Með Vínland á heilanum

Jón Karl Helgason, 04/06/2020

From Iceland to the Americas. Vinland and historical imagination er titill á nýju greinasafni sem við Tim William Machan, prófessor við Notre Dame háskólann í Bandaríkjunum ritstýrum saman. Útgefandi er University of Manchester Press en bókin kemur þar út í ritröðinni  Manchester Medieval Literature and Culture.  Greinasafnið er ávöxtur af fjölþjóðlegu rannsóknarverkefni þar sem markmiðið var að kanna viðtökur íslenskra fornbókmennta í Norður-Ameríku. Meðal  greina í bókinni má nefna yfirlit Emily Lethbridge um skrif bandarískra ferðabókahöfunda um Ísland á 19. öld, greiningu Heather O'Donoghue á túlkun Neils Gaiman á norrænni goðafræði í skáldsögunni American Gods og grein Verenu Höfig um Vínland og rasíska öfgahópa í Bandaríkjunum. Tim Machan skrifar inngangskafla þar sem hann fjallar sögulega um fornnorrænt menningarminni í Norður- og Suður-Ameríku en aðrir höfundar eru auk okkar fimm eru Bergur Þorgeirsson, Kevin J. Harty, Amy C. Mulligan, Simon Halink,  Angela Sorby, Seth Lerer, Matthew Scribner og Dustin Gerhard.

Smásögur heimsins: Afríka eru komnar út

Jón Karl Helgason, 11/11/2019

Fjórða bindið af Smásögum heimsins hefur nú litið dagsins ljós. Það er helgað smásögum frá Afríku og geymir nítján sögur eftir jafnmarga höfunda. Sú elsta er frá upphafi tuttugust aldar og þær yngstu frá allra síðustu áratugum.  Meðal þekktra höfunda í þessum hópi eru Nadine Gordimer, Naguib Mahfouz og J. M. Coetzee, sem öll hafa fengið Nóbelsverðlaun, og Chimamanda Ngozi Adichie sem er ein af vonarstjörnum nígerískra bókmennta. En það er þó ekki síður gaman kynna þarna til sögu höfunda sem ekki hafa komið út á íslensku áður, svo sem Ibrahim al-Koni frá Líbíu, Edwige Renée Dro frá Fílabeinsströndinni, Assia Djebar (Fatima-Zohra Imalayen) frá Alsír. og Ousmane Sembène frá Senegal. Sem fyrr önnumst við Rúnar Helgi Vignisson og Kristín Guðrún Jónsdóttir ritstjórnina og þýðum valdar sögur en að auki komu níu aðrir þýðendur að verkinu.

Rafræn útgáfa af Hetjunni og höfundinum

Jón Karl Helgason, 26/08/2019

Fyrir liðlega 20 árum sendi ég frá mér mína fyrstu fræðibók, Hetjuna og höfundinn, en hún fjallar um viðhorf íslensku þjóðarinnar til Íslendingasagna, einkum vaxandi áhuga fólks á Njáls sögu sem listaverki mikilhæfs en óþekkts höfundar. Bókin var gefin út undir merkjum Heimskringlu, háskólaforlagi Máls og menningar og hefur verið fáanleg í bókabúðum og á bókamörkuðum allar götur síðan. Nú er hins vegar svo komið að hún er uppseld hjá útgefanda og fékk ég því leyti til að gefa hana út rafrænt og dreifa henni ókeypis. Hún er aðgengileg á síðu minni hjá academia.edu, líkt og ýmis önnur fræðileg skrif mín. Í ritdómi um verkið sagði Ármann Jakobsson meðal annars: "Stundum hefur undirritaður í ritdómum hér í DV nefnt ákveðin rit „brautryðjendaverk" og með fullum rétti. Þó sækir að manni efi um frumleika annarra fræðirita hjá þessu þvi að efnistök Jóns Karls eru fádæma nýstárleg og frumleg."

Misserisdvöl í Victoria í Kanada

Jón Karl Helgason, 22/08/2019

Á haustmisseri verð ég gestakennari  við University of Victoria á Vancouver Island í Kanada. Þar mun ég kenna eitt námskeið um viðtökur Íslendingasagna og eddukvæða en einnig flytja þrjá opinbera fyrirlestra í Victoria sem verða opnir almenningi. “Henrik Ibsen and the Icelandic Sagas” er titill á erindi sem ég flyt 22. september, “The Questionable Authorship of Snorri Sturluson” heitir erindið sem ég flyt 20. október og "Icelandic Medieval Literature and American Popular Culture 1928-1962" er svo yfirskrif fyrirlesturs sem ég flyt 1. desember. Allir fyrirlestrarnir verða í Clearihue-byggingunni, stofu A212, kl. 2 síðdegis og tilheyra fyrirlestraröð sem kennd er við Vestur-Íslendinginn Richard Beck.

Rafræn útgáfa The Rewriting of Njáls Saga

Jón Karl Helgason, 12/08/2019

Fyrir réttum 20 árum kom bók mín The Rewriting of Njáls Saga út hjá breska forlaginu Multilingual Matters. Hún byggir á samnefndri doktorsritgerð í samanburðarbókmenntum sem ég varði við The University of Massachusetts árið 1995. Þarna er fjallað um sex ólíkar þýðingar/endurritanir Njáls sögu sem út komu í Bretlandi 1861, Noregi 1871, Bandaríkjunum 1905, Danmörku 1943 og á Íslandi á árunum 1944 og 1945. Bókin er uppseld hjá útgefanda en í tilefni þessara tímamóta fór ég þess á leit við Multilingual Matters að gefa hana út í rafrænu formi. Þeirri beiðni var vel tekið og er bókin í heild sinni nú aðgengileg á vefnum academia.edu. Fáeinir dómar bárust um verkið á sínum tíma en tilvisun til þeirra og enska lýsingu á innihaldinu má finna hér.

Ráðstefna um Einlyndi og marglyndi

Jón Karl Helgason, 27/04/2019

Öld einlyndis og marglyndis er titill málþings sem fram fer í Hannesarholti 27. apríl en tilefnið er 100 ára afmæli fyrirlestra sem Sigurður Nordal flutti í Bárubúð í Reykjavík veturinn 1918-1919. Ráðstefnan er haldin í þeirri trú að hugtök Nordals einlyndi og marglyndi, og flókið samspil þeirra, geri okkur kleift að hugsa upp á nýtt um áleitnustu deilumál í heimspekilegri sálfræði og siðfræði samtímans en einnig til að skilja hræringar í bókmenntum og menningarlífi Íslands á tuttugustu öld. Í fyrirlestinum sem ég flyt á þessari ráðstefnu beini ég sjónum að síðarnefndu atriðunum, einkum því hvernig Nordal gerði í Bárubúð upp við arfleifð naturalismans í skáldskap og listum.

Great Immortality: greinasafn um þjóðardýrlinga

Jón Karl Helgason, 24/04/2019

Great Immortality: Studies on European Cultural Sainthood er titill á nýútkomnu greinasafni sem við Marijan Dović ritstýrum en útgefandi er Brill. Þar er að finna umfjöllun tuttugu höfunda um fjölbreytilegt framhaldslíf evrópskra listamanna, einkum þjóðskálda, í menningarlegu minni og pólitísku lífi innan einstakra ríkja. Bókin er óbeint framhald af bók okkar Marijans, National Poets, Cultural Saints, frá árinu 2017. Báðar bækurnar eru hluti af ritröðinni National Cultivation of Culture (12. og 18. bindi ) sem hollenski bókmenntafræðingurinn Joep Leerssen ritstýrir en hann er meðal þeirra sem eiga grein í Great Immortality. Meðal annarra höfundar er Simon Halink sem fjallar um þjóðardýrlinginn Snorra Sturluson. Formála bókarinnar skrifa Marko Juvan og Sveinn Yngvi Egilsson en þeir lögðu með okkur Marijan og Joep grunninn að þeim rannsóknum sem þessar tvær bækur eru ávöxtur af. Ég lít á þessa nýju bók sem lokaáfanga þeirrar vinnu sem ég hóf með bók minni Ferðalok árið 2003 og hélt áfram í greinasafninu Ódáinsakur árið 2014.

Víkingurinn með róðukrossinn

Jón Karl Helgason, 24/04/2019

"Víkingurinn með róðukrossinn" er titill greinar sem ég birti í 2, hefti Tímarits Máls og menningar 2019 sem er nýútkomið. Kveikja greinarinnar er bandaríska kvikmyndin The Viking (1928) í leikstjórn Roy William Neill. Um er að ræða frjálslega aðlögun á skáldsögunni, The Thrall of Leif the Lucky (1902), eftir bandarísku skáldkonuna Ottilie A. Liljencrantz sem sótt hafði innblástur í íslenskar fornsögur. Viðfangsefni sögunnar og kvikmyndarinnar er sigling Leifs heppna Eiríkssonar til Norður Ameríku. Í grein minni er rakið með hvaða hætti Leifur ferðast úr íslenskum miðaldaheimildum, eftir síðum skáldsögunnar bandarísku og þaðan yfir á hvíta tjaldið og loks aftur til baka til Íslands árið 1932, nánar tiltekið upp á Skólavörðuhæð.

Norræn goð í myndasögum, kvikmyndum og þungarokki

Jón Karl Helgason, 24/01/2019

 "Nordic Gods and Popular Culture," er titill á viðamikilli grein sem ég birti í í einu bindi bókaflokksins The Pre-Christian Religions of the North (PCRN) sem Brepols gaf út skömmu fyrir áramótin. Þarna fjalla ég um myndasögur, þungarokk og kvikmyndir þar sem trúarlíf og goðsögur forfeðra okkar eru í brennidepli. Þetta er seinna bindi af tveimur í þessum flokki sem helgaðar eru viðtökum edduarfsins og er sjónum hér beint að tímabilinu 1830 til samtímans. Ritstjóri er hin öfluga ástralska fræðikona Margaret Clunies Ross. Upphaf og lok kaflans skarast við umfjöllun mína um myndasögur í bókinni Echoes of Valhalla sem út kom árið 2017 en útgáfa PCRN hefur dregist svolítið á langinn, eins og gjarnan gerist með viðamikil verkefni af þessu tagi.

Grein um dægurmenningu og menningarminni

Jón Karl Helgason, 04/12/2018

Nýlega kom út hjá De Gruyter ritið Handbook of Pre-Modern Nordic Memory Studies í ritstjórn Jürg Glauser, Pernille Hermann og Stephen A. Mitchell. Þau hafa á liðnum árum verið í fararbroddi fræðimanna sem beitt hafa aðferðum minnisfræða í rannsóknum á norrænum fornbókmenntum.  Hafa þau meðal annars haldið úti vefsíðu um þetta efni og staðið fyrir vinnufundum, málstofum og ráðstefnum. Ég tók þátt í einum þessara viðburða, ráðstefnunni Nature, Landscape, and Place: Memory Studies in the Nordic Middle Ages sem fram fór í Uppsala á liðnu ári. Ég á líka eina grein í þessari nýju bók. Hún ber titilinn "Popular Culture", og fjallar um fornbókmenntir, dægurmenningu og minnisfræði.