Posted on Færðu inn athugasemd

Jón

Jón er algengasta karlmannsnafn málsins að fornu og nýju. Þetta er biblíunafn, komið af Jóhannes – eitt fjölmargra nafna sem komu inn í málið með kristninni. Fyrsti Íslendingurinn sem bar þetta nafn svo að vitað sé var Jón Ögmundsson Hólabiskup sem var fæddur um miðja 11. öld, þannig að nafnið hefur verið í málinu í þúsund ár. Samt sem áður hefur það ekki lagað sig að fullu að hljóðkerfi og beygingakerfi málsins. Það hefur sem sé enga nefnifallsendingu, eins og karlkynsorð með þessa stofngerð hafa annars, eins og sjá má á orðunum prjónn, spónn, þjónn, sónn, tónn. Tvö þau síðastnefndu eru tökuorð sem koma fyrir án nefnifallsendingar í elstu heimildum, í myndunum són og tón, en bættu fljótlega við sig endingu.

Það hefði því mátt búast við að Jón yrði *Jónn, en svo varð ekki, þrátt fyrir tíðni nafnsins – eða kannski einmitt vegna hennar. Það er alþekkt að algengustu orð málsins komast miklu frekar en önnur upp með ýmiss konar óregluleik í beygingu. Þetta má t.d. sjá á persónufornöfnum og ábendingarfornöfnum, á orðinu maður, á lýsingarorðum eins og margur, mikill, lítill, á sterkum sögnum, o.fl. Ástæðan er væntanlega sú að við lærum þessi orð svo snemma og heyrum þau svo oft að hinar óreglulegu myndir greypast í minnið – við þurfum aldrei að beita almennum reglum til að reikna beyginguna út. Óregluleg beyging á hins vegar í vök að verjast í sjaldgæfari orðum eins og ær og kýr – þar höfum við tilhneigingu til að beita almennum reglum.

En þótt Jón hafi ekki aðlagast málkerfinu þrátt fyrir langa sögu í málinu gegnir öðru máli um nýrri orð með sömu stofngerð. Árið 1879 birti Þjóðólfur grein um hugvitsmanninn Edison og helstu uppfinningar hans. „Meðal þeirra eru merkastar: telefóninn, fónografinn og míkrofóninn.“ Þarna eru orðin telefón og míkrófón án nefnifallsendingar, og sama gildir um þau örfáu dæmi um telefón sem sáust á prenti næstu 20 árin. En árið 1900 birtist fyrsta dæmi um nefnifallsmyndina telefónn, og sú mynd festist fljótt í sessi – míkrófónn er miklu sjaldgæfara orð og sú mynd sést ekki fyrr en 1927. Nefnifallsmyndin grammófón sést fyrst 1906, en myndin grammófónn birtist 10 árum síðar. Öll þessi orð, telefónn, grammófónn og míkrófónn, laga sig því að íslensku málkerfi á mjög stuttum tíma – öfugt við Jón.

Það er þekkt að nöfn lúta oft sérstökum lögmálum og haga sér ekki endilega eins og önnur orð í málinu. Það birtist greinilega í því að Jón hefur ekki lagað sig fullkomlega að málkerfinu á þúsund árum, þótt tíðni nafnsins geti einnig spilað þar inn í eins og áður segir. En vegna þess að nöfn eru þannig afmarkaður hluti orðaforðans þarf hegðun þeirra ekki endilega að hafa áhrif á hegðun annarra orða. Þótt algengasta karlmannsnafn málsins væri óaðlagað öldum saman kom það ekki í veg fyrir að ný orð með sömu stofngerð löguðu sig að málkerfinu á fáum árum. Þetta bendir til þess að ótti margra við óheft innstreymi erlendra mannanafna sé ástæðulaus – það sé engin ástæða til að ætla að erlend nöfn, jafnvel þótt þau lagi sig ekki að íslensku málkerfi, hafi áhrif út fyrir nafnaforðann, út í almennan orðaforða.

Posted on Færðu inn athugasemd

-ingur

Viðskeytið -ingur, sem oft er notað til að mynda íbúaheiti sem leidd eru af staðanöfnum, er dálítið skemmtilegt. Oft er því nefnilega ekki bætt beint við stofn staðaheitisins sem um er að ræða, heldur heimtar það að heitinu sé breytt á ákveðinn hátt. Þetta þekkjum við auðvitað vel. Þannig verður Reykjavík + ingur ekki *Reykjavíkingur, heldur Reykvíkingur; Hafnarfjörður + ingur verður ekki *Hafnarfrðingur, heldur Hafnfirðingur; Bolungarvík + ingur verður ekki *Bolungarvíkingur, heldur Bolvíkingur; Sauðárkrókur + ingur verður ekki *Sauðárkrókingur, heldur Sauðkrækingur; Selfoss + ingur verður ekki *Selfossingur, heldur Selfyssingur; og svo mætti lengi telja.

Í þessum dæmum koma fram tveir helstu fylgifiskar viðskeytisins -ingur. Annars vegar er það krafan um styttingu grunnorðsins – það má yfirleitt ekki vera meira en tvö atkvæði. Ef það er lengra er það oftast stytt. Það sem er klippt brott er oftast beygingarending, eins og -ja- í Reykjavík, -ar- í Hafnarfjörð-; en stundum eitthvað meira, eins og -ár- í Sauðárkrókur og -ung-ar- í Bolungarvík. Stundum fær þó grunnorðið að vera meira en tvö atkvæði, eins og t.d. Ólafsfirðingur, Þistilfirðingur, Jökuldælingur – þessi orð verða ekki *Ólfirðingur, *Þistfirðingur, *Jökdælingur. Hugsanlega er það vegna þess að aðeins sé hægt að klippa burt ákveðna orðhluta og málnotendur skynji ekki -afs-, -il- og -ul- sem afmarkaða hluta orðanna.

Þurfi að stytta grunnorðið er það venjulega gert með því að klippa innan úr því – upphaf þess og endir haldast yfirleitt eins og dæmin hér að framan sýna. Það er þó ekki algilt. Þannig verður Snæfellsnes + ingur ekki *Snænesingur, heldur SnæfellingurÞingeyjarsýsla + ingur verður ekki *Þingsýslingur, heldur ÞingeyingurRangárvallasýsla + ingur verður ekki *Rangsýslingur, heldur Rangæingur. Hins vegar er til Rangvellingur, en það er af Rangárvellir. En svo verður að gæta þess að -ingur-orðin geta verið leidd af öðrum grunnorðum en lítur út fyrir í fljótu bragði. Þótt Mosfellingur merki núna ‘íbúi í/frá Mosfellsbæ’ er orðið upphaflega leitt af Mosfelli í Grímsnesi.

Hitt megineinkenni þessarar orðmyndunar er sérhljóðabreyting í grunnorðinu – > i í Hafnfirðingur, o > y (i) í Selfyssingur, ó > æ í Sauðkrækingur o.fl. Þessi hljóðbreyting er ættuð frá svonefndu i-hljóðvarpi sem var virk hljóðregla á samgermönskum tíma og hefur skilið eftir sig ýmsar menjar í beygingum og orðmyndun. Það er þó ekki alltaf augljóst hvernig eigi að beita i-hljóðvarpi í orðmyndun, t.d. í orðum sem enda á -vogurKópavogur, Djúpivogur o.fl. Ein leið er að hafa sérhljóðið óbreytt – segja Kópvogingur og Djúpvogingur. Þetta virðist þó ekki vera algengt. Hins vegar bregður myndunum Kópvægingur og Djúpvægingur einnig fyrir. Það byggist á því að -vo- er komið af -vá- í fornu máli, og æ er i-hljóðvarpshljóð af á.

Orðið Akurnesingur hefur oft valdið fólki heilabrotum. Það brýtur regluna um að grunnorðið sé ekki meira en tvö atkvæði, og þar að auki lítur það út fyrir að vera myndað af Akurnes, ekki Akranes. Á þessu er málsöguleg skýring. Í fornu máli voru ýmsir samhljóðaklasar sem enda á r leyfilegir – orð eins og maður, hestur, akur o.m.fl. voru maðr, hestr, akr. Þegar -ingur var bætt við Akranes kom þá ekki út *Akranesingr heldur Akrnesingra-ið var fellt brott vegna kröfunnar um styttingu grunnorðs í tvö atkvæði. En seinna breyttust hljóðskipunarreglur málsins þannig að margir samhljóðaklasar með r gengu ekki lengur, heldur var skotið inn u til að brjóta þá upp – maðr varð maður, hestr varð hestur, akr varð akur – og Akrnesingr varð Akurnesingur.

Posted on Færðu inn athugasemd

Tungumál á Íslandi

Það á aldrei að vera sjálfgefið að nota annað tungumál en íslensku á Íslandi – og íslenskt táknmál, ef því er að skipta. Ef okkur finnst sjálfsagt að geta ekki notað íslensku við einhverjar aðstæður er hætt við að við verðum andvaralaus gagnvart því að umdæmi málsins minnki smátt og smátt þangað til ekki verður aftur snúið. Þess vegna eigum við að ætlast til og gera ráð fyrir að hægt sé að nota íslenskuna alls staðar, en jafnframt verðum við að vera raunsæ og átta okkur á því að vegna smæðar málsamfélagsins og ýmissa ytri aðstæðna verður stundum að gefa afslátt af þeirri kröfu. En meginatriðið er að vinna að því með öllu móti að gera íslenskuna gjaldgenga á öllum sviðum.

Það er ekkert óeðlilegt að vænta þess að fólk sem flyst hingað til að búa hér um ófyrirsjáanlega framtíð læri íslensku – og ég held að það vilji það flest. Það er ekki síst mikilvægt fyrir fólkið sjálft til að það geti tekið fullan þátt í þjóðfélaginu, eigi auðveldara með að fá vinnu og verði hluti af samfélaginu. En við megum ekki gera óraunhæfar kröfur til fólksins um fullkomna íslensku, og t.d. ekki dæma fólk sem hefur búið hér um árabil þótt það tali ekki íslensku þegar það kemur fram í fjölmiðlum. Litháísk kona sem býr hér og talar alveg ágæta íslensku (ég hef talað við hana) hefur lýst því að nokkrum sinnum hafi verið tekin viðtöl við hana en ekki birt af því að hún þótti ekki tala nógu góða íslensku.

Það getur verið málefnalegt og eðlilegt að gera kröfu um íslenskukunnáttu við ráðningu í ýmis störf, t.d. þjónustustörf. Íslenska er opinbert mál á Íslandi og fólk á að geta notað hana í samskiptum við starfsfólk í verslunum, á veitingahúsum og víðar. En það þýðir alls ekki íslenskan þurfi að vera fullkomin. Það er allt í lagi að starfsfólkið tali með erlendum hreim, beygi skakkt og orðaforðinn sé takmarkaður, svo framarlega sem kunnáttan dugir því til að gera sig skiljanlegt við dæmigerðar aðstæður í starfinu. Og vitanlega á að meta kunnáttu fólksins í hvert skipti en ekki hafna sjálfkrafa og fyrir fram öllum sem heita framandi nafni eða líta ekki út eins og dæmigerður Íslendingur.

Það er ekki endilega sanngjarnt að vísa til þess að í ýmsum tilteknum löndum fái fólk ekki vinnu nema tala tungumál landsins og ætlast til að sama gildi hér. Fæstir þeirra útlendinga sem hingað koma hafa lært eitthvað í íslensku, og margir þeirra tala mál sem eru fjarskyld íslenskunni og ólík henni. Þótt íslenska sé ekki erfiðara mál en gengur og gerist, öfugt við það sem oft er haldið fram, skipta skyldleiki og líkindi við tungumál málnemans miklu máli í tungumálanámi. Það er miklu auðveldara að gera áðurnefnda kröfu um tungumálakunnáttu í fjölmennari löndum vegna þess að fólk sem þangað kemur er margfalt líklegra til að hafa lært eitthvað í tungumáli þeirra landa – eða tala mál sem er skylt málinu sem þar er talað.

Þetta er mjög viðkvæmt mál sem hefur margar hliðar. Við þurfum að gæta tungumálsins – staða málsins veikist ef aðstæður þar sem íslenska er ekki nothæf verða fjölbreyttari, og ef þeim fjölgar sem finnst eðlilegt að geta ekki notað íslensku við ýmsar aðstæður. Við þurfum að gæta réttinda málhafanna – það eru til margir Íslendingar af eldri kynslóðinni sem treysta sér ekki til að hafa samskipti við aðra á ensku og það þarf að taka tillit til þeirra. Við þurfum að gæta réttinda starfsfólks sem ekki talar íslensku – það hefur verið ráðið í vinnu án þess að gerð hafi verið krafa um íslenskukunnáttu og pirringur viðskiptavina yfir að geta ekki notað íslensku má ekki bitna á því.

Mál af þessu tagi verður að vera hægt að leysa án þess að íslenskan sé alltaf víkjandi, en jafnframt án þess að brotið sé á rétti fólks eða það haft afskipt. Og það á að vera hægt, ef hafðar eru í heiðri grundvallarreglur í mannlegum samskiptum – umburðarlyndi, tillitssemi, sveigjanleiki, og virðing fyrir öðru fólki.

Posted on Færðu inn athugasemd

Börn og samtöl

Seinnipartinn í dag röltum við hjónin niður í bæ og litum inn á listsýningu. Á heimleiðinni stungum við okkur inn á veitingahús og fengum okkur léttvínsglas. Á næsta borði voru hjón með barn, á að giska þriggja eða fjögurra ára gamalt. Allan tímann sem við sátum þarna og sötruðum úr glösunum okkar var barnið með síma í höndunum og horfði sem dáleitt á skjáinn án þess að segja orð – og ég varð ekki heldur var við að foreldrarnir yrtu á það.a

Ég get alveg skilið fólk sem fer með ung börn út í búð á annatíma, þreytt að loknum vinnudegi, og réttir börnunum síma til að hafa frið meðan það verslar. En öðru máli gegnir ef maður fer á kaffihús síðdegis á laugardegi. Þá ætti að vera hægt að slappa af og einmitt upplagt að nota tækifærið til að spjalla við barnið. Ég held að ung börn kunni yfirleitt að meta að þeim sé sýndur áhugi og séu til í að tala við foreldra sína.

Ég er ekki að amast við símanotkun ungra barna út af fyrir sig. Það eru skiptar skoðanir um hana og áhrif hennar og ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu að svo stöddu. Ég er ekki að halda því fram að allt hefði verið miklu betra áður og foreldrar sífellt verið að tala við börn sín. Það var auðvitað upp og ofan eins og nú. Ég er eingöngu að minna á mikilvægi samtalsins fyrir máltöku og málþroska – að talað sé við börn og þeim gefinn kostur á að hlusta á samtöl og taka þátt í þeim.

Ýmsar rannsóknir sýna að ekkert skiptir meira máli fyrir málþroska barna en samtöl við fullorðið fólk. Jafnframt er alltaf að koma betur og betur í ljós að góður málþroski skiptir máli fyrir allan annan þroska – félagsþroska, tilfinningagreind, og jafnvel verkgreind. Þess vegna er mikilvægt að foreldrar noti allan þann tíma sem mögulegt er til að tala við börnin sín og freistist ekki til að nota síma eða tölvu til að kaupa sér frið nema það sé alveg nauðsynlegt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Við berum ábyrgð

Nýlega spruttu miklar umræður á ýmsum miðlum af grein sem birtist á Vísi um mikilvægi þess að læra mál landsins sem maður býr í. Þetta er ekki einfalt mál og fólk er fljótt að fara í skotgrafir í þessari umræðu. Íslenska er opinbert mál þjóðarinnar og það er ekkert óeðlilegt að vilja geta notað hana alls staðar á Íslandi. Ef okkur finnst ekkert athugavert við að íslenska sé víkjandi eða ónothæf við ýmsar aðstæður á Íslandi má búast við að við gerum ekkert í málinu og umdæmi íslenskunnar haldi áfram að skerðast. Það má ekki heldur gleyma því að því fer fjarri að allir Íslendingar tali ensku reiprennandi þótt það sé oft látið í veðri vaka. Það er eðlilegt að því fólki mislíki að geta ekki fengið þjónustu á íslensku og finnist það jafnvel utangátta í eigin landi.

Hins vegar skiptir öllu að kröfunni um að geta notað íslensku á öllum sviðum sé beint í rétta átt – að okkur sjálfum. Það erum við sem höfum ekki getað mannað ýmis láglaunastörf með innlendu vinnuafli og verðum því að fá fólk til landsins til að vinna þau störf. Það erum við sem stöndum okkur ekki nógu vel í því að semja hentugt kennsluefni í íslensku fyrir útlendinga. Það erum við sem bjóðum ekki upp á ókeypis íslenskunámskeið á vinnustöðum og víðar. Það erum við sem gefum fólki ekki tækifæri til að læra íslensku í vinnutímanum. Það erum við sem skiptum alltof oft yfir í ensku ef viðmælandinn talar ekki fullkomna íslensku. Það erum við sem látum ergelsi okkar yfir því að geta ekki notað íslensku alls staðar bitna á fólki sem ekkert hefur til saka unnið – annað en tala ekki fullkomna íslensku.

Það er skiljanlegt að fólk sem kemur hingað til að vinna í skamman tíma hafi lítinn áhuga á því að setjast við að loknum löngum vinnudegi á lágmarkslaunum að læra tungumál sem er því oft mjög framandi – og borga stórfé fyrir. Ég hef hins vegar trú á því að fólk sem flytur hingað og ætlar sér að vera á Íslandi til frambúðar hafi undantekningarlítið fullan vilja til að læra málið – og leggi sig fram um það. En við þurfum að búa því betri aðstæður til þess, og vera þolinmóðari gagnvart ófullkominni íslensku.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fyrir bak við

Samböndin fyrir aftan, aftan við og (á) bak við er öll hægt að nota til að tjá sömu merkingu, þótt merking sambandanna falli ekki alveg saman og stundum eigi eitt þeirra við en hin ekki.  Í umræðu um nýju forsetninguna hliðiná kom fram að fólk, a.m.k. börn og unglingar, væri farið að segja fyrir bak við í stað fyrir aftan eða (á) bak við. Ég kannaðist ekki við þetta en gúgl skilaði mér fáeinum dæmum – þeim elstu frá 2005, þannig að þetta er ekki alveg nýtt. Þessi elstu dæmi eru annars vegar í bloggi pilts á framhaldsskólaaldri og hins vegar höfð eftir börnum innan við 10 ára aldur. Ef þetta hefur haldist í máli þessa fólks mætti því búast við að þess væri farið að gæta hjá fullorðnu fólki núna og komast á prent. Á tímarit.is fann ég tvö dæmi, það eldra frá 2013, og í Risamálheildinni fimm til viðbótar, það elsta frá 2010.

Með gúgli fann ég dæmi um eitt afbrigði enn – fyrir aftan við. Um það er eitt dæmi frá 1966 á tímarit.is en líklega er eðlilegt að líta á það sem villu. Næsta dæmi er frá 2008, og örfá svo eftir það. Hin þekktu og viðurkenndu orðasambönd fyrir aftan, aftan við og bak við hafa sem sé getið af sér tvö ný – fyrir aftan við og fyrir bak við. Það síðarnefnda virðist vera töluvert notað, a.m.k. meðal ungs fólks, en ég veit ekki um hitt. Það er í sjálfu sér mjög eðlilegt að þessi sambönd blandist saman – fyrst hægt er að segja bæði fyrir aftan og aftan við í sömu merkingu, hvers vegna skyldi þá ekki vera hægt að segja fyrir aftan við? Og fyrst hægt er að segja fyrir aftan og bak við í sömu merkingu, hvers vegna skyldi þá ekki vera hægt að segja fyrir bak við? Það er svona eins og vera bæði með belti og axlabönd.

Ég hélt fyrst að fyrir bak við væri eingöngu hægt að nota þar sem bæði bak við og fyrir aftan gætu gengið. Ég rakst hins vegar á dæmið „Fólkið sem stendur fyrir bakvið …“ í merkingunni  ‘stendur að’, og í þeirri merkingu er eingöngu hægt að nota (á) bak við, ekki fyrir aftan. Það væri fróðlegt að vita hvort einnig er hægt að nota fyrir bak við þar sem aðeins fyrir aftan en ekki bak við kemur til greina. Það væru t.d. setningar eins og hann stóð næst fyrir aftan mig í röðinni þar sem ekki væri hægt að segja *hann stóð næst bak við mig í röðinni. Ég hef ekki fundið nein dæmi um fyrir bak við í slíkri stöðu, en dæmin um sambandið eru svo fá að það er ekki hægt að draga neinar ályktanir af því að þetta hafi ekki fundist.

Hvað á að segja um fyrir bak við (og fyrir aftan við)? Þetta eru auðvitað óþörf orðasambönd, í þeim skilningi að við höfum í málinu sambönd sem þjóna sama hlutverki og eru auk þess styttri. Þessi sambönd víkja líka frá málhefð sem alla jafna er æskilegt að halda sig við. Ef ég ætti börn á máltökuskeiði myndi ég sjálfsagt reyna að hafa hefðbundnu samböndin fyrir þeim í þeirri (veiku) von að þau legðu fyrir bak við af – og ef ég væri kennari myndi ég gera athugasemd við fyrir bak við í skrifum nemenda, nema ég væri orðinn sannfærður um að þetta væri orðið mjög útbreitt og á sigurbraut. Hins vegar eru þetta ekki stórfelld málspjöll og engin ástæða til að láta það raska ró sinni eða draga athygli og tíma frá því sem meira máli skiptir.

Posted on Færðu inn athugasemd

Kafklæddur

Nýlega rakst ég á orðið kafklæddur á Facebook. Þetta orð hafði ég aldrei séð áður en það var greinilega notað í sömu merkingu og kappklæddur sem er vel þekkt orð þótt það sé ekki ýkja algengt (um 78 þúsund orð eru algengari en það samkvæmt Orðtíðnivef Árnastofnunar). Ég þóttist viss um að þessi mynd stafaði af misskilningi sem rekja mætti til framburðar – það þarf ekki að vera ýkja mikill munur á kappklæddur og kafklæddur í framburði. Tvíritað pp er borið fram með svokölluðum aðblæstri, þ.e. hp, og þegar samhljóð kemur á eftir því hljóðasambandi getur það nálgast f í framburði. Orð eins og kappsfullur og kappsmál eru iðulega borin fram eins og þau væru rituð kafsfullur og kafsmál. Þetta gerist vissulega helst á undan s, en getur einnig gerst á undan öðrum samhljóðum og samhljóðaklösum.

Þetta væri þá hliðstætt því sem gerist þegar afbrýðisamur verður afbrigði(s)samur, reiprennandi verður reiðbrennandi, og fyrst að verður víst að. Eðlilegur framburður upphaflega afbrigðisins í samfelldu tali er þannig að það er hægt að túlka hann á fleiri en einn veg, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða orð sem eru ekki sérlega gagnsæ og eru því viðkvæmari fyrir breytingum en ella. Vel má vera að mismunandi skilningur á þessum orðum sé gamall í málsamfélaginu þótt hann hafi ekki komið í ljós fyrr en á síðustu árum. Vegna þess hve framburðarmunurinn er lítill tökum við ekki eftir því hvort viðmælandi okkar segir t.d. afbrýðisamur eða afbrigðissamur, en þetta kemur auðvitað í ljós þegar farið er að skrifa orðið. Nú sjáum við miklu meira af óyfirlesnum textum frá fólki sem er ekki vant að skrifa.

Ég þóttist sem sé viss um að kafklæddur væri misskilin orðmynd sem stafaði af því að framburður orðsins kappklæddur hefði verið ranglega túlkaður. En málið reyndist ekki alveg svo einfalt. Það kom nefnilega í ljós að myndin kafklæddur er ekki einsdæmi og ekki ný – elsta dæmi sem ég fann um hana er í Fjallkonunni frá 1893, þar sem segir „Á sama hátt eru börnin kafklædd inni“. Það er ljóst að merkingin er þarna sú sama og í kappklæddur. Samtals eru sex dæmi um kafklæddur á tímarit.is, það yngsta frá 1946. Auk þess fann ég dæmi úr tveimur skáldsögum eftir viðurkennda rithöfunda – Leysingu eftir Jón Trausta frá 1907 og Systrunum eftir Guðrúnu Lárusdóttur frá 1938. Elsta dæmi um kappklæddur á tímarit.is er frá 1862, og fram um 1940 eru dæmi um orðið sárafá – litlu fleiri en um kafklæddur. Hvorugt orðið kemur fyrir í orðabók Blöndals 1920-24.

Þessar myndir, kappklæddur og kafklæddur, virðast því koma upp um svipað leyti á seinni hluta 19. aldar – þótt elsta dæmið um þá fyrrnefndu sé 30 árum eldra er hæpið að leggja mikið upp úr því vegna þess hve dæmin eru fá. Ég veit ekkert um uppruna orðanna og verð bara að giska. Hvorug myndin er sérlega gagnsæ, en ef fólk reynir að skilja þær má ímynda sér að hugsunin á bak við kappklæddur sé ‘klæddur af kappi‘, þ.e. ákafa, eða eitthvað slíkt; kafklæddur sé aftur á móti ‘klæddur í kaf‘, þ.e. á kafi í fötum. Væntanlega hefur önnur þessara mynda orðið til fyrst en vegna þess að hún var ekki mjög gagnsæ, og framburðurinn bauð upp á aðra túlkun, skildu einhverjir málnotendur orðið á hinn veginn og því komu upp tvímyndir. Líklegra er að framburður á kappklæddur leiði til ritmyndarinnar kafklæddur en öfugt.

Hvernig sem upprunanum er varið er ljóst að með tímanum varð kappklæddur ofan á og kafklæddur hvarf úr rituðu máli – þangað til núna, þegar orðið dúkkar allt í einu upp á Facebook 75 árum eftir að það sást síðast á prenti svo að ég viti. Hvernig á að túlka það? Hér kemur tvennt til greina. Annar möguleikinn er sá sem ég nefndi í upphafi – að um sé að ræða misskilning þess sem setti orðið á Facebook á framburði orðsins kappklæddur. Hinn möguleikinn er að sá sem notaði orðið á Facebook hafi ekki misskilið neitt, heldur notað orðið eins og hann lærði það – myndin kafklæddur hafi sem sé lifað í málinu frá því á 19. öld þótt hún hafi ekki komist á prent í marga áratugi. Fróðlegt væri að vita hvort lesendur þekkja þessa mynd.

Posted on Færðu inn athugasemd

Merking orðasambanda

Þegar farið er að raða orðum saman í setningar er meginreglan sú að merkingin er leidd beint af merkingu orðanna og venslum þeirra. Við lærum merkingu einstakra orða en setningar eru margfalt kvikari en einstök orð og þess vegna lærum við yfirleitt ekki merkingu þeirra í heild, heldur ráðum hana af merkingu eininganna sem mynda þær – orðanna. Frá þessu eru þó fjölmargar og vel þekktar undantekningar. Málshættir og orðtök eru t.d. þess eðlis að heildin hefur ákveðna merkingu, en einstök orð eru ekki skilin bókstaflega. Ef merking allra setninga og orðasambanda ákvarðaðist af merkingu orðanna í setningunni eða orðasambandinu þyrfti vitanlega ekki að semja heilu bækurnar til að skýra málshætti og orðtök. En sama máli gegnir um ýmis önnur föst orðasambönd. Við þurfum t.d. ekkert að vita hvað takteinn merkir, eða hvort það merkir eitthvað yfirleitt, til að skilja sambandið hafa á takteinum – við lærum merkingu sambandsins sem heildar.

Þetta er líka áberandi með fjölda sagnasambanda, eins og sést á því að mörg slík sambönd eru skýrð sérstaklega í orðabókum. Þetta á einkum við sambönd með sögnum almennrar merkingar eins og hafataka, gera o.fl. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru t.d. talin 15 sambönd gera með forsetningum og atviksorðum (ögnum), og þessi 15 sambönd hafa 28 mismunandi merkingar. Þar má nefna samböndin gera við og gera upp sem geta komið fyrir í svipuðu samhengi en merkja ekki það sama – ég gerði við bílinn er annað en ég gerði upp bílinn/gerði bílinn upp. Orðin gera, við og upp hafa öll ákveðna grunnmerkingu, hvert fyrir sig, en það er útilokað að segja að við í sambandinu gera við hafi sömu merkingu og forsetningin við – eða upp í sambandinu gera upp hafi sömu merkingu og atviksorðið upp. Samböndin gera við og gera upp hafa hvort sína merkingu, en það er sambandið sem heild sem hefur hana – ekki einstakar einingar þess.

Þess vegna er ekkert „órökrétt“ eða „rangt“ við að ekki ósjaldan merki það sama og ósjaldan – eða óhjákvæmilegt annað en merki það sama og óhjákvæmilegt. Í báðum tilvikum er um að ræða orðasambönd þar sem hefð hefur skapast fyrir ákveðinni merkingu sem vissulega er í andstöðu við þá merkingu sem fæst út ef merking einstakra hluta sambandsins er lögð saman. En það skiptir bara engu máli. Orð og orðasambönd hafa þá merkingu sem málsamfélagið gefur þeim. Í þessum tilvikum er enginn vafi á því hver hún er.

Posted on Færðu inn athugasemd

Órökrétt orð

Venjulega er sagt að hægt sé að brjóta orðin upp í byggingareiningar, myndön, sem hafi afmarkaða merkingu hver fyrir sig. Oft virðist þetta vera rétt – það er enginn vandi að skipta orði eins og snjóhús niður í snjó+hús og tengja fyrri hlutann við nafnorðið snjór og þann seinni við nafnorðið hús, og segja að merking orðsins sé leidd beint af merkingu orðhlutanna – þetta er eins konar hús gert úr snjó. Við getum líka tekið orðið eldhús og skipt því niður í eld+hús, og tengt fyrri liðinn við nafnorðið eldur og þann seinni við nafnorðið hús. En yfirleitt er enginn eldur í eldhúsum núorðið, og þar að auki er eldhús herbergi, hluti húss, en ekki sjálfstætt hús. Hér er ljóst hverjar byggingareiningar orðsins eru, en merking þess ræðst ekki af merkingu þeirra.

Þegar að er gáð er þetta regla frekar en undantekning. Það má líkja orðasmíði við frjóvgun. Þótt foreldrarnir leggi til hráefnið öðlast afkvæmið sjálfstætt líf og verður smátt og smátt óháðara foreldrunum. Orð sem eru gagnsæ í upphafi þróast þegar farið er að nota þau og tengslin við upprunann geta dofnað af ýmsum ástæðum, t.d. þjóðfélags- og tæknibreytingum. Í upphafi var eldhús t.d. iðulega sjálfstætt hús þar sem eldur brann. Orðið mús í merkingunni ‘stjórntæki tölvu’ er upphaflega líking, þegin úr ensku – auðskilin vegna stærðar og lögunar tækisins og ekki síst snúrunnar – skottsins. En nú er músin iðulega þráðlaus og jafnvel talað um svæði á lyklaborðinu sem mús – af því að það hefur sama hlutverk. Þar er líkingin fokin út í veður og vind, tengslin við upprunann rofin, en merkingin helst.

Stundum kemur upp innbyrðis ósamræmi milli orðhluta. Orðið glas merkir upphaflega ‘gler, glerílát’ en sú merking hefur dofnað í huga málnotenda þannig að nú finnst okkur ekkert athugavert við að tala um plastglas – eða glerglas, þar sem sama merkingin er í raun tvítekin. Fleirtöluorðið gleraugu hefur verið í málinu frá 17. öld og er gagnsæ orðmyndun – þetta eru eins konar augu úr gleri. En nú á tímum er ekki alltaf gler í gleraugum, heldur stundum plast, og því verður til orðið plastgleraugu sem eru með plastglerjum. Vitanlega er plastgleraugu undarlegt orð ef einstakir hlutar þess eru túlkaðir bókstaflega, en það gerum við ekki í venjulegri notkun, heldur skynjum orðið gleraugu sem heiti á tilteknu fyrirbæri, óháð efni sem í þau er notað.

Þessi dæmi sýna að það getur verið varasamt að nota merkingu einstakra orðhluta sem rök fyrir því að orð sé ranglega notað. Þetta á t.d. við um ýmsar lausar samsetningar þar sem fólk deilir um hvort eigi að nota eignarfall eintölu eða fleirtölu í fyrri lið. Það er engin fleirtölumerking í fyrri lið orðsins mánaðamót frekar en í nautakjöt eða lambalæri – en það er ekki heldur nein eintölumerking í fyrri lið myndarinnar mánaðarmót frekar en í rækjusamloka og perutré. Það er ekki heldur neinn vafi á því að myndirnar mánaðamót og mánaðarmót eru notaðar í sömu merkingu. Ef á að velja milli þeirra verður það val því að byggjast á einhverju öðru en merkingu – væntanlega á hefð, og hefðin fyrir mánaðamót er vissulega sterkari.

Posted on Færðu inn athugasemd

Merking orðhluta og orða

Ný orð er hægt að mynda á ýmsan hátt úr íslensku hráefni. Ein helsta leiðin er að bæta forskeytum eða viðskeytum við rætur eða orð sem fyrir eru í málinu og mynda þannig afleidd orð. En þótt fjöldi forskeyta og viðskeyta sé til í málinu er aðeins hluti þeirra nothæfur í virkri orðmyndun. Það eru þau sem hafa tiltölulega fasta og afmarkaða merkingu í huga fólks. Af viðskeytum eru það t.d. -leg-ur, -un, -ar-i (-ur í -leg-ur og -i í -ar-i eru strangt tekið beygingarendingar en ekki hluti viðskeytanna). Það má segja að X+legur merki ‘sem líkist X, minnir á X, tengist X’ (kjánalegur er ‘sá sem líkist eða minnir á kjána’, tæknilegur er ‘sem tengist tækni’), X+un merkir ‘það að gera X’ (könnun er ‘það að kanna’), og X+ari merkir ‘sem gerir X’ (‘kennari er sá sem kennir’).

Þegar við heyrum eða sjáum nýtt orð sem er myndað með einhverju framantalinna viðskeyta er það venjulega gagnsætt – við skiljum um leið við hvað er átt, vegna þess að við þekkjum orðhlutana og vitum hvað þeir merkja, hver um sig. Vissulega geta orðin stundum verið tvíræð þrátt fyrir það, en samhengið sker þá venjulega úr. Orð eins og prentari vísaði til skamms tíma til manns sem tilheyrði ákveðinni starfsgrein sem nú er úrelt en orðið þess í stað notað um tæki. Hvort sem heldur er fellur það að framangreindri reglu og merkir ‘sá sem prentar’, og væntanlega er venjulega hægt að ráða af samhenginu hvort um er að ræða mann eða tæki.

Mörg viðskeyti hafa hins vegar svo óljósa merkingu í huga nútímafólks að þau eru ónothæf í virkri orðmyndun almennra málnotenda. Þetta eru viðskeyti eins og t.d. -ald (m.a. í kafald, folald), -erni (m.a. í þjóðerni, víðerni), -uð-ur (m.a. í söfnuður, fögnuður) og ýmis fleiri. Það er vissulega hægt að mynda ný orð með þessum viðskeytum, og það er iðulega gert í lærðri orðmyndun. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands notaði t.d. -ald til að smíða orðin mótald og pakkald fyrir fáum áratugum og þau er að finna í Tölvuorðasafni. En við þurfum að læra merkingu þeirra sérstaklega – hún er ekki augljós út frá merkingu orðhlutanna vegna þess að –ald hefur enga afmarkaða merkingu í nútímamáli. Sama máli gegnir um fjölda annarra viðskeyta.

Viðskeytin sem nú eru ógagnsæ og hafa enga sjálfstæða merkingu hafa mörg hver verið gagnsæ og virk til nýmyndunar á fyrri stigum málsins, jafnvel fyrir daga íslenskunnar. En þegar orð hefur einu sinni verið búið til og kemst í notkun fer það að lifa sjálfstæðu lífi, meira og minna óháð einingunum sem það er smíðað úr – það hættir að vera einhvers konar summa af merkingu þeirra. Við getum tengt orð eins og þjóðerni við þjóð – en hvað merkir -erni? Hefur það sömu merkingu og í víðerni, bróðerni, líferni og salerni? Það er erfitt að halda því fram að svo sé – -erni virðist ekki hafa neinn sameiginlegan merkingarþátt í þessum orðum. Við lærum merkingu orðanna í heild, hvers fyrir sig, án stuðnings af öðrum orðum með sama viðskeyti.

En sama gerist líka, þótt í minna mæli sé, með viðskeyti sem hafa tiltölulega fasta og afmarkaða merkingu í nútímamáli. Orð mynduð með þeim breyta stundum að einhverju leyti tengslunum við upprunann eða rjúfa þau. Þetta getur meira að segja gerst með algengasta og virkasta viðskeyti málsins, -leg-ur – hvað er t.d. fal- í fallegur, lé- í lélegur, eða mögu- í mögulegur? Viðskeytið -ing er algengt til að mynda verknaðarnafnorð af sögnum – teikning er ‘það að teikna’, kynning er ‘það að kynna’, æfing er ‘það að æfa’. En iðulega færist merkingin frá verknaðinum yfir á afurð hans eða útkomu. Þótt við getum sagt teikning myndarinnar tók langan tíma þar sem teikning vísar til verknaðarins er miklu algengara að nota orðið um myndina sem teiknuð var – þetta er vönduð teikning.