Þýðing á fyrstu leynilögreglusögunni
"Morðin í Líkhúsgötu" eftir Edgar Allan Poe er jafnan talin marka upphaf leynilögreglusögunnar sem sérstakrar bókmenntagreinar. Hún er sú fyrsta af þremur smásögum höfundar þar sem rannsakandinn C. Auguste Dupin leysir snúið sakamál. Ónefndur vinur hans er sögumaður í öllum þessum þremur sögum og er hann áhugaverður forveri Watsons læknis í sögunum A.C. Doyle um Sherlock Holmes. Þegar ég kenndi námskeið í glæpasögum fyrir fáum árum komst ég að því, mér til furðu, að sagan "Morðin í Líkhúsgötu" væri ekki til í íslenskri þýðingu. Ég ákvað að bæta úr því og uppgötvaði skömmu síðar að bókaforlagið Dimma, undir stjórn Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar, hefði í hyggju að gefa út úrval þýðinga á verkum Poes á íslensku. Bókin er nýkomin út, í ritstjórn Aðalsteins og Ástráðs Eysteinssonar. Ber verkið hinn látlausa titil Kvæði og sögur. Þar er, auk þýðingar minnar, að finna hinar tvær leynilögreglusögurnar um Dupin og einnig fjöldan allan af öðrum sígildum verkum þessa merka höfundar.