Á slóðum Erlendar í Unuhúsi
Á þessu vori hef ég kennt hjá Endurmenntun HÍ námskeið um Unuhús og hefur Erlendur Guðmundsson verið þar í brennidepli. Laugardaginn 3. júní næstkomandi mun síðan opna á Gljúfrasteini sýning helguð Erlendi og í tengslum við hana verða fluttir þrír útvarpsþættir Sunnevu Kristínar Sigurðardóttur um þennan merka mann á Rás 1. Og þar með er ekki allt upp talið. Miðvikudaginn 31. maí leiðum við Sunneva síðan bókmenntagöngu um slóðir Erlendar, Þórbergs Þórðarsonar og Halldórs Laxness í miðbænum. Gangan hefst kl. 20.00 við austari enda Þingholtsstrætis en mun enda í Garðastræti og Gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu. Þess má geta að umræddur dagur er afmælisdagur Erlendar en hann fæddist árið 1892.