Category: Uncategorized

Mythology and Nation Building komin út

Jón Karl Helgason, 02/07/2021

Mythology and Nation Building in the Nineteenth Century Europe. N.F.S. Grundtvig and His European Contemporaries er titill nýrrar bókar sem komin er út hjá Aarhus University Press. Ritstjórar eru Sophie Bønding, Lone Kølle Martinsen og Pierre-Brice Stahl. Meðal efnis í ritinu er grein mín "“Snorri’s Old Site is a Sheep Pen”: Remarks on Jónas Hallgrímsson Poem “Ísland” and Iceland’s Nation Building". Þar bendi ég á að kvæði Jónasar Hallgrímssonar "Ísland", sem birtist fremst í fyrsta hefti Fjölnis árið 1835, sé hluti af athyglisverðri hefð þjóðernislegra skrifa um Þingvelli sem rekja megi m.a. til breskra breskra ferðabóka frá öðrum áratug nítjándu aldar. Meðal annarra höfunda sem eiga greinar í bókinni eru Joep Leerssen, Thomas Mohnike, Katrine F. Baunvig, Heather O’Donoghue og Simon Halink.

MA ritgerð Julie Summers

Jón Karl Helgason, 02/07/2021

Julie Rose Summers lauk MA prófi í þýðingafræðum nú í júnímánuði og leiðbeindi ég MA ritgerð hennar "A Brief Introduction to Sjón: A Case Study in Author-Translator Collaboration". Um er að ræða enska þýðingu, ásamt greinargerð, á annarri MA ritgerð sem ég leiðbeindi, "ÞJÓÐ(AR)SAGA SJÓNS: Pólitísk ummyndun á sameiginlegum minningum Íslendinga í sögulegum skáldverkum Sjóns" eftir Einar Kára Jóhannson, en til stendur að þýðingin komi út á næstunni. Í greinargerð með þýðingu sinni lýsir Julie samstarfi þeirra Einars Kára sem snerist um að laga íslenska textann að nýjum lesendahópi og breyta honum úr nemendaritgerð í handhæga inngangsbók um höfundarferil Sjóns.

Andlit á glugga komin út

Jón Karl Helgason, 31/03/2021

Andlit á glugga er safn íslenskra þjóðsagna og ævintýra með nútímastafsetningu og ítarlegum orðskýringum, sem við Romina Werth höfum annast útgáfu á. Bókin hefur að geyma sextíu sögur þar sem lýst er ástum og grimmum örlögum, heimsku og útsjónarsemi, hugrekki og hryllingi. Sögunum er fylgt úr hlaði með fróðlegum inngangi og milliköflum Rominu þar sem varpað er ljósi á munnlega geymd efnisins, alþjóðlegt samhengi þess og gildi þessara bókmennta í menningarsögulegu samhengi. Myndirnar í bókinni eru eftir Halldór Baldursson.

Glæpasögur og einkavæðing

Jón Karl Helgason, 01/03/2021

"Glæpasagnahöfundurinn Þráinn Bertelsson og einkavæðing bankanna" er titill á fyrirlestri sem við Ásgeir Brynjar Torfason fluttum í fyrirlestraröð á vegum Vigdísarstofnunnar 23. mars. Spennusagan Dauðans óvissi tími (2004) eftir Þráinn kom út tæpum fjórum árum fyrir gjaldþrot íslensku bankanna 2008 en er samt sem áður eitt af brautryðjendaverkum íslenskra hrunbókmennta. Þarna fléttast tvær frásagnir saman. Annars vegar segir af kaupsýslumanninum Haraldi Rúrikssyni sem kaupir Þjóðbanka Íslands eftir að hafa auðgast af rekstri og sölu bruggverksmiðju í Rússlandi. Hins vegar segir af æskuvinunum Þorgeiri Hákonarsyni og Þormóði Bjarnasyni sem ræna útibú Þjóðbankans við Vesturgötu og skjóta til bana aldraðan sjónarvott að ráninu. Í fyrirlestrinum verður sagan sett í samband við önnur verk Þráins og sögulega viðburði útrásartímans. Ljóst er tilgangur Þráins með því að skrifa söguna var pólitískur og beindist m.a. að þeirri einkavæðingu ríkiseigna sem er einn af hornsteinunum í stefnu nýfrjálshyggjunnar.

Lokabindi Smásagna heimsins

Jón Karl Helgason, 15/10/2020

Smásögur heimsins: Evrópa er komið út. Um er að ræða fimmta og síðasta bindi útgáfuraðar sem hóf göngu sína árið 2016. Við Rúnar Helgi Vignisson og Kristín Guðrún Jónsdóttir höfum ritstýrt öllum bindunum en frumkvæðið átti Rúnar Helgi um og eftir síðustu aldamót. Hann er enda aðalritstjóri verksins og hefur meðal annars ferðast víða um lönd í tengslum við útgáfuna, auk þess sem nemendur hans í ritlist hafa lagt verkefninu lið. Meðal höfunda sem eiga sögur í þessu lokabindi eru James Joyce, Virginia Wolf, Italo Calvino og Tove Jansson. Ég þýði tvær smásagnanna sem þarna birtast, þar á meðal sögu eftir Karen Blixen.

Sögusagnir og sjálflýsandi bókmenntir

Jón Karl Helgason, 15/10/2020

Sögusagnir: Þrjú tímamótaverk og einu betur er titill á nýrri fræðibók minni sem Dimma gefur út. Verkið fjallar um skáldverk sem varpa ljósi á eigið eðli, tilurð sína eða viðtökur. Hefð er fyrir því að kalla þessi verk metafiction á ensku og sjálfsögur á íslensku en í bókinni eru kynnt fleiri hugtök til leiks, svo sem sögusagnir og sjálflýsandi bókmenntir. Meðal þekktra erlendra verka sem tilheyra þessari hefð eru leikritið Sex persónur leita höfundar (1921) eftir Luigi Pirandello og skáldsagan Ástkona franska lautinantsins (1969) eftir John Fowles en í Sögusögnum er sjónum einkum beint að þeim þremur skáldum sem marka sjálfsöguleg tímamót hér á landi, strax um miðja síðustu öld.

Málstofa um stílmælingar á Hugvísindaþingi

Jón Karl Helgason, 08/09/2020

"Fingraför fornra höfunda" er yfirskrift málstofu sem ég tek þátt í á Hugvísindaþingi sem verður sent út með rafrænum hætti daganna 18. og 19. september næstkomandi (nákvæm tímasetning kemur síðar). Að málstofunni stendur rannsóknarhópur sem nýtt hefur sér stílmælingar og fleiri aðferðir til að varpa ljósi á margbrotinn höfundarskap fornsagna og rímna. Munu framsögumenn kynna nýjustu niðurstöður þeirra rannsókna. Fluttir verða þrír fyrirlestrar: Haukur Þorgeirsson talar um leit sína að höfundi Skíðarímu, Elín Bára Magnúsdóttir um leit sína að höfundi Grettis sögu og svo mun ég að síðustu flytja, fyrir hönd okkar Sigurðar Ingibergs Björnssonar og Steingríms Kárasonar, fyrirlestur um nýjustu stílmælingar þeirra tveggja á íslenskum fornsögum. Ber sá fyrirlestur titilinn "Er svarti kassinn úr Reykholti fundinn?"

Orðspor Williams Faulkners á Íslandi

Jón Karl Helgason, 31/08/2020

Fimmtudaginn 27. ágúst varði Haukur Ingvarsson með glans doktorsritgerð í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist „Orðspor Williams Faulkners á Íslandi 1930–1960“. Þar er leitað svara við því hvernig nafn  Williams Faulkners varð til og þróaðist á íslenskum menningarvettvangi frá því að það bar fyrst á góma í íslenskum prentmiðli 1933 og þar til síðasta þýðing Kristjáns Karlssonar á smásögu eftir Faulkner birtist á prenti árið 1960. Víðtækara markmið ritgerðarinnar er að kanna samspil íslenska bókmenntakerfisins við erlend bókmenntakerfi á umbrotatímum í Íslandssögunni þegar staða landsins gagnvart umheiminum tók miklum breytingum.  Andmælendur við vörnina voru dr. Soffía Auður Birgisdóttir og dr. Rósa Magnúsdóttir. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn minni en í doktorsnefndinni sátu einnig dr. Ástráður Eysteinsson dr. Valur Ingimundarson. Hér er hægt að horfa á upptöku frá vörninni.

Um rannsóknina

 

Með Vínland á heilanum

Jón Karl Helgason, 04/06/2020

From Iceland to the Americas. Vinland and historical imagination er titill á nýju greinasafni sem við Tim William Machan, prófessor við Notre Dame háskólann í Bandaríkjunum ritstýrum saman. Útgefandi er University of Manchester Press en bókin kemur þar út í ritröðinni  Manchester Medieval Literature and Culture.  Greinasafnið er ávöxtur af fjölþjóðlegu rannsóknarverkefni þar sem markmiðið var að kanna viðtökur íslenskra fornbókmennta í Norður-Ameríku. Meðal  greina í bókinni má nefna yfirlit Emily Lethbridge um skrif bandarískra ferðabókahöfunda um Ísland á 19. öld, greiningu Heather O'Donoghue á túlkun Neils Gaiman á norrænni goðafræði í skáldsögunni American Gods og grein Verenu Höfig um Vínland og rasíska öfgahópa í Bandaríkjunum. Tim Machan skrifar inngangskafla þar sem hann fjallar sögulega um fornnorrænt menningarminni í Norður- og Suður-Ameríku en aðrir höfundar eru auk okkar fimm eru Bergur Þorgeirsson, Kevin J. Harty, Amy C. Mulligan, Simon Halink,  Angela Sorby, Seth Lerer, Matthew Scribner og Dustin Gerhard.

Smásögur heimsins: Afríka eru komnar út

Jón Karl Helgason, 11/11/2019

Fjórða bindið af Smásögum heimsins hefur nú litið dagsins ljós. Það er helgað smásögum frá Afríku og geymir nítján sögur eftir jafnmarga höfunda. Sú elsta er frá upphafi tuttugust aldar og þær yngstu frá allra síðustu áratugum.  Meðal þekktra höfunda í þessum hópi eru Nadine Gordimer, Naguib Mahfouz og J. M. Coetzee, sem öll hafa fengið Nóbelsverðlaun, og Chimamanda Ngozi Adichie sem er ein af vonarstjörnum nígerískra bókmennta. En það er þó ekki síður gaman kynna þarna til sögu höfunda sem ekki hafa komið út á íslensku áður, svo sem Ibrahim al-Koni frá Líbíu, Edwige Renée Dro frá Fílabeinsströndinni, Assia Djebar (Fatima-Zohra Imalayen) frá Alsír. og Ousmane Sembène frá Senegal. Sem fyrr önnumst við Rúnar Helgi Vignisson og Kristín Guðrún Jónsdóttir ritstjórnina og þýðum valdar sögur en að auki komu níu aðrir þýðendur að verkinu.