Helgir dómar Jóns Arasonar

Jón Karl Helgason, 31/08/2021

"Helgir dómar Jóns biskups" er titill á fyrirlestri sem ég flyt á málþingi um Jón og Helgu konu hans í Kakalaskála laugardaginn 28. ágúst. Ég mun þar rifja upp fyrri skrif mín um þetta efni, meðal annars í bók minni Ódáinsakur, en einnig reyna að komast nær um það með hvaða hætti meintar jarðneskar leifar hins kaþólska kennimanns röðuðu í turninn á Hólum um miðja síðustu öld. Útlit er fyrir að beinin, sem Guðbrandur Jónsson gróf upp að Hólum 1918 og hafði með sér til Reykjavíkur, hafi verið tekin úr Kristskirkju á Landakotstúni árið 1950 og grafin í jörðu utan við Hóladómkirkju. Þau voru síðan flutt, á næstu misserum, í turninn. Árið 1953 lýsir Björn Egilsson aðstæðum þar svo: "Gengið er inn í turninn að sunnan og liggja tröppurnar upp til vinstri handar þegar komið er inn, en til hægri litla útbyggingu, sem er einskonar grafhýsi. Þar er litil líkkista og íslenzki fáninn er breiddur yfir. ... Siðar um daginn spurði ég Vigfús Helgason, hvort það væri satt, sem ég hefði heyrt, að hann hefði aðstoðað doktor Guðbrand við uppgröft á beinum Jóns biskups Arasonar. Hann sagði að svo væri ekki. … Síðan bætti hann við: Beinin eru þarna í turninum geymd undir gleri og hægt að fá að sjá þau. Þar með leiddist ég í allan sannleika um hina leyndardómsfullu kistu." Þess má geta að nú er í umræddri útbyggingu aðeins legsteinn með nafni biskups en líklegt er að beinaleifarnar hvíli undir honum.