"Haiku, Kurosawa, Murakami Haruki: gendai aisulando no nihon bunka juyo" [Hækur, Kurosawa og Haruki Murakami: Japönsk menning séð með íslenskum augum] er titill greinar eftir mig sem birtist nýlega í ritinu Aisulando, Gurinlando, Hokkyoku wo Shirutame no Rokuju-go Sho [Safnrit 65 kafla sem auka þekkingu þína á Íslandi, Grænlandi og Norðurheimsskautinu] (Tokyo: Akashi shoten, 2016). Ritstjórar eru Minoru OZAWA, Teiko NAKAMARU and Minori TAKAHASHI en sá fyrstnefndi þýddi greinina af ensku yfir á japönsku. Þarna varpa ég meðal annars ljósi á hvernig japanskar bókmenntir hafa haft áhrif á frumsamin verk skálda á borð við Óskar Árna Óskarsson, Jón Hall Stefánsson og Sölva Björn Sigurðsson, en einnig ræði ég meint japönsk áhrif í íslenskri kvikmyndagerð. Í greininni kemur fram að bókaforlagið Bjartur hefur leikið stórt hlutverk í kynningu japanskra bókmennta á Íslandi á liðnum áratugum.
"Þegar Ibsen tók Hallgerði í gíslingu" er titill á grein sem ég birti á vettvangi Hugrásar í dag. Greinin birtist jafnhliða í Fréttablaðinu og visir.is sem hluti af samstarfi þessara tveggja miðla. Í greininni varpa ég ljósi á það hvernig norska leikritaskáldið Henrik Ibsen vann úr íslenskum fornsögum þegar hann skrifaði handrit að leikritinu Víkingarnir á Hálogalandi (Hærmendene paa Helgeland) árið 1858. Í lok greinarinnar rifja ég upp að ýmsir fræðimenn hafa bent á að ein aðalpersóna verksins, kvenskörungurinn Hjördís, á ýmislegt sameiginlegt með titilpersónu eins þekktasta leikrits Ibsens, Heddu Gabler. Greinin er óbeint framhald af annarri grein, "Njála á (sv)iði", sem ég birti á Hugrás skömmu eftir áramót.
Egil, the Viking Poet: New Approaches to Egils Saga er titill á greinasafni sem við Torfi H. Tulinius, Laurence de Looze og Russell Poole erum ritstjórar að. Bókin, sem hefur að geyma fjölbreyttar fræðigreinar um Egils sögu eftir íslenska og erlenda fræðimenn, kom út hjá University of Toronto Press í Kanada undir lok síðasta árs. Hægt er að glugga í bókina á vef Google Books en hún er líka fáanleg á Amazon og í Bóksölu stúdenta. Framlag mitt í bókina er greinin "Bloody Runes: The Transgressive Poetics of Egils saga" sem byggir á grein sem birtist upphaflega á íslensku undir titilinum "Rjóðum spjöll í dreyra".
Aðs
tandendur Njáluuppfærslu Borgarleikhússins hafa beðið mig um taka þátt í upphitun fyrir sýningarnar 6. janúar og 7. janúar næstkomandi með því að flytja stuttan fyrirlestur í anddyrinu kl. 19.10 báða daga. Ég hyggst ræða stuttlega eldri leikgerðir á Njáls sögu, þar á meðal einþáttung Gordons Bottomley The Riding to Lithend, harmleik Thit Jensen Nial den Vise og Mörð Valgarðsson eftir Jóhann Sigurjónsson. Síðast en ekki síst langar mig að vekja athygli á þeim þætti leikritins Hærmændene paa Helgeland eftir Henrik Ibsen sem sækir innblástur til Njálu. Þess má geta að verkið í Borgarleikhúsinu hefur fengið frábæra dóma, en sú var ekki raunin með verk þeirra Bottomleys og Jensens. Af þessum eldri verkum er Hærmændene paa Helgeland eitt um að hafa náð verulegri útbreiðslu. PS. Ég hef nú birt hugleiðingar mínar um sýninguna og eldri leikgerðir í greininni "Njála á (sv)iði" á Hugrás.
Sunnudaginn 29. nóvember spjallaði ég við gesti Listasafns Íslands um mannamyndir sem eru á sýningunni Nína Tryggvadóttir -Ljóðvarp. Ég lagði höfuðáherslu á einstaklinga sem sátu við gestaborð Erlendar í Unuhúsi á fjórða og fimmta áratugnum, en þar söfnuðust helstu menningarforkólfar síðustu aldar saman og ræddu um listir, heimspeki, bókmenntir og stöðu heimsmálanna. Meðal gesta í Unuhúsi voru Halldór Laxness, Þorvaldur Skúlason, Ragnar í Smára, Steinn Steinarr og Sigurður Nordal en myndir af þeim öllum, að ógleymdum Erlendi, er að finna á sýningunni.
"Frásagnarammar, prjónaskapur og þjóðsögur" er titill á stuttri grein sem ég birti nýlega á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs. Viðfangsefnið eru þrjár þjóðsögur úr safni Jóns Árnarsonar þar sem ein persóna segir annarri þjóðsögu. Athyglisverðasta dæmið er úr þjóðsögunni „Selmatseljan“ en hún tilheyrir flokki sagna sem lýsa ástum huldumanns (ljúflings) og konu úr mannheimum. Ein þjóðsaga er þar greipt inn í aðra með þeim hætti að þjóðsagnagerð og sagnaflutningur verða höfuðviðfangsefni textans. Samband selmatseljunnar og tengdamóður hennar í sögunni endurspeglar samband sagnaþuls og hlustanda, höfundar og lesanda.
Eitt af mörgum stórmerkum verkefnum hollenska fræðimannsins Joep Leerssens og samstarfsmanna hans í SPIN (Study Platform on Interlocking Nationalisms) er ERNiE (Encyclopedia of Romantic Nationalism in Europe), það er alfræðirit rómantískrar þjóðernisstefnu í Evrópu. Lokaafurðin verður útgefið rit í nokkrum bindum en nýlega var vefútgáfa þess opnuð almenningi. Hópur íslenskra fræðimanna hefur skrifað færslur fyrir þetta rit, þeirra á meðal Sveinn Yngvi Egilsson, Guðmundur Hálfdanarson og Terry Gunnell. Mitt eigið litla framlag þarna eru kaflar um þjóðlegar íþróttir (einkum glímu) íþróttafélög og ungmennafélög, og loks bókasöfn.
"Modern Postulators of Jónas Hallgrímsson's Cultural Memory" er titill á fyrirlestri sem ég flyt á ráðstefnunni Canonization of “Cultural Saints”: Commemorative Cults of Artists and Nation-Building in Europe föstudaginn 30. október næstkomandi. Þetta er þriggja daga ráðstefna sem skipulögð er af slóvensku bókmenntafræðistofnuninni (ZRC SAZU) and hollensku rannsóknarstofnunni SPIN (Study Platform of Interlocking Nationalisms) en þarna mun hópur fræðimanna frá ólíkum löndum ræða um menningarlega þjóðardýrlinga frá ýmsum hliðum. Í mínu erindi hyggst ég kynna hugtakið postuli (postulator) en því er ætlað að ná utan um þá einstaklinga, félög og stofnanir sem vinna að (eða gegn) helgifestu tiltekinna þjóðardýrlinga. Mun ég meðal annars reifa þær deilur sem spruttu upp í kringum hönnun 10.000 króna seðils með mynd af Jónasi Hallgrímssyni, en þar voru Menningarfélagið Hraun í Öxnadal og Seðlabankinn meðal þeirra postula sem við sögu komu.