Listasmiðurinn Eiríkur Laxdal

Jón Karl Helgason, 10/03/2016

saga ólafs"Margt smátt ...." er yfirskrift málstofu sem ég tek þátt í á Hugvísindaþingi föstudaginn 11. mars kl. 15.15-17.15 í stofu 220 í aðalbyggingu Háskóla Íslands. Þar verða kannaðir snertifletir smásögunnar við aðrar skyldar bókmenntagreinar, svo sem örsögur, þjóðsögur, nóvellur og skáldsögur. Rúnar Helgi Vignisson fjallar um breytileg birtingarform smásagna, Ástráður Eysteinsson ræðir um sagnaheim Franz Kafka, Kristín Guðrún Jónsdóttir varpar ljósi á bókmenntahugtökin örsaga, smáprósi og prósaljóð en sjálfur hyggst ég kanna tengsl einnar elstu og jafnframt merkust skáldsögu íslenskrar bókmenntasögu við íslenska þjóðsagnahefð. Fyrirlestur minn ber titilinn "Listasmiðurinn Eiríkur Laxdal. Frásagnarrammar og þjóðsögur í Sögu Ólafs Þórhallasonar." Ég mun sérstaklega skoða þjóðsöguna „Selmatseljan“, sem birtist í þjóðsagansafni Jóns Árnasonar árið 1862. Um hana hef ég nýverið birt stutta grein á Hugrás. Frumgerð sögunnar er að finna í Sögu Ólafs Þórhallasonar sem er talin vera skrifuð í kringum aldamótin 1800. Dæmið sem hér um ræðir varpar skýru ljósi á listræn tök Eiríks á því flókna frásagnarformi sem hann velur skáldsögu sinni.