Ég sakna þess að sjá þetta ekki

Í Málvöndunarþættinum var í gær tilfærð setningin „Ég sakna þess að sjá þetta ekki“ og spurt: „Er þetta ekki röng notkun á sögninni?“ Ég hef áður séð því haldið fram að rangt sé að hafa neitun í setningum á við þessa – það eigi að segja ég sakna þess að sjá þetta, rétt eins og ég sakna þín. Á bak við þetta virðist liggja sú hugmynd að með því að hafa neitun í setningunni sé verið að neita merkingu sagnarinnar sakna, og þar með snúa merkingu setningarinnar við – rétt eins og gerist þegar við segjum ég sakna þín ekki í stað ég sakna þín. En í þessu felst tvenns konar misskilningur. Annars vegar sá að neitun í aukasetningu jafngildi því að sögn aðalsetningarinnar (hér sakna) sé neitað, og hins vegar sá að sakna hafi alltaf sömu merkingu.

Eins og fram kemur í Íslenskri nútímamálsorðabók hefur sögnin sakna tvær merkingar, vissulega náskyldar. Annars vegar merkir hún 'finna til eftirsjár vegna e-s sem er fjarverandi' (t.d. ég sakna þín, við söknum dvalarinnar í sveitinni) og hins vegar 'finna fyrir því að e-ð vantar' (t.d. hann saknaði heftarans af skrifborðinu). Í setningunni ég sakna þess að sjá Esjuna út um eldhúsgluggann er sögnin notuð í fyrri merkingunni – í þessu felst að ég hafi áður séð Esjuna út um eldhúsgluggann en geri það ekki lengur. En ef sagt er ég sakna þess að sjá ekki Esjuna út um eldhúsgluggann er um seinni merkinguna að ræða – í þeirri setningu felst ekki endilega að ég hafi nokkurn tíma séð Esjuna út um eldhúsgluggann, ég vildi bara að svo væri.

Vegna þess hversu skyldar þessar tvær merkingar eru getur oft verið erfitt að átta sig á muninum, enda er iðulega hægt að hafa sömu setninguna ýmist með eða án ekki eins og í dæmunum hér að framan. En svo er þó ekki alltaf. Þannig er aðeins hægt að segja ég sakna þess að hún skuli ekki vera hérna – það er ekki hægt að sleppa neituninni og segja *ég sakna þess að hún skuli vera hérna. Ástæðan er sú að aukasetningin að hún skuli vera hérna felur í sér að sú sem um er rætt er hérna og þá á hvorki við 'eftirsjá vegna e-s sem er fjarverandi' né að 'finna fyrir því að e-ð vantar‘. Aftur á móti er hægt að segja ég sakna þess að hún skuli ekki vera hérna vegna þess að þar getur merkingin 'finna fyrir því að e-ð vantar' átt við.

Hin merkingin, 'finna til eftirsjár', kemur hins vegar ekki til greina í setningunni ég sakna þess að hún skuli ekki vera hérna vegna þess að aukasetningin er í nútíð – eftirsjá getur ekki vísað til þess sem er, aðeins þess sem var. Aftur á móti getum við sagt bæði ég sakna þess að hafa hana hjá mér og ég sakna þess að hafa hana ekki hjá mér vegna þess að þar er ekki notuð nútíð, heldur nafnháttur sem vísar ekki til tíma á sama hátt og nútíðin. Án neitunar vísar setningin til eftirsjár eftir því sem var, en með neitun vísar hún til þess sem mér finnst vanta núna. Hvort tveggja er fullkomlega eðlilegt. Svarið við því hvort það sé röng notkun á sakna að segja ég sakna þess að sjá þetta ekki er sem sé: Nei, þetta er fullkomlega eðlileg notkun.

Það sem bankastjórinn meinti

Það er athyglisvert að stjórnandi fyrirtækis sem þarf að greiða 1200 milljónir í sekt vegna brota á lögum og reglum hefur ekki íhugað að segja af sér heldur segir bara „Ég nýt trausts innan stjórnar bankans og mun gegna starfi mínu áfram“ – og ég sem hélt að réttlætingin fyrir háum launum bankastjóra væri að þeir bæru svo mikla ábyrgð. Það er ekki síður athyglisvert að stjórn þessa fyrirtækis, sem er að mestu leyti í eigu fólksins í landinu, ýmist gegnum ríkissjóð eða lífeyrissjóði – pabbi hans Bjarna á (enn) bara lítinn hlut – skuli bera fullt traust til stjórnanda sem klúðrar málum á þann hátt. Kannski þykir klúðrið léttvægara af því að þar er ekki um að ræða vonda fjármálastjórn, heldur „bara“ brot á lögum og reglum.

En það er áhugavert að lesa viðtöl við bankastjóra Íslandsbanka vegna málsins – annað eins orðasalat hefur sjaldan sést. Ég tók nokkur gullkorn úr viðtölum í Heimildinni, Morgunblaðinu, Ríkisútvarpinu og Vísi og orðræðugreindi þau til að glöggva mig á því hvað bankastjórinn hefði raunverulega verið að fara.

  • „Með því að bjóða sátt er fjármálaeftirlitið að sýna stjórn og bankastjóra traust til þess að innleiða þær breytingar sem þarf. Og það er að sjálfsögðu mikilvægt. Og það er mikilvægt að okkur er boðin sátt.“

Það er umdeilanlegt hversu mikið „traust“ felst í því að sekta bankann um 1200 milljónir, en aðalatriðið er að samkvæmt fréttum var það ekki fjármálaeftirlitið sem bauð sátt að fyrra bragði, heldur leitaði bankinn upphaflega eftir henni. Á því er talsverður munur.

  • „Það er rétt að viðurkenna að við höfðum ekki fylgt nægilega vel eftir reglum um upptökur í símum, sem settar höfðu verið haustið 2021 og við áttum að innleiða með öðrum hætti en við gerðum.“

Hér merkir „við höfðum ekki fylgt nægilega vel eftir reglum“ augljóslega „við hunsuðum reglurnar“, og „við áttum að innleiða með öðrum hætti“ merkir „við áttum að fara eftir reglunum“. En hitt hljómar vissulega betur.

  • „Símaupptökur geta klikkað alls staðar.“

Orðalagið „geta klikkað“ gefur í skyn að um einhvers konar tæknileg vandræði eða aðrar óviðráðanlegar aðstæður hafi verið að ræða, en það var einfaldlega svikist um að taka símtölin upp. Og „geta klikkað alls staðar“ er ætlað til þess að draga úr ábyrgð bankans – gefa í skyn að þetta sé ekkert betra hjá öðrum.

  • „Þetta er áfellisdómur fyrir þetta verkefni. En ég tel áhættumenningu bankans í heild vera sterka og kannski frekar íhaldssama.“ „En við drögum svo sannarlega lærdóm af þessu verkefni og förum af fullum þunga í þær úrbætur sem þarf að gera, til þess að við séum áfram með þessa góðu og sterku áhættumenningu.“

Ekki verður séð hvað „áhættumenning“ bankans kemur þessu máli við – þetta mál snýst ekkert um hana, heldur er hún dregin þarna inn til að drepa málinu á dreif. Þess vegna koma úrbætur á henni málinu ekki heldur við.

  • „Það er verið að tala um hagsmunaárekstramat sem bankinn hefði getað gert ítarlegra, sem líklega hefði leitt til þess að starfsmenn hefðu ekki keypt eða viðskipti starfsmanna hefðu ekki verið leyfð.“

Hér merkir „sem bankinn hefði getað gert ítarlegra“ augljóslega „sem bankinn hefði átt að gera“, og  í „líklega hefði leitt til þess“ er „líklega“ ofaukið.

  • „Við höfum frá því að þetta átti sér stað gert breytingar á verklagi bankans og dregið mikinn lærdóm af þessu máli.“

Hér merkir „við höfum […] gert breytingar á verklagi bankans“ greinilega „við neyðumst til að fylgja lögum og reglum“, og „dregið mikinn lærdóm af þessu máli“ merkir „ætlum ekki að láta nappa okkur næst“.

  • „Það var ljóst að tímafresturinn til að standa að sölunni í mars í fyrra var knappur og það skýrir hluta af því sem fór úrskeiðis í verklagi bankans. Það segi ég þó ekki til að víkja mér undan ábyrgð […]“

Tilgangurinn með því að nefna knappan tímafrest er auðvitað einmitt sá að draga úr eigin ábyrgð – annars væri ástæðulaust að nefna hann. Þetta er dæmigerð aðferð til að afvegaleiða umræðuna.

  • „Það er alveg ljóst að í þessu tilgreinda máli varð misbrestur á starfsemi bankans.“ „Við hefðum viljað að þetta verkefni hefði verið gert með öðrum hætti.“ „Við gerðum bara mistök í innleiðingunni, og við fylgdum þá ekki innleiðingunni heldur nægilega vel eftir og þess vegna urðu þessi mistök.“

Merkingin í „varð misbrestur á starfi bankans“ er „voru lög brotin í starfsemi bankans.“ „Við hefðum viljað að þetta verkefni hefði verið gert með öðrum hætti“ merkir „Við hefðum átt að fylgja lögum og reglum.“ Orðið „mistök“ er hér skrauthvörf fyrir „lögbrot“. „Við gerðum bara mistök“ merkir „Við brutum lög og reglur.“

  • Spurningunni „Hafið þið kannað hvort einhverjir starfsmenn bankans hafi hagnast umfram það sem eðlilegt getur talist vegna þess að reglum var ekki fylgt?“ svarar bankastjórinn „Ekkert umfram aðra sem tóku þátt í þessu útboði.“

Þetta er auðvitað ekkert svar. Það er sem sé vel hugsanlegt að þátttakendur í útboðinu hafi „hagnast umfram það sem eðlilegt getur talist“ – það eina sem bankastjórinn segir er að starfsfólk bankans hafi ekki grætt meira en aðrir þátttakendur.

Ýmislegt fleira mætti tína til, en ég bíð spenntur eftir framhaldi á skýringum bankastjórans þegar skýrsla fjármálaeftirlitsins verður birt í heild.

 

Förum varlega

Hér hefur undanfarna daga og einkum í dag verið mikil umræða um óþarfa og óeðlilega enskunotkun á Íslandi. Ég er sammála flestu sem hefur verið sagt í innleggjum um þetta mál og hef í einhverjum tilvikum átt frumkvæði að umræðunni eða tekið þátt í henni. Þessi umræða er eðlileg og mikilvæg – en hún er líka mjög viðkvæm og vandasöm og getur auðveldlega leiðst út á hættulega braut þjóðrembu og útlendingaandúðar. Ég hef ekki orðið var við slíkt í umræðunni hér í hópnum en í ljósi þess að þess háttar umræða veður uppi um þessar mundir á samfélagsmiðlum og jafnvel hjá ráðamönnum þjóðarinnar er vert að hafa varann á. Þess vegna bið ég ykkur þess lengstra orða að gæta vel að því hvernig þið hagið orðum ykkar.

Þótt við höldum á lofti þeirri eðlilegu og sjálfsögðu kröfu að íslenska sé alltaf í fyrirrúmi og ekki gripið til erlendra mála nema nauðsyn beri til má það aldrei leiða til þess að við látum fólk gjalda þess á einhvern hátt að tala ekki íslensku – eða heita ekki íslenskum nöfnum. Berjumst fyrir íslenskunni á jákvæðum nótum, með því að hvetja fólk til að nota hana þar sem þess er kostur og með því að vekja athygli á óþarfri og ástæðulausri enskunotkun. Jafnframt þurfum við þó að hafa í huga að hér búa tugir þúsunda fólks sem ekki kann íslensku til hlítar, auk þess gífurlega fjölda ferðafólks sem kemur til landsins, þannig að það er ekkert óeðlilegt að enskunotkun hafi aukist. En eðlilegar áhyggjur af því mega ekki leiða til útlendingaandúðar.

Jafntefli

Um daginn var hér vakin athygli á setningu í frétt á Vísi: „Býflugnagerið var svo fjölmennt að úr fjarlægð minnti það helst á snjókomu, eða býflugnaher tilbúinn til átaka.“ Þarna er vissulega um að ræða óhefðbundna notkun lýsingarorðsins fjölmennt sem skýrt er 'með mörgu fólki' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'með marga menn, með mörgu fólki' í Íslenskri orðabók. Orðhlutinn -menn- er vitanlega af rótinni mann- í maður, og því má virðast óeðlilegt og órökrétt að nota orðið um býflugur. Ég ætla ekki heldur að mæla með þeirri notkun eða mæla henni bót, en það er samt rétt að benda á að í málinu má finna fjölmörg sambærileg dæmi sem þykja góð og gild og aldrei eru gerðar athugasemdir við. Eitt slíkt er orðið jafntefli.

Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru gefnar tvær skýringar á jafntefli: 'það þegar tveir skákmenn ljúka skák sinni þannig að hvorugur getur mátað hinn (báðir fá hálfan vinning)' og 'jöfn úrslit í hvaða keppni sem er'. Orðið er skýrt á sama hátt í Íslenskri orðabók en tekið fram að síðari merkingin sé afleidd, enda augljóst að síðari liðurinn -tefli er dreginn af nafnorðinu tafl. Orðið jafntefli kemur fyrir þegar í fornu máli – að vísu eru aðeins tvö dæmi um það í dæmasafni Ordbog over det norrøne prosasprog, en í báðum er talað um jafntefli í skák. Sama er að segja um langflest dæmi um orðið fram á annan áratug 20. aldar, en dæmin eru reyndar ekki mörg og stór hluti þeirra úr skákblaðinu Í uppnámi sem kom út á árunum 1901-1902.

Elsta dæmi sem ég finn um að orðið sé notað um annað en skák er í Ísafold 1890 en þar er reyndar notuð myndin jafntefl (án -i): „verðið á fiski þaðan er nærri komið í jafntefl við Ísafjarðarfiskinn.“ Í Heimskringlu 1895 segir: „Hvað “Base ball” leikinn áhrærir, þá vilja “North Star”-menn hér í bænum halda fram, að þar hafi verið jafntefli.“ Í sama blaði 1896 segir: „Árið 1888 sótti hann um þingforseta-embættið gegn Brisson, og varð þar jafntefli.“ Í Austra 1898 segir: „Mér virðist hér ekki hafa verið jafntefli við herra Merton, því að þessir peningar eru falskir!“ Í sama blaði sama ár segir: „En Englendingar munu eigi hafa þar syðra ennþá fleiri en um 50,000 vígra manna, svo að ennþá er eigi meira en jafntefli af þeirra hálfu.“

En fljótlega eftir að knattspyrnuiðkun hófst á Íslandi var farið að nota jafntefli um úrslit leikja. Í Vísi 1915 segir: „Rvíkurmenn hugsuðu nú um að koma knettinum inn hjá Fram og gera jafntefli ef mögulegt væri, en vörnin hjá Fram er sterk, með tveimur 42 cm. fallbyssum, svo að jafntefli var útilokað.“ Í Morgunblaðinu 1916 segir: „Leikarnir hafa því farið svo, að tvisvar hefir orðið jafntefli, en „Fram“ hefir einn vinning.“ Í Vísi 1916 segir: „Knattspyrnukappleikur Vals og Reykjavíkur, sem háður var á íþróttavellinum í gær varð jafntefli, 3 : 3.“ Ekki er að sjá í blöðum nein merki þess að þetta orðalag hafi þótt óeðlilegt, t.d. verður þess ekki vart að „jafntefli“ sé haft innan gæsalappa eins og oft er þegar nýtt orðalag er að ryðja sér til rúms.

Það er sem sé komin meira en hundrað ára hefð á það að nota jafntefli ekki bara um tafl eins og orðhlutinn -tefl- bendir til, heldur um það þegar hvorugur keppenda vinnur sigur, hvort sem er í íþróttum, stjórnmálum, hernaði eða annars konar keppni. Þetta er fullkomlega eðlilegt og þegar við notum orðið erum við ekkert að velta þessu fyrir okkur og það truflar okkur ekkert – þetta er sú málnotkun sem við ólumst upp við. Aftur á móti erum við ekki vön því að fjölmennt sé haft um annað en fólk og þess vegna truflar það okkur að tala um fjölmennt býflugnager. Það er þó í raun algerlega sambærilegt við að tala um jafntefli í knattspyrnuleik – nema því erum við vön. Ég vildi bara minna á að málhefðin er ekki alltaf og þarf ekki að vera rökrétt.

Algjör negla

Nafnorðið negla er í Íslenskri nútímamálsorðabók skýrt 'tappi í gat á trébáti sem sjó er hleypt út um'. Hliðstæð skýring er í Íslenskri orðabók en þar er bætt við að í óformlegu íþróttamáli geti orðið einnig merkt 'fast markskot'. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Morgunblaðinu 1997: „Mark Verons var sérlega glæsilegt, viðstöðulaus negla í skeytin eftir hornspyrnu.“ Þessi merking er væntanlega komin af sögninni negla í samböndum eins og negla boltann/boltanum í markið sem er skýrt 'skjóta fast í markið' í Íslenskri orðabók. Elsta dæmi sem ég finn um negla bolta (í mark) er frá 1960, og framan af var alltaf notað þolfall – negla boltann. Þágufallið, negla boltanum, kemur svo til um 1980 og er nú mun algengara – þolfallið virðist vera á útleið.

En nafnorðið negla er nú mjög oft notað um hvaðeina sem hittir í mark eða slær í gegn. Fyrstu merki sem ég finn um það er auglýsing í Morgunblaðinu 1977 þar sem segir: „En það er nú ekkert slor fullt af nýjum plötum og svo er plötusnúðurinn búinn að vinna vel og dyggilega við að undirbúa kvöldið svo það verður algjör negla í stuðinu allt frá 20.30 til 00.30.“ Í Helgarpóstinum 1981 segir: „Eftir allt þetta, kemur Þeyr með 40 mínútna prógramm, og kynnir m.a. nýja plötu sem kemur einmitt út þennan dag og ku vera algjör negla.“ Sama ár var nokkrum sinnum í Helgarpóstinum dálkurinn „Leiðarvísir helgarinnar“ þar sem lýst var því sem væri á dagskrá á skemmtistöðum borgarinnar, og stundum klykkt út með „Algjör negla“.

Þessi notkun var þó sjaldgæf lengi vel, eða komst a.m.k. ekki mikið á prent, en á síðustu árum hefur hún stóraukist. Í Vísi 2008 segir: „Þátturinn verður algjör negla, segir Logi Bergmann.“ Á vef RÚV 2016 segir: „Sérstaklega í byrjun þegar hann færir sig úr Wham! yfir í Faith og lætur sér vaxa skeggbrodda og setur sig í rokkstellingu. Það var alveg negla hjá honum.“ Í Fréttablaðinu 2020 segir: „Ef markmiðið hefði verið að skapa umtal, þá væri þetta algjör negla hjá þjóðkirkjunni.“ Oft er orðið notað í sömu merkingu og smellur, t.d. á vef RÚV 2018: „Hann hefur sent frá sér þónokkrar neglur“ og „Hún snýr úr sjálfskipaðri átta ára útlegð úr bransanum með negluna Missing U sem hefur allt það besta sem Robyn-smellur þarf að hafa.“

En negla er líka notað í dálítið annarri merkingu, eins og í DV 2014: „Hún er svo mikil negla og hún hefur kennt mér svo á lífið.“ Í DV 2020 segir: „Ég var með svo góðan jarðfræðikennara í MR, hún var svo mikil negla og mér fannst hún svo töff.“ Á Vísi 2021 segir: „Taylor Swift finnst mér algjör negla, drottning poppsins.“ Þótt þarna megi vissulega sjá skyldleika við merkinguna 'slá í gegn' finnst mér þetta frekar skylt orðinu nagli í samböndum eins og vera mikill/harður nagli sem er skýrt 'vera harður af sér, harður í samskiptum' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Í öllum þessum dæmum er rætt um konu og mælandinn er kona – ef til vill finnst konum eðlilegra að nota kvenkynsorðið negla um konur en karlkynsorðið nagli.

Á seinustu mánuðum finnst mér ég hafa séð sambandið X með neglu býsna oft á vef- og samfélagsmiðlum, í þeirri merkingu að verið sé að kasta sprengju inn í umræðuna, eða setja mál sitt fram á sérlega skýran og hnitmiðaðan hátt og slá vopn úr höndum andstæðinga. Mér finnst ekkert athugavert við þessa orðanotkun, en hætta er á að hún verði dálítil klisja þegar hver „neglan“ kemur á fætur annarri og sumt fólk skrifar ekki pistil nema um „neglu“ sé að ræða. En hvað sem þessu líður er ljóst að orðið negla hefur gengið í endurnýjun lífdaga enda lítil þörf á því nú orðið í upphaflegri merkingu. Þetta er gott dæmi um það hvernig hægt er að endurnýta gömul orð sem hafa lokið hlutverki sínu, en auðvitað þarf að gæta þess að ofnota þau ekki.

Vinkonur og vinir

Í útvarpsfréttum áðan var sagt frá því að Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfisrétti, hefði nú „ásamt vinkonu sinni kært til innviðaráðuneytisins aðgerðarleysi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur vegna þessarar miklu loftmengunar. Vinkona Aðalheiðar er með doktorspróf í efnafræði og er einnig lögfræðingur.“ Það sem mér finnst sérkennilegt í þessari frétt er að tekið er fram að Aðalheiður hafi kært málið „ásamt vinkonu sinni“ – þegar fram kemur að vinkonan er ekki einhver ótiltekin saumaklúbbsvinkona heldur sérfræðingur á því sviði sem um er að ræða. Eins og fram kemur í fréttinni var kæran lögð fram á fundi heilbrigðisnefndar og í henni er „vinkonan“ nafngreind en ekki orð um að þær Aðalheiður séu vinkonur.

Hefði einhvern tíma verið notað sambærilegt orðalag um karlmenn? Hefði verið sagt „Eiríkur hefur nú ásamt vini sínum kært til innviðaráðuneytisins aðgerðarleysi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur vegna þessarar miklu loftmengunar. Vinur Eiríks er með doktorspróf í efnafræði og er einnig lögfræðingur.“ Ég held ekki – enda kemur það málinu ekkert við hvort um vini eða vinkonur er að ræða. Mér finnst orðalag af þessu tagi vera til þess fallið að draga úr vægi málsins – gefa í skyn að á bak við það liggi eitthvert vináttusamband frekar en kunnátta og þekking. Mér dettur samt ekki í hug að það sé gert vísvitandi í þessari frétt, en ég held að þetta sé dæmi um það hvernig við notum oft – án ásetnings – mismunandi orðalag um konur og karla.

Æskilegar viðbætur við aðgerðaáætlun

Eins og ég skrifaði um í gær er margt gott í drögum að þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026, einkum áherslan á íslensku sem annað mál og íslenskunám innflytjenda. Vitanlega er ekki hægt að gera allt í einu, en í áætlunina vantar samt þrjár mjög mikilvægar og brýnar aðgerðir sem ég hefði kosið að hefðu verið hafðar með og mega a.m.k. alls ekki bíða fram yfir gildistíma áætlunarinnar. Þær eru þessar:

1. Mjög mikilvægt er að efla rannsóknir á íslensku máli og stöðu þess. Hér verður að benda á að eftir sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskólans fyrir 15 árum voru samtals 12 akademísk störf í íslenskri málfræði í sameinuðum skóla en núna eru þau aðeins sjö – hefur fækkað um fimm. Vegna þess að nemendum í íslensku hefur fækkað verulega að undanförnu, bæði á Menntavísindasviði og sérstaklega Hugvísindasviði, er ljóst að reiknilíkan háskólastigsins mun ekki leyfa fjölgun kennara á næstunni, og hætta er á enn frekari fækkun þegar kennarar fara á eftirlaun. Rannsóknir eru 40% af vinnuskyldu háskólakennara í akademískum störfum og því gefur augaleið að fækkun kennara leiðir til minni rannsókna.

Við vitum að miklar hræringar eru í málinu og málsamfélaginu um þessar mundir og gífurlega mikilvægt að fylgjast vel með því sem er að gerast til að unnt sé að grípa til aðgerða ef ástæða er til. Vissulega eru stærri rannsóknarverkefni að miklu leyti fjármögnuð af styrkjum úr samkeppnissjóðum, en eftir sem áður er nauðsynlegt að hafa fræðimenn í föstum störfum til að skipuleggja verkefnin, stjórna þeim, og tryggja samfellu í starfinu. Það er því mjög alvarlegt að á sama tíma og þörfin fyrir rannsóknir er meiri og brýnni en nokkru sinni fyrr skuli hafa dregið stórlega úr rannsóknargetu á þessu sviði. Við því verður að bregðast með fjölgun kennara í íslenskri málfræði sem fyrst, og æskilegt hefði verið að taka á því máli í aðgerðaáætluninni.

2. Í framhaldi af þessu verður að nefna að ekki eru í áætluninni neinar aðgerðir til að fjölga háskólanemum í íslensku, að því undanskildu að lagt er til að boðið verði upp á fjar­nám í íslensku til BA-prófs. Það er góðra gjalda vert en ræðst ekki að rótum vandans, sem er sá að íslenskunám virðist af einhverjum ástæðum ekki höfða til ungs fólks – e.t.v. vegna þess að það óttast að lenda í blindgötu og áttar sig ekki á því að íslenskunám gefur marga og fjölbreytta möguleika á framhaldsnámi og störfum. Nýnemum í íslensku til BA-prófs við Háskóla Íslands hefur farið ört fækkandi undanfarin ár og voru ekki nema svolítið á annan tug í vetur, og nemendum sem velja íslensku sem kjörsvið á Menntavísindasviði hefur einnig farið fækkandi.

Þessi fækkun hefur keðjuverkandi áhrif – leiðir miðað við fjárhagslíkan Háskólans til minnkaðra fjárveitinga sem aftur leiðir til minnkaðs námsframboðs sem leiðir svo til þess að námið verður ekki eins áhugavert og áður í augum nemenda og aðsókn minnkar enn. Ef svo fer fram sem horfir mun þetta ástand leiða til skorts á íslenskukennurum eftir nokkur ár. Það er brýnt að kanna hvers vegna íslenskunám höfðar ekki til ungs fólks og nýta niðurstöður úr þeirri könnun til að reyna að snúa þessari þróun við og vekja áhuga ungs fólks á íslenskunámi. Í því skyni er nauðsynlegt að skipuleggja öfluga kynningu í framhaldsskólum, en einnig getur þurft að breyta íslenskukennslu í framhaldsskólum og Háskólanum og grípa til ýmissa fleiri aðgerða.

3. Þótt vísað sé til Íslenskrar málnefndar á nokkrum stöðum í aðgerðaáætluninni er ekki fjallað sérstaklega um málefni nefndarinnar, en nauðsynlegt er að efla hana og hugsa upp á nýtt. Tíu af 16 fulltrúum í nefndinni eru fulltrúar félaga og stofnana sem vinna með íslenskt mál á einn eða annan hátt, og langflest þeirra sem nú sitja í nefndinni eru með einhverja háskólamenntun í íslensku. Þetta skipulag endurspeglar úrelt viðhorf til tungumálsins og hverjum það komi við. Það má segja að næstum allir nefndarmenn séu fulltrúar „framleiðenda“ (eða „eigenda“) tungumálsins, fólks sem hefur atvinnu af því að vinna með íslenskt mál, en fulltrúa „neytenda“ málsins, almennra málnotenda, vanti nær algerlega í nefndina. Þessu er nauðsynlegt að breyta.

Það mætti hugsa sér að í nefndina bættust t.d. fulltrúar samtaka atvinnurekenda og launafólks, Öryrkjabandalagsins, Samtakanna ´78, Kvenréttindafélagsins, Íþróttasambands Íslands, Heimilis og skóla, Landssamtaka íslenskra stúdenta, Sambands íslenskra framhaldsskólanema og Samtaka Pólverja á Íslandi. Þar með væru komnir jafnmargir fulltrúar „neytenda“ og „framleiðenda“ í nefndina. Slík nefnd er vitaskuld of stór til að hægt sé að gera ráð fyrir að hún fundi oft eða fundir hennar verði skilvirkir. Hins vegar byði þessi skipan upp á að nefndinni yrði skipt í undirnefndir þar sem fjölbreytt sjónarmið fengju að njóta sín í hverri nefnd. En auk þessa er mikilvægt að styrkja nefndina fjárhagslega og sjá henni fyrir skrifstofu og starfsfólki.

Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskunnar

Því ber að fagna sérstaklega að megináherslan í aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu, níu aðgerðir af 18, er á íslensku sem annað mál og íslenskunám innflytjenda, enda fátt mikilvægara fyrir framtíð íslenskunnar. Það er gífurleg aukning í notkun annarra tungumála í landinu, einkum ensku. Þessi aukning stafar annars vegar af sprengingu í ferðaþjónustu þar sem enska er aðaltungumálið, og hins vegar af mikilli fjölgun fólks með annað móðurmál sem kemur hingað til að setjast að eða til að vinna hér tímabundið. Enska er aðalsamskiptamál milli innfæddra og þess fólks, og einnig innbyrðis milli fólks af mismunandi þjóðernum. Nú eru farin að verða til hér á landi afmörkuð málsamfélög þar sem íslenska er ekki notuð og fæstir kunna íslensku.

Það er nokkuð ljóst að fólki með annað móðurmál en íslensku mun enn fara fjölgandi á næstu áratugum, og enskunotkun aukast. Ekkert bendir til annars en ferðafólki haldi áfram að fjölga. Atvinnurekendur kalla eftir meira vinnuafli og því hefur verið spáð að eftir 20-30 ár verði allt að helmingur fólks á vinnumarkaði af erlendum uppruna. Á sama tíma er fæðingartíðni í sögulegu lágmarki. Allt þetta leiðir til þess að hlutfall enskunotkunar á móti íslenskunotkun hefur farið og fer hækkandi, og ef svo fer fram sem horfir er alls ekki óhugsandi, og jafnvel líklegt, að um miðja þessa öld muni enska hafa tekið við af íslensku sem aðalsamskiptamálið í landinu. Þessi aðgerðaáætlun þarf að geta snúið þeirri þróun við og er því gífurlega mikilvæg.

Aðgerðaáætlunin er metnaðarfull á margan hátt og í henni er að finna fjölda góðra áforma um aðgerðir sem örugglega munu efla íslenskuna verulega ef þeim verður hrint í framkvæmd. En þessar aðgerðir kosta fé – mismikið vissulega, en verulegar upphæðir þegar allt er talið. Það er megingalli aðgerðaáætluninnar að henni fylgja engar fjárveitingar, og fjármálaáætlun næstu fimm ára gefur litlar vísbendingar um að ríkisstjórnin áformi að verja verulegu fé til eflingar íslenskunnar á næstu árum. Auðvitað er ljóst að fé er ekki veitt með þingsályktun og allar fjárveitingar þurfa að vera á fjárlögum, en það hefði verið mikill kostur ef einstökum liðum áætlunarinnar hefði fylgt kostnaðarmat þótt slíkt mat geti aldrei orðið annað en vísbending.

Það er auðvelt að samþykkja tillögu um eflingu íslenskunnar ef hvergi kemur fram að henni fylgi einhver kostnaður, en kostnaðarmat auðveldar alþingismönnum að taka upplýsta afstöðu til tillögunnar og meta hvort þeim finnist væntanlegur ávinningur réttlæta kostnaðinn við aðgerðirnar. Það er mikilvægt að samþykkt þingsályktunartillögunnar feli í sér siðferðilega skuldbindingu um að styðja fjárveitingar til að framfylgja henni og hugmynd um líklegan kostnað er forsenda þess. Þess vegna er nauðsynlegt að áður en tillagan verður lögð fyrir Alþingi verði reiknaður út líklegur kostnaður á hvern lið, líkt og gert var við aðgerðaáætlun stjórnvalda í íslenskri máltækni sem unnið var eftir á árunum 2019-2022 og gafst mjög vel.

Að urða, hrauna, drulla og valta yfir

Í gær var vakin hér athygli á setningunni „Mourinho urðaði yfir Taylor í viðtölum eftir leik“ í frétt á Vísi og spurt hvort ekki væri yfirleitt bara talað um að urða. Ég fór að skoða þetta og komst að því að það er vissulega rétt að urða yfir virðist ekki gamalt í málinu en er algengt á samfélagsmiðlum. Elsta dæmi sem ég finn er á Hugi.is 2002: „Sem sagt Rottweiler urðuðu yfir Johnsen kallinn.“ Örfá dæmi eru um sambandið á tímarit.is, það elsta í Fréttablaðinu 2017: „Krakkarnir eiga það ekki skilið frá mér sem mikilsmetnum karakter í íslensku tónlistarlífi að ég sé að urða yfir þau.“ Það er ljóst að urða yfir merkir 'hundskamma, hreyta ónotum í, tala niðrandi um' eða eitthvað slíkt. Í Risamálheildinni eru dæmin um 200, flest frá síðasta áratug.

Í umræðu um áðurnefnda fyrirspurn voru nefnd fleiri svipuð sambönd eins og hrauna yfir og valta yfir. Sambandið hrauna yfir merkir það sama og urða yfir en er aðeins eldra. Elstu dæmi sem ég finn um það eru frá 1998, t.d. í Skinfaxa það ár: „Steini var eitthvað að uppfæra diska inni í studíói og ég var eitthvað aðeins að hrauna yfir hann.“ Fyrstu árin er hrauna stundum innan gæsalappa en virðist þó fljótlega hafa öðlast viðurkenningu. Þannig segir í Morgunblaðinu 2003: „Víkverja þykir t.a.m. orðasambandið „að hrauna yfir“ einhvern [veginn] sérlega íslenskt og skemmtilegt.“ Á síðasta áratug hefur sambandið orðið mjög algengt og hátt í fimm þúsund dæmi eru um það í Risamálheildinni, hátt í ¾ af samfélagsmiðlum.

Þriðja sambandið sem notað er í sömu merkingu er drulla yfir. Ekki er ótrúlegt að sögnin í því sambandi hafi haft þau áhrif að það hafi komist seint á prent, en elsta dæmi sem ég finn um það er í Munin 1994: „Eigum við ekki bara að drulla yfir þá strákar?“ Á tímarit.is er þó á annað hundrað dæma um þetta samband og í Risamálheildinni vel á ellefta þúsund. Sambandið valta yfir er svo dálítið eldra. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Þjóðviljanum 1983: „Í ákvörðuninni um að falla frá samningabanninu felst einnig viðurkenning á því að ekki er hægt að valta yfir sjónarmið verkalýðshreyfingarinnar í stjórn landsins.“ Fram undir 1990 er sambandið stundum haft innan gæsalappa en verður svo mjög algengt þegar kemur fram á tíunda áratuginn.

Öll þessi sambönd er hægt að nota í sömu merkingu, þeirri sem lýst var við urða yfir hér að framan, en nokkur tilbrigði eru þó í notkun þeirra. Tvö þessara sambanda, valta yfir og hrauna yfir, er að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók – það fyrrnefnda er skýrt 'vera með yfirgang eða frekju'. Það getur átt við, en sambandið merkir mun oftar 'gersigra' eins og í Víkurfréttum 1992: „Keflvíkingar voru í miklu stuði og völtuðu yfir Hauka, 6-0.“ Sambandið hrauna yfir er aftur á móti sagt „óformlegt“ og skýrt 'sýna e-m yfirgang, vaða yfir e-n'. Það getur vissulega átt við, en yfirgangurinn er þó oftast í orðum, ekki athöfnum. Sama máli gegnir um drulla yfir og urða yfir – þar er yfirleitt vísað til orða og e.t.v. látbragðs frekar en aðgerða.

Þá er loks komið að spurningunni sem nefnd var í upphafi – hvort ekki sé vaninn að tala um að urða frekar en urða yfir. Svarið er játandi, en þó með fyrirvara. Ég held nefnilega að þetta tvennt merki ekki það sama. Þegar eitthvað er urðað er venjulega gengið frá því endanlega – sögnin urða merkir bókstaflega 'hylja grjóti, grafa í urð' eins og segir í Íslenskri orðabók. Það sem hefur verið urðað á yfirleitt ekki afturkvæmt, er endanlega úr leik, en þannig er ekki með það sem er urðað yfir. Líklegt er að sambandið urða yfir hafi orðið til fyrir áhrif frá hinum samböndunum sem hér eru nefnd. Mér finnst samt ástæðulaust að amast við því – bókstafleg merking væri 'kasta urð (grjóti) yfir' og sé sé ekki betur en það sé líking sem geti staðist.

Að óheimila

Í frétt á mbl.is í morgun var notuð sögnin óheimila: „að sögn Jaberi óheimiluðu öryggisverðir henni að sýna skilaboð aftan á kjólnum.“ Sögnin heimila er auðvitað vel þekkt, sem og lýsingarorðin heimill og óheimill, en sögnin óheimila er sjaldséð þótt hún sé vissulega rétt mynduð. En óheimila er þó ekki nýsmíði, heldur gömul sögn sem á sér rætur a.m.k. aftur á 19. öld. Elsta dæmi sem ég hef fundið um hana er í Manni og konu eftir Jón Thoroddsen: „greiðir þú mér ekki landskuldina í fardögum, […] þá óheimila ég þér jörðina Hamar […] til allra nota og afnytja.“ Sögnin var nokkuð notuð á seinni hluta 19. aldar og byrjun þeirrar 20., og er flettiorð bæði í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og Íslenskri orðabók.

Sögnin virðist ekki síst hafa verið notuð í lagamáli þótt hún sé ekki bundin við það eingöngu. Hún kemur t.d. fyrir í Lögum um takmörkun á fjárforræði þurfamanna, er þiggja sveitarstyrk frá 1885: „enda óheimili sýslumaður utanferð, nema þessum skilyrðum sje fullnægt.“ Einnig kemur hún fyrir í bannlögunum, Lögum um aðflutningsbann á áfengi frá 1909: „Brot gegn þeim ákvæðum í lögum þessum, er óheimila að veita, gefa, selja eða á annan hátt láta af hendi áfengi til annara manna, varða sektum 200-2000 kr.“ Í Andvara 1898 segir: „Eins og kunnugt er, hafa Íslendingar í samfleytt 23 ár borið fyrir sig 1. gr. stjórnarskrárinnar sem skýlaus lög, er óheimili með öllu þá stjórnarvenju, að bera sérmál Íslands upp í ríkisráðinu.“

Það má vissulega færa rök að því að sögnin óheimila sé óþörf vegna þess að hún hafi sömu merkingu og sögnin banna, og sé mun óþjálli. En á sama hátt mætti þá halda því fram að sögnin heimila, sem er vitanlega mjög algeng, sé óþörf vegna þess að hún merki það sama og sögnin leyfa, og sé auk þess óþjálli. En síðustu hundrað árin hefur óheimila verið mjög sjaldgæf – aðeins eru rúm 20 dæmi um hana frá 21. öld í Risamálheildinni, flest úr lagalegu samhengi. Þannig er ekki með dæmið sem tilfært var í upphafi og vel má halda því fram að þar hefði verið eðlilegt að nota fremur sögnina banna. En þetta er samt gömul og eðlilega mynduð sögn sem ástæðulaust er að amast við – það er kostur að hafa á takteinum fleiri en eitt orð til að tjá sömu merkingu.