Hvar skarast skáldskapurinn og lögfræðin?

Jón Karl Helgason, 18/10/2022

Lög og bókmenntir er yfirskrift málstofu sem er hluti af Þjóðarspeglinum, ráðstefnu um félagsvísindi við Háskóla Íslands föstudaginn 28. október næstkomandi. Þar munum við Guðrún Steinþórsdóttir, Hafsteinn Þór Hauksson og Ástráður Eysteinsson kanna ýmsa áhugaverða snertifleti bókmenntafræði og lögfræði. Guðrún fjallar um Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón eftir Vigdísi Grímsdóttur og Ástráður um Réttarhöldin eftir Kafka en í báðum þessum skáldsögum er dregin upp mynd af samskiptum sakborninga og dómsstóla. Erindi mitt kallast "Hvar skarast heimsbókmenntirnar og lögfræðin?" en þar verður sjónum beint að verkum eftir William Shakespeare, Albert Camus og Steen Steensen Blicher sem lögfræðingar hafa sýnt fræðilegan áhuga. Þá mun Hafsteinn Þór velta vöngum yfir því hvaða íslensk skáldverk gætu átt erindi við lögfræðinema hér á landi. Málstofan fer fram í Lögbergi, stofu 101 og hefst klukkan 11.00. Hægt er að skoða ágrip erinda á s. 64-66 í ráðstefnuriti Þjóðarspegilsins.