Ráðstefna um fjölkerfafræði í Reykholti

Jón Karl Helgason, 09/06/2016

itamarInternational Society for Polysystem Studies (Alþjóðasamtök um fjölkerfafræði) standa fyrir sinni fyrstu ráðstefnu í Reykholti 28. til 29. júní næstkomandi. Fjölkerfafræðin, sem var þróuð af ísraelska bókmenntafræðingnum Itamar Even-Zohars á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, kortleggur með hvaða hætti bókmenntakerfi samfélaga tengjast öðrum kerfum innan samfélagsins og með hvaða hætti ólík bókmenntakerfi skarast. Skrif Even-Zohars höfðu meðal annars mikil áhrif á þróun þýðingafræða. Sérstakur gestur ráðstefnunnar er hinn þekkti þýðingafræðingur José Lambert en meðal annarra fyrirlesara eru Massimiliano Bampi (Università Ca’ Foscari-Venezia), Thomas S. Harrington (Trinity College), Roel During (Wageningen University), Rakefet Sela-Sheffy (Tel Aviv University), Müge Işıklar Koçak og Nafize Sibel Güzel (Dokuz Eylül Üniversitesi), Wadda C. Ríos-Font (Barnard College) og Jaume Subirana (Universitat Oberta de Catalunya). Við Gauti Kristmannsson munum einnig halda þarna fyrirlestra en Þýðingasetur HÍ á aðild að ráðstefnunni. Itamar Even-Zohar mun bregðast við fyrirlestri Lamberts og taka þátt í umræðum. Fræðimenn á sviði bókmenntafræði og þýðingafræða eru hvattir til að kynna sér þessa fjölbreyttu ráðstefnu. Aðgangur er ókeypis en gestafjöldi takmarkaður þannig að þeir sem áhuga hafa á að sækja ráðstefnuna eru beðnir að senda mér tölvupóst á netfangið jkh(hjá)hi.is.

Endurritarinn Snorri

Jón Karl Helgason, 15/05/2016

snorroMálstofa um höfundarverk Snorra Sturlusonar og viðtökur verka hans verður í Reykholti annan dag hvítasunnu, mánudaginn 16. maí, kl. 10-16. Málstofan, sem er öllum opin, er samstarfsverkefni Snorrastofu og rannsóknarverkefnis Cultivation of National and Intra-National Heroes sem við Simon Halink höfum verið að vinna að í vetur. Simon, Bergur Þorgeirrson og Tim Machan munu ræða um viðtökur verka Snorra á ráðstefnunni. Aðrir fyrirlesarar eru, auk mín, þau Brynja Þorgeirsdóttir, Guðrún Nordal, Torfi Tulinius og Óskar Guðmundsson. Öll munum við beina sjónum að rithöfundinum Snorra eða einkennum meintra verka hans. Í mínum fyrirlestri hyggst ég ræða um Snorra sem endurritara.

Smásögur heimsins: Útgáfuhátíð 26. apríl

Jón Karl Helgason, 23/04/2016

smasogur 1Fyrsta bindið af Smásögum heimsins er komið í búðir. Hugmyndin er að koma út einu bindi á ári í fimm ár. Að þessu er upprunalandið Norður-Ameríka, á næsta ári Rómanska-Ameríka, síðar koma Evrópa, Afríka, Asía og Eyjaálfa. Í ritstjórn erum við Rúnar Helgi Vignisson og Kristín Guðrún Jónsdóttir. Þýðendur þessa bindis eru auk okkar Rúnars, þau Ágúst Borgþór Sverrisson, Árni Óskarsson, Ástráður Eysteinsson, Guðrún Inga Ragnarsdóttir og Silja Aðalsteinsdóttir.Norður-Ameríkuheftið geymir sögur eftir Sherwood Anderson, William Faulkner, Ernest Hemingway, Joyce Carol Oates, Raymond Carver, Flannery O'Connor, Susan Sontag, Amy Tan, Jhumpa Lahiri, Sherman Alexie, Ralph Ellison, Philip Roth, Alice Munro. Bjartur gefur út og mun efna til útgáfufagnaðar þriðjudaginn 26. apríl frá kl. 17-18 í Eymundsson við Austurstræti.

Japönsk menning séð með íslenskum augum

Jón Karl Helgason, 16/03/2016

65 kaflar"Haiku, Kurosawa, Murakami Haruki: gendai aisulando no nihon bunka juyo" [Hækur, Kurosawa og Haruki Murakami: Japönsk menning séð með íslenskum augum] er titill greinar eftir mig sem birtist nýlega í ritinu Aisulando, Gurinlando, Hokkyoku wo Shirutame no Rokuju-go Sho [Safnrit 65 kafla sem auka þekkingu þína á Íslandi, Grænlandi og Norðurheimsskautinu] (Tokyo: Akashi shoten, 2016). Ritstjórar eru Minoru OZAWA, Teiko NAKAMARU and Minori TAKAHASHI en sá fyrstnefndi þýddi greinina af ensku yfir á japönsku. Þarna varpa ég meðal annars ljósi á hvernig japanskar bókmenntir hafa haft áhrif á frumsamin verk skálda á borð við Óskar Árna Óskarsson, Jón Hall Stefánsson og Sölva Björn Sigurðsson, en einnig ræði ég meint japönsk áhrif í íslenskri kvikmyndagerð. Í greininni kemur fram að bókaforlagið Bjartur hefur leikið stórt hlutverk í kynningu japanskra bókmennta á Íslandi á liðnum áratugum.

Hallgerður, Hjördís og Hedda Gabler

Jón Karl Helgason, 12/03/2016

ibsen"Þegar Ibsen tók Hallgerði í gíslingu" er titill á grein sem ég birti á vettvangi Hugrásar í dag. Greinin birtist jafnhliða í Fréttablaðinu og visir.is sem hluti af samstarfi þessara tveggja miðla. Í greininni varpa ég ljósi á það hvernig norska leikritaskáldið Henrik Ibsen vann úr íslenskum fornsögum þegar hann skrifaði handrit að leikritinu Víkingarnir á Hálogalandi (Hærmendene paa Helgeland) árið 1858. Í lok greinarinnar rifja ég upp að ýmsir fræðimenn hafa bent á að ein aðalpersóna verksins, kvenskörungurinn Hjördís, á ýmislegt sameiginlegt með titilpersónu eins þekktasta leikrits Ibsens, Heddu Gabler. Greinin er óbeint framhald af annarri grein, "Njála á (sv)iði", sem ég birti á Hugrás skömmu eftir áramót.

Listasmiðurinn Eiríkur Laxdal

Jón Karl Helgason, 10/03/2016

saga ólafs"Margt smátt ...." er yfirskrift málstofu sem ég tek þátt í á Hugvísindaþingi föstudaginn 11. mars kl. 15.15-17.15 í stofu 220 í aðalbyggingu Háskóla Íslands. Þar verða kannaðir snertifletir smásögunnar við aðrar skyldar bókmenntagreinar, svo sem örsögur, þjóðsögur, nóvellur og skáldsögur. Rúnar Helgi Vignisson fjallar um breytileg birtingarform smásagna, Ástráður Eysteinsson ræðir um sagnaheim Franz Kafka, Kristín Guðrún Jónsdóttir varpar ljósi á bókmenntahugtökin örsaga, smáprósi og prósaljóð en sjálfur hyggst ég kanna tengsl einnar elstu og jafnframt merkust skáldsögu íslenskrar bókmenntasögu við íslenska þjóðsagnahefð. Fyrirlestur minn ber titilinn "Listasmiðurinn Eiríkur Laxdal. Frásagnarrammar og þjóðsögur í Sögu Ólafs Þórhallasonar." Ég mun sérstaklega skoða þjóðsöguna „Selmatseljan“, sem birtist í þjóðsagansafni Jóns Árnasonar árið 1862. Um hana hef ég nýverið birt stutta grein á Hugrás. Frumgerð sögunnar er að finna í Sögu Ólafs Þórhallasonar sem er talin vera skrifuð í kringum aldamótin 1800. Dæmið sem hér um ræðir varpar skýru ljósi á listræn tök Eiríks á því flókna frásagnarformi sem hann velur skáldsögu sinni.

Egil, the Viking Poet komin út

Jón Karl Helgason, 21/01/2016

egla2Egil, the Viking Poet: New Approaches to Egils Saga er titill á greinasafni sem við Torfi H. Tulinius, Laurence de Looze og Russell Poole erum ritstjórar að. Bókin, sem hefur að geyma fjölbreyttar fræðigreinar um Egils sögu eftir íslenska og erlenda fræðimenn, kom út hjá University of Toronto Press í Kanada undir lok síðasta árs.  Hægt er að glugga í bókina á vef Google Books en hún er líka fáanleg á Amazon og í Bóksölu stúdenta. Framlag mitt í bókina er greinin "Bloody Runes: The Transgressive Poetics of Egils saga" sem byggir á grein sem birtist upphaflega á íslensku undir titilinum "Rjóðum spjöll í dreyra".

Njála á (sv)iði

Jón Karl Helgason, 05/01/2016

Aðsnjalatandendur Njáluuppfærslu Borgarleikhússins hafa beðið mig um taka þátt í upphitun fyrir sýningarnar 6. janúar og 7. janúar næstkomandi með því að flytja stuttan fyrirlestur í anddyrinu kl. 19.10 báða daga. Ég hyggst ræða stuttlega eldri leikgerðir á Njáls sögu, þar á meðal einþáttung Gordons Bottomley The Riding to Lithend, harmleik Thit Jensen Nial den Vise og Mörð Valgarðsson eftir Jóhann Sigurjónsson. Síðast en ekki síst langar mig að vekja athygli á þeim þætti leikritins Hærmændene paa Helgeland eftir Henrik Ibsen sem sækir innblástur til Njálu. Þess má geta að verkið í Borgarleikhúsinu hefur fengið frábæra dóma, en sú var ekki raunin með verk þeirra Bottomleys og Jensens. Af þessum eldri verkum er Hærmændene paa Helgeland eitt um að hafa náð verulegri útbreiðslu. PS. Ég hef nú birt hugleiðingar mínar um sýninguna og eldri leikgerðir í greininni "Njála á (sv)iði" á Hugrás.

Spjallað um Nínu og módelin hennar

Jón Karl Helgason, 03/12/2015

Nína Tryggvadóttir - listmáriSunnudaginn 29. nóvember spjallaði ég við gesti Listasafns Íslands um mannamyndir sem eru á sýningunni Nína Tryggvadóttir -Ljóðvarp. Ég lagði höfuðáherslu á einstaklinga sem sátu við gestaborð Erlendar í Unuhúsi á fjórða og fimmta áratugnum, en þar söfnuðust helstu menningarforkólfar síðustu aldar saman og ræddu um listir, heimspeki, bókmenntir og stöðu heimsmálanna. Meðal gesta í Unuhúsi voru Halldór Laxness, Þorvaldur Skúlason, Ragnar í Smára, Steinn Steinarr og Sigurður Nordal en myndir af þeim öllum, að ógleymdum Erlendi, er að finna á sýningunni.

Einu sinni var stúlka á bæ; hún var selmatselja

Jón Karl Helgason, 23/11/2015

220px-Jón_Árnason"Frásagnarammar, prjónaskapur og þjóðsögur" er titill á stuttri grein sem ég birti nýlega á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs. Viðfangsefnið eru þrjár þjóðsögur úr safni Jóns Árnarsonar þar sem ein persóna segir annarri þjóðsögu. Athyglisverðasta dæmið er úr þjóðsögunni „Selmatseljan“ en hún tilheyrir flokki sagna sem lýsa ástum huldumanns (ljúflings) og konu úr mannheimum. Ein þjóðsaga er þar greipt inn í aðra með þeim hætti að þjóðsagnagerð og sagnaflutningur verða höfuðviðfangsefni textans. Samband selmatseljunnar og tengdamóður hennar í sögunni endurspeglar samband sagnaþuls og hlustanda, höfundar og lesanda.