Category: Uncategorized

Manga-hátíð í Reykjavík

Jón Karl Helgason, 14/08/2018

Hátíð þar sem japanskar myndasögur og tengsl þeirra við íslenskar fornbókmenntir eru könnuð verður haldin í Reykjavík dagana 16.-18. ágúst. Hátíðin hefst með málþingi um manga og miðaldabókmenntir í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur fimmtudaginn 16. ágúst kl. 13-16. Þar flytja erindi fjórir gestir frá Japan og tveir Íslendingar. Dagskráin heldur síðan áfram í Norræna húsinu kl. 20-22 en þar munu myndasagnahöfundarnir Henning Kure frá Danmörku og Makoto Yukimura frá Japan segja frá verkum sínum: Goðheimum og Vínlands sögu. Hátíðinni lýkur síðan með manga-maraþoni í Borgarbóksafninu við Tryggvagötu frá kl. 13-18 laugardaginn 18. ágúst en það er hluti af framlagi safnins til Menningarnætur í Reykjavík. Að hátíðinni standa námsgrein í japönsku við Háskóla Íslands, Norræna húsið, Borgarbókasafnið og Fyrirmynd: félag teiknara og myndhöfunda en ég hef komið að undirbúningi þessa verkefnis ásamt Bjarna Hinrikssyni, Kristínu Ingvarsdóttur, Gunnellu Þorgeirsdóttur og fleiri aðilum.

Goð og nasistar í bandarískum myndasögu

Jón Karl Helgason, 07/08/2018

Á Alþjóðlegu fornsagnaþingi sem fram fer í Reykjavík um miðjan ágústmánuð flyt ég fyrirlestur sem nefnist "Nordic Gods, Nazis and Boys Commandos". Viðfangsefnið eru þrjár ólíkar myndasögur um þrumuguðinn Þór sem út komu í Bandaríkjunum á stríðsárunum en allar eiga þær sameiginlegt að fjalla um stríðsátökin í Evrópu og aðkomu Bandaríkjamanna að þeim. Um er að ræða sögur sem tengjast með einum eða öðrum hætti hinum þekktu myndasagnahöfundum Jack Kirby og Joe Simon.

Ragnar loðbrók, Eiríkur rauði og Leifur heppni

Jón Karl Helgason, 07/07/2018

"Re-membering Ragnar, Erik & Leif: Notes on audio-visual adaptations of the Eddas and Sagas" er titill á sérstökum fyrirlestri sem ég flyt á ráðstefnu IASS-samtakanna í Kaupmannahöfn 8. ágúst næstkomandi. Þar ræði ég um viðtökur norrænna fornbókmenna í "fjöldamenningu" með hliðsjón af minnisfræðum. Á liðnum árum hafa kenningar Assmann-hjónanna um menningarlegt minni verðið þróaðar til að fjalla um listgreinar á borð við kvikmyndir og teiknimyndasögur. Spurningin er hvort þær eigi við þegar um er að ræða menningarafurðir sem hljóta dreifingu um allan heiminn.

Bókmenntir og lög

Jón Karl Helgason, 24/06/2018

Við Lára Magnúsardóttir lögðumst á árarnar með aðalritstjóra Ritsins, Rannveigu Sverrisdóttir, og ritstýrðum sérhefti um tengsl bókmennta og laga. Þetta fyrsta hefti ársins 2018 er í rafrænum aðgangi en í því er meðal annars að finna greinar eftir Láru, Gunnar Karlsson, Einar Kára Jóhannsson, Guðrúnu Baldvinsdóttur og Sólveigu Ástu Sigurðardóttur. Þá er birt íslensk þýðing á nýlegri grein eftir bandaríska lögfræðinginn og sagnfræðinginn William Miller og önnur grein er eftir tvo danska fræðimenn, bókmenntafræðinginn Karen-Margrethe Simonsen og lögfræðinginn Ditlev Tamm.

Alfræði rómantískrar þjóðernisstefnu í Evrópu

Jón Karl Helgason, 02/05/2018

Encyclopedia of Romantic Nationalism in Europe er tveggja binda stórvirki sem Amsterdam University Press hefur nýlega gefið út undir ritstjórn hollenska bókmenntafræðingins Joeps Leerssen. Um er að ræða tæplega 1500 síðna alfræðirit í stóru broti þar sem fjallað er um mikilvægi menningarlegrar þjóðarvitundar í einstökum löndum í Evrópu og áhrif hennar á þjóðernisstefnu í álfunni. Liðlega 20 síðna kafli er helgaður Íslandi en meðal höfunda að þeim færslum sem þar birtast eru Haraldur Bernharðsson, Terry Gunnell, Simon Halink, Karl Aspelund, Þórir Óskarsson, Gauti Kristmannsson, Sveinn Yngvi Egilsson, Adolf Friðriksson, Sveinn Einarsson, Loftur Guttormsson og Sigurjón Baldur Hafsteinsson. Ég skrifa þarna þrjár færslur; um upphaf bóka- og skjalasafna hér á landi, ungmenna- og íþróttafélög, og hina þjóðlegu íþrótt glímuna.

Spjallað um Tinnabækurnar

Jón Karl Helgason, 18/03/2018

Útvarpsþættir Gísla Marteins Baldurssonar um Tinnabækurnar hafa vakið verðskuldaða athygli, ekki bara meðal aðdáenda Hergé, heldur yngri og eldri hlustenda sem eru að uppgötva í fyrsta skipti hve samofnar þessar sígildu teiknimyndasögur eru sögu síðustu aldar. Ég var svo heppinn að fá að spjalla um Svarta gullið við Gísla Martein í Lestinni 7. mars en nú er búið að safna saman á eina síðu umfjöllun um allar bækurnar. Einnig var ég meðal viðmælenda í einum af þeim fjórum yfirlitsþáttum sem Gísli Marteinn lauk við, nánar tiltekið í 3. þætti sem fjallaði um staðalímyndir í Tinnabókunum.

Bandaríska bylgjan og Weird Comics árið 1940

Jón Karl Helgason, 01/03/2018

"Bandaríska bylgjan" er yfirskrift málstofu sem ég tek þátt í á Hugvísindaþingi föstudaginn 9. mars frá klukkan 13.30-16.00. Þar munum við Ásta Kristín Benediktsdóttir, Ástráður Eysteinsson, Haukur Yngvarsson, Magnús Sigurðsson, Kristín Svava Tómasdóttir ræða um bandaríska list og menningu í íslensku samhengi. Horft verður á landnám bandarískra bókmennta og kynningu á bandarískri nútímalist á Íslandi, rýnt verður í hasarblöð og teiknimyndasögur og bandarískir hermenn skoðaðir í hómóerótísku ljósi. Eins verður horft vestur um haf þar sem íslensk miðaldarit verða hluti bandarískrar dægurmenningar. Fyrirlestur minn nefnist "Norrænar goðsögur og amerísk hasarblöð á árum síðari heimsstyrjaldar" en höfuðviðfangsefnið verður röð myndasagna eftir Wright Lincoln (sem er líklega dulnefni) um Þór (Thor) í tímaritinu Weird Comics árið 1940. Útgefandi var fyrirtækið Fox Feature Syndicate en meðal annarra sem þar störfuðu voru Jack Kirby og Joe Simon. Báðir áttu þeir eftir að skapa myndasögu um þrumuguðinn norræna, ekki síst Jack Kirby.

Umfjöllun um þjóðardýrlinga í Slóveníu

Jón Karl Helgason, 12/02/2018

"Dagur Prešerens: slóvenski menningarfrídagurinn" er haldinn hátíðlegur í Slóveníu ár hvert á dánardegi slóvenska þjóðskáldsins France Prešeren, 7. febrúar. Skáldsins er minnst í dagblöðum, skólum, leikhúsum og fleiri menningarstofnunum, en markmiðið er að vekja almenning til vitundar um mikilvægi þjóðarmenningarinnar. Í ár var slóvenska sjónvarpið RTV4 með ítarlega umfjöllun um Prešeren á þessum degi og beindi höfuðathygli að nýlegri bók Marijan Dović um skáldið, Prešeren po Prešernu: kanonizacija nacionalnega pesnika in kulturnega svetnika (2017). Bókin er ein af mörgum afurðum rannsókna á evrópskum þjóðardýrlingum sem Sveinn Yngvi Egilsson, Marko Juvan og við Marijan höfum unnið að undanfarin áratug. Var af þeim sökum einnig rætt við okkur Marko í þessu innslagi RTV4 og kom Jónas Hallgrímsson þar meðal annars við sögu.

Kálfskinn og kósínus delta

Jón Karl Helgason, 09/01/2018

"Kálfskinn og kósínus delta:  Spurt og svarað um stílmælingar á íslenskum miðaldafrásögnum" er titill á fyrirlestri sem við Siguður Ingibergur Björnsson og Steingrímur Kárason flytjum í stofu 101 í Lögbergi á vegum Miðaldastofu Háskóla Íslands fimmtudaginn 11. janúar kl. 16.30. Þar gerum við grein fyrir svonefndum deltamælingum á stíl bókmenntatexta. Deltamælingar byggja á þeirri forsendu að hlutfallsleg tíðni algengustu orða í tilteknum texta myndi óumdeilanlegt „fingrafar“ viðkomandi höfundar. Hugmyndin er, með öðrum orðum, sú að hvert og eitt okkar hafi ekki aðeins persónulegan orðaforða heldur sé virkni þessa orðaforða líka persónubundin. Aðferðinni er meðal annars beitt til að bera kennsl á höfunda verka sem ekki er vitað hverjir hafi ritað. Við þremenningar beittum þessari aðferð við rannsóknir sem kynntar voru í greininni „Fingraför fornsagnahöfunda“ í hausthefti Skírnis 2017. Einnig var fjallað um þessar og aðrar hliðstæðar rannsóknir í fréttaþættinum Kveik á RÚV í nóvember. Í fyrirlestrinum ræðum við vítt og breitt um hverjir séu helstu kostir og ókostir þessarar aðferðar þegar miðaldahandrit eru annars vegar.

Ritdómur um Sjónsbók

Jón Karl Helgason, 21/12/2017

"Röntgenbild av isländsk surrealism – om Sjón" er titill á ritdómi um Sjónsbók Ævintýrið um höfundinn, súrrealisma og sýnir eftir Úlfhildi Dagsdóttur sem ég birti í Nordisk Tidskrift 2/17 fyrr á þessu ári. Ritdómurinn er byggður á íslenskri umfjöllun minni sama verk sem birtist á Hugrás undir titlinum "Nútímabókmenntafræði í fullu fjöri" síðla árs 2016 og er niðurstaðan sú sama:"Hennes text växlar mellan språklig virtuositet, paradoxer, upprepningar och till och med uppsluppenhet, men hon menar allvar. "Sjónsbok" är en viktig grundläggande text om en av våra mest intressanta samtida författare."