Posted on Færðu inn athugasemd

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um mannanöfn

Ég er sammála þeirri meginstefnu frumvarpsins að leggja sem minnstar hömlur á form og eðli mannanafna. Ég tel að aukið frelsi í þeim efnum sé nauðsynlegt vegna jafnréttis- og mannréttindasjónarmiða, og skaði ekki íslenska tungu. Nánari rök fyrir þeirri afstöðu eru færð hér á eftir.

Samkvæmt frumvarpinu falla brott ákvæði sem eru í núgildandi lögum um að eiginnafn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli, megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi og skuli ritað í samræmi við al­menn­ar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Framangreind ákvæði eru sett til verndar íslenskri tungu og eru þannig út af fyrir sig góðra gjalda verð. En þau eru öll vandmeðfarin og háð túlkun. Nöfn eru tilfinningamál og nafnréttur manna ríkur, eins og staðfest er með ýmsum dómum, bæði frá Mannréttindadómstól Evrópu, Héraðs­dómi Reykja­víkur o.fl., og með vísun til t.d. mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrár Íslands. Réttur manns til nafns, og réttur foreldra til að ráða nafni barns síns, verður ekki takmarkaður nema hagsmunir samfélagsins krefjist.

Við beitingu hefðarákvæðisins hefur mannanafnanefnd komið sér upp ákveðnum vinnulags­reglum. Það er vitaskuld lofsvert og dregur úr hættu á því að sambærileg mál séu afgreidd á mismunandi hátt. En viðmiðin í þessum reglum eru umdeilanleg og eiga sér ekki beina stoð í lögum, þótt þau séu vissulega nefnd í athugasemdum með frumvarpi til núgildandi laga. Ekki er það síður túlkunaratriði hvort nöfn brjóti í bága við íslenskt málkerfi. Þegar þessu ákvæði hefur verið beitt er oft vísað til þess að í nöfnum komi fyrir hljóð eða hljóðasambönd sem ekki eru í íslensku, en einnig til orðmyndunarfræðilegra, beygingarlegra og merkingarlegra atriða. Oftast er um að ræða mjög matskennda þætti þar sem erfitt er að gæta samræmis og jafnræðis.

Því er oft haldið fram að óheftur straumur erlendra nafna geti haft óæskileg áhrif á málið. Það er í sjálfu sér ekki óhugsandi að mikill fjöldi orða sem koma inn í málið og greina sig frá íslenskum erfðaorðum á einhvern hátt, t.d. í hljóðafari eða beygingum, hafi einhver áhrif á tilfinningu málnotenda fyrir reglum og einkennum íslenskunnar. En til þess þurfa orðin að vera mjög mörg og mikið notuð. Erlend mannanöfn eiga nú þegar tiltölulega greiða leið inn í málið, eins og auðséð er þegar úrskurðir mannanafnanefndar eru skoðaðir. Það skiptir vart sköpum fyrir framtíð tung­unnar hvort haldið er í þær hömlur sem eru á upptöku nýrra erlendra (og innlendra) nafna. Mannanöfn eru svo sérstakur og afmarkaður hluti tungumálsins að ekki er líklegt að þau hafi veruleg áhrif á aðra þætti þess, enda eru nýleg nöfn sem reyna á ákvæði mannanafnalaga flest eða öll mjög sjaldgæf.

Þá er að hafa í huga að erlend nöfn hafa streymt inn í málið frá fyrstu tíð, og mörg þeirra hafa að geyma hljóðasambönd sem ekki finnast í erfðaorðum. Þar má nefna nöfn eins og Andrea, Lea, Magnea, Leó, Theódóra, William, Sebastian, Patricia, Sophus, Zophonías, Arthúr, Zoe, Nikolai, Laila, og ótalmörg fleiri. Öll þessi nöfn er hægt að gefa íslenskum ríkisborgurum óhindrað því að þau eru á mannanafnaskrá – sum hafa verið notuð lengi en önnur hafa verið heimiluð á starfstíma mannanafnanefndar. Ekki verður þess samt vart að þetta hafi haft neikvæð áhrif á tungumálið.

Auðvitað má hugsa sér nöfn sem innihalda meira framandi hljóðasambönd en þau sem hér hafa verið nefnd, s.s. Szczepan úr pólsku, Nguyen úr víetnömsku o.s.frv. En hljóðskipunarreglur tungumála breytast ekki svo glatt, og líkurnar á að slík nöfn hefðu einhver áhrif á íslenskt hljóðkerfi og hljóðskipunarreglur eru nákvæmlega engar. Og vegna þess að hljóðasambönd í þessum orðum eru nánast óframberanleg fyrir Íslendinga er ekki ólíklegt að nöfnin tækju fljótlega breytingum í átt að íslenskum hljóðskipunarreglum.

Því hefur einnig verið haldið fram að óheft innstreymi erlendra nafna gæti veikt beygingarkerfið. Eitt þeirra skilyrða sem nöfn þurfa að uppfylla samkvæmt gildandi lögum lýtur að þessu – nöfn þurfa að geta tekið eignarfallsendingu. Þó er fjöldi íslenskra erfðaorða eins í öllum föllum eintölu og hefur þar með enga sérstaka eignarfallsendingu. Þetta eru t.d. veik hvorugkynsorð (hjarta, nýra o.s.frv.), mörg kvenkynsorð sem enda á -i (gleði, keppni, lygi, reiði o.m.fl.), karlkyns- og hvorugkynsorð sem enda á löngu s (foss, koss, sess, hross, pláss o.fl.) eða samhljóði + s (háls, þurs, glans, gips o.fl.) – og sitthvað fleira mætti nefna. Þessi orð eru margfalt fleiri og algengari en þau mannanöfn sem ekki taka eignarfallsendingu – jafnvel þótt meðtalin væru öll nöfn sem hafnað hefur verið á þeirri forsendu. Samt hvarflar ekki að neinum að þessi orð stuðli að niðurbroti beygingarkerfisins eða hafi einhver óæskileg áhrif á málið.

En reyndar geta langflest nöfn tekið eignarfallsendingu og því er beygingarleysi sjaldan forsenda synjunar nafns. Það eru helst kvenmannsnöfn sem enda á -e sem erfitt getur verið að setja eignarfallsendingu á og nokkrum slíkum nöfnum hefur verið hafnað, s.s. Maxine, Aveline og Jette, þótt nöfnin Charlotte, Christine, Elsie, Irene, Kristine, Louise, Marie og Salome/Salóme hafi komist á mannanafnaskrá vegna hefðar. Af þessum nöfnum er aðeins það síðastnefnda notað eitthvað að ráði og hefur tæplega spillt beygingarkerfinu. Þótt örfáum öðrum nöfnum hafi verið hafnað á þeirri forsendu að þau taki ekki eignarfallsendingu tel ég það hæpna túlkun.

Annar hópur nafna sem ekki taka eignarfallsendingu eru karlmannsnöfn sem enda á samhljóði + sGils, Hans, Jens o.fl. Aldrei er þó amast við slíkum nöfnum, væntanlega vegna þess að það er engin sérviska þeirra að taka ekki eignarfallsendingu heldur er það einfaldlega útilokað af hljóðafarslegum ástæðum – samhljóð getur ekki verið langt á eftir öðru samhljóði og þess vegna er ekki hægt að bæta eignarfalls-s við þessi nöfn. (Reyndar væri hægt að nota eignarfallsendinguna -ar í staðinn, en það er ekki gert.) En þegar að er gáð gegnir í raun og veru alveg sama máli um kvenmannsnöfnin sem enda á -e – það eru hljóðafarslegar ástæður fyrir því að þau geta ekki tekið eignarfallsendinguna -ar (sem er sú eina sem kemur til greina). Tvö grönn sérhljóð eins og e og a geta ekki með góðu móti staðið saman í íslensku. Það er því í raun fráleitt að hafna áðurnefndum kvenmannsnöfnum á þessari forsendu.

Meira að segja Jón, algengasta karlmannsnafn á Íslandi fyrr og síðar, fellur ekki fullkomlega að málkerfinu – til þess þyrfti það að vera Jónn, eins og prjónn, sónn og tónn – sem reyndar eru allt gömul tökuorð sem hafa aðlagast kerfinu. Þegar Jón hafði verið í málinu í margar aldir kom tökuorðið telefón inn í málið seint á 19. öld, en það tók ekki langan tíma að lagað það að málinu þannig að það varð (tele)fónn í nefnifalli. Þrátt fyrir tíðni og útbreiðslu nafnsins Jón hafði endingarleysi þess í nefnifalli sem sé ekki áhrif á þetta nýja tökuorð.

En gefum okkur nú þrátt fyrir það að nöfn sem falla ekki að íslensku hljóð- og beygingarkerfi gætu „smitað út frá sér“ ef svo má segja – komið af stað eða hraðað breytingum á íslensku málkerfi. Þá hlýtur það að eiga við um öll nöfn sem eru notuð í málsamfélaginu, nöfn sem við heyrum og notum í daglegu lífi – ekki bara nöfn íslenskra ríkisborgara, sem eru þeir einu sem falla undir íslensk mannanafnalög. Hér búa nú og starfa tugir þúsunda útlendinga – fólk sem við tölum um og tölum við, og notum því í daglegu tali fjölda nafna sem ekki yrðu samþykkt. Ef íslensku málkerfi stafar hætta af erlendum nöfnum hlýtur sú hætta aðallega að stafa frá nöfnum þessa fólks en ekki þeim tiltölulega fáu nöfnum sem íslenskir ríkisborgarar sækja um að bera.

Einnig má benda á að mannanöfn eru ekki stór hluti af orðaforða málsins. Á mannanafnaskrá eru rúmlega 4100 nöfn, mörg þeirra mjög sjaldgæf og í mörgum tilvikum er örugglega bara einn nafnberi. Nú má auðvitað nota ýmsa mælikvarða á stærð íslensks orðaforða en í ritmálssafni Árnastofnunar eru t.d. dæmi um u.þ.b. 700 þúsund orð. Mörg þeirra eru líka sjaldgæf og jafnvel aðeins eitt dæmi um þau, þannig að það er ekki fráleitt að bera þetta saman. Samkvæmt því væru nöfn langt innan við 1% af heildarorðaforðanum.Vissulega má reikna þetta á annan hátt en sama hvernig það er gert verða nöfnin alltaf bara brot af orðaforðanum. Og um önnur orð – allt að 99% orðaforðans – gilda engin lög.

Enda eru erlend orð af ýmsu tagi sífellt að koma inn í málið, án þess að við höfum nokkra stjórn á því. Mörg þeirra falla ekki fullkomlega að íslensku málkerfi – eru óbeygð, brjóta hljóðskipunarreglur, eða hvort tveggja. Sum þessara orða eru lítið notuð eða um stuttan tíma, önnur haldast í málinu og laga sig þá iðulega að þeim orðum sem fyrir eru – breyta um framburð, fara að beygjast, o.s.frv. Önnur haldast í málinu án þess að laga sig að því – en án þess að „smita út frá sér“, þ.e. án þess að valda nokkrum breytingum á íslenskum orðum. Mér er ómögulegt að sjá tilganginn í því að koma lögum yfir lítið brot orðaforðans en líta fram hjá hugsanlegum áhrifum allra hinna orðanna.

Í þessu sambandi má nefna að það er alsiða að nefna börn í höfuð skyldmenna, ekki síst afa og ömmu. Þetta þykir bera vott um ræktarsemi við ætt og uppruna og er mörgum mikið tilfinningamál. En stundum er foreldrum beinlínis bannað að nefna börn sín í höfuðið á afa og ömmu þótt vilji standi til þess. Fólk sem fær íslenskan ríkisborgararétt er vissulega ekki lengur þvingað til að breyta nafni sínu, en því er meinað að fá nafna eða nöfnur þegar barnabörnin koma, ef nöfnin sem um er að ræða eru ekki á mannanafnaskrá og fullnægja ekki skilyrðum til að komast á hana. Þetta getur valdið miklum sárindum og hugarangri þeirra sem í hlut eiga, enda augljós mismunun sem stenst ekki nútímahugmyndir um jafnræði.

Annar þáttur í mannanafnalögum sem varðar íslenska málstefnu eru ættarnöfnin. Oft er bent á að Íslendingar hafi einir germanskra þjóða varðveitt þann sið að kenna sig til föður eða móður, og mikilvægt sé að halda þeim sið áfram. Iðulega er látið að því liggja að bann við upptöku ættarnafna sé liður í vernd íslenskrar tungu. Engin leið er þó að halda því fram. Þessi siður er hluti af íslenskri menningu, en ekki sérstaklega af íslenskri tungu auðvitað sé stutt þar á milli í þessu. Ættarnöfn eru í eðli sínu hvorki íslenskulegri né óíslenskulegri en föður- og móður­nöfn. Fjöldi ættarnafna er af alíslenskum rótum og óþarft að taka dæmi um það, og ef upptaka ættarnafna yrði gefin frjáls má búast við að slíkum nöfnum myndi fjölga. Mörg ættar­nöfn eiga sér vissulega erlendan uppruna en sama má segja um eiginnöfn. Erfitt er að sjá að notkun ættarnafna valdi einhverjum sérstökum málspjöllum.

Ég er ekki sannfærður um að fólk myndi í stórhópum leggja niður föður- og móðurnöfn og taka upp ættarnöfn í staðinn, þótt slíkt yrði leyft. Stundum er vísað til þess að föðurnöfn hafi horfið í Danmörku og Noregi á stuttum tíma, en slíkar vísanir til ólíkra samfélaga á öðrum tímum hafa takmarkað gildi. Nútímaviðhorf í jafnréttismálum eru t.d. líkleg til að valda því að konur séu ófúsari en áður að taka upp ættarnafn eiginmannsins. Hér má enn fremur benda á að vegna þess að Íslendingar hafa einir haldið þeim sið að kenna sig til föður (eða móður) er það ákveðið þjóðareinkenni sem vel má hugsa sér að margir vilji halda í þess vegna, en um slíkt var ekki að ræða í Danmörku og Noregi. Einnig má vísa til þess að í Færeyjum mun hafa færst í vöxt á seinustu árum að kenna sig til föður.

Ég tek heils hugar undir það að kenning til föður eða móður er menningarhefð sem æskilegt er að viðhalda. En hefðir eru lítils virði nema samfélagið þar sem þær gilda hafi áhuga á að halda í þær. Hefð sem þarf að viðhalda með lögum er ekki hefð – heldur nauðung. Hér vegur þó þyngst að núgildandi lög standast ekki með nokkru móti jafnræðiskröfur samtímans – og eru raunar að því er best verður séð brot á 65. grein stjórnarskrárinnar þar sem þar sem segir m.a. að allir „skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannrétt­inda án tillits til […] ætternis […]“. Það stenst því ekki að sumum sé leyft það sem öðrum leyfist ekki. Á þetta hefur oft verið bent, t.d. í athugasemdum nefndar sem samdi frumvarp að gildandi mannanafnalögum, og í athugasemdum Íslenskrar málnefndar við það frumvarp.

Niðurstaða mín er þessi: Engin ástæða er til að ætla að íslenskri tungu stafi hætta af þeim breytingum sem felast í fyrirliggjandi frumvarpi. Erlend mannanöfn eiga nú þegar greiða leið inn í málið og ekki hefur verið sýnt fram á að þau hafi valdið málspjöllum. Kenning til föður og móður er vissulega hluti íslensks menningararfs en ættarnöfn eru samt ekkert síður hluti íslenskrar tungu en föður- og móðurnöfn. Ekkert liggur fyrir um það að kenning til föður og móður hverfi á stuttum tíma þótt ættarnöfn verði almennt leyfð. Fyrirliggjandi frumvarp er veruleg réttarbót og afnemur þá mismunun sem felst í gildandi lögum og er í raun mannréttindabrot. Stífar reglur sem vísa í íslenska málstefnu en samræmast ekki jafnréttishugmyndum og stríða gegn réttlætiskennd fólks geta orðið til þess að ala á neikvæðum viðhorfum fólks til íslenskunnar. Því þarf hún síst af öllu á að halda um þessar mundir.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að líða kynþokkafullum

Í ársbyrjun hnaut ég um fyrirsögnina „Held mér hafi aldrei liðið jafn kynþokkafullri“ á vef RÚV. Mér fannst þetta athyglisvert því að þarna er notað lýsingarorð í þágufalli (kynþokkafullri) í stöðu þar sem venjulegt er að hafa atviksorð, t.d. vel eða illa. Fyrir nokkrum dögum rakst ég svo á fyrirsögnina „Mér hefur aldrei liðið svona hjálparvana“ í Fréttablaðinu. Þetta virðist vera sams konar setning, þótt fall lýsingarorðsins sjáist reyndar ekki hér. Þetta vakti forvitni mína og ég fór að skoða málið nánar og leita að fleiri sambærilegum setningum.

Við nokkra leit, einkum í Risamálheildinni, fann ég rúm 40 dæmi af þessu tagi. Þetta eru setningar eins og Mér leið öruggri hjá honum,  Mér hefur sjaldan liðið jafn gamalli, Þess vegna líður okkur oft þrútnum og þungum, Mér líður flottri og kvenlegri, Þjálfaraliðið vildi fá mig inn í landsliðið því mér líður enskum, Hnetusmjör lætur mér líða svalri, Mér líður ungum á ný, Hann lætur mér líða heilbrigðri og sterkri, Hann lætur mér líða óöruggum, Allir hafa látið okkur líða velkomnum o.s.frv.

Allar þessar setningar innihalda sögnina líða ásamt lýsingarorði í þágufalli. Í þeirri merkingu sem hér um ræðir tekur líða þágufallsfrumlag og það liggur beint við að álykta að einhver tengsl séu milli þess og þágufallsins á lýsingarorðinu. Það þarf því að spyrja hvernig lýsingarorð geti komið þarna í stað atviksorðs, og hvernig þágufallið geti borist þarna á milli. Ég ímynda mér að afleiðslan hljóti að vera einhvern veginn svona:

  1. [ ___ líður [ég öruggur]]      (grunngerð) >
  2. [ ___ líður [mér öruggum]]  (fallstjórn) >
  3. [mér líður [ ___ öruggum]]  (færsla andlags í frumlagssæti)

Sögnin líða er þá frumlagslaus í grunngerð en tekur með sér smásetninguna (e. small clause) [ég öruggur]. Sögnin setur síðan smásetninguna í heild í þágufall, [mér öruggum]. Að lokum er persónufornafnið mér fært inn í tómt frumlagssætið en lýsingarorðið öruggum skilið eftir, og útkoman verður Mér líður öruggum. Afleiðslan er þá hliðstæð við þolmyndarsetningar eins og Honum var bjargað ómeiddum:

  1. [ ___ var bjargað [hann ómeiddur] >
  2. [ ___ var bjargað [honum ómeiddum] >
  3. [honum var bjargað [ ___ ómeiddum]

Hér er þá um það að ræða að setningafræðilegt ferli sem til er í málinu er víkkað út og látið taka til formgerðar sem það hefur ekki áður verkað á. Ég fæ ekki betur séð en þetta sé mjög nýleg breyting. Elsta dæmið sem ég hef fundið er frá 2007, en langflest dæmin eru frá síðustu 3-4 árum. Það er ekki ólíklegt að um sé að ræða áhrif frá ensku þar sem setningar eins og I feel safe/ insecure/ sexy/ young/ welcome o.s.frv. eru mjög algengar. Talsverður hluti dæmanna er líka úr textum með óformlegu málsniði þar sem enskra áhrifa er e.t.v. fremur að vænta.

Í ensku beygjast lýsingarorð ekki og þess vegna hefði e.t.v. mátt búast við því að lýsingarorðið kæmi fram í ómarkaðri (hlutlausri) mynd í þessari setningagerð – nefnifalli eintölu, annaðhvort karlkyni eða hvorugkyni. En þótt ég hafi vissulega fundið dæmi um að lýsingarorðið standi í nefnifalli (Hann vildi láta þeim líða velkomnirFalleg sundföt sem létu stúlkum líða sjálfsöruggar, og fáein önnur) er þágufallið yfirgnæfandi sem sýnir enn og aftur styrk beygingakerfisins. Það er engin ástæða til að hafa neitt á móti þessari nýjung.

Posted on Færðu inn athugasemd

Yfir eða undir 20 gráður

Þessi frétt birtist á mbl.is klukkan sjö að morgni og fyrirsögnin var þá „Frostið gæti farið yfir 20 gráður“. Þetta þótti sumum eitthvað athugavert og blaðamenn mbl.is hafa væntanlega fengið einhverjar athugasemdir og breytt þessu í „Frostið gæti farið undir 20 gráður“ á níunda tímanum. Sjálfsagt hafa einhverjar athugasemdir verið gerðar við hana líka og fyrir klukkan tíu var þriðja fyrirsögnin komin, „Spáð 20 stiga frosti eða meira“. Þá var væntanlega búið að gera öllum til hæfis og fyrirsögninni hefur ekki verið breytt síðan.

Aðalatriðið finnst mér vera: Er þetta líklegt til að valda misskilningi? Er ekki öllum ljóst um hvað er að ræða? Það er í góðu lagi að tala um bæði yfir og niður fyrir – fer eftir því við hvað er miðað. 22 er hærri tala en 20 og því er eðlilegt að segja yfir, en ef þetta er hugsað út frá mælinum er –22 neðar en –20 og því er eðlilegt að segja niður fyrir. Hver misskilur fyrirsögnina „Frostið gæti farið yfir 20 gráður“? Mér finnst vissulega svolítið skrítið að segja „Frostið gæti farið undir 20 gráður“ en ef maður hefur það fyrir reglu að leggja hlutina út á betri veg og ætla fólki ekki að vera að segja einhverja vitleysu skilst þetta eins og til var ætlast, enda væri væntanlega ekki fréttnæmt ef frostið yrði minna en 20 gráður.

Posted on Færðu inn athugasemd

Til Selfossar

Ég hef iðulega séð gerðar athugasemdir við að talað sé um að fara til Selfossar eins og stundum heyrist. Það er engin furða – orðið foss hefur fram undir þetta verið endingarlaust í eignarfalli, (til) foss, og sama gildir um samsetningar af því, þar á meðal (til) Selfoss. Okkur finnst eðlilegt og sjálfsagt að orð beygist á þann hátt sem við höfum vanist, og kippumst því við þegar við heyrum brugðið út af hefðbundinni beygingu. Það er vissulega æskilegt að viðhalda málhefð um beygingu orða en þó er rétt að hafa í huga að þessi breyting er fjarri því að vera einsdæmi.

Beyging fjölmargra orða hefur breyst frá fornu máli til nútímans, án þess að það hafi raskað málkerfinu eða valdið alvarlegu rofi á málhefð. Aðalatriðið er að orðin hætti ekki að beygjast, þótt þau færist milli beygingaflokka. Því er ekki til að dreifa í þessu tilviki – -ar er dæmigerð eignarfallsending sterkra karlkynsorða þótt -s sé enn algengari. En þessi breyting er reyndar áhugaverðari en margar aðrar. Orðið foss er nefnilega nokkuð sérstakt vegna þess að það er endingarlaust í eignarfalli eins og áður segir. Þetta er vissulega ekki einsdæmi en meginreglan er þó að nafnorð hafi sérstaka eignarfallsendingu.

Í karlkynsorðum eru það bara orð sem enda á löngu (tvöföldu) ss eins og foss, sess, rass o.fl., svo og orð sem enda á samhljóði + s eins og dans, háls, þurs, snafs o.fl. sem eru án endingar í eignarfalli eintölu. Þetta endingarleysi á sér langa sögu og má skýra með ævagamalli hljóðþróun. En það getur leitt til þess að sumum málnotendum finnist vanta þarna einhverja endingu – fái það á tilfinninguna að orðin séu ekki beygð, og hyllist þess vegna til þess að bæta eignarfallsendingu við þau, þótt ekki sé hefð fyrir henni.

Þetta er það sem gerist þegar fólk segir til Selfossar í stað til Selfoss – og svipuðu máli gildir um önnur staðanöfn sem enda á -s, t.d. Ölfus og Akranes. Þau bæta vissulega við sig -s í eignarfalli í rituðu máli, Ölfuss og Akraness. En í framburði er sjaldnast lengdarmunur á einföldu og tvöföldu samhljóði í áherslulausu atkvæði eins og þarna. Ölfuss er því venjulega borið fram nákvæmlega eins og Ölfus, og Akraness er venjulega borið fram nákvæmlega eins og Akranes. Þess vegna finnst málnotendum – sumum hverjum a.m.k. – vanta eignarfallsendingu á þessi orð líka, og myndirnar til Akranesar og til Ölfusar heyrast oft.

Það er vissulega hægt að hafna þessari beygingu á þeirri forsendu að engin hefð sé fyrir henni. En það er líka hægt að taka henni fagnandi vegna þess að hún sýnir að málnotendur hafa sterka tilfinningu fyrir því að eignarfall eigi að fá endingu, og setja þess vegna endingu þar sem þeim finnst hana vanta. Breyting af þessu tagi sýnir því styrk beygingarkerfisins – meðan breytingar af þessu tagi koma upp er kerfinu óhætt, og það er meginatriðið. Ef eignarfall umræddra orða hefði verið Selfossar, Akranesar og Ölfusar en væri að breytast í Selfoss, Akranes(s) og Ölfus(s) væri hins vegar fremur ástæða til að hafa áhyggjur af kerfinu.

Ef ég ætti barn á máltökuskeiði sem segði til Selfossar / Akranesar /Ölfusar myndi ég leiðrétta það (sem sennilega kæmi fyrir lítið). Ef ég væri prófarkalesari og rækist á þessar myndir myndi ég breyta þeim í Selfoss / Akraness / Ölfuss í samræmi við hefð. Ef ég væri kennari myndi ég gera athugasemdir við þessar myndir í ritgerðum nemenda og reyna að skýra þær út eins og gert er hér að framan, en ég myndi aldrei gefa rangt fyrir þær á prófi – og dytti raunar aldrei í hug að prófa í þeim. En ef ég væri almennur málnotandi sem hefði vanist á að segja til Selfossar / Akranesar / Ölfusar myndi ég líklega bara halda því áfram.

Posted on Færðu inn athugasemd

Íslensk málstefna

Fyrstu 20 dagana í febrúar birti ég daglega á heimasíðu minni pistla um íslenskt mál og málrækt, hvern á bilinu 400-500 orð – útfærslu, útskýringu eða útleggingu á jafnmörgum heilræðum sem ég tók saman og öll hefjast á „Til að efla íslensku og tryggja framtíð hennar er mikilvægt að …“. Hluti af efni pistlanna hefur birst áður, aðallega á netinu en sumt á prenti, en u.þ.b. 2/3 af textanum er nýtt efni.

Ég legg áherslu á að í þessum pistlum birtast skoðanir mínar sem ég einn ber ábyrgð á – þetta eru ekki fræðigreinar. Ég lagði kapp á að málflutningur minn væri heiðarlegur, hófsamur og rökfastur, og hvergi er vísvitandi farið rangt með, en vissulega hefði ég stundum þurft að færa sterkari rök fyrir máli mínu og tilgreina fleiri og traustari heimildir ef um fræðitexta væri að ræða.

Í pistlunum er að finna fjölmarga hlekki á efni á netinu. Stundum er þar að finna heimildir fyrir beinum eða óbeinum tilvitnunum eða tilteknum fullyrðingum, en oftast eru þessir hlekkir þó ekki beinar heimildavísanir heldur benda á efni þar sem fjallað er nánar eða á annan hátt um það sem ég er að skrifa um. Ég notaði nær eingöngu heimildir sem eru aðgengilegar á netinu vegna þess að ég vildi að lesendur gætu sannreynt staðhæfingar mínar þegar í stað.

Hægt er að komast í hvern pistil fyrir sig með því að smella á viðkomandi heilræði, en einnig er hægt að skoða pistlana alla hér. Enn fremur er hægt að skoða og sækja pdf-gerð af pistlunum. Öllum er heimilt að nýta pistlana eða efni úr þeim til allra góðra verka, að því tilskildu að uppruna sé getið.

Samkvæmt þingsályktun frá því í vor um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi á að endurskoða íslenska málstefnu á þessu ári. Ef ég ætti að semja íslenska málstefnu yrði hún svona.

Posted on Færðu inn athugasemd

Áfram íslenska!

25. Íslensk málrækt felst í því að hlusta á íslensku, tala íslensku, lesa íslensku, skrifa íslensku – nota íslensku sem allra mest, á allan hátt.

Á undanförnum öldum hefur íslenskunni margoft verið spáð dauða, ýmist hægum eða bráðum. Og engin furða – það er hreint ekki sjálfgefið að 350 þúsund manna þjóð eigi sér sjálfstætt tungumál sem sé notað á öllum sviðum þjóðlífsins, og ýmislegt bendir til þess að samfélags- og tæknibreytingar síðustu 10-15 ára valdi því að íslenskan gæti átt undir högg að sækja á næstu árum og áratugum.

Þótt það sé grundvallaratriði að gera fólki kleift að nota íslensku innan tölvutækninnar, í ferðaþjónustunni og á öðrum sviðum þar sem hún á í vök að verjast kemur það fyrir lítið ef fólk hefur ekki áhuga á að nota hana í raun, heldur kýs fremur að nota ensku á ákveðnum sviðum. Iðulega slettir fólk líka ensku að þarflausu, þótt til séu íslensk orð. Þetta er einkum óheppilegt í tali og skrifum í fjölmiðlum, þar sem búast má við að einhverjir áheyrenda eða lesenda skilji ekki orðin.

Það er nauðsynlegt að efla vitund fólks um mikilvægi þess að nota íslensku þar sem þess er kostur. Við sem búum í íslensku málsamfélagi notum málið vissulega yfirleitt á hverjum degi – heyrum það talað og tölum það sjálf. Með tilkomu samfélagsmiðla eru líka fleiri en áður sem lesa og ekki síst skrifa íslensku daglega, og það er mjög jákvætt. En íslenskan er miklu fjölskrúðugri en kemur fram í hversdagslegum samtölum eða skrifum á samfélagsmiðlum þar sem orðaforði er tiltölulega takmarkaður og setningagerð einföld.

Til að viðhalda íslensku sem menningarmáli og burðarási samfélagsins þurfum við að vera dugleg að nota hana á allan hátt – kynnast margvíslegum málsniðum og beita þeim. Við þurfum að tala um hugsanir okkar og hugðarefni, við þurfum að hlusta á íslensku í útvarpi, sjónvarpi, hlaðvarpi og öðrum miðlum, við þurfum að lesa bækur og blöð um margvísleg efni á íslensku, og við þurfum að þjálfa okkur í að móta hugsun okkar í orð, í flóknari texta en við skrifum dags daglega á samfélagsmiðlum. Við megum fyrir alla muni ekki hræðast að nota málið á þann hátt sem okkur er eðlilegur, þótt það falli ekki alltaf að því sem okkur kann að hafa verið kennt.

Það er haft eftir Jóni Árnasyni þjóðsagnasafnara að það hafi verið mesta gleði hans í lífinu að rekast hvergi á Þjóðsögur sínar öðruvísi en rifnar og skítugar, því að það sýndi hve mikið þær höfðu verið lesnar. Sama gildir um íslenskuna. Hún á ekkert að vera slétt og felld, laus við hrukkur og bletti. Við eigum að gleðjast yfir því að það sjáist á henni að hún sé notuð til allra þarfa – en öfugt við þjóðsögurnar verður notkunin ekki til að slíta henni upp til agna.

Þvert á móti – það er notkunin sem heldur í henni lífinu og kemur í veg fyrir að hún verði að dauðum safngrip. Íslenskan endurnýjar sig sjálf, ef við leyfum henni að gera það og sköpum henni skilyrði til þess. Áfram íslenska!

Posted on Færðu inn athugasemd

Íslenska á öllum sviðum

24. Íslensk málrækt felst í því að krefjast þess og stuðla að því eftir mætti að unnt sé að nota íslensku á öllum sviðum, til allra þarfa.

Umræða um ensk áhrif á íslensku hófst með bresku og síðar bandarísku hernámi á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Hún hefur verið viðvarandi síðan og stundum blossað upp af krafti, t.d. á tímum Kanasjónvarpsins upp úr 1960, og snerist lengst af um hugsanleg áhrif á form málsins – einkum orðaforða og setningagerð. Þótt sú umræða sé vissulega enn í gangi hafa áhyggjur fólks á seinustu árum fremur beinst að þeim möguleika að enskan yfirtaki heil svið og íslenskan hörfi.

Það svið sem helst hefur verið nefnt í þeirri umræðu er hinn sístækkandi stafræni heimur. Árið 1997 flutti ég erindi um upplýsingatækni og lítil málsamfélög, „Informationsteknologien og små sprogsamfund“, á norrænu málnefndaþingi í Þórshöfn í Færeyjum. Þar var ég að velta fyrir mér hugsanlegum áhrifum þess á smáþjóðamál eins og íslensku ef málið yrði ekki nothæft innan tölvu- og upplýsingatækninnar og sagði í íslenskri frumgerð erindisins:

„Þarna er orðið mikilvægur þáttur í daglegu lífi venjulegs fólks, þar sem móðurmálið er ónothæft. Takið eftir að þarna er þrennt sem spilar saman, og það skapar hættuna. Um er að ræða mikilvægan þátt, en ekki eitthvert aukaatriði; þessi þáttur snertir daglegt líf, en kemur ekki bara fram einstöku sinnum, við einhverjar sérstakar aðstæður; og þetta á við venjulegt fólk, allan almenning, en ekki eingöngu sérfræðinga á einhverju þröngu sviði. Ég held að málið gæti varist samspili tveggja þessara þátta, en þegar allir þrír koma saman kann að vera hætta á ferðum. [...]

Það er alþekkt að dauðastríð tungumála hefst einmitt þegar aðstæður af þessu tagi koma upp; þegar mál er ekki lengur nothæft við allar aðstæður í hversdagslegu lífi almennings. Móðurmálið verður þá víkjandi, það er aðeins hæft til heimabrúks en ekki til neinna alvarlegra hluta. Við slíkar aðstæður hrekkur jafnvel ríkulegur bókmenntaarfur og öflugt nýyrðastarf skammt; málið á sér ekki viðreisnar von, og hlýtur að hverfa á tiltölulega stuttum tíma. Unga kynslóðin sér ekki lengur tilgang í að læra málið, heldur leggur alla áherslu á að tileinka sér erlent mál, enskuna væntanlega, sem best.“

Allt síðan þetta var hef ég verið þess fullviss að uppbygging íslenskrar máltækni væri ein helsta forsendan fyrir því að íslenskan gæti lifað til langframa. Nú er loks hafið stórátak á því sviði með framkvæmd máltækniáætlunar, en í millitíðinni hafa ýmsar aðrar ógnanir komið til. Fyrir hrun var enska vinnumál hjá ýmsum íslenskum útrásarfyrirtækjum. Með sprengingu í komu erlendra ferðamanna hefur enskunotkun í ferðaþjónustu aukist gífurlega og hvers kyns auglýsingum og merkingum á ensku fjölgað, auk þess sem fyrirtækjanöfn á ensku blómstra sem aldrei fyrr. Háskólakennsla á ensku fer einnig smátt og smátt vaxandi.

Það er forgangsmál að vinna að því meginmarkmiði íslenskrar málstefnu að íslenska verði áfram nothæf – og notuð – á öllum sviðum samfélagsins, eins og kemur fram í þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi sem samþykkt var vorið 2019. Við berum öll ábyrgð á því að framfylgja þessari stefnu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Veitum ungu fólki hlutdeild í málinu

23. Íslensk málrækt felst í því að veita ungu kynslóðinni hlutdeild í málinu – láta hana finna að hún hafi eitthvað um íslenskuna að segja.

Í meira en þúsund ár var íslenskt þjóðfélag tiltölulega stöðugt. Þetta var bændasamfélag þar sem kynslóðirnar bjuggu undir sama þaki og fengust í sameiningu við þau verk sem þurfti að sinna. Það var fátt um nýjungar í atvinnuháttum og hugmyndum og ef um eitthvað slíkt var að ræða náði það til allra aldurshópa. Reynsluheimur flestra var svipaður öldum saman og það þýddi vitanlega að sáralítill munur var á tungutaki og orðaforða ungs fólks og gamals – það komu engin ný umræðuefni til.

Nú hefur þetta gerbreyst eins og alkunna er og ekki þarf að útlista. Reynsluheimur ungs fólks er að verulegu leyti annar en þeirra sem eldri eru, og þá um leið málfar og orðaforði. Það leiðir til þess að fullorðna fólkið – sem ávallt er hinn sjálfskipaði dómari og ákveður viðmiðið – telur að málinu sé alltaf að hraka, orðaforði skreppi saman og beygingar brenglist. Það hneykslast á því að unglingarnir kunni ekki ýmis orð og orðtök sem tengjast úreltum atvinnuháttum í land­bún­aði og sjávarútvegi en áttar sig ekki á – eða telur lítilsvert – að unglingarnir kunna í staðinn ótal orð og orðasambönd sem tengjast þeirra reynsluheimi.

Við erum alltaf að segja unglingunum að nota íslensku, að þau beri ábyrgð á að vernda hana og varðveita – en við gefum þeim enga hlutdeild í henni. Þau eiga að nota íslenskuna eins og við viljum hafa hana, ekki eins og þeim er eiginlegt. Þau eiga að tileinka sér reglur sem samrýmast ekki málkennd þeirra. Þau eiga að tala eins og við en ekki eins og þau sjálf. En við þurfum að átta okkur á því og viðurkenna að við eigum íslenskuna öll saman – unga fólkið líka. Þess vegna má ungt fólk nota íslenskuna á sinn hátt.

Það kemur ekki í veg fyrir að við brýnum það fyrir því að fara vel með hana. En ef við látum alltaf eins og unga fólkið sé að skemma íslenskuna fyrir okkur hinum er ekki von til þess að það fái jákvætt viðhorf til hennar og rækti með sér áhuga á að skila henni áfram til sinna barna. Forsenda þess að íslenskan lifi áfram er auðvitað sú að nýjar og nýjar kynslóðir vilji nota hana. En þá þarf hún að þjóna þörfum þeirra – gera þeim kleift að tala um viðfangsefni sín og hugðar­efni á þann hátt sem þeim er eiginlegt, með þeim orðum og því málfari sem þær kjósa.

Það gerir hún ekki ef við leggjum áherslu á þekkingu á orðum og orðasamböndum frá fyrri tíð og reglur sem eru í ósamræmi við málkennd fólks, t.d. um beygingar og fallstjórn. Þess í stað þarf að þjálfa nemendur á öllum skólastigum í að leika sér með málið, átta sig á fjölbreytileik þess, og reyna á sköpunarmátt þess. Ég efast ekki um að margir kennarar geri einmitt þetta. En hendur þeirra eru ansi bundnar meðan enn er verið að prófa í „réttu“ máli og „röngu“. Hættum því – og ræktum málið þess í stað með því að leyfa því að leika lausum hala. Það margborgar sig.

Posted on Færðu inn athugasemd

Íslenskan og börnin

22. Íslensk málrækt felst í því að tala sem mest við börn á máltökuskeiði, lesa fyrir þau og með þeim, og vera þeim góð málfyrirmynd.

Fyrstu árin í lífi okkar eru máltökuskeið. Þá erum við að soga í okkur málið í umhverfi okkar, greina það – ósjálfrátt og ómeðvitað – finna kerfi og reglur í því, beita þessum reglum, og athuga – líka ósjálfrátt og ómeðvitað – viðbrögð umhverfisins við því sem við segjum. Iðulega reynast reglurnar sem við þóttumst finna ónákvæmar – of þröngar, of víðar eða gallaðar á annan hátt – en við endurskoðum þær þá út frá viðbrögðum umhverfisins.

En til að við náum góðu valdi á þessu mikilvæga og stórkostlega tæki, tungumálinu, þurfum við að heyra það sem mest í umhverfinu (eða sjá, ef um táknmál er að ræða). Mikilvægasta máláreitið fá börn í samtölum. Það er grundvallaratriði að tala við barnið, gefa því færi á að svara, bregðast við svarinu, og skapa þannig gagnvirkni. Á máltökuskeiðinu þurfa börnin að hafa góðar málfyrirmyndir – foreldra, leikskólakennara og aðra í umhverfinu – sem sinna þeim, sýna þeim áhuga, og efla málþroska þeirra.

Um sex ára aldur erum við flest komin með vald á meginþáttum málkerfisins en það táknar þó ekki að máltökunni sé lokið. Við eigum enn eftir að ná valdi á ýmsum flóknum atriðum og undantekningum, og við höldum vitanlega áfram að auka orðaforða okkar og tileinka okkur ýmis fíngerð blæbrigði í málnotkun langt fram eftir aldri – jafnvel ævina á enda. Lestur fyrir börn og með þeim er mjög mikilvægur til að auka orðaforða barnanna og styrkja málkerfi þeirra.

Þegar börn verða eldri og eru farin að lesa sjálf er mikilvægt að halda að þeim fjölbreyttu lesefni til að þau læri annars konar orðaforða en fæst með venjulegum yndislestri, og nái valdi á fjölskrúðugri og flóknari setningagerðum en notaðar eru í samtölum og afþreyingarefni. Þetta þarf að kenna sérstaklega, með því að láta börn og unglinga lesa viðeigandi texta. Það þarf líka að stórauka framboð á fjölbreyttu fræðslu- og afþreyingarefni á íslensku.

Nauðsynlegt er að huga sérstaklega að börnum sem hafa annað heimilismál en íslensku. Til að eiga mögu­leika á að öðlast móðurmálsfærni í ís­lensku þurfa tví­tyngd börn að verja 50% af vöku­tíma sínum í íslensku mál­um­hverfi. Íslenski skóladagurinn nær ekki þessu hlutfalli og tíminn sem börnin hafa með foreldrum sínum þegar þau koma heim er varla nógu langur til að byggja upp móðurmálsfærni í heimilismálinu heldur, auk þess sem trúlegt er að þau eyði talsverðum hluta hans í enskum málheimi – sjónvarpi, tölvuleikjum o.s.frv. Það er hugsanlegt að við séum að ala upp börn sem ekki ná móðurmálsfærni í neinu máli. Það er mjög alvarlegt.

Grundvöllur að framtíð íslenskunnar er lagður á máltökuskeiði. Það er ekkert jafnmikilvægt og samtal við fullorðið fólk til að byggja upp auðugt málkerfi og styrka málkennd barna. Þess vegna er stytting vinnutímans eitt af því mikilvægasta sem við getum gert til að styrkja íslenskuna – að því tilskildu að foreldrar verji auknum frítíma ekki í eigin snjalltækjum heldur til samveru og samtals með börnum sínum. Þannig stuðlum við að því að börnin okkar geti áfram notað íslensku á öllum sviðum – og vilji gera það.

Posted on Færðu inn athugasemd

Mismunun eftir íslenskukunnáttu

21. Íslensk málrækt felst í því að láta aldrei skort á íslenskukunnáttu bitna á fólki eða nota hann til að mismuna því á ómálefnalegan hátt.

Vorið 2020 kynnti mennta- og menningarmálaráðherra drög að frumvarpi um að bæta í stjórnarskrá ákvæðinu „Íslenska er ríkismál Íslands og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda“, og samsvarandi ákvæði um íslenskt táknmál. Þótt engin ástæða sé til að amast við þessu er rétt að minna á að í tillögum Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er svohljóðandi ákvæði: „Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna […] tungumáls […].“ Í skýringum við þetta segir: „Þessu ákvæði er ætlað að útiloka mismunun gagnvart fólki sem talar annað mál en íslensku eða aðra mállýsku en þá sem ráðandi er í samfélaginu hverju sinni.“

Á seinustu árum hafa iðulega birst fréttir um að erlent afgreiðslufólk á hótelum, veitingastöðum og í verslunum verði fyrir aðkasti vegna skorts á íslenskukunnáttu. Það er vitanlega óviðunandi – barátta fyrir íslenskunni má aldrei snúast upp í þjóðrembu og hana má aldrei nota til þess að útiloka fólk á ómálefnalegan hátt eða gera með einhverju móti lítið úr því. Vissulega getur í sumum tilvikum verið málefnalegt að gera kröfur um íslenskukunnáttu „til að tryggja skilvirk samskipti við viðskiptavini, þar á meðal í störfum í þjónustugeiranum“, en þetta er viðkvæmt og vandmeðfarið mál.

hætta er fyrir hendi að íslenskan verði notuð, meðvitað eða ómeðvitað, til að búa til lagskipt þjóðfélag þar sem annars vegar erum „við“, fólk sem ræður öllu í þjóðfélaginu, m.a. í krafti málfarslegra yfirburða, og situr að bestu bitunum hvað varðar menntun, tekjur o.s.frv. – og svo „hin“, fólk af erlendum uppruna, jafnvel önnur og þriðja kynslóð innflytjenda, sem hefur ekki gott vald á íslensku og kemst þess vegna hvergi áfram en situr eftir ómenntað í láglaunastörfum, áhrifalaust um umhverfi sitt og framtíð. Hugsanlega kæra sumir atvinnurekendur sig ekkert um að erlent starfsfólk þeirra læri íslensku því að þá gæti það farið að gera meiri kröfur og átta sig betur á réttindum sínum.

Ef fólk úr þessum hópi ætlar sér að taka virkan þátt í þjóðfélaginu, t.d. í stjórnmálum, fær það iðulega á sig  óvægna gagnrýni vegna ófullkominnar íslenskukunnáttu. Fyrir utan þann skaða sem þetta veldur fólkinu sem í því lendir er þetta stórhættulegt fyrir lýðræðið og býr til jarðveg fyrir lýðskrum og öfgastefnur. Innflytjendur eru nú orðnir rúm 15% landsmanna og það hefur vitaskuld áhrif á stöðu íslenskunnar sem til skamms tíma var einráð á öllum sviðum þjóðfélagsins. Þessi breytta staða skapar spennu milli íslensku og ensku – og hugsanlega einnig milli Íslendinga og innflytjenda.

Við þurfum að finna leið sem tekur tillit til útlendinga og gerir þeim kleift að bjarga sér í samfélaginu, án þess að íslenskan verði ævinlega víkjandi. Það er ekki einfalt mál að halda íslenskunni á lofti, halda því til streitu að hún sé nothæf og notuð á öllum sviðum, en jafnframt gæta þess að íslenskukunnátta og -færni sé aldrei notuð til að mismuna fólki. Það er brýnt að stjórnvöld móti stefnu í þessum málum. Fólki sem ekki hefur íslensku að móðurmáli mun fara fjölgandi hér á landi á næstu árum og það er mikilvægt að það vilji læra íslensku – og eigi þess kost.