Slæsa

Nýlega kom orðið slæsa sem stundum er notað um pitsusneið upp í umræðum í Málspjalli á Facebook. Þetta orð er augljóslega komið af enska orðinu slice og mér fannst það óþarft í fyrstu. En ég skipti um skoðun þegar ég fór að átta mig betur á orðinu og merkingu þess. Þess vegna gat ég ekki stillt mig um að smella af mynd þegar ég átti leið fram hjá nýjum pitsustað vestur í bæ, um leið og ég ítreka ég þá skoðun mína að það sé ekkert við þetta orð að athuga þótt það sé komið úr ensku. Fyrir því eru fjórar ástæður.

Í fyrsta lagi fellur orðið ágætlega að íslensku hljóðkerfi og beygingarkerfi – við enska orðið hefur verið bætt -a til að gera það að veiku kvenkynsorði, sbr. dræsa. Í öðru lagi þjónar þetta orð ákveðnum tilgangi, hefur merkingu sem ekki var áður til sérstakt orð fyrir, þ.e. 'pitsusneið sem er seld sér'. Í þriðja lagi kemur orðið ekki í staðinn fyrir sneið og mun ekkert útrýma því orði, heldur er notað meðfram, einmitt vegna þessarar sérhæfðu merkingar sem það hefur.

Í fjórða og síðasta lagi er orðið sjálfsprottið meðal (ungra) málnotenda. Eins og ég hef áður nefnt er mikilvægt að gefa unga fólkinu hlutdeild í málinu – láta ekki eins og íslenska sé einkaeign okkar fullorðna fólksins (jafnvel eftirlaunafólks eins og mín) sem ekki megi hrófla við. Unga fólkið verður að fá að nota íslenskuna eins og það kýs, þótt jafnframt sé sjálfsagt að leiðbeina því og leggja áherslu á gildi þess að halda í hefðir málsins.

Af rökréttu máli

Algengasta röksemd sem beitt er gegn nýjungum og tilbrigðum í máli er að þau séu ekki rökrétt. Að margra áliti er það hin endanlegi dómur yfir tilbrigðum og gefur ótakmarkað veiðileyfi á þau. Meðal þess sem er talið órökrétt er

Ég hef fjallað um flest þessi atriði í pistlum, og það væri auðvelt að tína til margfalt fleiri af sama tagi. Ég gæti líka auðveldlega vísað í heimildir um að amast hafi verið við þessum atriðum á þeim forsendum að þau séu ekki rökrétt en það er óþarfi – þið þekkið þetta örugglega öll. Sumt af þessu byggist reyndar á misskilningi á merkingu orða. Það er t.d. ljóst að erlendis hefur alla tíð getað merkt bæði ‚í útlöndum‘ og ‚til útlanda‘. Sömuleiðis merkir slátra ekki bara ‚drepa‘ heldur ‚lóga dýri til matar og tilreiða kjöt og innmat í því skyni‘.

En þetta er ekki aðalatriði málsins, heldur hitt að tungumálið er ekki, hefur aldrei verið, og á ekki að vera rökrétt. Tungumálið er samskiptakerfi sem hefur þróast í hundruð þúsunda ára og mótast af alls konar aðstæðum á tilviljanakenndan hátt. Í ljósi sögunnar væri mjög undarlegt ef það væri fullkomlega „rökrétt“. Tungumálið þarf hins vegar að vera nothæft sem samskiptatæki og til þess þarf að vera sæmilegt samkomulag í málsamfélaginu um form þess og beitingu. En forsenda þess samkomulags er ekki að málið sé „rökrétt“.

Það sem ég hef hins vegar reynt að sýna fram á í pistlunum sem vísað er í hér að framan er að þessi „órökréttu“ tilbrigði séu miklu merkilegri og áhugaverðari en svo að það sé hægt að vísa þeim út í hafsauga sem tilviljanakenndum rökleysum, „málvillum“. Þvert á móti – í flestum tilvikum er hægt að sýna fram á, eða a.m.k. leiða rök að því, að tilbrigðin stafi af því að málnotendur eru – ómeðvitað – að leita að kerfi. Máltilfinning þeirra finnur eitthvað athugavert við það sem hefur verið talið „rétt“, finnst það ekki falla almennilega að því málkerfi sem þeir hafa komið sér upp, og leitast við að bæta úr því.

Sú hugmynd eða krafa að tungumálið eigi alltaf að vera rökrétt ber vott um djúpstæðan en almennan misskilning á eðli tungumálsins. Hún er vond vegna þess að hún er röng. En hún er líka vond vegna þess að hún vinnur gegn tungumálinu. Hún bannar málnotendum að leita betra samræmis í málkerfi sínu og eykur þannig á óstöðugleika sem á endanum getur ýtt undir málbreytingar í stað þess að hamla þeim. Og síðast en ekki síst – hún hamlar hvers kyns nýsköpun, frjórri hugsun, og leik með tungumálið. Tungumál sem væri fullkomlega rökrétt væri óbærilega leiðinlegt. Þá gætum við eins talað forritunarmál.

Íslensk málfarsumræða

Hugsið ykkur ef það þætti eðlilegt og sjálfsagt á Íslandi að gera lítið úr tilteknum hópum eða jafnvel nafngreindu fólki vegna kynhneigðar, litarháttar, þjóðernis, fötlunar eða trúarbragða. Hugsið ykkur ef þessir þættir væru tengdir við líkamlegt eða andlegt atgervi fólks og notaðir til að gera lítið úr hvoru tveggja. Hugsið ykkur ef fólk berði sér á brjóst fyrir þetta og teldi sig vera að vernda íslensk gildi, andleg og líkamleg. Vilduð þið búa í þjóðfélagi þar sem þetta viðgengist?

Sem betur fer er þetta ekki svona á Íslandi árið 2020. Vissulega má fólk enn búa við fordóma vegna áðurnefndra þátta, eins og sést ekki síst í athugasemdakerfum vefmiðla. En almenningsálitið styður þá ekki – það þykir ekki í lagi að láta þá í ljós. En öðru máli gegnir þegar kemur að málfari fólks. Þá virðist furðu mörgum þykja í góðu lagi að gera lítið úr fólki, jafnvel nafngreindu, og kalla það öllum illum nöfnum fyrir meinta hnökra á máli þess – rangan framburð, beygingarvillur, erlendar slettur, merkingarbrengl, og hvers kyns ósóma sem fólk þykist finna í máli náungans.

Íslensk málfarsumræðu hefur löngum verið þessu marki brennd – full fordæmingar á málfari fólks, með gildishlöðnum orðum eins og málvilla, mállýti, málskemmd, málspjöll, málspilling, málfirra, og fleiri í sama dúr. Fólk var sagt tala almúgamál, götumál eða jafnvel skrílmál, vera málsóðar, þágufallsjúkt, hljóðvillt, flámælt, gormælt, latmælt, og meintum hnökrum á málfari þess var líkt við lús í höfði, falskan söng og illgresi. Það kom jafnvel fyrir að það væri notað gegn stjórnmálamönnum í pólitískri umræðu að þeir væru „hljóðvilltir“. Iðulega voru hin fordæmdu atriði tengd við leti, seinfærni í námi, greindarskort – og Reykjavík.

Orðræða af þessu tagi er ólíðandi og þeim sem viðhafa hana til minnkunar. Hún er móðgandi og særandi – í raun árás á það mál sem fólk hefur tileinkað sér á máltökuskeiði, árás á sjálfsmynd þess. Hún er dónaskapur og stundum jafnvel persónuníð sem ekki á að líðast í opinberri umræðu. Og hún er sannarlega ekki til þess fallin að efla íslenskuna því að hún gerir fólk óöruggt og fælir það frá að nota málið – ýtir undir málótta. Iðulega virðist tilgangurinn fremur vera að hreykja sér af eigin kunnáttu en leiðbeina öðrum.

En það er aldrei vænlegt til árangurs að tala niður til fólks. Íslenska er nefnilega alls konar – og á að vera það. Sameinumst um að breyta þessu!

Þágufalli ofaukið

Undanfarið hef ég oft tekið eftir því að notað er þágufall þar sem það ætti ekki að vera samkvæmt málhefð og minni málkennd. Það sem ég á við er þegar þágufall er notað í flóknum málsgreinum í stað annarra falla, einkum eignarfalls. Þetta er alls óskylt hinni alþekktu „þágufallssýki“ eða „þágufallshneigð“. Það er ekki bundið við óformlegt mál heldur sést iðulega í textum sem ættu að vera vandaðir. Um er að ræða setningar eins og þessar:

  • Sigrún er í Noregi auk föður hennar Guðmundi Jónssyni
  • Það er svigrúm til fleiri verkefna tengdum alþjóðamálum
  • Krefjast lögbanns tengdu smálánum
  • Haldið upp á afmæli Sigríðar, náins kollega og besta kennaranum í skólanum

Þessi dæmi hef ég öll séð í blöðum eða á netinu nýlega (nöfnum breytt). Þágufallsliðurinn sem um er að ræða er hér undirstrikaður, og á undan honum er alltaf nafnliður í eignarfalli. Í fyrsta dæminu stýrir forsetningin auk eignarfalli á föður hennar, í öðru dæminu stýrir forsetningin til eignarfalli á fleiri verkefna, í því þriðja stýrir sögnin krefjast eignarfalli á lögbanns, og í því síðasta tekur nafnorðið afmæli með sér eignarfall á Sigríðar, náins kollega.

Í öllum dæmunum er undirstrikaði liðurinn hliðskipaður eignarfallsliðnum og ætti því að sambeygjast honum og standa líka í eignarfalli – vera Guðmundar Jónssonar, tengdra alþjóðamálum, tengds smálánum og besta kennarans. En þess í stað stendur liðurinn í þágufalli. Flest dæmi sem ég hef rekist á um ofnotkun þágufallsins eru af þessu tagi – tveir nafnliðir standa saman og ættu báðir að vera í eignarfalli, en sá seinni kemur í þágufalli í staðinn. Hvernig stendur á þessu?

Einfaldast væri að afgreiða þetta sem fljótfærnisvillu – segja að fólk hafi bara ekki lesið textann nægilega vel yfir. Og að einhverju leyti er það trúlega rétt – ef fólk læsi textann vandlega má ætla að það tæki oft eftir þessu og lagfærði það. En það er samt ekki næg skýring. Það getur ekki verið tilviljun að fallbreytingin kemur langoftast fyrir við þessar aðstæður, þar sem tveir eignarfallsliðir ættu að koma saman. Og það getur ekki heldur verið tilviljun að eignarfallinu er skipt út fyrir þágufall.

Ég hef enga skýringu á þessu, aðra en þá að það virðist á einhvern hátt trufla málnotendur þegar tveir (eða fleiri) eignarfallsliðir eiga að koma hver á eftir öðrum. Þótt ekki sé langt síðan ég fór að taka eftir þessu veit ég ekki hvort það er nýlega til komið, og ég veit ekki heldur hvort hægt er að líta svo á það þarna sé einhvers konar málbreyting í gangi. Það er reyndar þekkt að eignarfall stendur veikast fallanna og e.t.v. er þetta einhver angi af veikingu þess – sem stundum er kölluð „eignarfallsflótti“.

En þótt ég hafi oft séð þetta í rituðu máli minnist ég þess ekki að hafa heyrt sambærileg dæmi í talmáli – nema í útvarps- og sjónvarpsfréttum, en þar liggur vitanlega ritaður texti að baki. Það getur verið tilviljun, en það getur líka verið vegna þess að setningar í talmáli eru venjulega einfaldari en í rituðu máli og samtengdir eignarfallsliðir sennilega sjaldgæfir í talmáli – þótt engar rannsóknir liggi fyrir sem staðfesti það.

Mér finnst full ástæða til að vinna gegn þessari tilhneigingu, ekki síst vegna þess að ég sé ekki betur en hún gæti veikt eignarfallið og þar með fallakerfi málsins sem mér finnst skipta miklu máli að varðveita. Þótt fljótfærni sé varla bein ástæða þessarar tilhneigingar eins og áður er nefnt er hægt að fækka tilvikum af þessu tagi með vönduðum yfirlestri. Það er reyndar alltaf góð regla að lesa yfir það sem maður skrifar. Hugið vel að þessu í því sem þið skrifið!

Hér þarf þó að hafa fyrirvara. Það hefur hvarflað að mér að þessar villur séu stundum einmitt komnar til við yfirlestur. Það er ekki óhugsandi að fólk skrifi þetta rétt í upphafi, lesi textann svo yfir og finnist runa af eignarfallsliðum fara illa og vera knosuð – sem vissulega er oft tilfellið – og breyti því seinna eignarfallinu og finnist textinn renna betur þannig. En þetta er bara hugdetta sem ég hef engar sannanir fyrir og er kannski alveg út í bláinn.

En reyndar er þetta ekki bundið við eignarfallsliði þótt mér sýnist það vera algengast í þeim. Þegar ég var að skrifa þennan pistil rakst ég á setninguna „Stærsti liðurinn eru kjarasamningar og afturvirkar launahækkanir þeim tengdum“ í Fréttablaðinu. Þarna ætti að vera nefnifall, þeim tengdar, í stað þeim tengdum. Það sem er sameiginlegt með þessu dæmi og hinum er að það er seinni liðurinn í hliðskipun sem fær rangt fall.

Þar að auki er athyglisvert að lýsingarorðið tengdur kemur fyrir í þessu dæmi og tveim af hinum og á slík dæmi hefur líka verið bent í Málfarsbankanum. Það er varla tilviljun – en hver er skýringin?

Hagaðu þér!

Sögnin haga sér hefur fram undir þetta þurft að hafa með sér einhverja nánari lýsingu – haga sér vel / illa / eins og kjáni o.s.frv. En á seinustu árum hefur borið eitthvað á því að hún sé notuð án nokkurrar viðbótar og sagt Hagaðu þér! eða eitthvað slíkt. Elsta dæmi um þetta sem ég hef rekist á er um 20 ára gamalt. Það er nokkuð ljóst að þetta er fyrir áhrif frá ensku þar sem sögnin behave er notuð á þennan hátt.

Skipunin Hagaðu þér! merkir 'hagaðu þér vel'. Það má því segja að merking sagnarinnar hafi breyst (hjá þeim sem nota hana svona) frá því að vera hlutlaus og merkja hvers kyns hegðun – sem þarf þá að skilgreina nánar með velilla eða einhverju öðru – yfir í að vera jákvæð og merkja góða hegðun. En þrátt fyrir það er enn hægt að ná fram neikvæðri merkingu með því að bæta illa við – Mamma bað mig að haga mér en ég hagaði mér samt illa.

Sem sé: Það er sjálfgefið að jákvæða merkingin sé innifalin í sögninni og þess vegna þarf enga viðbót (vel eða eitthvað annað) til að tjá hana. Sé einhverju bætt við sögnina, t.d. neikvæðu atviksorði eins og illa, verður merking hennar hlutlaus. Við getum líkt þessu við það að þegar við skrifum tölu hærri en 0 þurfum við ekki að hafa + á undan og skrifa t.d. +15 – það er sjálfgefið. Sé talan lægri en 0 þarf aftur á móti að hafa – á undan, –15.

-ast

Orð sem enda á -ast eru yfirleitt miðmynd sagna. Miðmyndarendingin –st (áður -sk) er orðin til úr afturbeygða fornafninu sig (áður sik) og stundum er merking miðmyndarinnar nokkurn veginn sú sama og merking germyndar með afturbeygðu fornafni – klæddist merkir u.þ.b. sama og klæddi sig, festist merkir u.þ.b. sama og festi sig, o.s.frv. Þetta er þó fjarri því að vera algilt. Stundum er merking miðmyndarinnar gagnverkandi – þau kysstust/hittust/börðust o.s.frv. Stundum er merking miðmyndarinnar talsvert önnur en samsvarandi germyndar – þykjast er allt annað en þykja, farast er allt annað en fara. Og stundum er miðmyndin leidd af annarri sagnmynd en nafnhætti – hlotnast er af lýsingarhættinum hlotinn, ekki af hljóta.

Það kemur líka fyrir að aðeins sé til miðmynd en ekki samsvarandi germynd. Þótt við höfum sögnina ferðast er hún ekki leidd af *ferða, enda er sú sögn ekki til, heldur af nafnorðinu ferð. Þetta var sjaldgæft til skamms tíma, en á síðustu árum hefur viðskeytið -ast orðið frjósamt til myndunar sagna af nafnorðum. Eitt elsta og þekktasta dæmið um það er jólast – „hvers virði verða jólin ef maður ekki jólast þessi jól?“ segir í kvæði eftir Rúnar Ármann Arthursson í Stúdentablaðinu 1972. Fáein önnur dæmi eru um þetta orð á tímarit.is, sum innan gæsalappa til að sýna að um óformlegt orð sé að ræða. En orðið er algengt í talmáli og er notað um hvers kyns jólaundirbúning – að fara í búðir, kaupa gjafir, skreyta, baka o.s.frv.

Fjöldamargar sagnir af þessu tagi má finna á netinu og heyra í daglegu tali fólks. Oft er um augnabliksmyndanir að ræða – orð sem verða til við tilteknar aðstæður þegar á þeim þarf að halda, og eru þá skiljanleg út frá aðstæðunum, en eru svo kannski aldrei notuð aftur. Fáeinar slíkra sagna sem ég hef rekist á eru bjórast, facebookast, hamborgarast, hipsterast, kaffast, kaffihúsast, mammast, pabbast, símast, tölvast. Enga þessara sagna er að finna í íslenskum orðabókum og fæstar virðast hafa komist á prent. Þessi orðmyndun er nær algerlega bundin við óformlegt málsnið – talmál, blogg, samfélagsmiðla o.þ.h. Fyrir utan jólast eru það helst mammast, pabbast og tölvast sem eru í einhverri notkun, sýnist mér.

Meðfylgjandi dæmi af netinu sýna að -ast bætist við stofn nafnorða af ýmsu tagi og af ýmsum merkingarsviðum. Merkingarvenslin má reyna að orða þannig að X+ast (þar sem X stendur fyrir nafnorðið sem um er að ræða) merki ‘nota X mikið’, ‘vera niðursokkinn í X’, eða ‘haga sér eins og X’. Í raun má segja að -ast komi í staðinn fyrir þá sögn sem er dæmigerðust með X. Þannig merkir bjórast ‘drekka bjór’, Facebookast merkir ‘hanga á Facebook’, hamborgarast merkir ‘borða hamborgara’, kaffihúsast merkir ‘sitja á kaffihúsi’, símast merkir ‘tala í síma’ o.s.frv. Þegar X er orð um hlutverk eða manngerð er oft ekki um neina dæmigerða sögn að ræða en þá merkir X+ast ‘hegða sér eins og X’eða ‘leika hlutverk X’.

Það virðist vera hægt að mynda -ast-orð af nánast hvaða nafnorði sem er – eina takmörkunin er sú að hægt sé að kenna athöfn, hegðun eða verknað við nafnorðið á einhvern hátt. -ast felur í sér áherslu á þetta í einhverjum skilningi – að maður lifi sig inn í það, stundi það af ákafa eða heilum hug, eða eitthvað slíkt. Ég er alltaf að heyra eða sjá ný orð af þessu tagi – í vikunni heyrði ég t.d. í útvarpinu um tónlistarmann sem væri farinn að plötusnúðast aftur. Það er gaman að velta þessari orðmyndun fyrir sér frá ýmsum sjónarhornum, t.d. í kennslu. Eru einhver takmörk á henni? Hvað gerir hana óformlega? Af hverju er jólast óformlegt mál en ferðast ekki þótt myndunin sé hliðstæð? Gætu þessi orð öðlast formlegan sess í framtíðinni?

Áskrifa

Í gær sagði Hjördís Kvaran Einarsdóttir  frá því í Facebook-hópnum Málspjall að í tíma hjá sér hefði nemandi þýtt „subscribe to my channel“ sem „áskrifaðu rásina mína“. Í umræðum um þetta komst hópurinn að þeirri niðurstöðu að sögnin áskrifa væri „ekki til í íslensku þó vissulega sé hún rétt mynduð, og að það er engin bein einföld þýðing til á sögninni to subscribe“.

Í umræðu um þessa færslu kom fram að sögnin áskrifa er (eða var) reyndar til í málinu, þótt hana sé ekki að finna í neinum orðabókum. Fáein dæmi eru um hana frá lokum 19. aldar og upphafi þeirrar 20. í merkingunni 'skrá sig', einkum áskrifa sig til vesturfarar. En yngstu dæmi um sögnina eru um aldargömul þannig að það er ekki von að nútímafólk þekki hana.

En er þetta ekki einmitt ágæt þýðing á subscribe? Merkingin er ekki nákvæmlega sú sama en mjög nálægt samt. Við gætum sagt ég áskrifaði mig að þessari stöð, áskrifaðu þig að fréttabréfi okkar, o.s.frv. Það er miklu liprara en ég gerðist áskrifandi að þessari stöð, að ekki sé talað um gerstu áskrifandi að fréttabréfi okkar. Er ekki um að gera að endurnýta gömul orð?

Fyrir utan að mér sýnist þetta vera ágætt orð sem er snjallræði að endurvekja, þá er þetta frábært dæmi um það hvernig umræður um tungumálið geta vakið áhuga nemenda og orðið frjóar. Það á endilega að leyfa nemendum að fara á flug í slíkum umræðum og benda þeim á að þau eigi hlut í málinu líka og geti vel komið með snjöll orð sem eiga fullt erindi til annarra.

Veitum unglingum hlutdeild í íslenskunni

Þegar sögnin sína (eða seena) var til umræðu í Facebook-hópnum Málspjall dögum nefndi ég að í stað þess að vísa henni umsvifalaust á bug sem óþarfri enskuslettu væri reynandi að nota hana í kennslu til að vekja áhuga á ýmsum eiginleikum málsins. Lára Ómarsdóttir tók mig á orðinu og fór að skoða sögnina með 16 ára syni sínum sem fannst þetta áhugavert. Sérstaklega þótti honum athyglisvert „að unglingar gætu líka búið til ný orð sem gætu orðið viðurkennd og viðtekin venja að nota í íslensku máli“ sagði Lára.

Ég varð ósegjanlega glaður þegar ég las þetta vegna þess að hér er komið að kjarna málsins. Við erum alltaf að segja unglingunum að nota íslensku, að þau beri ábyrgð á að vernda hana og varðveita – en við gefum þeim enga hlutdeild í henni. Þau eiga að nota íslenskuna eins og við viljum hafa hana, ekki eins og þeim er eiginlegt. Þau eiga að tileinka sér reglur sem samrýmast ekki málkennd þeirra. Þau eiga að tala eins og við en ekki eins og þau sjálf.

En við þurfum að átta okkur á því og viðurkenna að við eigum íslenskuna öll saman – unga fólkið líka. Þess vegna má ungt fólk nota íslenskuna á sinn hátt. Það kemur ekki í veg fyrir að við brýnum það fyrir því að fara vel með hana. En ef við látum alltaf eins og unga fólkið sé að skemma íslenskuna fyrir okkur hinum er ekki von til þess að það fái jákvætt viðhorf til hennar og rækti með sér áhuga á að skila henni áfram til sinna barna.

Forsenda þess að íslenskan lifi áfram er auðvitað sú að nýjar og nýjar kynslóðir vilji nota hana. En þá þarf hún að þjóna þörfum þeirra – gera þeim kleift að tala um viðfangsefni sín og hugðarefni á þann hátt sem þeim er eiginlegt, með þeim orðum sem þær kjósa. Það gerir hún ekki ef við leggjum áherslu á þekkingu á orðum og orðasamböndum frá fyrri tíð og reglur sem eru í ósamræmi við málkennd fólks, t.d. um beygingar og fallstjórn.

Þess í stað þarf að þjálfa nemendur á öllum skólastigum í að leika sér með málið, átta sig á fjölbreytileik þess, og reyna á sköpunarmátt þess. Ég efast ekki um að margir kennarar geri einmitt þetta. En hendur þeirra eru ansi bundnar meðan enn er verið að prófa í „réttu“ máli og „röngu“. Hættum því – og ræktum málið þess í stað með því að leyfa því að leika lausum hala. Það margborgar sig.

Bakbrotinn

Ég sá nýlega frétt á vefmiðli um erlendan mann sem hefði „bakbrotnað“. Auðvitað er bakbrotna íslenskt orð – báðir hlutar þess eru íslenskir, og það er myndað á sama hátt og fótbrotna, handleggsbrotna, rifbrotna o.s.frv. En þetta er bara ekki orðið sem venja er að nota í íslensku, þótt vissulega megi finna fáein dæmi um það á netinu. Þess í stað er venjulega talað um að hryggbrotna. Bakbrotinn á hins vegar við ef rætt er um stól.

Í fréttinni er haft eftir manninum: „Ég er búinn að brjóta hluta af baki mínu.“ En þótt hann hafi sagt á ensku „I have broken part of my back“ (eins og sést í fréttinni) er ekki gott að orða þetta svona á íslensku. Það þarf að varast að þýða erlendar fréttir orð fyrir orð. Mikilvægt er að hugsa: „Hvernig er venja að orða þetta á íslensku?“ – og nýta tiltæk hjálpargögn til að komast að því, ef þörf krefur.

Hvað er skýrsla?

Uppáhaldsbækur mínar þegar ég var strákur voru bækurnar um Grím grallara (Just William) eftir Richmal Crompton (sem ég komst að löngu síðar mér til mikillar furðu að var kona) í snilldarþýðingu Guðrúnar Guðmundsdóttur. Með eftirminnilegustu köflunum í þessum bókum var frásagan af því þegar Grímur kom heim allur rifinn og tættur og Helga móðir hans fór að þýfga hann um hverju það sætti. Grímur sagði að þeir vinirnir hefðu verið að leika ljónatemjara – einn var ljónið og hinir ljónatemjarar sem reyndu að handsama það. Helga lagði umsvifalaust blátt bann við því að þeir lékju ljónatemjara aftur og Grímur lofaði vitanlega öllu fögru.

Daginn eftir kom hann samt heim í svipuðu ástandi og Helga byrjaði að skamma hann fyrir að hafa brotið gegn banni við að leika ljónatemjara. En Grímur hélt nú ekki að hann hefði brotið það – þeir voru nefnilega að leika tígrisdýratemjara. Þegar Helga innti eftir lýsingu á þeim leik kom í ljós að hann fólst í því að einn væri tígrisdýr og hinir reyndu að handsama það. Augljóslega allt annar leikur, en Grími var samt stranglega bannað að fara í hann aftur. Næsta dag kom hann enn heim í svipuðu standi og hafði verið að leika krókódílatemjara að eigin sögn – þið megið giska á hvernig sá leikur fór fram.

Mér dettur oft í hug hvort íslenskir stjórnmálamenn og framámenn á ýmsum sviðum hafi lesið Grím grallara og lært þessa tækni af honum. Svo algengt er það að maður sjái orðhengilshætti beitt í skilgreiningu á orðum. Hvað merkir t.d. orðið skýrsla? Í Íslenskri orðsifjabók segir ‘frásögn, greinargerð (t.d. um niðurstöður rannsókna eða könnunar)’ og í Íslenskri nútímamálsorðabók segir „rituð frásögn af atburði eða greinargerð um eitthvert efni í sérstöku formi fyrir félag eða opinbera stofnun“.

Því hefur verið haldið fram með vísun til þessara skilgreininga að Excel-skjal sé ekki hægt að kalla skýrslu. En margar tegundir skýrslna eru ekki frásagnir, heldur eyðublöð sem fyllt er inn í, svo sem vinnuskýrslur og tímaskýrslur, tjónaskýrslur, tollskýrslur, skattskýrslur o.s.frv. Það sem fært er inn í þessi eyðublöð er venjulega fyrst og fremst tölur en oft sáralítill eða enginn texti. Ég sé því ekki betur en Excel-skjal með textaskýringum á dálkum og línum, en að öðru leyti tómum tölum, geti fallið undir það að vera skýrsla.

Í umræðunni hefur verið vitnað til þess að Verðlagsstofa segir: „Ekki var skrifuð sérstök skýrsla af hálfu Verðlagsstofu af þessu tilefni“ og það haft til sannindamerkis um að engin skýrsla sé eða hafi verið til. En spurningin er: Getur stofnun sem tekur saman tilteknar upplýsingar ákveðið hvort skjalið sem geymir upplýsingarnar er „skýrsla“ eða ekki? Gat Grímur grallari ákveðið að leikurinn sem hann fór í héti ekki „ljónatemjari“ þótt hann væri alveg eins? Hlýtur ekki inntak upplýsinganna eða leiksins að skipta meginmáli?

Hér er meginatriði að skýrsla er ekki íðorð, orð sem er komið úr eða bundið við ákveðna fræðigrein og eigi sér fasta skilgreiningu þar, heldur algengt orð í daglegu máli – orð sem við eigum öll og notum í þeirri merkingu sem við þekkjum og erum vön. Það þarf ekki að standa skýrum stöfum „Skýrsla“ á forsíðunni til að hægt sé að kalla tiltekið skjal skýrslu, og eðli skjalsins þarf ekki heldur að falla nákvæmlega að orðabókarskilgreiningum. Miðað við lýsingar á því skjali sem deilt hefur verið um undanfarið get ég ómögulega séð að óeðlilegt sé að tala um það sem skýrslu.