Hinn (al)þjóðlegi peningaleikur
Nýútkomið hausthefti Skírnis hefur meðal annars að geyma grein okkar Ásgeirs Brynjars Torfasonar, "Hinn alþjóðlegi peningaleikur" sem fjallar um einkavæðingu ríkisbanka í ljósi glæpasagna Þráins Bertelssonar. Höfuðáhersla er lögð á verkin Tungumál fuglanna (1987) sem Þráinn gaf út undir dulnefninu Tómas Davíðsson og Dauðans óvissi tími (2004) en þar er gefið með skýrum hætti til kynna að einkavæðing bankanna hafi verið feigðarflan. Greinin er hluti af víðtækari þverfaglegri rannsókn okkar Ásgeirs á snertiflötum íslensks viðskiptalífs og íslenskra bókmennta á fyrsta áratug þessarar aldar en tengist einnig gagnabankanum Hrunið, þið munið sem ég vann að ásamt Markúsi Þórhallssyni og fleirum fyrir fáeinum árum.