Category: Uncategorized

ERNiE: Alfræði rómantískrar þjóðernisstefnu

Jón Karl Helgason, 27/10/2015

joepEitt af mörgum stórmerkum verkefnum hollenska fræðimannsins Joep Leerssens og samstarfsmanna hans í SPIN (Study Platform on Interlocking Nationalisms) er ERNiE (Encyclopedia of Romantic Nationalism in Europe), það er alfræðirit rómantískrar þjóðernisstefnu í Evrópu. Lokaafurðin verður útgefið rit í nokkrum bindum en nýlega var vefútgáfa þess opnuð almenningi. Hópur íslenskra fræðimanna hefur skrifað færslur fyrir þetta rit, þeirra á meðal Sveinn Yngvi Egilsson, Guðmundur Hálfdanarson og Terry Gunnell. Mitt eigið litla framlag þarna eru kaflar um þjóðlegar íþróttir (einkum glímu) íþróttafélög og ungmennafélög, og loks bókasöfn.

Postular minninganna

Jón Karl Helgason, 26/10/2015

jónasinn"Modern Postulators of Jónas Hallgrímsson's Cultural Memory" er titill á fyrirlestri sem ég flyt á ráðstefnunni Canonization of “Cultural Saints”: Commemorative Cults of Artists and Nation-Building in Europe föstudaginn 30. október næstkomandi. Þetta er þriggja daga ráðstefna sem skipulögð er af slóvensku bókmenntafræðistofnuninni (ZRC SAZU) and hollensku rannsóknarstofnunni SPIN (Study Platform of Interlocking Nationalisms) en þarna mun hópur fræðimanna frá ólíkum löndum ræða um menningarlega þjóðardýrlinga frá ýmsum hliðum. Í mínu erindi hyggst ég kynna hugtakið postuli (postulator) en því er ætlað að ná utan um þá einstaklinga, félög og stofnanir sem vinna að (eða gegn) helgifestu tiltekinna þjóðardýrlinga. Mun ég meðal annars reifa þær deilur sem spruttu upp í kringum hönnun 10.000 króna seðils með mynd af Jónasi Hallgrímssyni, en þar voru Menningarfélagið Hraun í Öxnadal og Seðlabankinn meðal þeirra postula sem við sögu komu.

Kundera, Barnes og minnisfræði

Jón Karl Helgason, 23/10/2015
kundera"Ridiculous Immortality" ("Hlálegi ódauðleikinn") er titill á erindi sem ég hyggst flytja á málþingi um Milan Kundera sem Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands efna til laugardaginn 24. október kl. 14.00 í stofu 101 í Odda. Ætlunin er að rekja saman staka þræði úr skáldsögunum Ódauðleikinn (1990) eftir Kundera og Páfagaukur Flauberts (1984) eftir Julian Barnes en báðar fást þær á afar frumlegan hátt við svipuð viðfangsefni og svonefnd minnisfræði (memory studies). Aðrir frummælendur á þinginu eru Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur og Torfi H. Tulinius, bókmenntafræðingur og prófessor íslenskum miðaldafræðum. Sérstakur gestur málþingsins er François Ricard, háskólakennari við McGill-háskóla í Montréal í Kanada og mun Friðrik Rafnsson, bókmenntafræðingur og þýðandi, ræða við hann um verk Kundera. PS. Fréttastofa Stöðvar 2 sýndi þinginu um Kundera áhuga og átti við mig stutt viðtal um Kundera og verk hans.

Skáldskaparfræði, speglar og miðaldir

Jón Karl Helgason, 16/10/2015

am2"Skáldskaparfræði, speglar og miðaldir" er titill á grein sem ég hef nú birt á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands en þar ræði ég um rannsóknir nokkurra fræðimanna sem hafa afhjúpað skáldskaparfræði íslenskra miðaldabókmennta og haft veruleg áhrif á mínar eigin rannsóknir. Greinin er að stofni til hluti af erindi sem ég flutti árið 2010 á málþinginu Staðlausir stafir sem helgað var Helgu Kress, lærimóður minni í Almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hún er þekktust fyrir feminískar bókmenntarannsóknir sínar en þarna vek ég athygli á einni hlið þeirra sem minni gaumur hefur verið gefinn. Ég ræði í framhaldi stuttlega um rannsóknir Laurence de Looze og Torfa H. Tuliniusar á Egils sögu, en ég hef unnið töluvert með þeim báðum á liðnum árum, nú síðast ásamt Russell Poole að ritstjórn bókarinnar Egil: The Viking Poet, sem mun koma út hjá University of Toronto Press innan tíðar.

Þjóðardýrlingurinn Guðríður

Jón Karl Helgason, 06/10/2015

arfurSigríður Helga Þorsteinsdóttir birtir athyglisverða fræðigrein um Guðríði Þorbjarnardóttur í greinasafninu Menningararfur á Íslandi sem er nýkomið út hjá Háskólaútgáfunni undir ritstjórn Ólafs Rastricks og Valdimars Tr. Hafstein. Greinina kallar Sigríður Helga "Þjóðardýrlingur heldur til Rómar: Hagnýting Guðríðar Þorbjarnardóttur 1980-2011" en hún er byggð á MA-ritgerðinni "Biskipamóðir í páfagarði" frá 2013. MA-ritgerðin var skrifuð undir minni leiðsögn á sínum tíma en það er alltaf sérstakt ánægjuefni þegar nemendur vinna lokaritgerðir sínar áfram til birtingar. Ég óska Sigríði Helgu hjartanlega til hamingju með þennan góða áfanga.

Hrunið, þið munið

Jón Karl Helgason, 06/10/2015

gbiÁhugahópur um rannsóknir á bankahruninu 2008, orsökum þess og eftirstöðvum, stendur þriðjudaginn 6. október fyrir opinni málstofu í stofu 301 í Árnagarði, Háskóla Íslands. Þar munu fjórir nemendur við skólann kynna rannsóknir sínar á þessu viðamikla viðfangsefni. Fyrirlesarar eru Þórhildur Ólafsdóttir, sem leitar skýringa á því að heilsa virðist að mörgu leyti batna í efnahagskreppum, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, sem ræðir um búsáhaldabyltinguna, kosningabaráttu Besta flokksins og upplestur á Rannsóknarskýrslu Alþingis í Borgarleikhúsinu sem dæmi um andóf í opinberu rými, Markús Þ. Þórhallsson, sem fjallar um baráttu InDefence-hópsins gegn Icesave-samningunum, og Guðrún Baldvinsdóttir sem greinir skáldsögurnar Bankster eftir Guðmund Óskarsson og Gæsku eftir Eirík Örn Norðdahl út frá þeirri hugmynd að bankahrunið hafi framkallað ákveðið tráma í sjálfsmynd þjóðarinnar. Þá verður opnaður nýr banki, gagnabankinn Hrunið, þið munið, sem nemendur af Hugvísindasviði og Félagsvísindasviði hafa verið að leggja inn á undanfarna mánuði. Gagnabankanum er ætlað að geyma upplýsingar um kortlagningu fræðimanna, listamanna og annarra á íslenskri samtímasögu. Við Guðni Th. Jóhannesson og Markús Þórhallsson höfum ritstýrt efninu á þessum vef en við bindum vonir við að fleiri kennarar og nemendur við skólans leggi þessu verkefni lið. Málstofan hefst kl. 16.30 og er öllum opin.

ORÐSTÍR: Viðurkenning til þýðenda

Jón Karl Helgason, 21/09/2015

Ordstir-2015Erik Skyum-Nielsen og Catherine Eyjólfsson hafa aukið orðstír íslenskra bókmennta í Frakklandi og Danmörku á liðnum árum og áratugum með þýðingum sínum. Þau tóku við nýrri heiðursviðurkenningu, ORÐSTÍR; sem ætluð er þýðendum íslenskra bókmennta, á Bessastöðum fimmtudaginn 10. september og tóku svo þátt í pallborðsumræðum ásamt Bergsveini Birgissyni og Auðu Övu Ólafsdóttur í Norræna húsinu daginn eftir. Að ORÐSTÍR standa Miðstöð íslenskra bókmennta (MÍB), Bókmenntahátíð í Reykjavík, Bandalag þýðenda og túlka, Embætti forseta Íslands og Íslandsstofa og var ég fulltrúi MÍB í úthlutunarnefndinni þetta árið. Íslenskar bókmenntir standa í stórri þakkarskuld við fólk eins og þau Erik og Catherine.

Athyglisverðar lokaritgerðir

Jón Karl Helgason, 19/09/2015

bragiÞrír nemendur, sem ég hef leiðbeint, voru að ljúka við BA- eða MA-ritgerðir í vor og sumar. Guðrún Lára Pétursdóttir, nemandi í Almennri bókmenntafræði, skrifar í sinni MA-ritgerð, "Að segja satt og rétt frá" um fagurfræði Braga Ólafssonar. Hún leggur þar megináherslu á að greina skáldsögurnar Hvíldardaga og Samkvæmisleiki. Eva-Maria Klumpp, nemandi í Íslensku sem öðru máli, fjallar um tilvísanir söguhöfundar Njáls sögu til samkynhneigðar í BA-ritgerð sem ber titilinn "Var Njáll hommi?" BA-ritgerð Robertu Soparaite, sem einnig er nemandi í Íslensku sem öðru máli, ber titilinn "Hvernig verður maður til?" Hún hefur að geyma greiningu á skáldsögunni Punktur punktur komma strik eftir Pétur Gunnarsson í ljósi kenninga Jean Piaget. Allar þessar ritgerðir eru, eins og flestar aðrar lokaritgerðir á háskólastigi hér á landi, aðgengilegar á Skemmunni.

Þjóðardýrlingar í Katalóníu

Jón Karl Helgason, 15/09/2015

jaume-subiranaDagana 7.-9. september var ég gestakennari við Universitat Oberta de Catalunya í Barcelona og ræddi þar um minnisfræði og mennningarlega þjóðardýrlinga. Gestgjafi minn var Jaume Subirana, dósent í bókmenntum við skólann, en kynni okkar hófust þannig að hann þýddi grein eftir mig yfir á katalónsku. Ber hún titilinn "El paper dels sants culturals en els estats nació europeus" og birtist í í tímaritinu L’Espill á liðnu ári. Subirana hefur fjallað um ýmsar hliðar katalónskra bókmennta og menningar á liðnum árum, og kynnti hann mig m.a. fyrir helsta þjóðdýrlingi Katalóníumanna í hópi ljóðskálda, Jacint Verdarguer. Stóra uppgötvun ferðarinnar voru hins vegar fregnir um að Antoni Gaudi ("arkitekt Guðs") sé á góðri leið með að verða tekinn í helga manna tölu af páfa.

Víkingakvikmyndir í útvarpinu

Jón Karl Helgason, 07/08/2015

vikings"Í dæmigerðri víkingamynd er víkingurinn árásargjarn berserkur –villimannleg andstæða siðmenningarinnar sem fer um með báli og brandi, rænandi og ruplandi, hneppir fólk í ánauð, nauðgar og drepur." Svo lýsir Kevin J. Harty þeirri mynd sem oftast er brugðið upp af norrænum miðaldamönnum á hvíta tjaldinu. Í tveimur þáttum sem verða á dagskrá Rásar 1 sunnudagana 23. og 30. ágúst nk. fjalla ég um einkenni og afurðir þessarar kvikmyndategundar. Höfuðáhersla verður lögð á kvikmyndirnar The Viking frá 1928 og The Vikings frá 1958. Báðar voru aðlaganir á nútímaskáldsögum sem sjálfar voru byggðar á íslenskum miðaldatextum; annars vegar Eiríks sögu rauða og Grænlendinga sögu og hins vegar Ragnars sögu loðbrókar. Þættirnir eru á dagskrá kl. 10.15, lesari er Klara Helgadóttir en um hljóðstjórn sáu Ragnar Gunnarsson og Mark Eldred. Ps. Nú er hægt að nálgast þessa tvo þætti á hlaðvarpi RÚV.