Hvað mælti Óðinn? er titill á teiknimyndasögu sem við Bjarni Hinriksson höfum unnið að síðasta aldarfjórðunginn. Sagan er nú komin út undir merkjum Gisp! en Froskur útgáfa annast dreifinguna. Verkið er frjálsleg endursköpun á eddukvæðinu Vafþrúðnismálum, einu elsta og vanmetnasta snilldarverki íslenskrar bókmenntasögu. Kvæðið lýsir háskalegri fróðleikskeppni Óðins og jötunsins Vafþrúðnis en birtir um leið heimsmynd heiðinna manna með eftirminnilegum hætti. Samkvæmt Vafþrúðni var jörðin upphaflega smíðuð úr skrokki jötunsins Ýmis en hann spáir jafnframt fyrir um endalok Óðins og fleiri guða í Ragnarökum. Kvæðið er túlkað í litríkum teikningum Bjarna en jafnframt ort upp á nútímamáli af okkur Jóni Halli Stefánssyni. Við efnum til útgáfufagnaðar á Kaffi Laugalæk/Gallerí Laugalæk föstudaginn 21. október kl. 17.00.
Sjónhverfingar er titill á ritþingi um Sjón sem haldið verður í Gerðubergi núna á laugardaginn, 22. október, frá kl. 14.00 til 16.30. Stjórnandi er Gunnþórunn Guðmundsdóttir en við Guðni Elísson erum í hlutverki spyrla. Tónlist flytur Ásgerður Júníusdóttir, mezzosópran og Tinna Þorsteinsdóttir leikur með á píanó. Ætlunin er að fara vítt og breitt yfir feril skáldsins og spyrja hann meðal annars um nýútkomna skáldsögu, Ég er sofandi hurð, sem bindur lokahnútinn á þríleikinn sem hófst sem skáldsögunni Augu þín sáu mig árið 1999. Heildarverkið hefur hlotið titilinn Codex og á lokabindið vafalítið eftir að vekja mikla athygli.
Eins og fram kom í nýlegri frétt á vef Árnastofnunnar heldur gagnagrunnurinn Wikisaga: Lýsandi heimildaskrá Eglu og Njálu, áfram að stækka og dafna. Í sumar hafa þrír framhaldsnemendur við Hugvísindasvið, þau Andri M. Kristjánsson, Barbora Davidkova og Ermenegilda Müller, starfað við verkefnið með styrk frá RANNÍS. Þau hafa bætt við heimildum um sögurnar tvær og skrifað og ritstýrt fjölda lýsinga á þessu heimildum. Við Svanhildur Óskarsdóttir erum ritstjórar efnisins og munum á næstu vikum og mánuðum vinna í þessu nýja efni, auk þess sem til stendur að fá nemendur sem sækja námskeið á sviðinu í haust til að vinna færslur fyrir vefinn.
"Þrautreyndur nýgræðingur: Fyrstu skrif Elíasar Marar" er titill á grein sem ég birti í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar. Þar reyni ég að leiðrétta þá vanhugsuðu fullyrðingu, sem ég lét frá mér í grein í Ritinu fyrir áratug, að Elías hafi verið nýgræðingur á ritvellinum þegar hann birti fyrstu skáldsögu sína árið 1946. Í nýju greininni rek ég í grófum dráttum feril Elíasar á stríðsárunum og vek athygli á nokkrum þeim þáttum sem kunna að hafa mótað hann sem höfundum. Niðurstaðan er sú að mörg þeirra viðfangsefna sem hann glímdi við í síðari verkum sínum - svo sem áfengisnautn, Ástandið, kynhneigð, kynlíf og móðurmissir - dúkka upp í elstu smásögum hans og ljóðum. Þessi nýja grein er óbeint framhald af grein sem ég birti á vefritinu Hugrás árið 2012 um vaxandi gengi Elíasar í bókmenntaumræðunni.
"Náttröllið: Hugleiðing um óljós landamæri menningarlífsins" er titill á grein sem ég birti nýverið á Hugrás: Vefriti Hugvísindasviðs. Það bendi ég meðal annars á að "stafræn tækni og veraldarvefurinn valda því að íslenskar menningarstofnanir eiga í vaxandi samkeppni við alþjóðlegar efnisveitur. Spotify, Amazon og YouTube eru orðnar veigamiklir bakjarlar (e.patrons) í burðarvirki íslenskrar nútímamenningar. Nú um stundir á Rás 1 í samkeppni við BBC World Service, Stöð 2 á í samkeppni við Netflix, Íslenska óperan á í samkeppni við beinar útsendingar í kvikmyndahúsum á uppfærslum Metropolitan-óperunnar í New York." Í framhaldi bið ég lesendur um að velta fyrir sér áhrifum þessara og annarra breytinga á íslenska menningu (eða öllu heldur skilgreiningar okkar á þessu rótgróna hugtaki).
International Society for Polysystem Studies (Alþjóðasamtök um fjölkerfafræði) standa fyrir sinni fyrstu ráðstefnu í Reykholti 28. til 29. júní næstkomandi. Fjölkerfafræðin, sem var þróuð af ísraelska bókmenntafræðingnum Itamar Even-Zohars á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, kortleggur með hvaða hætti bókmenntakerfi samfélaga tengjast öðrum kerfum innan samfélagsins og með hvaða hætti ólík bókmenntakerfi skarast. Skrif Even-Zohars höfðu meðal annars mikil áhrif á þróun þýðingafræða. Sérstakur gestur ráðstefnunnar er hinn þekkti þýðingafræðingur José Lambert en meðal annarra fyrirlesara eru Massimiliano Bampi (Università Ca’ Foscari-Venezia), Thomas S. Harrington (Trinity College), Roel During (Wageningen University), Rakefet Sela-Sheffy (Tel Aviv University), Müge Işıklar Koçak og Nafize Sibel Güzel (Dokuz Eylül Üniversitesi), Wadda C. Ríos-Font (Barnard College) og Jaume Subirana (Universitat Oberta de Catalunya). Við Gauti Kristmannsson munum einnig halda þarna fyrirlestra en Þýðingasetur HÍ á aðild að ráðstefnunni. Itamar Even-Zohar mun bregðast við fyrirlestri Lamberts og taka þátt í umræðum. Fræðimenn á sviði bókmenntafræði og þýðingafræða eru hvattir til að kynna sér þessa fjölbreyttu ráðstefnu. Aðgangur er ókeypis en gestafjöldi takmarkaður þannig að þeir sem áhuga hafa á að sækja ráðstefnuna eru beðnir að senda mér tölvupóst á netfangið jkh(hjá)hi.is.
Málstofa um höfundarverk Snorra Sturlusonar og viðtökur verka hans verður í Reykholti annan dag hvítasunnu, mánudaginn 16. maí, kl. 10-16. Málstofan, sem er öllum opin, er samstarfsverkefni Snorrastofu og rannsóknarverkefnis Cultivation of National and Intra-National Heroes sem við Simon Halink höfum verið að vinna að í vetur. Simon, Bergur Þorgeirrson og Tim Machan munu ræða um viðtökur verka Snorra á ráðstefnunni. Aðrir fyrirlesarar eru, auk mín, þau Brynja Þorgeirsdóttir, Guðrún Nordal, Torfi Tulinius og Óskar Guðmundsson. Öll munum við beina sjónum að rithöfundinum Snorra eða einkennum meintra verka hans. Í mínum fyrirlestri hyggst ég ræða um Snorra sem endurritara.
Fyrsta bindið af Smásögum heimsins er komið í búðir. Hugmyndin er að koma út einu bindi á ári í fimm ár. Að þessu er upprunalandið Norður-Ameríka, á næsta ári Rómanska-Ameríka, síðar koma Evrópa, Afríka, Asía og Eyjaálfa. Í ritstjórn erum við Rúnar Helgi Vignisson og Kristín Guðrún Jónsdóttir. Þýðendur þessa bindis eru auk okkar Rúnars, þau Ágúst Borgþór Sverrisson, Árni Óskarsson, Ástráður Eysteinsson, Guðrún Inga Ragnarsdóttir og Silja Aðalsteinsdóttir.Norður-Ameríkuheftið geymir sögur eftir Sherwood Anderson, William Faulkner, Ernest Hemingway, Joyce Carol Oates, Raymond Carver, Flannery O'Connor, Susan Sontag, Amy Tan, Jhumpa Lahiri, Sherman Alexie, Ralph Ellison, Philip Roth, Alice Munro. Bjartur gefur út og mun efna til útgáfufagnaðar þriðjudaginn 26. apríl frá kl. 17-18 í Eymundsson við Austurstræti.
"Haiku, Kurosawa, Murakami Haruki: gendai aisulando no nihon bunka juyo" [Hækur, Kurosawa og Haruki Murakami: Japönsk menning séð með íslenskum augum] er titill greinar eftir mig sem birtist nýlega í ritinu Aisulando, Gurinlando, Hokkyoku wo Shirutame no Rokuju-go Sho [Safnrit 65 kafla sem auka þekkingu þína á Íslandi, Grænlandi og Norðurheimsskautinu] (Tokyo: Akashi shoten, 2016). Ritstjórar eru Minoru OZAWA, Teiko NAKAMARU and Minori TAKAHASHI en sá fyrstnefndi þýddi greinina af ensku yfir á japönsku. Þarna varpa ég meðal annars ljósi á hvernig japanskar bókmenntir hafa haft áhrif á frumsamin verk skálda á borð við Óskar Árna Óskarsson, Jón Hall Stefánsson og Sölva Björn Sigurðsson, en einnig ræði ég meint japönsk áhrif í íslenskri kvikmyndagerð. Í greininni kemur fram að bókaforlagið Bjartur hefur leikið stórt hlutverk í kynningu japanskra bókmennta á Íslandi á liðnum áratugum.
"Þegar Ibsen tók Hallgerði í gíslingu" er titill á grein sem ég birti á vettvangi Hugrásar í dag. Greinin birtist jafnhliða í Fréttablaðinu og visir.is sem hluti af samstarfi þessara tveggja miðla. Í greininni varpa ég ljósi á það hvernig norska leikritaskáldið Henrik Ibsen vann úr íslenskum fornsögum þegar hann skrifaði handrit að leikritinu Víkingarnir á Hálogalandi (Hærmendene paa Helgeland) árið 1858. Í lok greinarinnar rifja ég upp að ýmsir fræðimenn hafa bent á að ein aðalpersóna verksins, kvenskörungurinn Hjördís, á ýmislegt sameiginlegt með titilpersónu eins þekktasta leikrits Ibsens, Heddu Gabler. Greinin er óbeint framhald af annarri grein, "Njála á (sv)iði", sem ég birti á Hugrás skömmu eftir áramót.