Category: Uncategorized

Hin hliðin á þjóðskáldinu

Jón Karl Helgason, 08/11/2018

Jónas Hallgrímsson: Hin hliðin er titill á málþingi sem Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar efnir til um heilsufar Jónasar Hallgrímssonar og "hina hliðina" á þjóðskáldinu. Þingið fer fram laugardaginn 17. nóvember í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu klukkan 10.00.-13.00. Fyrirlesarar, auk mín, eru Dagný Kristjánsdóttir, Óttar Guðmundsson, Torfi Tulinius og Páll Valsson. Ætlunin er að taka til umfjöllunar líf, ástamál, drykkju og dauðdaga Jónasar, sem og tíðaranda 19. aldar.  Mitt erindi hnitast um líkamsleifar skáldsins og tengsl þeirra við aðrar og alþjóðlegri beinaleifar. Nálgast má dagskrá þingsins á fésbókarsíðu FÁSL.

Þriðji ársfundur ISPS í Barcelona

Jón Karl Helgason, 11/10/2018

Dagana 25.-27. október er ég meðal fyrirlesara á þriðja ársfundi International Society for Polysystem Studies (ISPS) sem fram fer að þessu sinni í Barcelona á Spáni. Fyrsti fundurinn var haldinn í Reykholti í Borgarfirði árið 2016 og annar fundurinn í Levico Terme (Trento) á Ítalíu árið 2017. Markmiðið er að stefna saman fræðimönnum frá ólíkum löndum og úr ólíkum fræðigreinum sem sótt hafa innblástur fyrir rannsóknir sínar í skrif ísraelska fræðimannsins Itamars Even-Zohar um bókmenntir og menningu sem fjölþætt kerfi (polysystem). Aðalfyrirlesari í Barcelona er Elias J. Torres Feijó sem er prófessor við Universidade de Santiago de Compostela. Ég mun á ráðstefnunni kynna ásamt Maximilliano Bampi áform okkar um að skrifa saman almennt inngangsrit um fjölkerfafræði.

Þriðja bindi Smásagna heimsins

Jón Karl Helgason, 11/10/2018

Smásögur heimsins er titill á fimm binda ritröð sem við Rúnar Helgi Vignisson og Kristín Guðrún Jónsdóttir höfum verið að ritstýra undanfarin ár. Þriðja bindið er nú nýkomið út en þar er að finna um 20 smásögur í nýjm íslenskum þýðendum eftir höfunda frá Asíu og Eyjaálfu. Við erum þegar farin að undirbúa næsta bindi, sem helgað verður Afríku. Í fyrra þegar við gáfum út smásögur Rómönsku Ameríku stóð Kristín Guðrún í brúnni en nú (líkt og þegar við gáfum út smásögur Norður Ameríku) hefur Rúnar Helgi dregið vagninn, enda búinn að heimasækja báðar heimsálfur oftar en einu sinni á undirbúningstímanum. Fjöldi frábærra þýðenda hefur lagt okkur lið, enda er lagt kapp á að sem flestar sögur séu þýddar úr frummálinu. Nú eru bara tvö bindi eftir: Afríka (sem við erum þegar byrjuð að undirbúa fyrir næsta ár) og Evrópa (sem kemur út 2020)

Ráðstefna og vefur um bankahrunið

Jón Karl Helgason, 04/10/2018

Hrunið, þið munið er titill viðamikillar ráðstefnu sem haldin verður í Háskóla Íslands dagana 5.-6. október. Ein kveikja ráðstefnunnar var vefur með sama titili sem við Guðni Th. Jóhannesson, þáverandi dósent í sagnfræði, hófum að þróa með nemendum okkar í sagnfræði og íslensku á árunum 2014 en fjölmargir fleiri aðilar innan Háskóla Íslands og víðar hafa verið að leggja þar inn efni allar götur síðan. Meðal þeirra atkvæðamestu eru Markús Þórhallsson, Einar Kári Jóhannsson, Andrés Fjelsted og Halldór Xinyu Zhang. Í framhaldi af þessu starfi höfðum við Kristín Loftsdóttir forgöngu um ráðstefnuhaldið, háskólarektor Jón Atli Benediktsson tók vel undir hugmyndina og hefur styrkt verkefnið með margvíslegum hætti en Berglind Rós Magnúsdóttir, Magnús Diðrik Baldursson, Ragnar Sigurðsson. Rúnar Vilhjálmsson og Jón Bragi Pálsson hafa unnið með okkur að undirbúningi. Á ráðstefnunni taka um 100 fræðimenn og -konur til máls í um 20 málstofum.

Íslensk menningaráhrif í Vesturheimi

Jón Karl Helgason, 24/09/2018

From Iceland to the Americas er titill þriggja daga ráðstefnu í University of Notre Dame í Indiana í Bandarikjunum sem ég sæki 24.-26. september. Tilgangur ráðstefnunnar er að kortleggja þau fjölbreyttu menningarlegu áhrif sem íslenskar fornbókmenntir hafa haft vestanhafs. Meðal fyrirlesara eru Matthew Scribner (University of Manitoba), Verena Höfig (University of Illinois), Amy Mulligan (University of Notre Dame), Adolf Friðriksson (Fornleifastofun Íslands), Simon Halink (Háskóla Íslands), Bergur Þorgeirsson (Snorrastofa), Angela Sorby (Marquette University), Kevin J. Harty (La Salle University), Seth Lerer (University of California – San Diego), Heather O’Donoghue (University of Oxford), og Dustin Geeraert (University of Manitoba). Gestgjafi hópsins er T. W. Machan (University of Notre Dame), en við erum báðir ábyrgir fyrir því að kalla saman þennan hóp til að ræða um efnið. Afrakstur ráðstefnunnar verður samnefnd bók sem University of Manchester Press mun væntanlega gefa út á næsta eða þarnæsta ári.

Manga-hátíð í Reykjavík

Jón Karl Helgason, 14/08/2018

Hátíð þar sem japanskar myndasögur og tengsl þeirra við íslenskar fornbókmenntir eru könnuð verður haldin í Reykjavík dagana 16.-18. ágúst. Hátíðin hefst með málþingi um manga og miðaldabókmenntir í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur fimmtudaginn 16. ágúst kl. 13-16. Þar flytja erindi fjórir gestir frá Japan og tveir Íslendingar. Dagskráin heldur síðan áfram í Norræna húsinu kl. 20-22 en þar munu myndasagnahöfundarnir Henning Kure frá Danmörku og Makoto Yukimura frá Japan segja frá verkum sínum: Goðheimum og Vínlands sögu. Hátíðinni lýkur síðan með manga-maraþoni í Borgarbóksafninu við Tryggvagötu frá kl. 13-18 laugardaginn 18. ágúst en það er hluti af framlagi safnins til Menningarnætur í Reykjavík. Að hátíðinni standa námsgrein í japönsku við Háskóla Íslands, Norræna húsið, Borgarbókasafnið og Fyrirmynd: félag teiknara og myndhöfunda en ég hef komið að undirbúningi þessa verkefnis ásamt Bjarna Hinrikssyni, Kristínu Ingvarsdóttur, Gunnellu Þorgeirsdóttur og fleiri aðilum.

Goð og nasistar í bandarískum myndasögu

Jón Karl Helgason, 07/08/2018

Á Alþjóðlegu fornsagnaþingi sem fram fer í Reykjavík um miðjan ágústmánuð flyt ég fyrirlestur sem nefnist "Nordic Gods, Nazis and Boys Commandos". Viðfangsefnið eru þrjár ólíkar myndasögur um þrumuguðinn Þór sem út komu í Bandaríkjunum á stríðsárunum en allar eiga þær sameiginlegt að fjalla um stríðsátökin í Evrópu og aðkomu Bandaríkjamanna að þeim. Um er að ræða sögur sem tengjast með einum eða öðrum hætti hinum þekktu myndasagnahöfundum Jack Kirby og Joe Simon.

Ragnar loðbrók, Eiríkur rauði og Leifur heppni

Jón Karl Helgason, 07/07/2018

"Re-membering Ragnar, Erik & Leif: Notes on audio-visual adaptations of the Eddas and Sagas" er titill á sérstökum fyrirlestri sem ég flyt á ráðstefnu IASS-samtakanna í Kaupmannahöfn 8. ágúst næstkomandi. Þar ræði ég um viðtökur norrænna fornbókmenna í "fjöldamenningu" með hliðsjón af minnisfræðum. Á liðnum árum hafa kenningar Assmann-hjónanna um menningarlegt minni verðið þróaðar til að fjalla um listgreinar á borð við kvikmyndir og teiknimyndasögur. Spurningin er hvort þær eigi við þegar um er að ræða menningarafurðir sem hljóta dreifingu um allan heiminn.

Bókmenntir og lög

Jón Karl Helgason, 24/06/2018

Við Lára Magnúsardóttir lögðumst á árarnar með aðalritstjóra Ritsins, Rannveigu Sverrisdóttir, og ritstýrðum sérhefti um tengsl bókmennta og laga. Þetta fyrsta hefti ársins 2018 er í rafrænum aðgangi en í því er meðal annars að finna greinar eftir Láru, Gunnar Karlsson, Einar Kára Jóhannsson, Guðrúnu Baldvinsdóttur og Sólveigu Ástu Sigurðardóttur. Þá er birt íslensk þýðing á nýlegri grein eftir bandaríska lögfræðinginn og sagnfræðinginn William Miller og önnur grein er eftir tvo danska fræðimenn, bókmenntafræðinginn Karen-Margrethe Simonsen og lögfræðinginn Ditlev Tamm.

Alfræði rómantískrar þjóðernisstefnu í Evrópu

Jón Karl Helgason, 02/05/2018

Encyclopedia of Romantic Nationalism in Europe er tveggja binda stórvirki sem Amsterdam University Press hefur nýlega gefið út undir ritstjórn hollenska bókmenntafræðingins Joeps Leerssen. Um er að ræða tæplega 1500 síðna alfræðirit í stóru broti þar sem fjallað er um mikilvægi menningarlegrar þjóðarvitundar í einstökum löndum í Evrópu og áhrif hennar á þjóðernisstefnu í álfunni. Liðlega 20 síðna kafli er helgaður Íslandi en meðal höfunda að þeim færslum sem þar birtast eru Haraldur Bernharðsson, Terry Gunnell, Simon Halink, Karl Aspelund, Þórir Óskarsson, Gauti Kristmannsson, Sveinn Yngvi Egilsson, Adolf Friðriksson, Sveinn Einarsson, Loftur Guttormsson og Sigurjón Baldur Hafsteinsson. Ég skrifa þarna þrjár færslur; um upphaf bóka- og skjalasafna hér á landi, ungmenna- og íþróttafélög, og hina þjóðlegu íþrótt glímuna.