Í nafni guðs föðurs

Í gær lenti ég í umræðu á netinu um eignarfallið föðurs sem málshefjandi hafði séð í auglýsingu og hneykslaðist á. Það er engin furða – í Íslenzkri málfræði Björns Guðfinnssonar, sem við sem erum komin yfir miðjan aldur lærðum flest (og mörg yngri) segir: „Algengt er að menn beygi þessi orð skakkt. Orðin faðir og bróðir heita þá oft í ef.et. föðurs, bróðurs, með greini föðursins, bróðursins.“ Í Málfarsbankanum segir: „Orðið faðir er eitt fárra orða í sínum beygingarflokki. Það veldur því að fólki hættir frekar til að beygja það ranglega. Eignarfall eintölu er t.d. ekki „föðurs“, með greini „föðursins“, eins og halda mætti út frá algengustu beygingarflokkunum heldur föður, með greini föðurins. Í nafni föðurins, sonarins og heilags anda.

En eignarfallið föðurs hefur tíðkast lengi, og í safni norrænu fornmálsorðabókarinnar, Ordbog over det norrøne prosasprog, eru fjölmörg dæmi um það úr fornu máli. Í fyrstu bók sem prentuð var á íslensku, Nýja testamentinu í þýðingu Odds Gottskálkssonar frá 1540, mun eignarfall eintölu „tíðast enda á -(u)rs“ að sögn Jóns Helgasonar. Í málfræði Jóns Magnússonar frá fyrri hluta 18. aldar er eignarfall eintölu sagt ýmist föður eða föðurs. Málvöndunarmaðurinn Halldór Kr. Friðriksson segir í Íslenzkri málmyndalýsingu 1861: „Þegar greinirinn er skeyttur aftan við faðir, verður eig.eint. föðursins“, og í Islandsk Grammatik Valtýs Guðmundssonar frá 1922 er myndin föðurs gefin en sagt að hún „bruges kun (og altid)“ þegar greini er bætt við, föðurs-ins.

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 segir að eignarfall orðsins faðir sé „föður el. (pop.) föðurs“ – „pop.“ merkir 'alþýðumál'. Í bókinni Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld eftir Björn K. Þórólfsson frá 1925 segir að eignarfallsmyndin föðurs „heyrist oft í nútíðar talmáli“. Það er því ljóst að eignarfallið föðurs hefur tíðkast í margar aldir og jafvel verið hin venjulega eignarfallsmynd vel fram á 20. öld. Það eru varla mikið meira en hundrað ár síðan farið var að hrekja hana skipulega úr málinu – sem tókst þó ekki. Eins og sjá má á tímarit.is hefur alltaf verið töluvert af dæmum um hana, þrátt fyrir að textar þar séu flestir prófarkalesnir. Þar eru um 1400 dæmi um föðurs en tæp tvö þúsund um föðursins (á móti átta þúsund um föðurins).

Í Risamálheildinni eru yfir 1300 dæmi um föðurs og hátt á áttunda hundrað um föðursins (á móti tæplega þrjú þúsund um föðurins). Mörg þessara dæma eru úr formlegu málsniði. Þetta sýnir að eignarfallsmyndir með -s lifa góðu lífi enn, þrátt fyrir að reynt hafi verið í meira en öld að kveða þær niður. Það er engin furða. Nær öll sterk karlkynsorð (þ.e., sem enda á samhljóði í nefnifalli eintölu) fá endingu í eignarfalli eintölu, oftast -s en stundum -ar. Undantekningar eru orð sem enda á tvöföldu s, eins og foss, og orð sem enda á samhljóði + s, eins og dans (þar er af hljóðfræðilegum ástæðum ekki hægt að bæta við auka s-i en sum slík orð hafa reyndar tilhneigingu til að fá -ar-endingu, eins og Selfoss) – og svo orðin faðir og bróðir.

Myndir eins og föðurs og bróðurs (og einnig Selfossar og Blönduósar og fleiri slíkar) eru því ekki einhverjar tilviljanakenndar og óskiljanlegar „villur“ sem beri vott um vankunnáttu þeirra sem nota þær. Þvert á móti sýna þær þekkingu málnotenda á kerfinu og tilfinningu fyrir því – sýna að málnotendum finnst eitthvað vanta ef engin ending er í eignarfalli. Við ættum vitanlega að fagna þessu í stað þess að kalla þessar myndir „rangar“ og leiðrétta þau sem nota þær. Kerfið er nefnilega miklu mikilvægara en einstaka undantekningar frá því. Þegar við bætist að myndin föðurs kemur fyrir þegar í fornu máli, var mikið notuð og sennilega aðalmynd orðsins í margar aldir og allt fram á 20. öld, og er ennþá mjög algeng, er algerlega fráleitt að kalla hana „ranga“.

Bíllinn velti

Eins og ég nefndi í gær eru til tvær sagnir sem eru merkingarlega náskyldar og hafa samhljóma nafnhátt, velta. Önnur er sterk, hefur þátíðina valt og merkir 'færast úr stað með snúningi, rúlla'. Hún er áhrifslaus, þ.e. á eftir henni fer ekkert andlag – við segjum bíllinn valt en ekki *ég valt bílnum. Hin er veik, hefur þátíðina velti og merkir 'koma snúningi á (e-ð), láta (e-ð) rúlla'. Hún er áhrifssögn, tekur með sér andlag – ég velti bílnum. En stundum verður áhrifssögnin áhrifslaus og andlag hennar að frumlagi. Í Vísi 2007 segir: „Bíll velti á Hólsfjallavegi á fimmta tímanum í gær.“ Í DV 2009 segir: „Bíll þeirra velti á veginum en þar var mikil hálka.“ Í Morgunblaðinu 2011 segir: „Betur fór en á horfðist þegar bíll velti við Kúagerði á Vatnsleysuströnd.“

Eiður Guðnason vakti athygli á síðastnefnda dæminu og sagði: „Þetta er undarlega þrálát meinloka hjá ýmsum fréttaskrifurum. Hverju velti bíllinn? Bíllinn valt  við Kúagerði. Hann velti hvorki einu né neinu.“ En þetta á sér ýmis fordæmi. Það þykir t.d. ekkert athugavert við að segja bæði hann minnkaði drykkjuna og drykkjan minnkaði, hún stækkaði íbúðina og íbúðin stækkaði ­– en aðeins hann opnaði skrifstofuna og hún lokaði búðinni er viðurkennt, ekki skrifstofan opnaði og búðin lokaði, sem er þó alveg hliðstætt. Reyndar er sá munur á loka og hinum sögnunum að sem áhrifssögn stjórnar hún þágufalli sem verður að nefnifallsfrumlagi (þótt búðinni lokaði sé reyndar líka til) – og sama máli gegnir um velta bílnum bíllinn velti.

Þessi breyting á notkun velta er greinilega ekki alveg ný en virðist ekki vera algeng, aðeins milli 10 og 20 örugg dæmi í Risamálheildinni en slæðingur að auki á netinu. En vegna þess að myndir áhrifssagnarinnar og þeirrar áhrifslausu falla saman í viðtengingarhætti nútíðar er oft útilokað að skera úr um það hvora sögnina er verið að nota. Þetta á t.d. við um setningar eins og „Víða eru brattir vegfláar og því hætta á að bílar velti“ á mbl.is 2020. Þarna er vissulega langeðlilegast að líta svo á að um sé að ræða sögnina velta – valt, en velta – velti kemur þó líka til greina, þ.e. merkingin 'að bílstjórar velti bílum'. Í talningum geri ég þó alltaf ráð fyrir fyrrnefndu sögninni í slíkum tilvikum og því gætu dæmin um breytinguna verið vantalin.

Ég get vel sagt bæði bíllinn fór svo hratt að hann valt í beygjunni og bíllinn fór svo hratt að hann velti í beygjunni en ég býst við að seinni setningin hugnist ekki öllum. Mér finnst samt einhvern veginn að þessar setningar merki ekki nákvæmlega það sama – mér finnst einhvern veginn meiri hreyfing í velti, meira eins og veltan sé liður í ferli, en sjálfstæður atburður ef valt er notað. Það passar við þessa tilfinningu að þessi notkun velti virðist vera bundin við bíla – mér finnst dæmi á við *steinninn velti eða eitthvað slíkt alveg ótækt og hef aldrei séð það. En við þetta bætist að andlaginu bíl er oft sleppt með velta þegar það er augljóst – „táningur frá Harrisburg, höfuðborg Pennsylvaníu var langt kominn með að læra á bíl þegar hann velti á leið sinni í verklega prófið“ segir í Morgunblaðinu 2008. Þarna merkir sögnin eiginlega 'velta bíl'.

Yltu eða veltu – þarna er efinn

Í sjónvarpsþættinum „Kappsmál“ í gærkvöldi áttu þátttakendur að beygja sambandið velta soltnum gelti og setja setninguna í fleirtölu, hafa sögnina í þriðju persónu í viðtengingarhætti þátíðar, lýsingarorðið í efsta stigi og nafnorðið með greini. Gefið var rétt fyrir svarið yltu soltnustu göltunum þótt stjórnandinn væri greinilega í vafa um myndina yltu og segði að það hefði líka verið hægt að segja veltu soltnustu göltunum. Spurningin væri hvort um áhrifssögn eða áhrifslausa sögn væri að ræða og örugglega þætti einhverjum rétt að gera greinarmun þar á en – „það fer algerlega eftir því hvað þú ert að gera við þessa gelti“ sagði hann.

Það er alveg rétt að í íslensku eru tvær sagnir sem hafa nafnháttinn velta. Önnur er sterk, hefur þátíðina valt og merkir 'færast úr stað með snúningi, rúlla'. Hún er áhrifslaus, þ.e. á eftir henni fer ekkert andlag (nafnliður) – við segjum bíllinn valt en ekki *ég valt bílnum. Hin sögnin er veik, hefur þátíðina velti og merkir 'koma snúningi á (e-ð), láta (e-ð) rúlla'. Hún er áhrifssögn, tekur með sér andlag – ég velti bílnum. Myndin yltu er viðtengingarháttur þátíðar í fleirtölu af fyrrnefndu sögninni – bílarnir yltu ef þeir færu of hratt í beygjuna. Samsvarandi mynd af síðarnefndu sögninni er veltu þau veltu bílnum ef þau færu of hratt í beygjuna.

Þess vegna er ekki rétt að orða það svo að svarið fari eftir því hvað verið sé að gera við geltina. Ef um áhrifslausu sögnina er að ræða er nefnilega ekkert pláss fyrir geltina í setningunni, ekki frekar en bílinn í dæminu *ég valt bílnum. Auðvitað má halda því fram – eins og þarna var í raun gert – að yltu sé samt sem áður rétt, vegna þess að það sé ómótmælanlega þriðja persóna fleirtölu í viðtengingarhætti af velta og ekki hafi verið tekið fram að um veiku sögnina væri að ræða. En þá verður líka að líta svo á að verið sé að beygja stök orð en ekki orð í samhengi, sem væri andstætt upplegginu og því sem venja er í þættinum.

Vitanlega er bæði keppendum og stjórnanda vorkunn. Þau orðasambönd sem ætlast er til að keppendur beygi í þessum þáttum eru fæst þess eðlis að þau komi nokkurn tíma fyrir í venjulegu máli, hvað þá þegar búið er að setja þau í sjaldgæfustu og snúnustu beygingarmyndir sem málkerfið býður upp á. Þetta getur verið skemmtileg gestaþraut en segir lítið um almenna málkunnáttu keppenda. Það er líka eðlilegt að stjórnendur lendi í bobba þegar upp koma myndir sem hljóma rétt en ekki hafði verið reiknað með, en það er samt óheppilegt þegar látið er að því liggja að munur áhrifssagna og áhrifslausra skipti engu máli.

Hvernig lýst ykkur á þetta?

Ég hef yfirleitt forðast að skrifa hér um stafsetningu enda finnst mér það frekar ófrjótt viðfangsefni – stafsetningarreglur eru mannanna verk og frávik frá þeim segja lítið um almenna málkunnáttu. Frá því eru þó undantekningar, og eina slíka rakst ég á í morgun í föstudagsmasi Heimis Pálssonar sem skrifar: „Held ég hafi einhvern tíma nefnt að margir rita „hvernig lýst þér á þetta?“ en myndu aldrei skrifa sögnina „lýtast“ með ý. Þetta [er] áreiðanlega vegna þess að verið er að hugsa um ljós þegar manni lýst á, en alls ekki lýti þegar rætt er um sögnina lítast. Þetta er merkilegt og mér líst svo á að það væri verðugt samvinnuverkefni fyrir fagurkera og sálfræðing að kanna samband útlits og innblásturs í stafsetningu – svona ef vantar verkefni.“

Þetta minnti mig á pistil sem ég skrifaði nýlega: „Venjulega er litið svo á að munurinn á þakkir skildar og þakkir skyldar sé eingöngu stafsetningarmunur – í seinna dæminu sé y ranglega ritað fyrir i. En sama villa er nánast aldrei gerð í þakkir skylið – um það eru aðeins átta dæmi á tímarit.is, móti 1750 um þakkir skyldar. Það hlýtur því að vera eitthvað í myndinni skildar sem veldur því að málnotendum finnst eðlilegt að rita skyldar. Trúlegt er að þetta sé tengt við þakkarskuld í huga margra – við vitum að u og y skiptast oft á í skyldum orðum. Lýsingarorðið skyldur getur líka merkt 'skyldugur' þannig að hugsanlegt er að málnotendur skilji sambandið svo að skylt sé að þakka einhverjum. Slík merkingartengsl eru nærtækari en við skilinn.“

Annað svipað dæmi er orðið tilskilinn. Um þá mynd eru hátt í 3700 dæmi á tímarit.is en aðeins 12 um tilskylinn. Aftur á móti eru samtals rúm 1700 dæmi um myndirnar tilskyldir, tilskyldar og tilskyldum en um 9400 um samsvarandi myndir með i. Væntanlega tengja málnotendur þetta við orðin skylda og skyldur. Dæmi Heimis um lýst er örugglega svipaðs eðlis. Á tímarit.is eru rúm sjö þúsund dæmi um líst / lízt vel en hátt í þúsund um lýst / lýzt vel, og tæp átta þúsund um hvernig líst / lízt en tæp ellefu hundruð um hvernig lýst / lýzt. Athugið að þetta eru að verulegu leyti prófarkalesnir textar þannig að hlutfall dæma sem ekki samræmast reglum er mjög hátt. Aftur á móti eru rúm 500 dæmi um lítast vel en aðeins eitt um lýtast vel.

Þetta eru góð dæmi um það að „villur“ í stafsetningu eru ekki alltaf bara „villur“ í þeim skilningi að þær sýni vankunnáttu fólks í því sem það hefur átt að læra, heldur geta þær stundum sagt okkur eitthvað um málkerfi og máltilfinningu þeirra sem skrifa. Þau sem skrifa mér lýst vel á þetta, hún á þakkir skyldar og hann lauk verkinu á tilskyldum tíma eru sem sé einmitt að gera eins og fyrir þau er lagt í stafsetningarkennslu – þau eru (meðvitað eða ómeðvitað) að velta fyrir sér uppruna orðanna og tengslum þeirra við önnur orð. Það vill bara svo til að í þessum vangaveltum komast þau að „rangri“ niðurstöðu – miðað við reglurnar sem við höfum sett. En er ekki ástæða til að meta þetta við þau og vinna með það, frekar en gefa þeim bara villu?

Að meðferða

Í gær heyrði ég sögnina meðferða notaða í sjónvarpsfréttum. Þótt ég hafi aldrei heyrt hana áður skildi ég hana strax, bæði vegna tengsla við nafnorðið meðferð og út frá samhengi – það var talað um að „greina, sjúkdómsgreina og „meðferða““. Ég set meðferða hér innan gæsalappa því að sú sem notaði sögnina gerði tákn fyrir gæsalappir með höndunum sem sýnir að hún áttaði sig á því að þetta væri ekki vel þekkt eða viðurkennd málnotkun. En ég fann slæðing af dæmum um sögnina bæði á netinu og í Risamálheildinni, þau elstu frá 2005. Á Málefnin.com segir „En ég hef meðferðað svo marga“ og á Bland.is voru tvö dæmi, annað var „já ég hringdi upp á Vog áðan og sagði þeim frá ástandinu á heimilinu en þeir sögðust ekki meðferða svona fíkn!!!“

Þótt sögnin meðferða sé ekki algeng er ljóst að hún hefur verið til í málinu í a.m.k. hátt í 20 ár. Meðal dæma sem ég fann um hana á netinu eru „Hún starfaði áður […] við geðgreiningar og að meðferða kvíða og þunglyndi“, „Mögulegt að meðferða fólk með mismunandi raskanir á sama tíma“, og „á krabbameinsdeildinni er hugsað heildrænt þegar verið er að meðferða krabbameinssjúkling.“ Sögnin hefur sjaldan komist í fjölmiðla en fyrir utan dæmið í gær fann ég dæmi úr fréttum Stöðvar tvö 2013, „Í janúarmánuði fengið mikið af spurningum um það hvort að það dugi eitthvað að meðferða einstaklinga sem þessa“, og úr fréttum Ríkisútvarpsins 2015: „Við vitum meira en við vissum fyrir fimm árum um hvernig á að meðferða einstaklinga.“

Í þessum dæmum er ýmist talað um að meðferða sjúkdóm / fíkn eða meðferða fólk (við sjúkdómi / fíkn). Sögnin meðhöndla hefur hliðstæð merkingartilbrigði og í sumum tilvikum væri hægt að nota hana í stað meðferða – talað er um að meðhöndla kvíða og þunglyndi, meðhöndla krabbameinssjúkling o.s.frv. En merking sagnanna er ekki alveg sú sama, ekki frekar en í nafnorðunum meðferð og meðhöndlun. Í meðferða felst oft að verið er að veita ákveðna, vel skilgreinda, skipulagða, sérhæfða og tímabundna meðferð, en meðhöndla vísar fremur til almennrar meðhöndlunar með fjölbreyttum aðferðum, eins og felst í skýringu hennar í Íslenskri nútímamálsorðabók, 'veita heilbrigðisaðstoð og lækningu'. En vissulega skarast þetta oft.

Það eru vitanlega fordæmi fyrir því að sögn sé mynduð af samsettu nafnorði með því að bæta nafnháttarendingunni -a við nafnorðsstofninn – þekkt dæmi er sögnin hesthúsa sem auðvitað er mynduð af nafnorðinu hesthús. Þótt sögnin *ferða í germynd sé ekki til í málinu er miðmyndin ferðast vitanlega alþekkt. Orðfræðilega ætti meðferða því að vera í lagi en spurningin er hvort hennar sé þörf. Ef meðhöndla gengur ekki merkingarlega verða þau sem vilja ekki nota meðferða að nota orðasamband, veita meðferð, sem er dálítið formlegt. Þá má líka minna á að oft er því haldið fram að íslenska sé „sagnamál“ og betra sé að nota eina sögn en samband sagnar og nafnorðs. Ef þörf er fyrir meðferða sé ég ekkert að því að nota hana – hún venst.

Óhagnaðardrifin fyrirtæki

Í fyrradag var hér gerð athugasemd við það þegar talað er um „óhagnaðardrifin fyrirtæki“ sem er þýðing á non-profit companies í ensku. Málshefjanda fannst orðalagið „kauðskt“ og taldi að íslenskan hlyti „að luma á einhverju gáfulegra“. Fleiri eru sömu skoðunar – gerðar hafa verið athugasemdir við orðið í Málvöndunarþættinum og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á Twitter 2018: „Ég veit hvað hagnaður er. Ég veit hvað tap er. Hef heyrt orðið óhugnaður en óhagnaður og óhagnaðardrifin starfsemi eru orðskrípi.“ Í Fréttablaðinu 2018 sagði Óttar Guðmundsson: „Þetta er skemmtilegt nýyrði þar sem forskeytinu ó er ætlað að umbreyta merkingu orðsins. Óhagnaður er þó ekki skilgreindur sem tap heldur sem enginn gróði.“

Reyndar er orðið óhagnaður ekki nýyrði heldur gamalt orð í málinu í merkingunni 'óhagur, óþægindi', og var töluvert notað í þeirri merkingu á seinni hluta 19. aldar og framan af þeirri 20. „Það mundi því verða stór óhagnaður, að synja þurfalingum gersamlega um tóbak“ segir t.d. í Ísafold 1905. En orðið virðist vera horfið úr málinu í þessari merkingu og það liggur ekki til grundvallar samsetningunni óhagnaðardrifinn, heldur hefur neitunarforskeytinu ó- þar verið bætt framan við orðið hagnaðardrifinn sem var fyrir í málinu þótt það væri ekki algengt. Elsta dæmi um það orð er í Morgunblaðinu 1996 þar sem segir „Markaðurinn virðist vera töluvert „hagnaðardrifinn““ – gæsalappirnar benda til þess að orðið hafi verið lítt þekkt á þeim tíma.

Elsta dæmi um óhagnaðardrifinn er frá 2012, í bloggi Þórðar Björns Sigurðssonar sem birtist undir hatti DV: „Hvernig væri […] að horfa frekar til þess möguleika að hið opinbera gangist fyrir því að sett verði á fót óhagnaðardrifin leigufélög, að norrænni fyrirmynd, sem haldi utan um og sýsli með þessar eignir?“ Þórður Björn var framámaður í stjórnmálasamtökunum Dögun á þessum tíma og vera má að hann sé höfundur orðsins – a.m.k. er athyglisvert að öll dæmi um orðið í fjölmiðlum fyrir 2017 (um 20 talsins) virðast vera runnin frá stuðningsfólki Dögunar. En árin 2017 og 2018 varð skyndilega gífurleg aukning í notkun orðsins og í Risamálheildinni eru nú hátt í 900 dæmi um það frá síðustu fimm árum – á tímarit.is eru dæmin um 130.

Sumum finnst þessi samsetning óeðlileg þar sem ekki sé ljóst hverju sé verið að neita með neitunarforskeytinu ó- eins og kemur fram í tilvitnuðum orðum Bjarna og Óttars hér að framan. Það er vitanlega ekkert einsdæmi að neitunarforskeytið neiti orðinu í heild eins og í þessu tilviki, en ekki bara fyrsta lið þess. Orðið óraunhæfur er t.d. ekki myndað með því að taka nafnorðið óraun (sem kemur fyrir í Heimsljósi Halldórs Laxness) og bæta -hæfur við það, heldur með því að bæta ó- framan við raunhæfur. Orðið óhagnaðardrifinn er myndunarlega hliðstætt, en vegna þess hversu langt það er slitnar það dálítið sundur í framburði og verður óhagnaðar-drifinn. Það getur stuðlað að því að forskeytið ó- sé skynjað þannig að það eigi eingöngu við fyrri hlutann.

Fjármálaráðherra skrifaði á Twitter 2018: „Alltaf fundist þetta vera orðskrípi. Finnst það enn og hef ekki verið að nota það.“ Orðið var samt notað í greinargerð með frumvarpi sem hann lagði fram á Alþingi 2020, og er komið inn í lög. Vissulega má taka undir að óhagnaðardrifinn sé ekki mjög lipurt og að sumu leyti óheppilegt orð. En nú er það komið í notkun og orðið mjög algengt. Eins og ég hef oft sagt finnst mér yfirleitt mjög hæpið að hrófla við orðum sem eru komin í verulega notkun, enda þótt hægt hefði verið að hugsa sér betri orð. Ég er a.m.k. farinn að venjast þessu orði og það er rétt myndað eins og áður segir. En auðvitað þarf ekki alltaf eitt nafnorð – það væri líka mjög oft hægt að tala um fyrirtæki sem er ekki rekið í hagnaðarskyni.

(Ný)skapandi gervigreind

Orðið gervigreind er allt í einu á allra vörum í kjölfar mikilla og skyndilegra framfara á því sviði. Orðið er þó ekki nýtt – elsta dæmi um það er hálfrar aldar gamalt, úr bókinni Mál og mannshugur sem er þýðing Halldórs Halldórssonar prófessors á Language and Mind eftir Noam Chomsky. En elsta skilgreining orðsins á íslensku sem ég hef rekist á er í viðtali við Jörgen Pind sálfræðing og síðar prófessor í Tímanum 1982. Þar segir: „Með gervigreind eða tölvugreind (á ensku „artificial intelligence“) er átt við tilraunir til að búa til tölvur sem eru svo „greindar“ að þær geta staðið mönnum jafnfætis eða verið þeim fremri að fást við ýmis verkefni sem mannlega vitsmuni þarf nú til að leysa.“ Þetta er jafnframt elsta dæmi um orðið á tímarit.is.

Reyndar hefur ekki öllum þótt orðið gervigreind sérlega heppilegt, en það er þó væntanlega orðið svo fast í sessi að ekki verði hróflað við því héðan af. En nú hefur gervigreindin færst á nýtt stig og mikið er talað um það sem heitir á ensku generative artificial intelligenceChatGPT er dæmi um það. Okkur vantar gott íslenskt orð yfir þetta sem er kannski ekki undarlegt – generative er snúið orð og málfræðingum hefur gengið illa að finna góða þýðingu á generative grammar Noams Chomsky. Í Ensk-íslenskri orðabók með alfræðilegu ívafi er orðið þýtt 'myndandi, skapandi, sem leiðir af sér, veldur eða orsakar' og reynt var að nota orðið málmyndunarfræði yfir generative grammar en það náði ekki fótfestu og heyrist ekki lengur.

Meginmunurinn á „hefðbundinni“ gervigreind og „generative“ gervigreind er að sú hefðbundna miðar að því að leysa sérhæfð verkefni og svara spurningum út frá fyrirliggjandi og fyrirfram skilgreindum gögnum, reglum og mynstrum, en „generative“ gervigreind fer út fyrir þennan ramma og reynir að skapa ný gögn og nýja þekkingu með því að tengja fyrirliggjandi gögn saman á nýjan hátt – eins og mannfólkið gerir. Elsta og algengasta þýðingin á generative artificial intelligence sem ég veit um er skapandi gervigreind – það orðasamband er t.d. notað í fréttum frá 2020 en mér skilst að sumum finnist það óheppileg þýðing. Orðið spunagreind hefur verið eitthvað notað, einnig mótandi gervigreind og sjálfsagt ýmis fleiri orð.

Ég sé ekki betur en skapandi gervigreind nái ágætlega merkingunni í generative artificial intelligence eins og henni er lýst hér að framan og í öðrum og ítarlegri lýsingum. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er lýsingarorðið skapandi skilgreint 'sem býr til nýja hluti, verk eða hugmyndir' og í orðasafni úr uppeldis- og sálarfræði í Íðorðabankanum er skapandi hugsun skilgreind 'markvís hugsun, sem er að verki, þegar leitað er að nýrri lausn á viðfangsefni, nýjum venslum fyrirbæra, nýjung í tækni eða frumlegu verki og vinnubrögðum í list'. Þessi notkun orðsins skapandi virðist vel geta samrýmst því sem átt er við með generative í tengslum við gervigreind. Einnig kæmi til greina og væri e.t.v. ekki síðra að tala um nýskapandi gervigreind.

Þótt orðið spunagreind sé vissulega lipurt og þægilegt í meðförum finnst mér það ekki heppilegt sem þýðing á generative artificial intelligence. Í textasamhengi hefur orðið spuni á sér neikvæðan blæ – talað er um uppspuna, að spinna eitthvað upp, og það sem heitir spin doctor á ensku hefur verið kallað spunameistari á íslensku. Vissulega er spuni í tónlist eða leiklist ekki neikvæður en merking orðsins í listum fellur ekki vel að merkingu generative í generative artificial intelligence – í listum er spuninn miklu frjálsari og óháðari tilteknum forsendum. Þar að auki er ekkert í orðinu spunagreind sem gefur til kynna að um gervigreind sé að ræða – þetta gæti eins átt við mannlega greind (og ætti kannski miklu fremur við á því sviði).

Það er stundum nefnt sem eitt af megineinkennum íslenskunnar – og meginkostum hennar – hvað hún sé gagnsæ, öfugt við tungumál þar sem talsverður hluti orðaforðans er af grískum eða latneskum stofni. Með gagnsæi er átt við það að við getum mjög oft áttað okkur á merkingu orða þótt við höfum aldrei heyrt þau eða séð áður vegna þess að við getum tengt þau við önnur orð í málinu. En þetta er ekki bara kostur – tengsl orðanna við uppruna sinn og við önnur orð af sömu rót geta oft þvælst fyrir okkur til að byrja með en þegar farið er að nota orðin að ráði fara þau að lifa sjálfstæðu lífi, óháð upprunanum og skyldum orðum. Orð merkja á endanum það sem við látum þau merkja og þannig verður það líka í þessu tilviki – en það tekur smátíma.

Magaermisaðgerð

Í gærkvöldi heyrði ég orðið magaermisaðgerð notað í sjónvarpsfréttum. Mér fannst það athyglisvert – ég hefði búist við magaermaraðgerð vegna þess að kvenkynsorðið ermi fær -ar-endingu í eignarfalli eintölu, ermar. Þegar ég fór að skoða þetta kom þó í ljós að myndin magaermisaðgerð er töluvert notuð, meira en magaermaraðgerð að sjá – fyrrnefnda myndin er t.d. notuð í Læknablaðinu og í kynningarefni frá Klíníkinni. Í Risamálheildinni eru 79 dæmi um magaermisaðgerð en 68 um magaermaraðgerð – og auk þess 18 um magaermiaðgerð þar sem fyrri hlutinn er ber stofn og 10 um magaermaaðgerð þar sem fyrri liðurinn virðist vera í eignarfalli fleirtölu. Allar myndirnar sjást fyrst á prenti á árunum 2016-2017.

Í fljótu bragði mætti ætla að magaermisaðgerð væri rangt myndað orð, samræmdist ekki íslenskum orðmyndunarreglum, þar sem fyrri liður þess væri röng eignarfallsmynd – og vissulega er eignarfallið af ermi aldrei *ermis. Hins vegar er það vel þekkt að kvenkynsorð sem enda á -i bæti við sig -s þegar þau eru fyrri liður samsetninga – keppnismaður, landhelgisgæsla, leikfimishús o.s.frv. Fyrri liður þessara orða, keppni, landhelgi, leikfimi, er eins í öllum föllum eintölu – við fáum aldrei *keppnis, *landhelgis, *leikfimis í orðunum einum og sér. Þess vegna er fyrri liðurinn ekki í eignarfalli í þessum orðum og -s ekki eignarfallsending, heldur er stofninn notaður og milli hans og seinni hlutans kemur tengihljóð (tengistafur, bandstafur).

Slík orðmyndun er algeng í málinu og góð og gild, þótt áður hafi oft verið gerðar athugasemdir við hana vegna þess misskilnings að þar væri um ranga eignarfallsmynd að ræða. Ekkert er því til fyrirstöðu að líta svo á að magaermisaðgerð sé myndað á sama hátt – af stofninum magaermi að viðbættu tengihljóðinu -s. Vissulega er sá munur á orðinu ermi og hinum orðunum sem nefnd voru, keppni, landhelgi, leikfimi, að þau eru óbreytt í eignarfalli eintölu en ermi fær -ar-endingu. En í öllum þessum orðum er eðlilegast að líta svo á að -i sé ekki beygingarending (í nefnifalli, þolfalli og þágufalli), heldur hluti stofnsins en falli brott í eignarfallinu ermar vegna þess að endingin hefst á sérhljóði (ermi+ar > ermar) eins og ótal önnur dæmi eru um í málkerfinu.

En vitanlega eru bæði stofnsamsetningin magaermi+aðgerð og eignarfallssamsetningin magaerm+ar+aðgerð líka rétt mynduð orð, og þar eð þær samsetningaraðferðir eru miklu algengari en samsetning með tengihljóði hefði e.t.v. mátt búast við að þær yrðu frekar fyrir valinu en magaermi+s+aðgerð (samsetning með eignarfalli fleirtölu, magaerm+a+aðgerð, er líka orðmyndunarlega rétt en merkingarlega ólíklegri). Það er samt ljóst að málnotendum finnst vanta einhverja tengingu milli orðhlutanna ef ber stofninn er hafður í fyrri hluta orða af þessu tagi þannig að magaermiaðgerð er ólíklegri mynd enda mun sjaldgæfari. Aftur á móti er magaermaraðgerð eðlileg mynd, eins og magaermisaðgerð, og smekksatriði hvor er valin.

Gleraugnahús

Einu sinni var ég að skrifa um það að þrátt fyrir að merking samsettra orða sé oft gagnsæ, í þeim skilningi að við getum tengt einstaka liði þeirra við önnur orð sem við þekkjum, þá geta tengsl liðanna verið með ýmsu móti og oft þarf að læra sérstaklega hvernig þeim sé háttað í hverju orði. Ég tók dæmi af orðinu hús sem „birtist t.d. í fjölmörgum ólíkum samsetningum. Þannig vísar timburhús til efnis hússins, einingahús fremur til byggingaraðferðar, íbúðarhús til nýtingar, fjölbýlishús til skipulags, eldhús og þvottahús eru ekki einu sinni hús, heldur herbergi – að ekki sé talað um gleraugnahús og nálahús“. Guðrún Kvaran segir um tvö þau síðastnefndu: „Fleiri merkingar eru auðvitað í hús eins og til dæmis 'hulstur, hylki' […].“

Elsta dæmi um gleraugnahús í Ritmálssafni Árnastofnunar er úr bréfi frá séra Árna Helgasyni árið 1826: „til gullsmiðsins eru komin gleraugnahús conferensr. í þeim tilgangi.“ Elsta dæmi á tímarit.is er í Norðanfara 1876: „Þeir höfðu ýmsa gripi, helzt krossa og róðukrossa, neftóbak og tóbaksdósir og gleraugnahús.“ Í Ísafold 1891 eru auglýst „Gleraugnahús sjerstök“. Í Ísafold 1892 segir: „Tapazt hefir í gær á götum bæjarins silfurgleraugnahús vandað.“ Þar er orðið haft í eintölu en fleirtalan virðist þó vera mun algengari og í flestum orðabókum er orðið gefið upp sem fleirtöluorð. Þannig er ég líka vanur því. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er eintalan þó gefin upp, sem og í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

En nýlega áttaði ég mig á því að þetta orð, sem ég hef þekkt frá barnsaldri og nota iðulega enn í dag, virðist vera nær horfið úr málinu. Ég komst svo að því að ég er ekki einn um að hafa veitt þessu eftirtekt. Þórður Helgason sagði í Morgunblaðinu 2013: „Hins vegar gerist það stundum að ágætum heitum hluta er gert að hverfa sakir þess að hluturinn breytir um form. Önnur orð setjast á þá í staðinn. Gott dæmi um slíkt er hið fallega orð gleraugnahús, orð sem ég ólst upp við og sakna. Gleraugnahús höfðu eins konar dyr sem hægt var að opna og loka. Skyndilega var slíkum húsum lokað hinsta sinni en við tóku lágkúrulegri orð eins og hulstur eða hylki sem engin reisn er yfir. Dagar gleraugnahúsa voru taldir.“

Orðið hefur svo sem aldrei verið mjög algengt á prenti. Á tímarit.is eru rúm 300 dæmi um það, hátt í helmingur úr nöfnum verslana. Í Risamálheildinni eru aðeins fimm dæmi um orðið frá þessari öld, þar af þrjú þar sem orðið er beinlínis til umfjöllunar (dæmin frá Guðrúnu Kvaran og Þórði Helgasyni sem nefnd eru hér að framan). Orðið gleraugnahulstur er svo sem ekki algengt heldur en þó eru 58 dæmi um það í Risamálheildinni og auk þess er mjög oft bara talað um hulstur. Stundum þykir greinilega ástæða til að skýra gleraugnahús með öðru orði í sviga: „Gleraugun eru í gleraugnahúsi (gleraugnahulstri) sem er klætt með brúnu gerviefni að utanverðu en fóðrað að innanverðu með vínrauðu flaueli“ segir í lýsingu í Sarpi.

Ein ástæða þess að orðið gleraugnahús hefur vikið fyrir öðrum orðum gæti verið breytt hönnun – eins og Þórður Helgason nefnir höfðu gleraugnahús áður „eins konar dyr sem hægt var að opna og loka“ en í seinni tíð er oft um að ræða hylki eða hulstur sem gleraugunum er smeygt í, eða sem er lokað með rennilás, og þá liggur líkingin við hús ekki eins beint við. Hugsanlega finnst málnotendum líka að gleraugnahús hljóti að vera bygging frekar en hulstur – á seinni hluta síðustu aldar voru til verslanirnar Gleraugnahúsið og Gleraugnahús Óskars og það kann að hafa stuðlað að tengslum orðsins við byggingar í huga málnotenda. En hver sem ástæðan kann að vera á ég ekki von á að gleraugnahús lifni aftur við.

Milliskyrtur, nærskyrtur – og farsímar

Nýjum orðum í málinu, ekki síst tökuorðum, er oft fundið það helst til foráttu að þau útrými eldri orðum sömu merkingar og stuðli þannig að málfátækt. Eins og ég hef áður skrifað um veit ég ekki hvað oft ég hef séð því haldið fram að orðið snjóstormur sé að útrýma gamalgrónum orðum eins og bylur, stórhríð, kafald o.fl. Einföld athugun leiðir í ljós að því fer fjarri að svo sé, og oftast eru slíkar áhyggjur reyndar byggðar á misskilningi sem er svo sem eðlilegur – við tökum miklu frekar eftir því sem er nýtt og framandi en því sem við erum vön, og ýkjum því ómeðvitað tíðni nýrra orða. Samt sem áður gerist það auðvitað oft að orð hverfa úr málinu og fyrir því geta verið ýmsar ástæður – ekki endilega þær að önnur orð ýti þeim í burtu.

Fyrir nokkrum árum var ég að horfa á sjónvarpsviðtal við aldraðan kaupmann og kipptist við þegar hann nefndi orðið milliskyrta. Þetta var orð sem ég mundi vel eftir úr mínu ungdæmi en hafði ekki heyrt lengi. Athugun á tímarit.is staðfesti þá tilfinningu mína að orðið væri að hverfa úr málinu – þar eru 1215 dæmi um orðið en þar af aðeins ellefu frá þessari öld, sum þeirra úr eldri textum. Í Risamálheildinni eru aðeins fimm dæmi frá þessari öld um orðið og það er ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók. Það er hins vegar í Íslenskri orðabók og skýrt 'skyrta til að hafa milli nærskyrtu og ytri flíkur'. Orðið nærskyrta er þar skýrt 'skyrta til að vera í næst sér' en það orð er reyndar einnig á mikilli niðurleið – rúm 30 dæmi frá þessari öld á tímarit.is.

Öfugt við milliskyrta er nærskyrta þó í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrt 'nærbolur' – sem er einmitt orðið sem hefur komið í staðinn. En milliskyrta er það sem nú heitir bara skyrta. Þegar talað var um tvenns konar skyrtur þurfti að greina þar á milli – önnur tegundin var nærskyrtur, hin milliskyrtur. En þegar nærbolur kemur í staðinn fyrir nærskyrtu er ekki lengur þörf á að greina milli tveggja tegunda af skyrtum og því hægt að stytta milliskyrta í skyrta. Við það bætist að sennilega ganga karlmenn frekar í skyrtum næst sér en áður, án þess að vera í nærbol. Hvort tveggja dregur úr þörf fyrir aðgreiningu milli mismunandi tegunda af skyrtum og ég held að þetta sé meginskýringin á því að við tölum ekki lengur um milliskyrtur.

Þetta er dæmi um orð sem hefur horfið úr málinu vegna þess að ekki var þörf fyrir það lengur – ekki vegna þess að fyrirbærið sem það vísar til sé úrelt eða horfið, heldur vegna þess að ekki er lengur þörf á tiltekinni aðgreiningu. Þetta er alltaf að gerast. Annað og nýlegra dæmi er orðið farsími. Það orð er tiltölulega nýlegt, sást fyrst á prenti fyrir tæpum 40 árum og varð fljótlega mjög algengt, sérstaklega eftir 1990. En á síðustu árum hefur dregið verulega úr notkun orðsins – ekki vegna þess að farsímum fari fækkandi, heldur þvert á móti. Nú er farsími hinn sjálfgefni sími og grunnorðið fær því þá merkingu. Svona er orðaforðinn í sífelldri endurnýjun – ný orð koma inn og önnur hverfa. Það er eðlilegt, þótt vissulega geti verið eftirsjá að góðum orðum.