Þjóðardýrlingurinn Guðríður

Jón Karl Helgason, 06/10/2015

arfurSigríður Helga Þorsteinsdóttir birtir athyglisverða fræðigrein um Guðríði Þorbjarnardóttur í greinasafninu Menningararfur á Íslandi sem er nýkomið út hjá Háskólaútgáfunni undir ritstjórn Ólafs Rastricks og Valdimars Tr. Hafstein. Greinina kallar Sigríður Helga "Þjóðardýrlingur heldur til Rómar: Hagnýting Guðríðar Þorbjarnardóttur 1980-2011" en hún er byggð á MA-ritgerðinni "Biskipamóðir í páfagarði" frá 2013. MA-ritgerðin var skrifuð undir minni leiðsögn á sínum tíma en það er alltaf sérstakt ánægjuefni þegar nemendur vinna lokaritgerðir sínar áfram til birtingar. Ég óska Sigríði Helgu hjartanlega til hamingju með þennan góða áfanga.

Hrunið, þið munið

Jón Karl Helgason, 06/10/2015

gbiÁhugahópur um rannsóknir á bankahruninu 2008, orsökum þess og eftirstöðvum, stendur þriðjudaginn 6. október fyrir opinni málstofu í stofu 301 í Árnagarði, Háskóla Íslands. Þar munu fjórir nemendur við skólann kynna rannsóknir sínar á þessu viðamikla viðfangsefni. Fyrirlesarar eru Þórhildur Ólafsdóttir, sem leitar skýringa á því að heilsa virðist að mörgu leyti batna í efnahagskreppum, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, sem ræðir um búsáhaldabyltinguna, kosningabaráttu Besta flokksins og upplestur á Rannsóknarskýrslu Alþingis í Borgarleikhúsinu sem dæmi um andóf í opinberu rými, Markús Þ. Þórhallsson, sem fjallar um baráttu InDefence-hópsins gegn Icesave-samningunum, og Guðrún Baldvinsdóttir sem greinir skáldsögurnar Bankster eftir Guðmund Óskarsson og Gæsku eftir Eirík Örn Norðdahl út frá þeirri hugmynd að bankahrunið hafi framkallað ákveðið tráma í sjálfsmynd þjóðarinnar. Þá verður opnaður nýr banki, gagnabankinn Hrunið, þið munið, sem nemendur af Hugvísindasviði og Félagsvísindasviði hafa verið að leggja inn á undanfarna mánuði. Gagnabankanum er ætlað að geyma upplýsingar um kortlagningu fræðimanna, listamanna og annarra á íslenskri samtímasögu. Við Guðni Th. Jóhannesson og Markús Þórhallsson höfum ritstýrt efninu á þessum vef en við bindum vonir við að fleiri kennarar og nemendur við skólans leggi þessu verkefni lið. Málstofan hefst kl. 16.30 og er öllum opin.

ORÐSTÍR: Viðurkenning til þýðenda

Jón Karl Helgason, 21/09/2015

Ordstir-2015Erik Skyum-Nielsen og Catherine Eyjólfsson hafa aukið orðstír íslenskra bókmennta í Frakklandi og Danmörku á liðnum árum og áratugum með þýðingum sínum. Þau tóku við nýrri heiðursviðurkenningu, ORÐSTÍR; sem ætluð er þýðendum íslenskra bókmennta, á Bessastöðum fimmtudaginn 10. september og tóku svo þátt í pallborðsumræðum ásamt Bergsveini Birgissyni og Auðu Övu Ólafsdóttur í Norræna húsinu daginn eftir. Að ORÐSTÍR standa Miðstöð íslenskra bókmennta (MÍB), Bókmenntahátíð í Reykjavík, Bandalag þýðenda og túlka, Embætti forseta Íslands og Íslandsstofa og var ég fulltrúi MÍB í úthlutunarnefndinni þetta árið. Íslenskar bókmenntir standa í stórri þakkarskuld við fólk eins og þau Erik og Catherine.

Athyglisverðar lokaritgerðir

Jón Karl Helgason, 19/09/2015

bragiÞrír nemendur, sem ég hef leiðbeint, voru að ljúka við BA- eða MA-ritgerðir í vor og sumar. Guðrún Lára Pétursdóttir, nemandi í Almennri bókmenntafræði, skrifar í sinni MA-ritgerð, "Að segja satt og rétt frá" um fagurfræði Braga Ólafssonar. Hún leggur þar megináherslu á að greina skáldsögurnar Hvíldardaga og Samkvæmisleiki. Eva-Maria Klumpp, nemandi í Íslensku sem öðru máli, fjallar um tilvísanir söguhöfundar Njáls sögu til samkynhneigðar í BA-ritgerð sem ber titilinn "Var Njáll hommi?" BA-ritgerð Robertu Soparaite, sem einnig er nemandi í Íslensku sem öðru máli, ber titilinn "Hvernig verður maður til?" Hún hefur að geyma greiningu á skáldsögunni Punktur punktur komma strik eftir Pétur Gunnarsson í ljósi kenninga Jean Piaget. Allar þessar ritgerðir eru, eins og flestar aðrar lokaritgerðir á háskólastigi hér á landi, aðgengilegar á Skemmunni.

Þjóðardýrlingar í Katalóníu

Jón Karl Helgason, 15/09/2015

jaume-subiranaDagana 7.-9. september var ég gestakennari við Universitat Oberta de Catalunya í Barcelona og ræddi þar um minnisfræði og mennningarlega þjóðardýrlinga. Gestgjafi minn var Jaume Subirana, dósent í bókmenntum við skólann, en kynni okkar hófust þannig að hann þýddi grein eftir mig yfir á katalónsku. Ber hún titilinn "El paper dels sants culturals en els estats nació europeus" og birtist í í tímaritinu L’Espill á liðnu ári. Subirana hefur fjallað um ýmsar hliðar katalónskra bókmennta og menningar á liðnum árum, og kynnti hann mig m.a. fyrir helsta þjóðdýrlingi Katalóníumanna í hópi ljóðskálda, Jacint Verdarguer. Stóra uppgötvun ferðarinnar voru hins vegar fregnir um að Antoni Gaudi ("arkitekt Guðs") sé á góðri leið með að verða tekinn í helga manna tölu af páfa.

Víkingakvikmyndir í útvarpinu

Jón Karl Helgason, 07/08/2015

vikings"Í dæmigerðri víkingamynd er víkingurinn árásargjarn berserkur –villimannleg andstæða siðmenningarinnar sem fer um með báli og brandi, rænandi og ruplandi, hneppir fólk í ánauð, nauðgar og drepur." Svo lýsir Kevin J. Harty þeirri mynd sem oftast er brugðið upp af norrænum miðaldamönnum á hvíta tjaldinu. Í tveimur þáttum sem verða á dagskrá Rásar 1 sunnudagana 23. og 30. ágúst nk. fjalla ég um einkenni og afurðir þessarar kvikmyndategundar. Höfuðáhersla verður lögð á kvikmyndirnar The Viking frá 1928 og The Vikings frá 1958. Báðar voru aðlaganir á nútímaskáldsögum sem sjálfar voru byggðar á íslenskum miðaldatextum; annars vegar Eiríks sögu rauða og Grænlendinga sögu og hins vegar Ragnars sögu loðbrókar. Þættirnir eru á dagskrá kl. 10.15, lesari er Klara Helgadóttir en um hljóðstjórn sáu Ragnar Gunnarsson og Mark Eldred. Ps. Nú er hægt að nálgast þessa tvo þætti á hlaðvarpi RÚV.

Leifur heppni á hvíta tjaldinu

Jón Karl Helgason, 16/06/2015

the_vikingBókmennta- og listfræðastofnun efndi til alþjóðlegrar ráðstefnu, „Translation: The Language of Literature“, dagana 12. og 13. júní þar sem viðfangsefnin voru þýðingafræði, bókmenntaþýðingar og menningartengsl. Átján fræðimenn frá sjö háskólum fluttu erindi á ráðstefnunni en meðal viðfangsefna voru höfundar á borð við James Joyce, Jorge Luis Borges, William Faulkner og Sylvia Plath. Erindið sem ég flutti á ráðstefnunni, „Postediting the Vikings: From Sagas to Novels to Films“, fjallaði meðal annars um skáldsöguna The Thrall of Leif the Lucky eftir Ottilie A. Liljencrantz sem út kom í Bandaríkjunum árið 1902 og kvikmyndina The Viking frá 1928 sem byggð var á skáldsögu Liljencrantz.

Ímyndarvandi þjóðarpúkans

Jón Karl Helgason, 21/05/2015

Grímur Thomsen - net"Ímyndarvandi þjóðarpúkans" er titill á grein sem við Guðmundur Hálfdanarson birtum í nýju hefti Skírnis. Greinin snýst um bók Kristjáns Jóhanns Jónssonar, Grímur Thomsen. Þjóðernis, skáldskapur, þversagnir og vald, sem út kom á vegum Bókmennta- og listfræðastofnun Háskólans og Háskólaútgáfunni á liðnu ári. Í niðurlagi segir meðal annars: "greining Kristjáns Jóhanns Jónssonar á lífshlaupi Gríms Thomsen, viðhorfum hans, kveðskap og menningarpólitískum skrifum er mikilvægt framlag til greiningar á íslenskri menningarsögu nítjándu aldarinnar. Í fyrsta lagi opnar hún nýja sýn á Grím, sem hefur ekki notið þeirrar athygli sem hann á skilda. Hér hefur minningin um skáldið örugglega liðið fyrir náin tengsl þess við danska elítu, því að þótt það sé kannski fulllangt gengið að kalla Grím „þjóðarpúka“, eins og Kristján gerir á fleiri en einum stað ... þá var frami í danska stjórnkerfinu mönnum tæplega til framdráttar í tilfinningaþrungnu andrúmslofti sjálfstæðisbaráttunnar. Í öðru lagi er ritgerðin áhugaverð tilraun, í anda nýsöguhyggju, til að lesa ljóð skálds og menningarpostula í samhengi við aðra texta sem hann skildi eftir sig. Það er þó um leið ljóst að hægt væri að ganga mun lengra í nýsögulegri túlkun á ljóðum skáldsins."

Herra Þráinn (Mr. Wanna B.)

Jón Karl Helgason, 05/05/2015

1005Þriðja og síðasta hefti tímaritraðarinnar 1005 kemur út sunnudaginn 10. maí næstkomandi. 1005 samanstendur af sjö sjálfstæðum verkum að þessu sinni en þau eru: Eftirherman eftir Thomas Bernhard í þýðingu Óskars Árna Óskarssonar, Fæðingarborgin í útgáfu Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur, Blindur hestur eftir Eirík Guðmundsson, Jarðvist eftir Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur, Fundur útvarpsráðs 14. mars 1984 og mótandi áhrif hans á kynverund drengsins og fleiri sögur eftir Ragnar Helga Ólafsson, Tvöfalt gler eftir Halldóru Thoroddsen og Herra Þráinn eftir þann sem þetta ritar. Líkt og sum fyrri verk mín rásar bókin sú á alvörulausum mörkum fræða og skáldskapar. Lesandinn slæst í för með herra Þránni sem ver dýrmætum tíma í að hlusta á Þórhall miðil í útvarpinu, skoða Marlboro-auglýsingar í erlendum tímaritum og horfa á ljósmynd af Sophiu Loren og Jayne Mansfield inni á klósetti, milli þess sem hann svitnar í spinning í World Class.  Sá sem hefur séð sjálfsupptekinn nútímann með augum herra Þráins mun í versta falli rakna úr áralöngu roti og í besta falli yppta öxlum. Útgáfuhóf 1005 verður 10.05 í Mengi, Óðinsgötu 2, frá kl. 16-18. Allir velkomnir.

Wagner og víkingametal

Jón Karl Helgason, 14/04/2015

wagner"From Wagner to Viking Metal" er titill á fyrirlestri sem ég flyt við Humboldt-Universität í Berlín miðvikudaginn 22. apríl næstkomandi. Þar hyggst ég ræða um endurtekin þemu í  textagerð valdra víkinga-metal hljómsveita (þar á meðal einnar frá Mexíkó) og tengja þau útbreiddum hugmyndum í dægurmenningu 20. aldar um Valhöll sem paradís heiðinna manna. Einnig hyggst ég rekja þræði frá tónlist hljómsveitanna aftur til endurvinnslu Wagners á arfleifð eddukvæða. Fyrirlesturinn, sem hefst kl. 18.00, er hluti af fyrirlestrarröðinni Das Alte im Neuen. Aktualisierungen der altnordischen Literatur in der Gegenwartskultur sem Nordeuropa-Institut við skólann skipuleggur nú á vordögum.