Nýtt orð í stað ráðherra: Forráð

Haustið 1998 var lögð fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar þar sem sagði: „Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að láta undirbúa breytingar á stjórnarskrá og lög­um til að taka megi upp nýtt starfsheiti ráðherra sem bæði kynin geta borið.“ Í greinargerð sagði: „Það særir ekki málkennd manna þótt konur séu forsetar, kennarar eða forstjórar en öðru máli gegnir um orðið „herra“. Það stríðir ekki einungis gegn málvitund okkar að kona sé herra, heldur er það merkingarlega útilokað að kona sé herra á sama hátt og karl getur ekki verið frú. Orðið herra merkir […] annars vegar titil karlmanns og hins vegar húsbónda eða yfirmann og ljóst er að síðarnefnda merkingin er frá þeim tíma þegar aðeins karlar gegndu slíkum stöðum.“

Þessa tillögu fluttu Guðný Guðbjörnsdóttir og Kristín Halldórsdóttir þingkonur Kvennalistans og Svavar Gestsson þingmaður Alþýðubandalagsins. Mælt var fyrir tillögunni og henni vísað til nefndar þar sem hún sofnaði. Haustið 2007 endurflutti Steinunn Valdís Óskarsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar þessa tillögu óbreytta en hún fékk sömu örlög og fyrr. Fyrir ári fluttu svo átta þingmenn úr þremur flokkum undir forystu Guðmundar Andra Thorssonar þingmanns Samfylkingarinnar tillögu með örlítið breyttu orðalagi: „Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd um nýtt starfsheiti ráðherra sem endurspegli betur veruleika og hugsunarhátt dagsins í dag.“ Þessi tillaga komst ekki einu sinni á dagskrá þingsins.

Karllægara starfsheiti en ráðherra er vandfundið og því eðlilegt að þessar tillögur hafi komið upp, löngu áður en almenn umræða um kynhlutlaust mál fór af stað. Það hefur hins vegar gengið illa að koma með góðar tillögur um annað starfsheiti. Æskilegt væri að nota hvorugkynsorð til að öll kyn geti samsamað sig starfsheitinu, og einnig væri gott að halda orðhlutanum ráð- til að hafa samfellu milli starfsheita. En í stað þess að ráð- sé fyrri hluti samsetningar gæti það verið seinni hlutinn. Það eru til fordæmi fyrir starfsheitum eða titlum þar sem -ráð er seinni hluti samsetts hvorugkynsorðs, svo sem leyndarráð, kammerráð, konferensráð og fleiri. Titlarnir eru vissulega erlendir, en orðin eiga sér samt hefð í íslensku.

Ég legg til að nýta orðhlutann for-, eins og í formaður, forstjóri, forseti, forysta o.fl., þannig að nýtt starfsheiti ráðherra verði forráð. Það orð er vissulega til, ekki síst í samsetningum eins og forráðamaður og mannaforráð og í orðasambandinu kunna (ekki) fótum sínum forráð, en það ætti ekki að valda vandkvæðum. Orðið forráð er einu atkvæði og tveimur bókstöfum (og hljóðum) styttra en ráðherra og lipurt í samsetningum – forsætisforráð, fjármálaforráð, innviðaforráð, utanríkisforráð o.s.frv. Þá gæti ráðherranefnd heitið forráðanefnd, ráðherrabíll væri forráðsbíll, ráðherrastóll væri forráðsstól, ráðherraábyrgð væri forráðsábyrgð o.s.frv. Eðlilegt væri samt að Ráðherrabústaðurinn héldi nafni sínu.

Auðvitað má koma með ýmsar mótbárur gegn þessu orði. Vissulega eru til fjölmörg önnur orð sem enda á -ráð og vísa flest til einhvers konar stjórna eða nefnda, svo sem bankaráð, manneldisráð, skólaráð o.s.frv., en orðhlutinn (myndanið)  -for- á undan -ráð ætti að tryggja að ljóst sé að verið er að vísa til ríkisstjórnar. Það mætti líka hafa það á móti orðinu forsætisforráð að þar kemur orðhlutinn for- tvisvar fyrir. En slíkt er ekkert einsdæmi – við höfum orð eins og bílaleigubíll, örnefni eins og Vatnshlíðarvatn og Dalsdalur, o.fl. Örugglega mætti tína ýmislegt fleira til, en meginatriðið er að það er alveg sama hvaða orð yrði fyrir valinu – við þyrftum tíma til að venjast því, eins og öðrum nýjum orðum. En það væri alveg hægt.

Kynhlutlaust mál og jafnrétti

Umræðu um kynhlutlaust mál hættir til að vera nokkuð stóryrt og ekki alltaf í takt við veruleikann. Sagt hefur verið að breytingar í þá átt hafi „ekkert með frjálslyndi eða kvenréttindi að gera“ og snúist „ekki um jafnréttisbaráttu heldur ýmist um ofstæki, sýndarmennsku eða ótta við álit þrýstihópa“, enda sé „hrein fásinna að líta á þessa afbökun tungumálsins sem mikilvægt vopn í baráttunni fyrir jafnrétti“.

Í nýrri grein kemur fram sá lífseigi misskilningur að verið sé að amast við karlkynsorðum almennt séð og þar er hvatt til þess „að hætta að afskræma tungu okkar með bjánalegum tilburðum til einhvers konar rétttrúnaðartilburða í orðfæri“. En við færslu þar sem umræddri grein var deilt rakst ég á athugasemd frá manni sem er sjóaður í rekstri sprotafyrirtækja. Hann sagði:

„Á sama tíma má sýna fram á það að ef fólk temur sér fjölbreyttara orðaval og sneiðir hjá að karlgera allan andskotann, alltaf, þá hefur það jákvæð áhrif. T.d. er það hvetjandi fyrir (ungar) konur að taka þátt í nýsköpun ef við hættum að segja „þeir hjá [tilteknu fyrirtæki]“ og segjum í staðinn „þau hjá [tilteknu fyrirtæki]“, svo dæmi sé tekið. Við höfum fengið fleiri umsóknir frá konum þegar starfslýsingin notar jöfnum höndum hann og hún – og tuðpósta frá körlum þegar við notum eingöngu kvenkyn. Þetta skiptir verulegu máli.“

Þetta er það sem málið snýst um. Þótt talað sé um karllægni íslenskunnar þýðir það ekki að verið sé að ætla fólki sem talar það mál sem það ólst upp við einhverja karlrembu eða vilja til að mismuna kynjunum. Þannig er það sjaldnast, og þess vegna verðum við að gæta okkar að fordæma það ekki þótt fólk tali hefðbundna íslensku – og vilji halda í hana.

En þetta snýst ekkert um það. Þetta snýst um það að með málnotkun okkar getum við verið að senda ákveðin skilaboð – algerlega ómeðvitað og án þess að ætla okkur það. Viðtakendur þessara skilaboða eru líka oft ómeðvitaðir um þau – en þau geta samt haft áhrif. Tungumálið hefur sannarlega með jafnrétti að gera.

Ósmekkleg orðanotkun

Andstæðingar breytinga á tungumálinu í átt til kynhlutleysis leggja venjulega áherslu á að málfræðilegt kyn og kynferði fólks sé tvennt óskylt. Þess vegna sé það misskilningur að málfræðilegt karlkyn tengist körlum eitthvað sérstaklega og því sé engin ástæða til að amast við notkun þess í almennri vísun, í samböndum eins og allir velkomnir o.þ.h. Þar sé karlkynið aðeins ákveðið form, en hafi engin tengsl við karlmenn umfram önnur kyn. Það er auðvitað rétt að það er ekki hægt að setja samasemmerki milli málfræðilegs kyns og kynferðis fólks, þótt tæpast sé heldur hægt að neita því að málfræðilegt karlkyn skapi iðulega hugrenningatengsl við karlmenn, a.m.k. hjá sumum málnotendum. En látum það vera.

En í ljósi þessarar afneitunar á tengslum málfræðikyns og kynferðis fólks er það mjög sérkennilegt svo að ekki sé meira sagt að í baráttu gegn breytingum í átt til kynhlutleysis skuli gripið til orða eins og afkynjun, gelding og (mál)vönun. Það eru orð sem eiga við sviptingu líffræðilegra kyneinkenna eða kynhvatar og með notkun þeirra verður ekki betur séð en einmitt sé verið að viðurkenna tengsl málfræðilegs kyns og kynferðis. En að því slepptu er notkun þessara orða um málbreytingar í átt til kynhlutleysis óheppileg og óviðeigandi af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess að hún gefur ranga mynd af því sem um er að ræða, og hins vegar vegna þeirra neikvæðu hughrifa sem þessi orð vekja hjá flestum.

Fólk sem er svipt ákveðnum kyneinkennum eða kynhvöt með áðurnefndum aðgerðum hvorki missir kyn sitt né breytir um kyn – karlar halda áfram að vera karlar og konur halda áfram að vera konur. Breytingar á máli í átt til kynhlutleysis felast hins vegar iðulega í því að eitt málfræðilegt kyn kemur í stað annars. Í staðinn fyrir karlkynið allir velkomnir kemur hvorugkynið öll velkomin og í staðinn fyrir karlkynsorðið maður kemur kvenkynsorðið manneskja eða hvorugkynsorðið man. Stundum helst karlkynið m.a.s., eins og þegar fiskari kemur í stað fiskimaður. En við notum málfræðilegt kyn eftir sem áður – kvenkyn og hvorugkyn eru ekkert minni kyn en karlkynið. Þetta er engin afkynjun, gelding eða vönun.

Aðgerðunum afkynjun, geldingu og vönun er oftast beitt sem sérlega ógeðfelldum og grimmilegum refsingum eða hefndaraðgerðum í þjóðfélögum þar sem mannréttindi eru ekki á háu stigi – þótt reyndar væri einnig heimilt að beita þeim sem fyrirbyggjandi aðgerðum á Íslandi á síðustu öld. En óhætt er að segja að í huga flestra nútímamálnotenda veki þessi orð hrylling og ógeð. Augljóslega er það ástæðan fyrir því að andstæðingar breytinga í átt til kynhlutlausrar málnotkunar nota þau – þeim er í mun að tengja þessar breytingar við eitthvað sem málnotendum býður við. Þeim er þetta auðvitað í sjálfsvald sett, en þessi orðanotkun er einkar ósmekkleg og ómálefnaleg og ég efast um að hún sé málstaðnum til framdráttar.

Örlög orðanna

Orðið loftskeytamaður er gamalgróið í íslensku – elstu dæmi um það eru frá 1906, og á tímarit.is eru hátt í tíu þúsund dæmi um orðið. Þetta orð var lengi að finna í lögum um áhafnir skipa, síðast í Lögum um áhafnir íslenskra kaupskipa nr. 59/1995 en þau lög féllu úr gildi við gildistöku Laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001. Í þeim lögum kemur orðið loftskeytamaður ekki fyrir, en í greinargerð með frumvarpinu segir: „Nokkur ný hugtök eru skilgreind sem hafa ekki verið skilgreind eða notuð í íslenskri löggjöf áður, t.d. fjarskiptamaður […]“ sem er „lögmætur handhafi skírteinis sem er gefið út eða viðurkennt af Siglingastofnun Íslands samkvæmt ákvæðum alþjóðaradíóreglugerðarinnar.“

Vissulega eru engir sérmenntaðir loftskeytamenn eftir lengur því að formlegt nám undir þeim hatti hefur ekki verið í boði frá 1980, en þegar lögin tóku gildi fyrir meira en 20 árum voru vitanlega margir menntaðir loftskeytamenn enn að störfum. En þótt menntunin væri önnur hefði verið hægt að halda starfsheitinu, enda ýmis dæmi þess að mismunandi menntun liggi á bak við sama starfsheiti – t.d. er starfsheitið hjúkrunarfræðingur notað bæði um þau sem útskrifuðust úr Hjúkrunarskóla Íslands og þau sem hafa háskólanám að baki. Það hefði mátt búast við háværum mótmælum við því að þetta gamalgróna starfsheiti væri fellt úr lögum, en ég finn engin dæmi um mótmæli frá þessum tíma, eða fjarskiptamaður sé kallað „orðskrípi“.

Þrátt fyrir að orðið fjarskiptamaður hafi þannig verið í lögum í meira en 20 ár verður ekki séð að það hafi komist inn í daglegt mál. Á tímarit.is eru innan við 20 dæmi um það frá þessum 20 árum, og í Risamálheildinni innan við 30 dæmi (að frátöldum dæmum úr þingskjölum). Aftur á móti eru yfir þúsund dæmi um orðið loftskeytamaður frá þessum sama tíma á tímarit.is og rúm 1600 í Risamálheildinni þannig að brottnám þess úr lögum hefur ekki drepið það. Það má líka nefna að hvorki hásetikokkur koma fyrir í nýjum Lögum um áhafnir skipa án þess að gerðar hafi verið athugasemdir við það – fyrrnefnda orðið var í fyrri lögum en féll út núna en það síðarnefnda hefur ekki verið í lögum en er sprelllifandi í málinu.

Af þessu má draga tvær ályktanir. Önnur er sú að það þurfi ekki að vera mikið samhengi milli þeirra orða sem notuð eru í lögum sem eins konar íðorð og þeirra sem notuð eru í daglegu máli. Það er engin ástæða til annars en ætla að fiskimaður lifi jafngóðu lífi og áður þótt fiskari sé komið inn í lög í þess stað – og tilvist síðarnefnda orðsins í lögum tryggir því ekki líf í daglegu máli. Hin ályktunin er sú að breytingar á einstökum orðum í lögum veki yfirleitt litla athygli almennings og mæti ekki almennri mótstöðu – það sé fyrst þegar breyting á orðalagi er gerð undir þeim formerkjum að draga úr karllægni málsins sem allt fer upp í loft. Það er mjög athyglisvert.

Fiskari eða sjómaður?

Hneykslunaralda fer nú um samfélagsmiðla yfir því að „orðskrípið“ fiskari hafi verið sett inn í íslenska löggjöf í stað orðsins sjómaður. Þar er vísað í Lög um áhafnir skipa nr. 82/2022 sem tóku gildi nú um áramótin þar sem orðið fiskari kemur þrisvar fyrir og er skilgreint sem íðorð í orðskýringagrein laganna: „Fiskari er hver sá eða sú sem starfar eða er ráðinn eða ráðin til vinnu á fiskiskipi, þ.m.t. þau sem eru ráðin upp á aflahlut.“ En í öllum tilvikum kemur fiskari í stað orðsins fiskimaður í eldri lögum, en ekki í stað orðsins sjómaður – síðarnefnda orðið kemur 25 sinnum fyrir í lögunum, reyndar mun oftar en í eldri lögum. Það er því alger misskilningur að það sé á einhvern hátt verið að hrófla við orðinu sjómaður í þessum lögum.

Í greinargerð með lagafrumvarpinu er útskýrt hvers vegna orðið fiskari er notað: „Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins er markmið þess að stuðla að jöfnu aðgengi kynjanna að menntun, þjálfun og störfum um borð í íslenskum skipum. Í frumvarpinu hefur verið leitast við að draga úr karllægni í orðfæri.“ Síðar í greinargerðinni segir: „Lagt er til að hugtakið fiskari verði notað í stað fiskimanns til að minnka kynlæga orðanotkun í lagatexta.“ Reyndar er þetta orð ekki nýjung í lagamáli – það var hið venjulega orð stjórnsýslunnar um fiskimenn í í upphafi 20. aldar, t.d. í „Tilskipun fyrir Ísland um tilhögun á löggæzlu við fiskiveiðar fyrir utan landhelgi í hafinu umhverfis Færeyjar og Ísland“ frá 1903 þar sem það kemur margoft fyrir.

En ef seinni hlutinn -maður í fiskimaður þykir óheppilegur, hvers vegna er orðið sjómaður þá látið standa óbreytt? Í nýlegu viðtali sagði samskiptastjóri Samgöngustofu „að við mót­un lag­anna hafi sér­stak­lega hafi verið gætt að því að orðalag þeirra væri kyn­hlut­laust, en þó ekki þannig að það nái til til­tek­inna hug­taka sem hafa unnið sér til hefðar að vera sér­stak­lega kynjuð“. Þótt seinni hluti málsgreinarinnar sé ekki mjög skýr og e.t.v. eitthvað brenglaður geri ég ráð fyrir að þarna sé átt við orð eins og sjómaður sem er margfalt algengara orð en fiskimaður, og því hafi ekki þótt ástæða til að hrófla við því. Enda er sjómaður, öfugt við fiskari, ekki notað sem íðorð í lögunum og því ekki skilgreint þar sérstaklega.

Fólk getur auðvitað haft þá skoðun að fiskari sé „orðskrípi“ en nýyrði er það sannarlega ekki eins og áður segir. Það kemur meira að segja fyrir í fyrstu bók sem var prentuð á íslensku, þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu 1540. Þar segir: „Fylgið mér eftir og eg mun gjöra yður að fiskörum manna.“ Orðið er líka notað í Vídalínspostillu og ýmsum ritum frá 17., 18. og 19. öld. Það er í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, og Halldór Laxness notar það m.a. í Brekkukotsannál: „Í öðrum löndum mundi sá maður heita fiskimaður eða fiskari, sem rær út á skektu í bítið á mornana og er kominn með fiskinn að dyrum manna um fótaferð. Sjálfur var afi minn líka dálítið einsog fiskarar á útlendum málverkum [...].“

Þar fyrir utan hefur Nanna Rögnvaldardóttir bent á að um miðja 19. öld virðist fiskari hafa verið hið vanalega starfsheiti. Þannig eru hátt í 150 skráðir fiskari í manntalinu 1845, en aðeins sjö eru skráðir fiskimaður. Þar er reyndar enginn sjómaður – elsta dæmi um það orð er ekki eldra en frá 1830, og á 19. öld var orðið sjófólk líka nokkuð notað. Auðvitað er lengi hægt að deila um einstök orð og mörgum finnst ósk um kynhlutleysi ekki gild ástæða til að breyta þeirri orðanotkun sem hefur tíðkast undanfarið. En hvað sem því líður er ómögulegt að halda því fram að verið sé að fremja einhver málspjöll með því að taka upp orðið fiskari í stað fiskimaður. Þar er þvert á móti verið að endurvekja gamalt orð og gamla hefð.

Blekkingarleikur dómsmálaráðherra

Í gær mátti sjá í fjölmiðlum óvenjuskýrt dæmi um hagræðingu stjórnvalda á tungumálinu til að slá ryki í augu almennings. Það sem hingað til hefur heitið rafbyssa heitir allt í einu rafvarnarvopn. Dómsmálaráðherra sagði um þetta: „Þetta er auðvitað byssa eins og hún lítur út. Það er skotið hlut í líkamann á manni sem að slær menn út í augnablik. En þetta er auðvitað fyrst og fremst varnarvopn […].“ En spurður um þetta orðalag segir formaður Landssambands lögreglumanna: „Við höf­um kosið að kalla þetta ekki byss­ur af því að við lít­um þannig á að þetta sé ekki síst til að verja lög­reglu­menn, að þetta sé einskon­ar sjálfs­varn­ar­vopn. En auðvitað er þetta notað til að yf­ir­buga það fólk sem stend­ur ógn á [svo].“

Í þessu felst tvenns konar afvegaleiðing eða blekking. Annars vegar mætti ráða af orðum formannsins að samsetningar af orðinu byssa séu eingöngu notaðar um vopn en því fer auðvitað fjarri. Við höfum orð eins og baunabyssa, heftibyssa, línubyssa, rásbyssa, snjóbyssa, teygjubyssa, úðabyssa, vatnsbyssa o.fl. sem ekki vísa til vopna í venjulegum skilningi þótt auðvitað megi segja að baunabyssur, teygjubyssur og vatnsbyssur séu stundum notaðar í eins konar „bardögum“. Hins vegar er látið í veðri vaka að einhver grundvallarmunur sé á „sjálfsvarnarvopnum“ og vopnum sem nota megi til árása – sem er auðvitað rugl, enda viðurkennir formaðurinn það í raun í síðustu setningunni sem hér er vitnað til.

Orðið rafbyssa er stutt, lipurt og lýsandi orð sem hefur verið talsvert notað í rúm 20 ár um það fyrirbæri sem hér um ræðir. Það er líka hlutlaust, segir ekkert til um notkunina, enda hægt að nota rafbyssur á margvíslegan hátt. Orðið rafvarnarvopn er stirt og klúðurslegt og auk þess mjög gildishlaðið. Þetta minnir svolítið á það þegar deilt var um hvað skyldi kalla bandaríska herinn á Keflavíkurflugvelli. Stuðningsmenn hans töluðu um varnarstöð og Varnarlið, sem var hið opinbera heiti, en herstöðvaandstæðingar töluðu um herstöð og herlið, enda væri þetta óneitanlega her, hver svo sem tilgangurinn með veru hans á Íslandi væri. Þessar deilur runnu út í sandinn þegar herinn fór úr landi og eru flestum gleymdar.

En ef við viljum vera nær okkur í tímanum minnir þessi blekkingarleikur líka á tal um sérstakar hernaðaraðgerðir í staðinn fyrir innrás.

klárlega

Nýlega sá ég amast við atviksorðinu klárlega í Málvöndunarþættinum og ekki í fyrsta skipti – það var sagt „tvímælalaust eitt af leiðinlegri orðum í nútímanum“. Mér sýnist í fljótu bragði að á milli 15 og 20 færslur í hópunum Málvöndunarþátturinn og Skemmtileg íslensk orð snúist að mestu um þetta orð, ævinlega til að kvarta undan (of)notkun þess, og iðulega spinnst af þessu langur þráður þar sem flestir þátttakenda eru á einu máli um að þetta sé ómögulegt orð. En hvað er það við orðið klárlega sem fer svona í taugarnar á fólki? Það er ekki eins og orðið sé nýtt – það kemur t.d. fyrir í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar frá 1540: „hann var svo lagfærður að hann sá allt klárlega.“ Fleiri dæmi frá svipuðum tíma eru um orðið.

Þetta var samt lengi sjaldgæft orð. Á tímarit.is eru aðeins 11 dæmi um það fram til 1930. Eftir það fjölgar dæmum svolítið og 122 bætast við fram til 1987. En þá tók orðið stökk og dæmum fjölgar töluvert fram að aldamótum en þó einkum eftir aldamót. Árin 1990-1999 eru dæmin um 500, en tíu sinnum fleiri, rúm fimm þúsund, árin 2000-2010. Það var því kannski ekki furða að sumum ofbyði, eins og þeim sem skrifaði í athugasemd á bloggsíðu Eiðs Guðnasonar árið 2010: „Mig langar að fá álit þitt Eiður á orðinu ,,klárlega“ sem er (of?) mikið notað af knattspyrnuþjálfurum og íþróttaþulum.“ Eiður svaraði: „Ég geri ekki athugasemd við orðið klárlega= hreinlega. Hinsvegar er hægt að jaska öllum orðum með því að ofnota þau.“

Í ársbyrjun 2013 mátti hins vegar lesa á bloggsíðu Eiðs: „Klárlega er tískuorð sem sennilega hverfur að mestu áður en langt um líður.“ Í sjónvarpsþættinum Orðbragð sem sýndur var síðla sama árs var henti Bragi Valdimar Skúlason einu „útjöskuðu“ orði í hverjum þætti og í einum þættinum var það einmitt klárlega sem hlaut þau örlög. Bragi sagði: „Klárlega er klárlega ofnotað orð. Þetta er svona einhvers konar poppstjörnuatviksorð sem hefur náð að smokra sér inn í málið og taka fram úr orðum eins og einmitt, auðvitað, að sjálfsögðu, og jafnvel hinu góða og gilda íslenska ókei sem er klárlega slæmt. Klárlega er ofnotað orð. Og við þurfum klárlega að losa okkur við það.“ Að svo mæltu setti hann blað með orðinu á í pappírstætara.

En ekki er alltaf hægt að setja eitthvert þeirra orða sem Bragi nefndi í stað klárlega. Í dæminu úr Nýja testamentinu sem vitnað var til hér að framan merkti orðið 'greinilega- og þá merkingu virðist það hafa í öllum dæmum vel fram á 20. öld. Um miðja öldina fara þó að sjást dæmi þar sem merkingin er eilítið önnur, eins og í Samvinnunni 1945: „Að þetta skuli ekki klárlega steindrepa þá.“ Annað dæmi er úr Íslendingi 1956: „Þegar Sjálfstæðismenn benda á einhver mál, sem þeir hafa gengist fyrir á Alþingi, nefna Framsóknarblöðin það „grobb“ ef ekki klárlega ósannindi.“ Hér merkir klárlega frekar 'hreinlega' eins og Eiður nefndi. En kringum 1970 fara að koma fram dæmi sem sýna dæmigerða notkun orðsins í nútímamáli.

Í Alþýðublaðinu 1968 segir um Gretu Garbo: „Hún mun klárlega halda sínu sjöunda innsigli.“ Í minningargrein í Morgunblaðinu 1970 segir: „Málalengingar og þref um hluti, sem lágu ljósir fyrir, áttu klárlega ekki við hann.“ Í þessum dæmum gæti merkingin verið 'greinilega' ef um ályktun höfundar væri að ræða. Samhengið sýnir hins vegar að þetta er ekki ályktun heldur staðhæfing – höfundur veit þetta. Merkingin er því fremur 'sannarlega, tvímælalaust'. Í sögu eftir Guðmund G. Hagalín í Vikunni 1971 segir: „nei, ég tek klárlega enga ábyrgð á því, að blikusvuntan þarna í norðrinu kunni ekki að hrista úr sér bráðum einhvern ósóma.“ Þetta er fyrstu persónu frásögn og því ljóst að um er að ræða staðhæfingu, ekki ályktun.

Eftir að notkun orðsins fór að aukast virðist merkingin langoftast vera 'sannarlega, tvímælalaust' eða 'örugglega'. Vissulega gæti eldri merkingin 'greinilega' líka stundum átt við vegna þess að lesanda eða áheyranda er ekki alltaf ljóst hvort um er að ræða ályktun eða staðhæfingu. Þannig er t.d. með dæmi úr DV 2021: „Símanotkun fyrir svefn hefur klárlega áhrif. Það er bæði birtan frá skjánum og svo bara áreitið sem ég held að sé enn þá mikilvægara.“ Er þetta niðurstaða byggð á einhverjum athugunum eða rannsóknum, eða er þetta staðhæfing? Það er ekki hægt að ráða af þessu dæmi þótt stærra samhengi sýni það kannski. En svo skiptir það sennilega engu máli fyrir skilning á setningunni.

Ég nota orðið klárlega mikið og átta mig ekki á því hvers vegna svona mörgum er í nöp við það. Það er gamalt í málinu og þótt merkingin hafi breyst svolítið er komin a.m.k. 50 ára hefð á þá notkun þess sem nú er algengust. Það verður ekki heldur séð að það sé að útrýma orðum eins og tvímælalaust, sannarlega, örugglega, einmitt, auðvitað og að sjálfsögðu sem flest eru mun algengari. Þótt orðinu hafi verið fargað í Orðbragði fyrir níu árum lifir það enn góðu lífi – en reyndar er rétt að nefna að samkvæmt tímarit.is virðist það hafa verið á toppnum árið 2013 og heldur vera á niðurleið síðan þótt ekki muni miklu þannig að e.t.v. hefur Orðbragð haft einhver áhrif. En ég ætla allavega að halda áfram að nota orðið.

Tómstundaanáll ársins

Það urðu ýmis tímamót í lífi mínu á þessu ári. Þann 1. febrúar varð ég tveggja aldarþriðjunga (66 ára og átta mánaða) gamall, og 1. júní varð ég löggilt gamalmenni – 67 ára. Ég er líka endanlega hættur að vinna – fór á eftirlaun um mitt ár 2018 en í byrjun árs 2019 fór ég í hlutastarf á Árnastofnun sem landsfulltrúi CLARIN, fyrst í 40% starfi en síðar 20% þar til í september 2021. Árið 2022 var því fyrsta heila árið sem ég er ekki í neinni launavinnu. Fyrri hluta ársins fór þó dálítill tími í að sinna tveimur evrópskum samstarfsnetum í máltækni sem ég tók þátt í og fór á lokaráðstefnu þeirra í Brussel í byrjun júní, en starfstíma netanna lauk um mitt ár. Á árinu gaf Mál og menning líka út bók mína Alls konar íslenska, sem er safn hundrað þátta um íslenskt mál á 21. öld, sprottin upp úr tómstundagamni mínu.

Þegar ég fór á eftirlaun fyrir hálfu fimmta ári auglýsti ég nefnilega eftir hugmyndum um viðfangsefni í tómstundum. Ég fékk tvær tillögur – ættfræði og golf. En mér fannst ég eiginlega búinn að afgreiða hvort tveggja. Veturinn sem ég var níu ára, 1964-1965, gerði ég fátt annað en grúska í ættfræði, las Íslenzkar æviskrár og ýmis önnur ættfræðirit spjaldanna á milli og skrifaði upp ættartölur. Síðan þá hefur gutlað á mér í ættfræði þótt ég hafi ekki sinnt henni mikið. Golf hef ég að vísu ekki stundað beinlínis, en hins vegar er ég sjóaður í girðingavinnu sem er mjög svipuð – rölt í góðum félagsskap frá holu til holu í þeim tilgangi að koma einhverju ofan í holurnar. Ég sé ekki allan mun á því hvort það er golfkúla eða girðingarstaur – allavega þykist ég vera búinn að afplána þetta og golfið heillaði mig því ekki.

Niðurstaðan varð því sú að halda bara áfram að gera það sem ég hef verið að gera undanfarin 40 ár – kenna og skrifa um íslenskt mál og málfræði. Kennslan er bara í svolítið öðru formi en áður – í stað þess að felast í fyrirlestrum og samtali við nemendahóp í kennslustofu felst hún í pistlum sem ég skrifa á Facebook og heimasíðu mína, og í svörum við spurningum fólks um mál og málnotkun. Ég byrjaði á pistlaskrifum haustið 2019 og stofnaði svo sérstakan Facebook-hóp haustið 2020 til að koma skrifunum á framfæri og koma upp vettvangi fyrir spurningar og svör. Frá upphafi hef ég skrifað 533 pistla um hvaðeina sem tengist máli og málnotkun, samtals um 290 þúsund orð. Að auki hef ég skrifað fjölmargar styttri færslur, svarað ótal spurningum, og skrifað mikinn fjölda athugasemda í umræðuþráðum.

Á þessu ári hef ég skrifað 178 pistla, eða að meðaltali fjóra pistlar á viku allt árið, að frádregnu sumarfríi, jólafríi og páskafríi. Pistlarnir eru tæp 100 þúsund orð samtals og hver pistill því að meðaltali rúm 550 orð. Þessir pistlar eru ólíkir innbyrðis og misjafnlega tímafrekir í samningu – suma skrifa ég nánast viðstöðulaust upp úr mér en aðrir krefjast verulegrar rannsóknarvinnu. Ég hugsa að ekki sé fráleit ágiskun að meðaltíminn sem fer í hvern pistil séu þrír til fjórir klukkutímar. Að viðbættum þeim tíma sem fer í að skrifa styttri færslur, svara spurningum og taka þátt í umræðum sýnist mér óhætt að segja að á árinu hafi ég verið í a.m.k. hálfu starfi við þetta áhugamál og líklega vel það. Auk þess hef ég á árinu flutt ein þrettán erindi af ýmsu tagi um málfræði, en fyrir sum þeirra hef ég reyndar fengið borgað.

Ég vona að þessi skrif hafi gagnast einhverjum sem vilja fræðast um tungumálið, þessa stórkostlegu og ótrúlegu sameign okkar allra – eðli þess og notkun, sögu og tilbrigði. Og ég vona líka að skrifin gagnist íslenskunni eitthvað – auki vitund fólks um að það skiptir máli að hugsa um hana, nota hana, halda henni að börnum, velta henni fyrir sér, og ræða hana – á jákvæðan hátt, með virðingu fyrir öðru fólki og málnotkun þess. Ég vona líka að mér takist að vekja fólk og fyrirtæki til vitundar um mikilvægi þess að nota íslensku en ekki ensku þar sem þess er nokkur kostur – nokkur dæmi eru frá þessu ári um gleðilegan árangur á þessu sviði. En ég geri þetta samt fyrst og fremst vegna þess að ég hef óskaplega gaman af því og gæti ekki hugsað mér skemmtilegri tómstundaiðju.

„Ótrúlega vinsæl, miðað við“

Nýtt jólalag Baggalúts, Myrra, hefst á línunum „Þau koma bara einu sinni á ári / ótrúlega vinsæl miðað við“. Út frá málhefð mætti eiga von á því að í næstu línu yrði nefnt eitthvert viðmið, en í staðinn kemur bara „Með öllu sínu óhófi og fári“. Vissulega kemur samanburðurinn fram þarna, þ.e. jólin eru ótrúlega vinsæl miðað við að þau koma bara einu sinni á ári – en til skamms tíma hefði samanburður komið á eftir miðað við. Vegna þess að ég er farinn að venjast því að heyra miðað við notað á þennan hátt, þ.e. án nokkurs samanburðar, kippti ég mér ekkert upp við þetta en hélt áfram að hlusta á þetta ágæta lag. Mér fannst samt ómaksins vert að skoða nánar þessa málnotkun og reyna að grafast fyrir um uppruna hennar.

Þótt það sé ekki langt síðan ég fór að taka eftir þessu er það ekki nýtt í óformlegu máli – a.m.k. tuttugu ára gamalt. Elsta dæmið í Risamálheildinni er af spjallvefnum Huga frá því árið 2002: „en darkness er cold og flestir sem ég veit af eru með frekar hátt cold resist miðað við, ég t.d er með um 31.%.“ Það er kannski ekki alveg ljóst hvernig á að greina þessa setningu og sama gildir um dæmi af spjallvefnum Bland 2003: „Ég er í 40% fæðingarorlofi líka með tæpar 93.000- á mánuði eftir skatta, held að ég sé á ágætis launum miðað við..“ Hér er endað á tveimur punktum sem gæti bent til þess að höfundur hafi talið eðlilegt að þarna kæmi eitthvert framhald, einhver viðmiðun, þótt hún sé ekki sett fram.

En ótvíræð dæmi koma fljótlega eftir þetta. Á spjallvefnum Málefnin var skrifað 2004: „Mér fannst maðurinn koma vel fyri[r] miðað við.“ Á Bland var skrifað 2004: „Hann sefur frá 12 á miðnætti til 12 á hádegi með því að vakna einu sinni til að drekka og fá hreina bleiu, stundum tvisvar, svo mér finnst ég fá góðan nætursvefn miðað við.“ Á sama spjallvef var skrifað 2005: „þá er alltaf hægt að koma með annan sem hefur það fínt, miðað við“ og „ég var á lyfjum en er það ekki í dag, hef náð nokkuð góðri heilsu miðað við.“ Eftir þetta fer dæmum um miðað við án eftirfarandi viðmiðs smátt og smátt fjölgandi á samfélagsmiðlum og í fréttum þar sem haft er orðrétt eftir viðmælendum – einkum er sambandið svona miðað við algengt.

Þetta sýnir að þessi málnotkun er orðið algeng í óformlegu máli, en í prentuðum miðlum hefur hún hins vegar verið mjög sjaldgæf fram undir þetta. Að vísu kemur fyrir dæmi í Morgunblaðinu 2005: „Förum við hins vegar seinni leiðina má segja að The Brothers Grimm sé barasta ágætis bíómynd, svona miðað við.“ En annars finn ég ekki dæmi fyrr en í Fréttablaðinu 2018: „Dóttir hans er þó við ágæta heilsu, miðað við.“ Ýmsum finnst þetta greinilega óeðlilegt – í DV 2018 segir viðmælandi: „Svo reyndar hef ég einu sinni fengið að heyra frá eldri konu sem ég var að afgreiða: „Þú talar mjög góða íslensku, svona miðað við.“ Ég hugsaði með mér „miðað við hvað?“ og tjáði konunni að ég væri nú Íslendingur.“

Mér finnst líklegast að þessi málnotkun eigi uppruna sinn í óákveðni málnotenda um hvaða orð eigi að nota um viðmiðið, og þess vegna sé oft hikað eða viðmiðinu alveg sleppt. Til þess bendir það að í dæmum þar sem haft er orðrétt eftir fólki er mjög algengt að miðað við sé tvítekið. Þannig segir t.d. í fréttum Bylgjunnar 2014: „við vorum þá undan vindi þannig að við höfðum vindinn í bakið miðað við, miðað við hraunið.“ Í fréttum RÚV 2016 segir: „Þetta er reyndar býsna stór skáli miðað við, miðað við aðra sem við þekkjum.“ Í fréttum Bylgjunnar 2021 segir: „Ekki miðað við, nei náttúrulega ekki miðað við stöðuna í dag.“ Í rituðu máli fara oft þrír punktar á eftir miðað við sem bendir til hins sama – óákveðni eða hiks.

Hliðstæð dæmi þar sem fallorði forsetningar sleppt ef merkingin er augljós eru fjölmörg í málinu. Þannig segir í Íslenskri málfræði Björns Guðfinnssonar: „Forsetningar verða að atviksorðum þegar fallorð þeirra falla brott. Dæmi: Báturinn er kominn . Hesturinn sökk í. Ég þakka fyrir.“ Þarna er sleppt t.d. land eða bryggja á eftir , mýri á eftir í, og matur á eftir fyrir. Ég sé ekki betur en sambandið miðað við falli alveg að þessu. Merkingin er þar augljós – 'miðað við aðstæður, miðað við það sem við er að búast, eftir atvikum'. Þegar fallorðinu er sleppt færist áherslan sem það hefði borið yfir á forsetninguna sem annars er áherslulaus, og í sambandinu miðað við fær lýsingarhátturinn miðað líka oft áherslu.

Sambandið miðað við fellur að þeim viðmiðum sem ég hef notað um hvenær tiltekið málbrigði sé orðið málvenja og þar með „rétt mál“ – það er orðið a.m.k. 20 ára gamalt, fjöldi fólks notar það, það er farið að sjást á prenti, og engin ástæða er til að ætla annað en börn sem tileinka sér það á máltökuskeiði haldi því á fullorðinsárum þótt ég hafi ekki sannanir fyrir því. Vitanlega þarf að venjast því eins og annarri nýbreytni í máli en það á sér ýmsar hliðstæður og merkingin ætti ekki að þvælast fyrir fólki. Eins og ég hef áður sagt finnst mér að við eigum almennt að fagna nýjungum í málinu að því tilskildu að þær gangi ekki beinlínis gegn málkerfinu. Og ekki förum við að fordæma texta Jónasarverðlaunahafans Braga Valdimars.

Er kominn tími á að tengja?

Í gær var spurt í Facebook-hópnum Málspjall um orðasambandið kominn tími á sem fyrirspyrjanda fannst „frekar óþjált“ og vildi heldur segja kominn tími til. Í sumar var líka spurt: „Hvernig stendur á því að nú heyrist varla annað en tími á?“ Ég svaraði því þá þannig að samkvæmt tölum af tímarit.is færi því fjarri að kominn tími á væri að útrýma kominn tími til, en þar að auki fyndist mér merking þessara tveggja sambanda ekki vera alveg sú sama, a.m.k. ekki alltaf. Sambandið kominn tími til er miklu eldra og hefur verið algengt a.m.k. síðan á fyrri hluta 19. aldar, og sama máli gegnir um tilbrigðin tími til kominn og tími kominn til – elstu dæmi um þau öll á tímarit.is eru frá fimmta áratug 19. aldar.

Elsta dæmi um kominn tími á er aftur á móti frá 1983, og dæmum hefur fjölgað ört síðan, einkum frá miðjum 10. áratugnum. Á árunum 2000-2022 eru dæmi um afbrigðin með til samt hátt í fjórum sinnum fleiri en dæmin um kominn tími á, en það síðarnefnda virðist þó vera í sókn. Í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar sem gefur besta mynd af óformlegu samtímamáli er fjöldi dæma um kominn tími á nærri 90% af samanlögðum fjölda dæma um tilbrigðin þrjú með til. Öfugt við kominn tími til er röð orðanna í sambandinu föst – það er ekki hægt að segja *tími á kominn eða *tími kominn á. Sambandið tími kominn á tekur líka oftast með sér nafnorðsandlag en samböndin með til taka oftast með sér nafnháttarsetningu.

Elsta dæmið um kominn tími á er í viðtali í Vikunni 1983: „Mér finnst skemmtanabransinn góður skóli þó hann sé troðfullur af fíflalátum. Ég er kannski ekki orðinn leiður á honum en mér finnst kominn tími á mig.“ Annað dæmi er í pistli í Velvakanda Morgunblaðsins 1984: „Það er kominn tími á tungu sem haldist hefur óbreytt í þúsund ár. Nú er dagskipunin ekki lengur afturhald heldur framsókn.“ Þriðja dæmið er úr Degi 1985: „Já, það var kominn tími á mig í Plastverksmiðjunni. Það var búið að byggja verksmiðjuna verulega upp og ég var að hluta til farinn að endurtaka mig.“ Fjórða dæmið er úr viðtali við Bjarna Felixson í DV 1985: „Sigurður Sigurðsson segir að það sé kominn tími á mig fyrir langa löngu.“

Í þessum dæmum væri ekki hægt að setja kominn tími til í stað kominn tími á – bæði setningagerðin og merkingin er önnur. Hér merkir kominn tími á að tími einhvers sé liðinn – kominn tími á mig merkir 'ég hef verið nógu (eða of) lengi í þessu hlutverki'. Það er þó ekki svo að sambandið hafi alltaf þessa merkingu. Frá upphafi virðist það líka geta komið í stað kominn tími til, eins og í Tímanum 1983: „Þarna fara tvö neðstu lið úrvalsdeildarinnar, og kominn tími á ÍR-inga að fara að vinna leik.“ Sama máli gegnir um dæmi í NT 1984: „Ertu ánægður með að hafa skákað Bretanum, var ekki kominn tími á það?“, og í Eyjafréttum 1984: „Það er eiginlega löngu kominn tími á manninn til að gefa okkur viðtal“.

En þrátt fyrir að iðulega sé hægt að not hvort heldur er kominn tími til eða kominn tími á finnst mér samböndin ekki vera alveg jafngild. Ég hef á tilfinningunni að í kominn tími til sé áherslan á breytinguna og tímasetningu hennar, en í kominn tími á sé áherslan fremur á ástæðu og nauðsyn breytingarinnar og það samband sé neikvæðara. Ef ég segi t.d. „Nú er kominn tími til að þvo bílinn“ merkir það að nú sé hentugur tími og góðar aðstæður til að hrinda þessu í framkvæmd. En ef ég segi „Nú er kominn tími á að þvo bílinn“ merkir það frekar að bíllinn sé svo skítugur að ekki verði undan því vikist að þvo hann. En auðvitað er merkingarmunurinn lítill og mjög oft er því hægt að nota hvort sambandið sem er.