Great Immortality: greinasafn um þjóðardýrlinga
Great Immortality: Studies on European Cultural Sainthood er titill á nýútkomnu greinasafni sem við Marijan Dović ritstýrum en útgefandi er Brill. Þar er að finna umfjöllun tuttugu höfunda um fjölbreytilegt framhaldslíf evrópskra listamanna, einkum þjóðskálda, í menningarlegu minni og pólitísku lífi innan einstakra ríkja. Bókin er óbeint framhald af bók okkar Marijans, National Poets, Cultural Saints, frá árinu 2017. Báðar bækurnar eru hluti af ritröðinni National Cultivation of Culture (12. og 18. bindi ) sem hollenski bókmenntafræðingurinn Joep Leerssen ritstýrir en hann er meðal þeirra sem eiga grein í Great Immortality. Meðal annarra höfundar er Simon Halink sem fjallar um þjóðardýrlinginn Snorra Sturluson. Formála bókarinnar skrifa Marko Juvan og Sveinn Yngvi Egilsson en þeir lögðu með okkur Marijan og Joep grunninn að þeim rannsóknum sem þessar tvær bækur eru ávöxtur af. Ég lít á þessa nýju bók sem lokaáfanga þeirrar vinnu sem ég hóf með bók minni Ferðalok árið 2003 og hélt áfram í greinasafninu Ódáinsakur árið 2014.