Fáum unga fólkið til liðs við íslenskuna

Einn megintilgangurinn með stofnun hópsins Málspjall á Facebook var að skapa vettvang fyrir jákvæða málfarsumræðu, lausa við leiðréttingar og athugasemdir við málfar einstakra málnotenda og hópa. Þetta hefur gengið ágætlega og umræða í hópnum hefur verið lífleg og að mestu málefnaleg. En það er einn stór galli á umræðunni, eins og annarri opinni íslenskri málfarsumræðu, bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum: Hún er nær eingöngu á forsendum fullorðna fólksins, jafnvel fólks sem er komið yfir miðjan aldur. Aðeins um 6% félaga í þessum hópi eru undir 25 ára aldri, rúm 20% undir 35 ára, og innan við 40% undir 45 ára aldri. Ég ímynda mér að hlutfallið sé síst betra í öðrum málfarshópum.

Þetta er mjög óheppilegt. Við sem eldri erum horfum á tungumálið út frá okkur sjálfum, eins og það var þegar við vorum að alast upp. Og við viljum flest að það haldist þannig – hversu jákvæð og umburðarlynd sem við viljum vera er erfitt að komast hjá því að finnast mörg ný orð kjánaleg eða ljót, pirra sig á breyttum beygingum eða fallstjórn, hneykslast á enskuslettum og hafa áhyggjur af því á hvaða leið íslenskan sé. Þannig hefur þetta alltaf verið, þannig er þetta víðast hvar, og þetta er ekkert óeðlilegt. Við horfum á málið frá okkar eigin sjónarhóli, vegna þess að við höfum engan annan. Þess vegna er svo mikilvægt að fá fleiri sjónarmið inn í þessa umræðu.

Ungt fólk er vant því að það sé talað niður til málfars þess og hneykslast á því, talað eins og það sé að fara með íslenskuna í hundana. Slíkt tal er sannarlega ekki til þess fallið að efla áhuga unga fólksins á íslenskunni eða hvetja það til þess að nota hana sem mest. Þvert á móti – það stuðlar að því að hrekja fólk í fang enskunnar. Nýlegar rannsóknir sýna að framhaldsskólanemar tengja íslensku við skyldu, leiðréttingar, orðflokkagreiningu o.þ.h. en enska tengist aftur á móti afþreyingu, ferðalögum og skemmtun í huga þeirra. Það er auðvelt að ímynda sér hvaða áhrif þetta hefur á viðhorf þeirra til málanna, en rannsóknir sýna að viðhorf ungs fólks til móðurmálsins er eitt af því sem skiptir mestu máli fyrir lífsmöguleika þess.

Þess vegna heiti ég á ykkur að breyta þessu. Hlustið á unga fólkið með opnum huga og takið eftir nýsköpuninni í máli þess. Ræðið við það án fordóma um tungumálið og hvetjið það til að velta málinu og málnotkun sinni fyrir sér. Fáið það til að taka þátt í málfarsumræðu og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Reynið á allan hátt að stuðla að því að viðhorf þess til íslenskunnar verði jákvætt – en forðist samt fyrir alla muni hvers kyns þjóðrembu og hugmyndir um yfirburði íslenskunnar yfir önnur mál. Framtíð íslenskunnar er á valdi unga fólksins – ef við höfum það ekki með okkur skiptir engu máli hvað við þessi eldri segjum og gerum.

Fáfræði og léleg málkunnátta ungs fólks

Oft er kvartað undan því að ungt fólk þekki ekki algeng orð eða merkingu þeirra, eða noti orð í rangri merkingu. En hvað merkja orð og orðasambönd? Hvernig skilgreinum við merkingu?

Í fljótu bragði má hugsa sér nokkur svör við þessu. (1): Orð og orðasambönd merkja það sem við höfum lært að þau merki. Við getum hafa lært þetta á mismunandi hátt. Algeng orð og orðasambönd höfum við lært á máltökuskeiði, heyrt þau notuð og áttað okkur á merkingu þeirra út frá notkuninni. Önnur orð og orðasambönd höfum við lært síðar, oft af bókum – þá eru þau stundum útskýrð sérstaklega og stundum höfum við flett þeim upp í orðabókum. Það leiðir okkur að (2): Orð og orðasambönd merkja það sem orðabækur segja að þau merki. Að lokum (3): Merking orða og orðasambanda ræðst af uppruna þeirra.

Vissulega má segja að það sé eðlilegt að uppruni orða og orðasambanda ráði merkingu þeirra, og þannig er það líka oft. En það er hins vegar auðvelt að finna dæmi um hið gagnstæða. Orðið landráð merkir upphaflega 'ráð yfir landi' eins og búast má við út frá samsetningarliðum þess. En í nútímamáli merkir það 'brot gegn öryggi eða sjálfstæði ríkis, föðurlandssvik' – og gat raunar haft þá merkingu þegar í fornu máli. Sögnin elda er leidd af nafnorðinu eldur enda var matur áður soðinn eða steiktur yfir opnum eldi. En nú hefur merking sagnarinnar víkkað og hún merkir 'búa til mat' án þess að eldur þurfi nokkuð að koma þar við sögu. Ótal sambærileg dæmi væri hægt að taka.

Orðabækur eru vissulega ómetanlegar heimildir um merkingu orða og orðasambanda. En orðabækur eiga sér höfunda sem velja orðin og skrifa skilgreiningar þeirra. Þar byggja þeir á eigin þekkingu og mati, og hvorugt er óbrigðult. Höfundarnir leitast við að skilgreina orð út frá notkun þeirra í samtímanum, en aldrei er hægt að fullyrða að þeir þekki öll tilbrigði í notkuninni. Þar að auki eru orðabækur í eðli sínu íhaldssamar – ekki er hægt að gera ráð fyrir að þær taki umsvifalaust upp nýjungar sem eru að skjóta upp kollinum. Í litlu málsamfélagi eins og því íslenska bætist það svo við að orðabækur er ekki unnt að uppfæra nærri eins oft og þörf væri. Þess vegna vantar oft í þær nýleg orð og nýjar merkingar.

Hvorki uppruni né orðabókarskilgreiningar getur sem sé verið einhver stóridómur um það hvaða orð eru til og hvað þau merkja. Og málkunnátta okkar sjálfra getur ekki heldur verið slíkur dómur. Orð geta haft svæðisbundin merkingartilbrigði, merkingin getur hafa breyst frá því að við lærðum þau, og jafnvel er hugsanlegt að við höfum alla tíð misskilið orðin að einhverju leyti, t.d. notað þau í þrengri eða víðari merkingu en almennt er gert. Það er eingöngu málsamfélagið sem getur veitt okkur svar um merkingu orða og orðasambanda – þau hafa þá merkingu sem notkun þeirra í málsamfélaginu gefur þeim. Hún kann að vera í andstöðu við uppruna þeirra, orðabókarskilgreiningar, og okkar eigin skilning á þeim. En það gerir hana ekki ranga.

Ég er kominn hátt á sjötugsaldur og er sífellt að reka mig á að orð og orðasambönd eru notuð í annarri merkingu en ég taldi þau hafa. Nýlega hef ég t.d. verið að skoða nafnorðið grunnfærni og orðasamböndin vera myrkur í máli og stíga á stokk sem nú eru oftast notuð í annarri merkingu en þau höfðu fyrir hálfri öld – eins og oft er amast við. Ég stóð í þeirri merkingu að nýja merkingin væri nýtilkomin en þegar ég skoða málið kemur í ljós að hún hefur verið að breiðast út á síðustu 30-40 árum eða jafnvel lengur. Þegar ný eða breytt merking orðs eða orðasambands er komin upp fyrir 40-50 árum, og yfirgnæfandi meirihluti af dæmum um þetta orð eða orðasamband frá síðustu 20-30 árum er um þessa nýju eða breyttu merkingu, þá er fráleitt að afneita henni.

Við sem ólumst upp við aðra merkingu erum auðvitað frjáls að því að halda okkur við hana, og pirra okkur á þeirri nýju – en við getum ekki látið eins og hún sé röng eða ekki til. Orðin og orðasamböndin hafa einfaldlega fengið nýja merkingu. Það þýðir líka að ungt fólk, tvítugt og yngra (og jafnvel eldra) hefur alist upp við þessa nýju merkingu sem aðalmerkingu. Það er þess vegna ósanngjarnt og út í hött að bregða því fólki um fáfræði og skort á málkunnáttu þótt það þekki ekki eldri merkinguna. Það erum við sem höfum haft þá nýju fyrir því – það hafa alist upp við hana og hefur enga ástæðu til að efast um að hún sé rétt. Um leið er rétt að hafa í huga að þetta er engin ný bóla.

Það væri hægt að tína til ýmis orð og orðasambönd sem við sem nú erum komin yfir miðjan aldur notum í annarri merkingu en foreldrar okkar, afar og ömmur gerðu. Og þau voru örugglega jafn hneyksluð á okkur og við erum nú á unga fólkinu. Ég legg samt áherslu á að málhefðin skiptir vissulega máli og það er æskilegt að orð og orðasambönd haldi merkingu sinni. En þegar um er að ræða merkingu sem er komin upp fyrir nokkrum áratugum og orðin algengasta merking orða og orðasambanda er ástæðulaust og raunar skaðlegt að berjast gegn henni. Orðin og orðasamböndin hafa þá einfaldlega bætt við sig nýrri merkingu eða fengið nýja merkingu, og sú merking er jafngild þeirri sem þau höfðu áður.

Að vera myrkur í máli

Orðasambandið myrkur í máli er gamalt í málinu, a.m.k. síðan á 18. öld, og var til skamms tíma langoftast notað með neitun – vera ekki myrkur í máli, vera ómyrkur í máli, vera sjaldan myrkur í máli, vera hvergi myrkur í máli o.s.frv. Málfarsbankinn segir: „Orðasambandið vera ekki myrkur í máli (vera ómyrkur í máli) merkir: tala tæpitungulaust, segja hug sinn skýrt og vafningalaust, nota stór orð. Lýsingarorðið myrkur vísar til þess sem er óljóst eða hulið. Þveröfug merking væri: vera myrkur í máli.“ Orðabækur eru á sama máli – segja þetta merkja 'segja skoðun sína fullum hálsi, skýrum orðum' eða 'segja skoðun sína umbúðalaust'.

En á undanförnum áratugum hefur sambandið iðulega verið notað án neitunar og í annarri merkingu. Gísli Jónsson sagði í þætti sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu 1991: „Undarlegt má það kalla, hvernig merking orðasambandsins að vera (ó)myrkur í máli hefur hvolfst við síðustu dagana. Skýrt dæmi var í blaði fyrir stuttu, en þá var sagt að Einar Oddur [Kristjánsson] hefði verið „myrkur í máli“. Í ljós kom við lestur fréttarinnar, að hann hafði einmitt verið ómyrkur í máli, það er að segja talað skýrt og tæpitungulaust.“

Undir þetta tók Jón Aðalsteinn Jónsson í Morgunblaðinu 1992 og benti á „þá hættu, sem móðurmál okkar er í, „ef tekið er upp á því að sleppa forskeyti““. Í Morgublaðinu 2007 talar Jón G. Friðjónsson um „endurtúlkun lo. óhultur‘ öruggur’ sem verður þá hultur, sbr. enn fremur orðatiltækið vera ómyrkur í máli […] sem verður þá ranglega vera myrkur í máli“. Í Morgunblaðinu 2014 talar Baldur Hafstað um dæmi þar sem merkingin hefur „snúist við, líkt og þegar […] orðasambandið „myrkur í máli“ [var] notað um þann sem var „ómyrkur í máli““.

Ekki verður betur séð en allir þessir fræðimenn líti svo á að breytingin felist í viðsnúningi merkingar – að farið sé að nota myrkur í máli í sömu merkingu og ómyrkur í máli. En það er ekki rétt. Í Morgunblaðinu 2010 segist Víkverji hafa „tekið eftir því að nú færist í vöxt að nota orðasambandið myrkur í máli í þeim skilningi að boða váleg tíðindi“, og í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu 2013 segir „Að e-r sé myrkur í máli er stundum sagt og átt við að þungt sé í þeim sem talar“. Fólk er sem sé farið að skilja myrkur í þessu sambandi þannig að það merki 'svartsýnn, harðorður, neikvæður' eða eitthvað slíkt, frekar en 'óljós, torræður'.

Þetta sést vel á dæmum. „Valdimar Grímsson, þjálfari HK, var myrkur í máli eftir eins marks tapleik sinna manna gegn Haukum síðastliðið miðvikudagskvöld“ segir í DV 2002. „„Þessir útreikningar sýna hvað þróunin hefur verið okkur óhagstæð og lífskjör okkar versnað,“ segir Einar Grétar myrkur í máli“ segir í Fréttablaðinu 2002. „Alan Shearer fyrirliði liðsins var myrkur í máli í garð liðsfélaga sinna að leik loknum og sagði framkomu þeirra smánarlega“ segir í Morgunblaðinu 2005. „Hún er myrk í máli í garð stjórnvalda enda þekkir hún það af eigin raun hversu harðskeytt yfirvöld geta verið“ segir í DV 2012. Ótal fleiri dæmi mætti taka.

Elsta dæmi sem ég hef fundið um þessa merkingu er í Skólablaðinu 1962: „Björn Björnsson ed. ritar um Skólablaðið og er myrkur í máli. Leiklistargagnrýnin er honum þyrnir í augum, en á öðrum stað í greininni segir hann, að efni blaðsins eigi að vera "um nemendur".“ Í Tímanum 1963 segir: „Hún var myrk í máli og sagði að „79“ væri siðspillandi.“ Í Vísi 1966 segir: „U Thant hefur rætt horfurnar í ársskýrslu sinni til Allsherjarþingsins og í ræðum og var myrkur í máli.“ Í Tímanum 1971 segir: „Ingvi var myrkur í máli um gróðurfar landsins, er hann ræddi í dag við blaðamenn vegna sýningarinnar, og gat þess, hversu gróður landsins væri ofnýttur, að undanskildu gróðurlendinu á Austurlandi.“

Í öllum þessum dæmum sýnir samhengið að merkingin er 'svartsýnn, neikvæður' en ekki 'torræður'. Þessi nýja merking fer að breiðast út á áttunda áratugnum og er orðin nokkuð áberandi um 1990 eins og ráða má af skrifum Gísla Jónssonar og Jóns Aðalsteins Jónssonar sem vitnað var í hér að framan. Yfirgnæfandi meirihluti dæma um myrkur í máli frá síðustu 20 árum á tímarit.is er um nýju merkinguna. Það er því ljóst að hún er orðin mjög föst í sessi. Þótt vissulega megi segja að hún sé nýjung er hún komin upp fyrir a.m.k. 60 árum eins og áður segir.

Merking orða og orðasambanda ræðst af notkun þeirra. Það er engin ástæða til annars en viðurkenna nýju merkinguna í myrkur í máli sem rétt mál – og raunar enginn annar kostur í stöðunni.

Að vera miður sín

Orðasambandið vera miður sín (/mín/þín) kemur fyrst fyrir á prenti 1882 og var sjaldgæft næstu áratugi þar á eftir, en hefur verið algengt síðan um miðja 20. öld. Í Íslenskri orðabók er það skýrt 'vera eða verða beygður, óhress í huga, viðutan (vegna veikinda, einhvers áfalls, taugaveiklunar o.fl.)' og það virðist eiga ágætlega við venjulega notkun þess í nútímamáli. Oft fylgir þessu líka einhver skömmustutilfinning. En merking sambandsins var talsvert önnur lengi framan af – í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 er það skýrt 'tabte sig aandeligt el. legemligt', sem sé 'vera ekki í essinu sínu' andlega eða líkamlega, eða eitthvað í þá áttina.

Í þremur elstu dæmunum er þetta reyndar notað um skepnur. Í Fróða 1882 er talað um „að allur peningur gangi vel undan vetrinum, það er: sje ekki miður sín fyrir megurðar sakir“. Í Norðurljósinu 1892 segir: „eg hef jafnaðarlega rúið hrúta seint á góu og beitt þeim með öðrum kindum mínum og ekki orðið þess var, þeir yrðu miður sín fyrir það.“ Í Búnaðarriti 1899 segir „sjaldan eptir erfiða fæðingu, því að þá er kýrin jafnan miður sín, svo að minna leggst til júgursins“. Mun yngri dæmi eru líka um þetta – í Tímanum 1987 segir: „Eini íslenski stóðhesturinn sem við komum með út var mikið miður sín í hitanum og eftir sig eftir ferðalagið.“

Frá upphafi var sambandið þó oft notað um andlegt ástand fólks – það er miður sín af hræðslu, ótta, sorg, taugaóstyrk, sálsýki, örvæntingu, skelfingu, geðshræringu, vonbrigðum, áhyggjum o.fl. Allt þetta væri eðlilegt í nútímamáli en einnig koma fyrir dæmi sem mér finnst framandi – miður sín af hamingju, viðkvæmni, ofsa, afbrýðisemi, illsku, óþolinmæði, geðvonsku, grenju, pólitískum æsingi o.fl. En lengi framan af var sambandið líka iðulega notað um líkamlegt ástand sem mér finnst varla ganga í nútímamáli – miður sín af hungri, þreytu, svefnleysi, kulda, eitri, hlátri, hjartabilun, tannpínu o.fl. Einnig er talað um að vera miður sín í fjármálum, af fluginu, eftir sjóferðina o.fl.

Þessu til viðbótar var algengt að sambandið væri notað til að vísa til ölvunar. Í Vísi 1916 segir: „Það vita allir, að mannræfill sá, sem hér gengur undir nafninu Tólfkongavitsvefarinn, hefir um mörg ár verið miður sín fyrir ofdrykkju sakir.“ Í Óðni 1926 segir: „Nokkuð drakk hann, eins og flestir gerðu á yngri árum hans, þó sjaldan svo, að hann yrði miður sín af víni.“ Í Dýraverndaranum 1927 segir: „Var talið, að reynslan hefði fært honum oftsinnis heim sanninn um þetta, þegar hann í ferðum varð ofurölvi og miður sín.“ Í Tímanum 1945 segir: „Voru sumir stundum góðglaðir af víni, en ekki man ég eftir að neinn yrði miður sín þar.“

Einnig eru dæmi um að sambandið sé notað í hnefaleikalýsingum þar sem það er skýrt með ensku orði. Í Alþýðublaðinu 1950 segir: „Nú hófst hörð sókn, og sló Birgir fast og örugglega, og var ekki annað sýnt en að Hansen væri miður sín (groggy) um tíma.“ Í Alþýðublaðinu 1953 segir: „Clausen lendir með ennið í öxl Þorkels og varð miður sín (groggy).“ Enska orðið groggy merkir 'dasaður, ringlaður; reikull í spori, valtur á fótunum'. Það er því ljóst að sambandið er þarna notað um líkamlegt ástand og augljós tengsl milli þessarar notkunar og notkunar sambandsins um ölvun.

En sambandið var ekki eingöngu notað um fólk og skepnur. Í Íslendingi 1943 segir: „Allir hafa þessir flokkar verið miður sín, síðan Landsfundur Sjálfstæðismanna leiddi í ljós, að þau feigðarmerki, sem nú sjást á vinstri flokkunum, skyldu ekki einnig koma í ljós hjá Sjálfstæðisflokknum.“ Í Alþýðublaðinu 1944 segir: „Franski herinn virðist mjög miður sín.“ Í Tímanum 1946 segir: „Morgunblaðið hefir orðið eitthvað miður sín vegna hinnar stuttu greinargerðar Hermanns Jónassonar um breytinguna á útgáfu Tímans.“ Í Þjóðviljanum 1948 segir: „Enda varð þess ekki vart að ríkisstjórnin yrði miður sín af gleði, þegar fréttirnar báust um tilkynningu Bandaríkjastjórnar.“

Algengt var að sambandið væri notað um frammistöðu íþrótta- og listafólks. Í Vísi 1932 segir um kringlukastara: „Hún var svo óheppin, að öll köst hennar voru of lág, svo að hún var um fjórum metrum miður sín en venjulega.“ Þetta er reyndar eina dæmið sem ég hef séð um að miður sín sé notað með mælieiningu. Í Íþróttablaðinu 1947 segir: „Skúli var mjög miður sín og felldi 1,85 þrívegis.“ Í Brautinni 1965 segir: „ÍBV liðið var eitthvað miður sín í þessum leik og náði illa saman.“ Í Degi 1988 segir: „Alfreð virtist miður sín þar til hann skoraði sitt fyrsta mark.“ Í Morgunblaðinu 1975 segir: „Einkum virtust blásararnir miður sín og nokkurs ósamræmis gætti milli einleikara og hljómsveitar.“

Af þessum dæmum er ljóst að merking sambandsins vera miður sín var til skamms tíma mun víðari en nú. Á seinni árum vísar það undantekningarlítið til andlegs ástands. Merkingarþrengingin virðist einkum verða á síðustu 30-40 árum – um 1990 er að mestu hætt að nota sambandið um áfengisneyslu og um frammistöðu íþróttafólks. Þótt síst hafi dregið úr notkun sambandsins undanfarna þrjá áratugi hefur dæmum um vera miður sín af einhverju fækkað mjög. Nú er sambandið langoftast notað án nokkurrar viðbótar, hann er miður sín – skýringin er þá oftast komin áður. Þetta er skemmtilegt dæmi um hvernig notkun algengs orðasambands gerbreytist án þess að við tökum eftir því.

Grunnfærni

Stundum eru gerðar athugasemdir við notkun orðsins grunnfærni í merkingunni 'grundvallarfærni' og vitnað í skýringu Íslenskrar orðabókar þar sem orðið er sagt merkja 'það að vera grunnfær' en grunnfær er skýrt sem 'yfirborðskenndur, grunnhygginn'. Einnig er til lýsingarorðið grunnfærinn í sömu merkingu. Þessi þrjú orð, grunnfær, grunnfærinn og grunnfærni, birtast öll í fyrsta sinn á prenti um aldamótin 1900 og höfðu lengst af þá merkingu sem lýst er í Íslenskri orðabók.

Elsta dæmið sem ég hef fundið um að grunnfærni sé notað í merkingunni 'grundvallarfærni' er í grein í 19. júní árið 1987 þar sem fjallað er um námskrá í íþróttum. Þar segir „með góðri grunnfærni, svo sem að hlaupa, ganga, hoppa, skríða, halda jafnvægi eða kasta og grípa, næst og lærist fljótar margs konar íþróttaleg færni“. Um þessar mundir komst orðið inn í skólamálaumræðu, ýmsum til ama – í grein eftir gamlan skólastjóra í Austra 1993 er býsnast yfir tveim skólamálafrömuðum sem hafi sagt „Hlutverk grunnskólans er að efla með nemendum grunnfærni“.

Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru gefnar tvær merkingar orðsins grunnfærni: 'það að vera grunnfærinn' og 'lágmarksfærni, lágmarkskunnátta'. En strangt tekið er hér ekki um að ræða eitt orð sem hafi tvær mismunandi merkingar, heldur tvö orð, mynduð á mismunandi hátt. Orðið grunnfærni í merkingunni 'það að vera grunnfærinn' er væntanlega myndað af grunnfær(inn), og þar er fyrri liðurinn stofn lýsingarorðsins grunnur. Orðið grunnfærni í merkingunni 'grundvallarfærni' er hins vegar myndað með því að bæta stofni nafnorðsins grunnur framan við færni.

Í Morgunblaðinu 2018 segir: „Lengst af merkti grunnfærni heimska – og grunnfær og grunnfærinn þýða heimskur – (eða yfirborðskenndur). Yngri merking grunnfærni: lágmarkskunnátta, hefur verið notuð í skólamálaumræðu („Auka þarf grunnfærni nemenda …“). Þá þarf að vara sig á lýsingarorðunum, a.m.k. þar til eldri merkingin er gleymd.“ Í fljótu bragði sýnist mér að u.þ.b. 85-90% dæma frá síðustu 20 árum um orðið grunnfærni, bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni, séu um nýrri merkingu orðsins. Eldri merkingin er vissulega ekki gleymd, en á góðri leið með það.

Orðið grunnfærni í merkingunni 'grundvallarfærni' er sem sé fullkomlega eðlileg nýmyndun en það vildi svo til að þessi nýmyndun féll saman við eldra orð, myndað á annan hátt. Vissulega má segja að það sé óheppilegt en þó eru mýmörg dæmi í málinu um slíka tvíræðni eða margræðni orða, og oftast sker samhengið ótvírætt úr um merkinguna. Orðið grunnfærni í nýrri merkingunni er komið inn í námskrár og ýmis opinber plögg og orðið þrælfast í málinu í þeirri merkingu. Sé tekið mið af tíðni er hún orðin aðalmerking orðsins og því verður tæpast breytt héðan af.

Úkraína – Úkranía

Fyrir rúmum 100 árum birtist fróðleg grein sem heitir „Úkranía og íbúar hennar“ í vesturíslenska blaðinu Syrpu en margir Vestur-Íslendingar bjuggu í nábýli við Úkraínumenn. Greinin hefst svo: „Frá Úkraníu hafa flutzt meira en 200,000 manns til Canada. Í daglegu tali eru þeir venjulega kallaðir Galisíumenn, þótt rangt sé, eða Gallar, sem er enn verra. Ef til vill hafa hérlendir menn þá oftar í huga en nokkra aðra, þegar þeir ræða um hina svo kölluðu útlendinga. Vér mætum þeim hvívetna og höfum mikið saman við þá að sælda.“

Eins og þið takið kannski eftir er þarna notuð myndin Úkranía en ekki Úkraína eins og við erum vönust. Elstu dæmi um þessa mynd eru frá 1914, og frá næstu 20 árum eru rúmlega 20 dæmi um hana á tímarit.is, öll í vesturíslenskum blöðum þar sem hún var nær einhöfð alla tíð. Einnig eru dæmi um ýmsar samsetningar með þessari mynd – Úkraníubúi, Úkraníuþjóð, Úkraníumaður, Úkraníukona, úkranískur og e.t.v. fleiri. Það er ekki fyrr en 1934 sem þetta heiti kemur fyrst fyrir í blaði á Íslandi og þá er myndin Úkraína notuð.

En þrátt fyrir að Úkraína sé hin venjulega og opinbera nafnmynd, og hafi frá því að hún kom fyrst fram verið margfalt algengari en Úkranía, hefur síðarnefnda myndin alltaf verið dálítið notuð líka – um hana eru tæp 600 dæmi á tímarit.is og á þriðja hundrað í Risamálheildinni. Það er freistandi að afgreiða þessa mynd sem hverja aðra „villu“ eða misskilning og vissulega er Úkraína nær upprunanum – raunar hljómar nafnið mjög svipað á íslensku og úkraínsku. Hvernig stendur þá á því að myndin Úkranía kemur upp?

Í fljótu bragði má hugsa sér tvær (e.t.v. samverkandi) ástæður. Önnur er áhrif landaheita sem enda á -nía og eru fjölmörg í austanverðri Evrópu – Rúmenía, Albanía, Armenía, Slóvenía, Makedónía, Bosnía og fleiri. Hin er sú að í myndinni Úkraína er svokallað hljóðgap, þ.e. tvö sérhljóð, -aí-, koma saman. „Það er vel þekkt, að hljóðgap inni í orði er vandræðagripur í tungumálum og verður mjög gjarna fyrir ýmiss konar breytingum“ segir Kristján Árnason. Kannski ber breytingin -ína > -nía vott um tilraun málsins til að útrýma hljóðgapinu.

Ég ætla ekki að mæla með myndinni Úkranía og tel rétt að halda sig við hina opinberu nafnmynd. En mér finnst samt rétt að hafa í huga að myndin Úkranía á sér 20 árum lengri sögu í málinu en Úkraína eins og áður segir, og á sér eðlilegar skýringar. Mér finnst engin ástæða til að fordæma hana.

Tregi eða tregða?

Í frétt á vefmiðli í dag rakst ég á eftirfarandi málsgrein: „Búlgarski for­sæt­is­ráðherr­ann Kiril Pet­kov seg­ir að varn­ar­málaráðherra landsins verði lát­inn taka poka sinn í dag vegna trega til að taka afstöðu til inn­rás­ar Rússa í Úkraínu.“ Það var sambandið vegna trega sem ég staldraði sérstaklega við. Væntanlega er átt við að varnarmálaráðherrann hafi verið tregur til að taka afstöðu til innrásarinnar. En nafnorðið sem svarar venjulega til lýsingarorðsins tregur er ekki karlkynsorðið tregi, heldur kvenkynsorðið tregða.

Það virðist vissulega liggja beint við að tengja tregi við tregur, enda mun fyrrnefnda orðið leitt af því síðarnefnda. Þótt tregi merki oftast 'harmur, sorg' í fornu máli getur það líka merkt 'hindrun, erfiðleikar'. Sú merking orðsins er vissulega að mestu horfin í nútímamáli en er þó tilfærð í Íslenskri orðabók og bregður stöku sinnum fyrir: „Nú er tregi mikill í kerfinu“ segir í Iðnaðarmálum 1961, og „Hér eru því miklir tregar á“ segir Einar Ólafur Sveinsson í Íslenzkum bókmenntum í fornöld 1962 (bæði dæmin fengin úr Ritmálssafni Árnastofnunar). Þarna er ekki langt í merkinguna sem tregða hefur.

Fáein fleiri dæmi af þessu tagi frá síðustu árum má finna á netinu. Notkun orðsins tregi í fréttinni sem ég vísaði til er því skiljanleg út frá líkindum og skyldleika orðanna tregi og tregur, og á sér einnig einhverja stoð í eldri merkingu orðsins tregi. En vegna þess að sú merking er nær horfin í nútímamáli, og rík hefð er fyrir því að halda merkingu orðanna tregi og tregða aðgreindri, þá er eðlilegt að mæla gegn því að nota tregi sem samsvörun við lýsingarorðið tregur eins og gert er í fréttinni – notum heldur tregða eins og málhefðin býður.

Tímabær þingsályktunartillaga – frá 1978

Á Facebook og víðar má iðulega sjá athugasemdir sem benda til þess að fjöldi fólks sé sannfærður um að íslenskan sé að fara í hundana – framsögn sé ábótavant, beygingar brenglaðar, orðaforði fari ört minnkandi og hvers kyns slettur og ensk áhrif vaði uppi. Við þessu er brugðist í tillögu til þingsályktunar þar sem lagt er til að ríkisstjórninni verði falið „að sjá svo um að sjónvarp og útvarp annist kennslu og fræðslu í öllum greinum móðurmálsins“. Í greinargerð er lýst miklum áhyggjum af stöðu íslenskunnar:

„Engum dylst, að íslensk tunga á nú í vök að verjast. Á þetta sérstaklega við um talað mál, framburð og framsögn. Einnig fer orðaforði þorra fólks þverrandi og erlend áhrif hvers konar vaxandi. Engum orðum þarf að fara um lífsnauðsyn þess, að stemma stigu við slíkri óheillaþróun, og snúa við inn á þá braut íslenskrar málhefðar, sem ein verður farin, ef íslensk menning á að lifa og dafna.“

Þessi tillaga er sannarlega tímabær ef marka má þær athugasemdir sem vísað var til í upphafi. En hún liggur reyndar ekki fyrir Alþingi núna. Hún var lögð fram – og samþykkt – árið 1978, fyrir 44 árum. En hún hefði alveg eins getað verið lögð fram fyrir hundrað árum, eða 150 árum. Allan þann tíma hefur sami söngur glumið. Hver kynslóð er sannfærð um að kynslóðirnar á eftir – börn og barnabörn – séu miklu verr máli farnar og miklu kærulausari um málfar sitt en hún sjálf.

Karlarnir sem lögðu fram áðurnefnda tillögu 1978 voru væntanlega búnir að gleyma því að 30-40 árum áður voru foreldrar þeirra, afar og ömmur örugglega alveg jafn hneyksluð á málfari fimmta áratugarins og þeir voru á málfari þess áttunda. Eða kannski ekki búnir að gleyma því – kannski tóku þeir bara ekkert eftir því á þeim tíma, voru ekki að hlusta, eða létu tuðið í fullorðna fólkinu sem vind um eyru þjóta eins og ungu fólki er gjarnt. Þannig hefur það alltaf verið.

Ef viðmiðið um vandað mál er íslenskan eins og við lærðum hana, eins og það er hjá flestum, segir það sig sjálft að litið er á öll frávik frá því viðmiði, allar breytingar á málinu, sem hnignun – eins og viðhorf margra sem skrifa hneykslunarpósta á Facebook virðist vera. En af því viðhorfi leiðir jafnframt að málinu hefur alltaf verið að hnigna. Ef það væri rétt mætti búast við að það væri fyrir löngu hætt að þjóna hlutverki sínu sem helsta samskiptatæki fólks. En þannig er það ekki.

Við verðum að leyfa málinu að leika lausum hala – leyfa því að breytast með samfélaginu og þjóna því. Með því er ekki verið að leggja blessun yfir kæruleysi í meðferð málsins eða hvers kyns frávik frá málhefð. Alls ekki. En það er mikilvægt að horfa á heildarmyndina í stað þess að hengja sig í einstök atriði sem engu máli skipta fyrir framtíð málsins. Það þarf að búa börnum á máltökuskeiði sem auðugast málumhverfi og skólakerfið þarf að ýta undir frjóa og skapandi málnotkun. Þannig stuðlum við að endurnýjun og endurnæringu íslenskunnar.

Áhugi á eða áhugi fyrir?

Með nafnorðinu áhugi tíðkast tvær forsetningar, á og fyrir. Ýmist er sagt ég hef áhuga á þessu eða ég hef áhuga fyrir þessu. Þegar tíðniþróun þessara sambanda er skoðuð á tímarit.is kemur áhugavert mynstur í ljós. Um miðja 19. öld er áhugi á yfirgnæfandi en notkun áhugi fyrir eykst á síðustu áratugum aldarinnar og fram á fjórða áratug tuttugustu aldar, þegar dæmi um áhugi á eru næstum 70% af samanlögðum fjölda um orðasamböndin bæði.

En á fimmta áratugnum fer dæmum um áhugi fyrir að fækka hlutfallslega og eru komin niður í um 5% af heildinni um aldamót og hafa haldist það síðan. Eins og sjá má á meðfylgjandi súluriti er kúrfan nokkurn veginn samhverf nema áratugurinn 1860-1869 ruglar hana aðeins, en heildarfjöldinn er þá svo lítill að ekki þarf mörg dæmi til að breyta myndinni.

Hvernig stendur á því að sambandið áhugi fyrir sækir svona jafnt og þétt á í 5-6 áratugi en hnignar svo álíka jafnt og þétt næstu 5-6 áratugi þar á eftir? Ég veit það ekki, en hugsanlegt er að viðsnúninginn í notkun sambandanna megi rekja að einhverju leyti til málstýringar málvöndunarmanna. Mig rámar í að hafa sagt áhugi fyrir þegar ég var strákur. En einhvern tíma heyrði ég, líklega í þættinum Daglegu máli í útvarpinu kringum 1970, að það ætti að segja áhugi á – og tók það upp, enda var ég mikill málvöndunarmaður á þeim tíma. Þótt það hafi breyst held ég mig enn við áhuga á.

Í Morgunblaðinu 1963 er rætt um orðalag „sem er orðið mjög algengt bæði í blöðum og útvarpi. Það er „áhugi fyrir einhverju". Hið rétta er auðvitað: „áhugi á“, og hefði enginn fáfróður almúgamaður sagt annað fyrir fáum áratugum, en nú segja og skrifa sprenglærðir menn „áhugi fyrir“, og virðist það í engu særa máltilfinningu þeirra. Vanti þá með öllu máltilfinningu, ættu þeir þó að reyna að hugsa rökrétt, áður en þeir tala eða skrifa.“

Í grein eftir Gísla Pálsson í Þjóðviljanum 1978 segir: „Dæmi eru þess að umsjónarmenn [Daglegs máls] hafa tekið uppá þeim stráksskap að viðurkenna daglegt mál, en einlægt hafa þeir fengið skömm i hattinn fyrir. „Fjandinn hafi það, getur maðurinn ekki skorið úr um hvað sé rétt og hvað sé rangt“, segja menn [. . .]. Um leið fyllast menn kvíða og öryggisleysi rétt eins og verið sé að taka af þeim lim: „Svona út með það, á að segja „ég hef áhuga á“ eða „ég hef áhuga fyrir“? Já eða nei!!“

En í umræðu um þetta á Facebook kom fram mjög athyglisvert atriði sem ég hafði ekki leitt hugann að. Mörgum fannst sem sé vera merkingarmunur á áhugi á og áhugi fyrir. Munurinn virðist vera sá að áhugi á sé fremur notað persónulega, um áhugaefni eða áhugasvið – ég hef áhuga á málfræði, ég hef áhuga á fuglum. En áhugi fyrir er fremur notað um eitthvað sem þykir æskilegt og oft notað ópersónulega – ég hef áhuga fyrir að fara til útlanda í sumar, það er áhugi fyrir hittingi á föstudaginn.

Þessi munur kemur mjög skýrt fram þegar tíðni sambandanna ég hef áhuga á/fyrir og það er áhugi á/fyrir er skoðuð á tímarit.is. Í ópersónulega sambandinu það er eru dæmin um áhugi á og áhugi fyrir álíka mörg. En í ég hef eru dæmin um áhuga á 25 sinnum fleiri en um áhuga fyrir. Þótt augljóslega geri ekki allir málnotendur skýran greinarmun á áhugi á og áhugi fyrir er ljóst að talsverður hluti þeirra gerir það. Þótt ég noti sjálfur alltaf áhugi á hef ég alveg tilfinningu fyrir þessum mun þegar ég hugsa málið.

Þetta er gott dæmi um það hvernig vanhugsuð barátta gegn tilbrigðum í máli getur verið til bölvunar. Þarna virðist málið vera að koma sér upp ákveðnum greinarmun – leitast við að láta mun í merkingu koma fram með notkun mismunandi forsetninga. Það hlýtur að teljast jákvætt að málið geti tjáð ýmis fíngerð merkingarblæbrigði. En með því að kalla áhugi fyrir rangt mál er þessi tilhneiging barin niður og málnotendur ruglaðir í ríminu. Það er ekki málrækt.

Þáverandi eða þáverðandi?

Í dag sá ég í blaði auglýsingu um skráningu á viðburð sem á að fara fram í mars. Í auglýsingunni stóð: „Tekið verður mið af þáverandi sóttvarnarreglum hvað fjölda gesta í sal varðar.“ Ég staldraði við orðið þáverandi. Það er svo sem augljóst hvað það merkir í þessu samhengi – sem sé þær reglur sem verða í gildi þegar viðburðurinn fer fram, hverjar sem þær verða. En er hægt að nota orðið þáverandi á þennan hátt?

Skýringin á þáverandi í Íslenskri nútímamálsorðabók er 'í stöðu eða hlutverki á vissum tíma, sem nú er liðinn'. Þetta held ég að samræmist venjulegri notkun orðsins – það vísar til þess sem er liðið eins og orðið þá gerir venjulega í samsetningum. Við erum ekki í vafa um að þátíð vísar til liðins tíma og sama held ég að gildi um þágildandi, þálifandi, þáþrá og fleiri orð. Í Íslenskri orðabók er atviksorðið þá skýrt 'á þeirri stund, í það skiptið (einkum um liðinn tíma)'.

En þótt þá virðist oft tengjast liðnum tíma í huga málnotenda getur það auðvitað vísað til ókomins tíma líka. Ég get t.d. sagt ég varð fimmtugur árið 2005 og þá hélt ég veislu en einnig ég verð sjötugur árið 2025 og þá ætla ég að halda veislu. Er þá nokkuð að því að nota þáverandi um ókominn tíma þegar samhengið sýnir glögglega að ekki er vísað til liðins tíma eins og í dæminu sem ég nefndi í upphafi? Væri sú notkun ekki fullkomlega rökrétt?

Jú, vissulega væri hún það. En eins og hér hefur oft verið lögð áhersla á er tungumálið alls ekki alltaf „rökrétt“ – og á ekki að vera það. Það sem hér skiptir máli er að þessi notkun orðsins styðst ekki við málvenju. Það er málvenja að þáverandi vísi til liðins tíma og eðlilegt og æskilegt að halda sig við það. Finnist fólki æskilegt að hafa sérstakt orð fyrir þá merkingu sem um er að ræða í áðurnefndri auglýsingu kæmi alveg til greina að búa til orðið þáverðandi til að ná henni.