ekki finnast í erfðaorðum. Þar má nefna nöfn eins og Andrea, Lea, Magnea, Leó, Theódóra, William, Sebastian, Patricia, Sophus, Zophonías, Arthúr, Zoe, Nikolai, Laila, og ótalmörg fleiri. Öll þessi nöfn er hægt að gefa íslenskum ríkisborgurum óhindrað því að þau eru á mannanafnaskrá – sum hafa verið notuð lengi en önnur hafa verið heimiluð á starfstíma mannanafnanefndar. Ekki verður þess samt vart að þetta hafi haft neikvæð áhrif á tungumálið.

Auðvitað má hugsa sér nöfn sem innihalda meira framandi hljóðasambönd en þau sem hér hafa verið nefnd, s.s. Szczepan úr pólsku, Nguyen úr víetnömsku o.s.frv. En hljóðskipunarreglur tungumála breytast ekki svo glatt, og líkurnar á að slík nöfn hefðu einhver áhrif á íslenskt hljóðkerfi og hljóðskipunarreglur eru nákvæmlega engar. Og vegna þess að hljóðasambönd í þessum orðum eru nánast óframberanleg fyrir Íslendinga er ekki ólíklegt að nöfnin tækju fljótlega breytingum í átt að íslenskum hljóðskipunarreglum.

Því hefur einnig verið haldið fram að óheft innstreymi erlendra nafna gæti veikt beygingarkerfið. Eitt þeirra skilyrða sem nöfn þurfa að uppfylla samkvæmt gildandi lögum lýtur að þessu – nöfn þurfa að geta tekið eignarfallsendingu. Þó er fjöldi íslenskra erfðaorða eins í öllum föllum eintölu og hefur þar með enga sérstaka eignarfallsendingu. Þetta eru t.d. veik hvorugkynsorð (hjarta, nýra o.s.frv.), mörg kvenkynsorð sem enda á -i (gleði, keppni, lygi, reiði o.m.fl.), karlkyns- og hvorugkynsorð sem enda á löngu s (foss, koss, sess, hross, pláss o.fl.) eða samhljóði + s (háls, þurs, glans, gips o.fl.) – og sitthvað fleira mætti nefna. Þessi orð eru margfalt fleiri og algengari en þau mannanöfn sem ekki taka eignarfallsendingu – jafnvel þótt meðtalin væru öll nöfn sem hafnað hefur verið á þeirri forsendu. Samt hvarflar ekki að neinum að þessi orð stuðli að niðurbroti beygingarkerfisins eða hafi einhver óæskileg áhrif á málið.

En reyndar geta langflest nöfn tekið eignarfallsendingu og því er beygingarleysi sjaldan forsenda synjunar nafns. Það eru helst kvenmannsnöfn sem enda á –e sem erfitt getur verið að setja eignarfallsendingu á og nokkrum slíkum nöfnum hefur verið hafnað, s.s. Maxine, Aveline og Jette, þótt nöfnin Charlotte, Christine, Elsie, Irene, Kristine, Louise, Marie og Salome/Salóme hafi komist á mannanafnaskrá vegna hefðar. Af þessum nöfnum er aðeins það síðastnefnda notað eitthvað að ráði og hefur tæplega spillt beygingarkerfinu.

Annar hópur nafna sem ekki taka eignarfallsendingu eru karlmannsnöfn sem enda á samhljóði + sGils, HansJens o.fl. Aldrei er þó amast við slíkum nöfnum, væntanlega vegna þess að það er engin sérviska þeirra að taka ekki eignarfallsendingu heldur er það einfaldlega útilokað af hljóðafarslegum ástæðum – samhljóð getur ekki verið langt á eftir öðru samhljóði og þess vegna er ekki hægt að bæta eignarfalls-s við þessi nöfn. (Reyndar væri hægt að nota eignarfallsendinguna -ar í staðinn, en það er ekki gert.) En þegar að er gáð gegnir í raun og veru alveg sama máli um kvenmannsnöfnin sem enda á -e – það eru hljóðafarslegar ástæður fyrir því að þau geta ekki tekið eignarfallsendinguna -ar (sem er sú eina sem kemur til greina). Tvö grönn sérhljóð eins og e og a geta ekki með góðu móti staðið saman í íslensku. Það er því í raun fráleitt að hafna áðurnefndum kvenmannsnöfnum á þessari forsendu.

Meira að segja Jón, algengasta karlmannsnafn á Íslandi fyrr og síðar, fellur ekki fullkomlega að málkerfinu – til þess þyrfti það að vera Jónn, eins og prjónn, sónn og tónn – sem reyndar eru allt gömul tökuorð sem hafa aðlagast kerfinu. Þegar Jón hafði verið í málinu í margar aldir kom tökuorðið telefón inn í málið seint á 19. öld, en það tók ekki langan tíma að lagað það að málinu þannig að það varð (tele)fónn í nefnifalli. Þrátt fyrir tíðni og útbreiðslu nafnsins Jón hafði endingarleysi þess í nefnifalli sem sé ekki áhrif á þetta nýja tökuorð.

Því má bæta við að á undanförnum áratugum hafa nokkur erlend lýsingarorð sem beygjast lítið eða ekkert orðið algeng í málinu – orð eins og smart, töff, kúl, næs o.fl. Þau hafa samt ekki leitt til þess að fólk sé almennt hætt að beygja lýsingarorð. Enda er fyrir í málinu fjöldi alíslenskra lýsingarorða sem eru eins í öllum kynjum, tölum og föllum – orð sem enda á -a (andvaka, lífvana o.s.frv.) eða -i (hugsi, þurfi) og svo lýsingarháttur nútíðar þegar hann stendur sem lýsingarorð (sofandi, vakandi o.s.frv.). Engum dettur í hug að amast við þessum orðum eða gera því skóna að þau hafi óheppileg áhrif á beygingarkerfið.

En gefum okkur nú þrátt fyrir það að nöfn sem falla ekki að íslensku hljóð- og beygingarkerfi gætu „smitað út frá sér“ ef svo má segja – komið af stað eða hraðað breytingum á íslensku málkerfi. Þá hlýtur það að eiga við um öll nöfn sem eru notuð í málsamfélaginu, nöfn sem við heyrum og notum í daglegu lífi – ekki bara nöfn íslenskra ríkisborgara, sem eru þeir einu sem falla undir íslensk mannanafnalög. Hér búa nú og starfa tugir þúsunda útlendinga – fólk sem við tölum um og tölum við, og notum því í daglegu tali fjölda nafna sem ekki yrðu samþykkt. Ef íslensku málkerfi stafar hætta af erlendum nöfnum hlýtur sú hætta aðallega að stafa frá nöfnum þessa fólks en ekki þeim tiltölulega fáu nöfnum sem íslenskir ríkisborgarar sækja um að bera.

Einnig má benda á að mannanöfn eru ekki stór hluti af orðaforða málsins. Á mannanafnaskrá eru rúmlega 4100 nöfn, mörg þeirra mjög sjaldgæf og í mörgum tilvikum er örugglega bara einn nafnberi. Nú má auðvitað nota ýmsa mælikvarða á stærð íslensks orðaforða en í ritmálssafni Árnastofnunar eru t.d. dæmi um u.þ.b. 700 þúsund orð. Mörg þeirra eru líka sjaldgæf og jafnvel aðeins eitt dæmi um þau, þannig að það er ekki fráleitt að bera þetta saman. Samkvæmt því væru nöfn langt innan við 1% af heildarorðaforðanum.

Vissulega má reikna þetta á annan hátt en sama hvernig það er gert verða nöfnin alltaf bara brot af orðaforðanum. Og um önnur orð – allt að 99% orðaforðans – gilda engin lög. Enda eru erlend orð af ýmsu tagi sífellt að koma inn í málið, án þess að við höfum nokkra stjórn á því. Mörg þeirra falla ekki fullkomlega að íslensku málkerfi – eru óbeygð, brjóta hljóðskipunarreglur, eða hvort tveggja. Sum þessara orða eru lítið notuð eða um stuttan tíma, önnur haldast í málinu og laga sig þá iðulega að þeim orðum sem fyrir eru – breyta um framburð, fara að beygjast, o.s.frv. Önnur haldast í málinu án þess að laga sig að því – en án þess að „smita út frá sér“, þ.e. án þess að valda nokkrum breytingum á íslenskum orðum. Mér er ómögulegt að sjá tilganginn í því að koma lögum yfir lítið brot orðaforðans en líta fram hjá hugsanlegum áhrifum allra hinna orðanna.

Annar þáttur í mannanafnalögum sem varðar íslenska málstefnu eru ættarnöfnin. Ég tel reyndar að það mál falli miklu fremur undir íslenska menningu en íslenskt mál þótt auðvitað sé stutt þar á milli í þessu. Kenning til föður er vissulega rótgróinn þáttur í íslenskri menningu en kenning til móður hins vegar nýtilkomin, þótt hægt sé að benda á stöku eldri dæmi. En ættarnöfn eru í eðli sínu ekkert minni íslenska en föður- og móðurnöfn. Ýmis ættarnöfn eru af íslenskum rótum og ef upptaka ættarnafna yrði gefin frjáls má búast við að slíkum nöfnum myndi fjölga. En ég er hreint ekki sannfærður um að fólk myndi í stórhópum leggja niður föður- og móðurnöfn og taka upp ættarnöfn í staðinn, þótt slíkt yrði leyft.

Stundum er vísað til þess að föðurnöfn hafi horfið í Danmörku og Noregi á stuttum tíma, en slíkar vísanir til ólíkra samfélaga á öðrum tímum hafa takmarkað gildi. Nútímaviðhorf í jafnréttismálum eru t.d. líkleg til að valda því að konur séu ófúsari en áður að taka upp ættarnafn eiginmannsins. Hér má enn fremur benda á að vegna þess að Íslendingar hafa einir haldið þeim sið að kenna sig til föður (eða móður) er það ákveðið þjóðareinkenni sem vel má hugsa sér að margir vilji halda í þess vegna, en um slíkt var ekki að ræða í Danmörku og Noregi. Einnig má vísa til þess að í Færeyjum mun hafa færst í vöxt á seinustu árum að kenna sig til föður.

Ég tek heils hugar undir það að kenning til föður eða móður er menningarhefð sem æskilegt er að viðhalda. En hefðir eru lítils virði nema samfélagið þar sem þær gilda hafi áhuga á að halda í þær. Hefð sem þarf að viðhalda með lögum er ekki hefð – heldur nauðung. Hér vegur þó þyngst að núgildandi lög standast ekki með nokkru móti jafnræðiskröfur samtímans – og eru raunar að því er best verður séð brot á 65. grein stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um að allir skulu vera jafnir fyrir lögunum. Það stenst því ekki að sumum sé leyft það sem öðrum leyfist ekki. Á þetta hefur oft verið bent, t.d. í athugasemdum nefndar sem samdi frumvarp að gildandi mannanafnalögum, og í athugasemdum Íslenskrar málnefndar við það frumvarp.

Að öllu samanlögðu er ég sannfærður um að aukið frelsi í nafngiftum er ekki skaðlegt fyrir íslenskt mál. Þvert á móti. Stífar reglur sem vísa í íslenska málstefnu en samræmast ekki jafnréttishugmyndum og stríða gegn réttlætiskennd fólks geta orðið til þess að ala á neikvæðum viðhorfum fólks til íslenskunnar. Því þarf hún síst af öllu á að halda um þessar mundir.

Posted on Færðu inn athugasemd

Máltækni í þágu samfélagsins

Þótt nokkur verkefni á sviði máltækni hafi verið unnin hér á landi undir lok 20. aldar má segja að skipuleg uppbygging íslenskrar máltækni hafi hafist fyrir rúmum 20 árum með út­tekt á ástandi og horfum í íslenskri tungu­tækni eins og sviðið var kallað þá. Tungu­tækni – skýrsla starfshóps kom út snemma árs 1999 en þar var áætlað að það kostaði u.þ.b. einn milljarð króna að gera íslenska mál­tækni sjálf­bæra. Að teknu tilliti til verðlagsbreytinga er þetta reyndar svipuð upphæð og nú er gert ráð fyrir að verja til verkefnisins.

Í kjölfar skýrslunnar kom ríkið á fót sérstakri tungutækniáætlun sem fékk sam­tals 133 milljónir króna á fjárlögum ár­anna 2000-2004. Fyrir það fé voru unn­in eða sett af stað ýmis verkefni sem sum lognuðust út af, önnur lögðu drög að seinni tíma starfi á þessu sviði, og enn önnur eru enn í fullu gildi. Því fór þó fjarri að íslensk máltækni væri orðin sjálf­bær þegar áætluninni lauk og næstu 10 ár var ekki sett neitt fé á fjárlögum í ís­lenska máltækni en með fáeinum styrkjum úr Rann­sóknasjóði, m.a. einum öndvegis­styrk, tókst að halda lífi í rannsóknar- og þróunarstarfi.

Þáttaskil urðu með þátttöku Íslands í evrópska META-NET verkefninu árin 2011-2013. Megin­markmið þess voru annars vegar að gera ítarlega úttekt á stöðu máltækni fyrir 30 evrópsk tungu­mál, og hins vegar að byggja upp og gera að­gengileg hvers kyns málleg gagnasöfn og hugbúnað fyrir þessi mál. Á Íslandi tókst að safna saman og byggja upp marg­vísleg gögn á þess­um tíma. Þau voru gerð aðgengileg í varðveislusafninu META-SHARE en einnig var settur upp vefurinn málföng.is þar sem hægt er að nálgast þessi gögn.

Auk þess var skrifuð ítarleg skýrsla, ein af 30 í sama sniði: Íslenska á stafrænni öld. Þegar niður­stöður skýrslnanna voru bornar saman kom í ljós að íslenska stæði næstverst málanna 30 hvað varðar mál­tækni. Þessar niðurstöður vöktu töluverða at­hygli hér á landi og voru m.a. rædd­ar á Alþingi. Það er óhætt að segja að skýrslan hafi verið einn helsti hvatinn að þings­álykt­un sem var samþykkt einróma 2014 um gerð áætlunar um uppbyggingu ís­lenskrar mál­tækni og leiddi að lokum til skýrslunnar Máltækni fyrir ís­lensku 2018-2022 – Verkáætlun.

Þátttakan í META-NET sýndi okkur mikilvægi alþjóðlegs samstarfs á þessu sviði og í mál­tækni­skýrslunni var lagt til að Ísland gerðist aðili að evrópska inn­viðaverk­efninu CLARIN ERIC. Það var sett á stofn til að staðla og gera aðgengi­leg gagna­söfn til nota í rann­sóknum á sviði félags- og hugvís­inda, en þessi gagna­söfn geta einnig nýst í mál­tækni og þess vegna er aðild að CLARIN mjög gagnleg. Ísland er þegar orðið áheyrnaraðili að sam­starf­inu og nú hefur íslenskum lögum verið breytt þannig að Ísland gæti sótt um fulla aðild.

Samstarfsnetið European Language Re­source Coordination hefur verið í gangi undanfarin fjögur ár. Það gengur einkum út á að afla mállegra gagna frá opinberum stofn­­un­um til nota í vél­rænum þýðing­um og nýta þau í opinberri þjónustu. Annað samstarfs­net er European Lan­guage Grid sem er nýtt og snýst aðallega um gögn sem nýt­ast fyrir­tækjum í iðnaði og við­skipta­­lífi. Ísland tekur þátt í báðum þessum netum sem skiptir gífurlegu máli til að geta fylgst með þróuninni, fengið aðgang að gögnum og þekkingu og komið okkar eigin gögnum á framfæri.

Máltækniáætlunin sem nú er verið að setja af stað mun kosta á þriðja milljarð króna. Þótt það sé ekki stór hluti af heild­ar­útgjöldum ríkissjóðs er þetta mikið fé, a.m.k. í samanburði við það sem við sem vinnum með íslenskt mál erum vön að sjá. Ég er samt sannfærður um að fáar fjár­fest­ingar borga sig betur og þjóðin á eftir að fá þetta margfalt til baka. Í huga margra tengist þetta verkefni fyrst og fremst verndun og varðveislu íslensk­unn­ar og hún verður vitanlega ekki metin til fjár. En máltækni er mikilvæg af fjöl­mörgum öðrum ástæðum og ég nefni örfá dæmi:

  • Fyrir jafnrétti og mannréttindi – máltækni getur skipt sköpum fyrir fjölmarga sem búa við ein­hvers kon­ar hömlun eða skerð­ingu, auðveldar þeim að ferðast um, bætir aðgengi þeirra að margs kyns þjón­ustu og lífsgæðum og getur gert þeim kleift að taka fullan þátt í daglegu lífi og starfi.
  • Fyrir tækniþróun og ný­sköp­un – máltækni er alþjóðleg og innan mál­tækniverkefnisins gefst íslensk­um fyrir­tækjum tækifæri til að vinna með vísindamönnum að þróun nýrrar tækni og af­urða sem geta nýst á alþjóðlegum mark­aði, auk þess sem aðferðirnar nýtast víðar en í máltækni.
  • Fyrir hagkvæmni og hagræð­ingu í rekstri – með hjálp talgreiningar, tal­gerv­ingar og gervi­greind­­ar geta fyrir­tæki sem reka þjón­ustu­ver t.d. látið tölvur sinna verulegum hluta aðstoðar­beiðna sem bæði lækkar kostnað og styttir biðtíma og eykur þannig ánægju viðskiptavina.
  • Fyrir skilvirkni í opinberri þjónustu – með notkun máltækni má hraða samskiptum milli opinberra aðila innbyrðis en fyrst og fremst stórbæta og auðvelda að­gengi almennings að þjónustu opin­berra stofnana og hraða afgreiðslu erinda og fyrirspurna.
  • Fyrir hraða og öryggi í heilbrigðisþjónustu – með notkun mál­tækni við greiningu og lýsingu rann­sókn­ar­­gagna og hvers kyns skráningu og miðlun upplýsinga má hraða upplýsinga­streymi og þannig flýta fyrir sjúk­dóms­grein­ingu og auka líkur á lækn­ingu.
  • Fyrir al­manna­varn­ir við náttúruvá – með sjálf­virk­um textaskrifum og vélrænum þýð­ing­um má t.d. koma upplýsingum um yfir­vof­andi eldgos eða flóð á fjölda tungumála til ferðamanna hvar sem þeir eru staddir og bæta samskipti milli viðbragðsaðila innbyrðis og við almenning.

Tölvutæknin er nú orðin fléttuð inn í flestar daglegar athafnir okkar. Tungu­málið er helsta sam­skiptatæki okkar á öllum sviðum mannlífsins og þess vegna þurfum við máltækni á öllum svið­um – íslenska máltækni. Uppbygging hennar og þróun er sannarlega í þágu samfélagsins.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að og af

Forsetningarnar og af eru oft notaðar í sömu sam­bönd­um þótt önnur þyki venjulega „réttari“ en hin. Í Málfars­bank­an­um er löng upptalning á samböndum þar sem talið er rétt að nota , og önnur samsvarandi fyrir af. Þessi dæma­fjöldi sýnir glöggt að tilfinning málnotenda fyrir því hvora for­setn­inguna „eigi“ að nota er iðulega á reiki. Þótt ég sé í flest­um tilvikum vanur að nota þá forsetningu sem er talin „rétt“ átta ég mig ekki á því hvort ég er alltaf alinn upp við þá notkun eða hef tileinkað mér hana í skóla.

Framburðarmunur og af er sáralítill og oft enginn í eðli­legu tali. Önghljóðin ð og f (v) eru venjulega frekar veik í enda orða — sérstaklega áherslulítilla orða eins og for­setn­inga. Það er því mjög algengt að báðar for­setn­ing­arn­ar verði bara sérhljóðið a í framburði og þess vegna tök­um við örugglega sjaldnast eftir því þótt sagt sé þar sem við ættum von á af og öfugt. En í rituðu máli kemur mun­urinn vitanlega fram. Þegar framburðar­mun­ur­inn er svona lítill verður að reiða sig á merkingu til að velja milli for­setn­inganna — eða hreinlega læra í hvaða sam­böndum hvor á að vera.

Grunnmerking er ʻí áttina tilʼ en grunnmerking af er ʻfrá, burtʼ samkvæmt Íslenskri orðsifjabók. Þar sem þessi grunn­merk­ing er skýr verður þess ekki vart að forsetningunum sé blandað saman — það er aldrei sagt *ég gekk í átt af húsinu eða *ég tók bókina að honum svo að ég viti. En þegar ekki ligg­ur í aug­um uppi að önnur hvor þessi grunnmerking eigi við má búast við víxl­um, þannig að af sé notað þar sem hefð er fyrir , og öfugt. Þarna er mál­tilfinning fólks oft mismunandi. Sumum finnst t.d. augljóst að það sé leitað að einhverju vegna þess að við leitina sé verið að reyna að komast ʻí áttina tilʼ þess sem leitað er. En fjöldi dæma um leita af sýnir að því fer fjarri að allir málnotendur skynji þessa merkingu í í þessu sam­bandi.

Ef dæmum Málfarsbankans er flett upp á tímarit.is sést að víxlin má í mörgum tilvikum rekja aftur til 19. aldar. Í sumum til­vik­um er „ranga“ notkunin eldri og/eða algeng­ari en sú „rétta“. Þannig eru hátt í helmingi fleiri dæmi um ríkur af en hið „rétta“ ríkur að, og elsta dæmið um af er þremur ára­tugum eldra en elsta dæmið um . Heldur fleiri dæmi eru um auðugur af en hið „rétta“ auðugur að, og einnig heldur fleiri dæmi um snauður af en hið „rétta“ snauður að. Ýmis fleiri dæmi mætti nefna.

Eitt af því sem ýtir undir þessi víxl er það að stundum „á“ að nota mismunandi forsetningu með sama nafnorði eftir því hver sögnin er. Þannig er talið „rétt“ að segja hafa ánægju af, hafa gagn af, hafa gaman af o.fl., en hins vegar „á“ að segja það er ánægja að þessu, það er gagn að þessu, það er gaman að þessu o.s.frv. Svipað er með forsetningu með nafnorðinu tilefni — það „á“ að segja að gefnu tilefni, en hins vegar af þessu tilefni, kunnur að góðu en hins vegar kunnur af verkum sínum, frægur að endemum en frægur af hernaði sínum, o.fl. Það er svo sem ekkert undarlegt að mál­notendur blandi þessu saman, enda merkingarmunur ekki alltaf skýr. „Á alllöngum kenn­ara­ferli mínum tókst mér fremur illa að færa nemendum heim sanninn um það að orðasambandið að yfirlögðu ráði vís­aði (augljóslega) til tíma en í orða­sam­band­inu af ásettu ráði fælist háttarmerking en ég kann þó ekki betri skýringu“ segir Jón G. Friðjónsson.

Mér finnst mikilvægt að halda í merkingarmuninn milli og af, sem vísað er til hér að framan. En þar sem grunn­merk­ingin er óskýr eða alls ekki fyrir hendi finnst mér satt að segja ekki skipta miklu máli hvor forsetningin er notuð. Ef fólk hefur vanist notk­un annarrar forsetningarinnar þótt hin sé talin „rétt“ sé ég enga ástæðu til að breyta því. Ég er t.d. vanur að tala um að gera mikið af einhverju og töluvert fleiri dæmi eru um það á tímarit.is en gera mikið sem er talið „rétt“. En „þessi villa er rótgróin“ segir Gísli Jóns­son — ég held bara mínu striki.

Posted on Færðu inn athugasemd

Málvillur

Ég hef stundum fjallað um íslenskan málstaðal og frávik frá honum. Þessi frávik, þau tilbrigði sem samræmast ekki staðlinum, eru kölluð málvillur, þrátt fyrir að talsverður hluti þeirra sem eiga íslensku að móðurmáli – í sumum tilvikum meirihluti – noti þau. En hugum aðeins að því hvað við erum að segja með þessu. Erum við að segja að fólk sem elst upp í íslensku málumhverfi og tileinkar sér íslensku á máltökuskeiði kunni ekki íslensku? Getur málbreyting sem hefur náð til umtalsverðs hluta málnotenda verið villa? Hvaða vit er í því? Athugið að málstaðallinn sem notaður er til að skilgreina villurnar er mannanna verk, og það er á margan hátt tilviljanakennt hvað rataði inn í hann. Margar breytingar sem orðið hafa frá fornmáli komust inn í staðalinn og eru viðurkenndar og ekki taldar villur.

Þetta táknar ekki að rétt sé að viðurkenna öll afbrigði frá staðlinum, eða vísa hugtakinu málvilla út í hafsauga. Mér finnst alltaf best að nota skilgreiningu nefndar um „málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum“ frá 1986: „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“. Í samræmi við þetta er alveg eðlilegt að kalla tilviljanakennd og einstaklingsbundin frávik frá staðlinum málvillur, en ef frávikin eru farin að ná til hóps af fólki og börn farin að tileinka sér þau á máltökuskeiði er eðlilegt að tala um málbreytingu en ekki villu. Það er að mínu mati mjög brýnt að breyta málstaðlinum sem hefur gilt undanfarna öld, viðurkenna staðreyndir og taka inn í staðalinn ýmsar breytingar sem hafa verið í gangi og verða ekki stöðvaðar.

Það má nefnilega ekki vera þannig að einhverjum hópum eða einstaklingum í samfélaginu finnist ís­lensk­an ekki gera ráð fyrir sér, og það má ekki heldur vera þannig að einhverjum finnist gert lítið úr því máli og þeirri málnotkun sem þau eru alin upp við eða hafa vanist. Þótt sumir tali svolítið öðruvísi íslensku en þá sem ég ólst upp við í norðlenskri sveit fyrir 50-60 árum gefur það mér engan rétt til að fordæma íslensku annarra eða líta niður á hana. Íslenskan er nefnilega alls konar. App er líka íslenska. Mér langar er líka íslenska. Hán er líka íslenska. Og síðast en ekki síst: Íslenska með hreim og beygingarvillum er líka íslenska.

Posted on Færðu inn athugasemd

Er íslenska erfið?

Í fyrra hafði blaðið Grapevine, sem gefið er út á ensku í Reykjavík, samband við mig og bað mig að svara spurningunni „Why is Icelandic such a difficult language to learn?“ eða „Hvers vegna er íslenska svona erfið?“. Þetta er goðsögn sem margir þekkja, að íslenska sé með erfiðustu málum. Vissulega er ýmislegt í íslensku sem getur verið snúið, en það fer þó að talsverðu leyti eftir móðurmáli málnemans og þeim tungumálum sem hann hefur haft kynni af.

Íslenska er t.d. talin tiltölulega erfið fyrir fólk með ensku að móðurmáli enda hefur hún ríkulegar beygingar miðað við ensku, en slíkt ætti ekki að koma t.d. fólki af slavneskum uppruna á óvart. Það eru ákveðin sérkenni í íslensku hljóðkerfi og setningagerð sem geta vafist fyrir útlendingum, en þegar á heildina er litið er varla hægt að segja að íslenska sé erfiðari en gengur og gerist um tungumál.

En hitt er vissulega rétt að mörgum útlendingum finnst íslenska erfið og hika við að tala hana við Íslendinga. Ég held að ein ástæðan fyrir því sé sú að Íslendingar eru ekki – eða hafa ekki verið – sérlega umburðarlyndir gagnvart beygingarvillum, erlendum hreim, og öðrum merkjum um ófullkomna íslensku. Ísland var til skamms tíma eintyngt samfélag og við vorum því ekki vön því að heyra útlendinga reyna að tala málið og hætti til að gagnrýna tilraunir þeirra til þess harkalega.

En málfærni fæst ekki nema með æfingu, og til að ná valdi á tungumáli þurfum við að fá tækifæri til að nota það við mismunandi aðstæður. Útlendingar kvarta oft yfir því að það sé ómögulegt að læra íslensku af Íslendingum því að þeir skipta svo oft yfir í ensku um leið og þeir átta sig á því að viðmælandinn talar íslensku ekki reiprennandi. Þetta þarf að breytast – við þurfum að vera þolinmóðari og umburðarlyndari gagnvart ófullkominni íslensku. Íslenska er alls konar.

Posted on Ein athugasemd

Mikilvægi íslensku í umhverfi barna

Ég heyrði í gær sagt frá frístundaheimili í grónu hverfi hér í borginni þar sem meginhluti starfsfólks er ekki íslenskumælandi og talar við börnin á ensku. Þetta leiðir til þess að börnin tala að einhverju leyti ensku sín á milli. Ég tek fram að ég hef þessa sögu ekki frá fyrstu hendi og hef ekki sannreynt hana. Við skulum þess vegna ganga út frá því að þetta sé ekki svona en huga samt að því hvaða afleiðingar það gæti haft ef slíkar aðstæður kæmu upp.

Eins og Elín Þöll Þórðardóttir prófessor í talmeinafræði benti á í nýlegu viðtali er talið að „til að eiga mögu­leika á að til­einka sér ís­lensku þurfi tví­tyngd börn að verja 50% af vöku­tíma sín­um í ís­lensku mál­um­hverfi“. Ef einhver börn á umræddu frístundaheimili væru frá heimilum þar sem íslenska er ekki heimilismál kæmust þau því hvergi í kynni við íslensku nema í skólanum. En í viðtalinu var bent á að skóladagurinn á Íslandi nær því ekki að vera 50% vökustunda. Með þessu móti værum við því að ala upp börn sem ekki næðu móðurmálsfærni í íslensku, þrátt fyrir að hafa kannski búið hér alla ævi.

Og það er alls ekki víst að börnin næðu móðurmálsfærni í nokkru öðru máli heldur. Þau eru hluta dagsins í skólanum þar sem íslenska er notuð, en síðan á frístundaheimili þar sem aðallega er talað við þau á ensku, og tíminn sem þau hafa með foreldrum sínum þegar þau koma heim er einfaldlega ekki nógu langur til að byggja upp móðurmálsfærni í heimilismálinu, auk þess sem trúlegt er að þau eyði talsverðum hluta hans í enskum málheimi – sjónvarpi, tölvuleikjum o.s.frv. Rannsóknir sýna að móðurmálsfærni í einhverju tungumáli er forsenda fyrir því að læra önnur mál vel – en skiptir líka miklu máli fyrir margs konar kunnáttu og þroska s.s. tilfinningagreind, verkgreind o.fl.

Það skiptir þess vegna gífurlegu máli að sjá til þess að börn sem alast upp á Íslandi hafi sem mesta íslensku í umhverfi sínu. Mörg börn verja umtalsverðum hluta vökustunda sinna á frístundaheimilum og það er mjög alvarlegt mál ef samskipti þar fara ekki fram á íslensku að mestu leyti. Þess vegna verður að tryggja að starfsfólk á slíkum heimilum sé íslenskumælandi. Ég veit að það er auðvelt að túlka þetta sem útlendingaandúð eða -hræðslu en það er ekki það sem málið snýst um. Og eins og útskýrt er hér að framan snýst það ekki heldur um framtíð íslenskunnar þótt hún sé vissulega mikilvæg.

Þetta snýst nefnilega fyrst og fremst um velferð barna – að þau fái tækifæri til að öðlast móðurmálsfærni í tungumálinu sem er notað í samfélaginu í stað þess að vaxa upp án raunverulegs móðurmáls og vera dæmd til að detta út úr skólakerfinu og sitja föst í láglaunastörfum án þess að vera virkir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi. Slíkar aðstæður eru gróðrarstía fyrir stéttaskiptingu, lýðskrum, rasisma og hvers kyns fordóma.

Posted on Færðu inn athugasemd

Stafsetning og læsileiki texta

Það er enginn vafi á því að séríslenskir bókstafir hafa talsvert tákngildi í sjálfs­mynd Ís­lend­inga. En skipta þeir einhverju máli fyrir þróun tungumálsins? Stafir eru bara tákn – þeir eru ekki tungumálið sjálft. Það er samkomulagsatriði hvaða form við notum til að tákna hljóð málsins. Íslendingar – og íslenskan – komust vel af án ð í 400 ár. Á fyrstu árum netsins var ekki hægt að nota íslenska stafi þegar tölvupóstur var send­ur til útlanda. Þennan póst skrifaði ég t.d. snemma árs 1993:

Það var svo sem ekkert mál að venja sig á þetta. Flest lá tiltölulega beint við – maður skrifaði broddlausa stafi í stað broddstafa, d í stað ð, th eða bara t í stað þ, ae í stað æ og oe eða bara o í stað ö. Nú er oftast ekkert mál að nota íslensku í tölvupósti og yfir­leitt á netinu, en það er þó ekki alveg einhlítt. Íslensku stafirnir eru ekki heldur alltaf til taks í símum. En yfirleitt vefst ekkert fyrir manni að skrifa eða skilja texta án þeirra þótt vissulega geti komið upp vafamál í túlkun einstöku sinn­um. En þýðir þetta að íslensku stafirnir séu óþarfir, og við gætum losað okkur við þá án þess að það ylli nokkrum vandkvæðum? Það myndi vissulega leysa ýmis vandamál og koma í veg fyrir alls konar umstang og kostnað. En hefði það einhver áhrif á þróun málsins?

Það má halda því fram að stafsetning sé límið í íslenskri málsögu. Stafsetningin er íhaldssöm og eltir ekki ýmsar hljóðbreytingar sem verða í töluðu máli. Gott dæmi um þetta er broddur yfir sérhljóðstáknum sem táknaði langt hljóð í fornu máli eins og gert var ráð fyrir í tillögum Fyrsta málfræðingsins. Síðan hefur sérhljóðakerfi málsins breyst í grundvallaratriðum og brodduð og broddlaus sérhljóðstákn standa nú ekki lengur fyrir löng og stutt afbrigði sömu hljóða, heldur tvö ólík hljóð – brodd­uðu táknin oft fyrir tvíhljóð. Þetta truflar okkur ekkert og fæstir vita nokkuð af því; en það leiðir til þess að við getum lesið mörg hundruð ára gamla texta þótt sumir þættir tungumálsins hafi í raun gerbreyst.

Það er alþekkt að stafsetning getur haft veruleg áhrif á það hversu aðgengilegir textar eru fyrir almenning. Árið 1943 skrifaði Kristinn E. Andrésson grein í Tímarit Máls og menningar um lög þau sem Alþingi setti 1941 og bönnuðu að íslensk fornrit væru gefin út með annarri staf­setningu en „samræmdri stafsetningu fornri“. Kristinn sagði: „Engri erlendri þjóð dettur í hug að fylgja gamalli stafsetningu í nýjum útgáfum af klassiskum ritum fyrir almenning. Enskum útgefendum t.d. dettur ekki í hug að vera að fæla þjóð sína frá lestri á leikritum Shakespeares með því að prenta þau með úreltri stafsetningu.“

Í viðtali í Sunnudagsblaði Tímans 1966 var Árni Böðvarsson cand.mag. spurður hvort hann teldi að samræmd stafsetning forn fældi fólk frá lestri fornrita. Hann svaraði: „Það er ekkert efamál, að svo er. Ég tel, að öll slík rit, sem ætluð eru almenn­ingi, ættu að vera í búningi nútímamáls, að því er tekur til stafsetningar og orðmynda.“

En það þarf ekki að leita til fornsagna. Fyrir nokkrum árum sköpuðust talsverðar umræður um minnk­andi lestur á verkum Halldórs Laxness á Facebook-síðu Illuga Jökulssonar og bloggi Egils Helgasonar. Í þeim umræðum sagði útgefandi bókanna, Jóhann Páll Valdimarsson: „Lestur á verkum hans í skólum hefur skroppið mikið saman og við höfum gert könnun meðal kennara. Eitt af því sem ástæða er til að velta fyrir sér er hvort gefa eigi verk hans út með nútímastafsetningu fyrir skólana. Sú hugmynd fékk að vísu ekki mikinn stuðning meðal kennara og ég efast ekki um að mörgum þyki það helgispjöll en mín skoðun er sú að Laxness muni ekki lifa með nýjum kynslóðum nema stafsetning sé færð til nútímahorfs. Það hrökkva svo margir frá bókum hans vegna hennar.“

Nú hafa tvær af helstu skáldsögum Halldórs verið gefnar út með venjulegri stafsetningu til að auðvelda ungu fólki lesturinn. Þó er stafsetning Halldórs ekki svo verulega frábrugðin fyrirskipaðri skóla­stafsetn­ingu. Hann skrifar svokallaða „breiða sérhljóða“ á undan ng og nk í orðum eins og lángur, leingi, laung; hann skrifar ekki tvöfaldan samhljóða á undan sam­hljóða, í orðum eins og skemtun, trygð, alt; og hann skrifar í einu orði ýmis sambönd sem eiga að vera í tvennu lagi samkvæmt stafsetningarreglum, s.s. einsog, uppá. Fáein atriði til viðbótar má tína til, en munurinn er sannast sagna ekki ýkja mikill. Ef hann nægir þrátt fyrir það til að fæla marga lesendur frá er auðvelt að ímynda sér að brottfall íslenskra stafa, þar með talinna broddstafa, hefði gífurleg áhrif.

Í umfjöllun Morgunblaðsins um „Tyrkjarán hið nýja“ 1992 var m.a. rætt við Baldur Jónsson prófessor sem þá var forstöðumaður Íslenskrar málstöðvar. Þar segist Baldur óttast „að einhverjir landar okkar leggi til að stafirnir verði felldir úr íslensku máli þar sem það taki því ekki að leggja í kostnaðarsamar breytingar. „Slíkt myndi hreinlega um­turna ásýnd íslensks ritmáls og smám saman gera okkur erfitt fyrir um lestur rita sem nú þegar hafa verið gefin út. Næsta skref gæti svo allt eins orðið tillaga um að leggja málið niður.“.“

Eins og áður segir er í sjálfu sér ekkert vandamál að láta bókstafi enska stafrófsins duga til að skrifa íslensku. Út af fyrir sig myndi það ekki breyta tungumálinu sjálfu – aðeins táknun þess og yfirbragði. En þetta myndi það leiða til þess að allir íslenskir textar fram að þeim tíma, allt frá fornmáli til 21. aldar, yrðu meira og minna óað­gengi­legir fyrir þá sem ælust upp við hina nýju stafsetningu. Þetta hefði ófyrirsjáanleg áhrif á íslenska menningu og ryfi samhengið í íslenskri málsögu, en stafsetning er límið í henni eins og áður segir. Það má búast við því að róttækar breytingar yrðu á tungumálinu í kjölfar slíks rofs. Erum við tilbúin að taka þá áhættu?

Posted on Færðu inn athugasemd

Íslenskir stafir og sjálfsmynd Íslendinga

Það má færa rök að því að séríslenskir stafir hafi orðið að einhvers konar tákni fyrir sjálfs­mynd Íslendinga. Um það má nefna fáein greini­leg dæmi frá seinni árum, en dæmin eru örugg­lega mun fleiri.

Þegar Mímir, félag stúdenta í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands, hóf útgáfu sam­nefnds tíma­rits 1962, voru stafirnir þ og ð látnir mynda forsíðumynd ritsins. Þessi forsíða var notuð í 10 ár, og þegar skipt var um forsíðumynd var sú nýja einnig byggð á þ og ð og notuð í 14 ár, til 1986. Í fyrsta blaðinu stendur á bls. 2: „Kápu og vinnu­teikningar gerði Hallgrímur Tryggva­son“ sem var prentari í Prentsmiðju Jóns Helga­sonar þar sem blaðið var prentað og virðist oft hafa séð um umbrot og hönnun. Þegar skipt er um forsíðumynd 1972 stendur að forsíðuteikninguna hafi gert „Baldvin Björns­son, teiknari, af smekkvísi“. Í hvorugt skiptið er forsíðan skýrð nokkuð nánar. Hvaðan skyldi hugmyndin að forsíðunni hafa komið? Var þetta hugmynd frá ritstjórn blaðsins, eða hugmynd Hallgríms prentara? Hvort sem heldur var er augljóst að þessir bókstafir þóttu eiga vel við á forsíðu blaðs íslenskunema.

Kringum 1990 stóð mikið stríð um að halda íslenskum stöfum í alþjóðlegum stafa­töflum. Þar skipti mestu máli staðall sem nefnist ISO 8859-1 Latin 1, sem átti að hafa að geyma alla stafi sem notaðir eru í vesturevrópskum tungumálum. Íslenskir stafir höfðu komist inn í þessa töflu 1987 en 1992 var verið að víkka hana út og þá lögðu fulltrúar Tyrkja hjá Alþjóða staðlaráðinu (International Standard Organization, ISO) fram tillögu um að stafirnir þð og ý yrðu felldir brott úr töflunni en tyrkneskir stafir settir í staðinn. Um þetta varð mikil umræða á Íslandi og m.a. beitti Jón Baldvin Hanni­balsson utanríkisráðherra sér fyrir því á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins að íslenskum stöfum yrði haldið inni. Talað var um tillögu Tyrkja sem „Tyrkjarán hið síðara“ og sagt að hún væri „alvarleg atlaga að íslensku máli og menningu“. Á teikningu sem birtist með frétt um málið í Morgunblaðinu má sjá víking halda á þ.

Árið 2000 setti þáverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, af stað svonefnt tungu­tækni­átak, sem ætlað var til að gera íslensku gjaldgenga í tölvuheiminum. Átak­inu var stýrt af sérstakri verkefnisstjórn og komið var upp vefsíðu og sérstöku merki fyrir það. Á þessum tíma var mikið rætt um vanda við notkun séríslenskra stafa í tölv­um og farsímum og kannski hefur það haft áhrif á það hvernig merkið varð – bókstaf­ur­inn ð. A.m.k. er ljóst að merkið á að höfða til þessarar sérstöðu íslenskunnar og mikil­vægis þess fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar að hún sé virt.

Það er ekkert auðvelt að myndgera tungumál. Teiknarar eða hönnuðir sem fá það verkefni að hanna kápu á bók um íslensku, eða merki stofnunar eða verkefnis á sviði íslensku, eru ekki öfundsverðir. En þessi dæmi sýna að séríslensku bókstafirnir þ og ð nýtast stundum í þessum tilgangi. Og eins og kunnugt er hefur nýlega verið skrifuð heil bók um ð; ð ævisaga.