Posted on Færðu inn athugasemd

Húðlitað

Í gær var í Fréttablaðinu fyrirsögnin „Húðlitað vinsælt núna“. Þetta fór fyrir brjóstið á mörgum sem eðlilegt er. Vitanlega gæti húðlitað vísað til hvaða hörundslitar sem væri, eins og það er t.d. skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók: 'með lit sem líkist mannshörundi, ljósu eða dökku eftir atvikum'. En það var ekki merkingin þarna, því að í fréttinni stóð: „Um þessar mundir eru húð- og beislitaðir kjólar vinsælir“. Þar er augljóslega vísað til þess hörundslitar sem er algengastur á Íslandi.

Orðið húðlitaður er ekki mjög gamalt í málinu – elsta dæmið á tímarit.is er frá 1961. Á þeim tíma var merking þess ótvíræð – þá höfðu næstum allir Íslendingar þennan sama hörundslit. En það kemur á óvart að notkun orðsins hefur aukist mjög mikið síðan um aldamót ef marka má tímarit.is – einmitt á sömu árum og fólki með annan hörundslit hefur fjölgað mjög á landinu. (Færri dæmi á öðrum áratug aldarinnar en þeim fyrsta skýrist væntanlega aðallega af því að minna efni er komið inn frá síðustu árum.)

Það er eðlilegt að fólki með annan húðlit sárni að sjá þetta orð notað en vitanlega liggur enginn illur hugur þar að baki, heldur hugsunarleysi. Það getur komið fyrir okkur öll að nota tungumálið á þann hátt að það særi viðmælendur eða lesendur – nota fordómafullt eða útilokandi orðalag sem við höfum alist upp við en er ekki lengur gjaldgengt. Þótt húðlitaður væri ekkert óeðlilegt orð í mínu ungdæmi fyrir 50-60 árum er það í sama flokki og negri, kynvillingur, vangefinn og önnur slík – það er óboðlegt. Frelsi okkar til að nota tungumálið að vild nær ekki til þess að nota það til að meiða annað fólk.

Posted on Færðu inn athugasemd

Settust!

Þegar ég fluttist til Sauðárkróks framan úr sveit haustið 1967 tók ég fljótt eftir því að krakkar þar sögðu settust í stað sestu sem ég var vanur – veit ekki hvað fullorðna fólkið gerði. Þetta hljómaði undarlega fyrst í stað en ég vandist því fljótt þótt ég tæki það ekki upp. En ég var lítið á Króknum eftir 16 ára aldur og heyrði þessa orðmynd eða aðrar hliðstæðar ekki næstu áratugina. Svo liðu 45 ár. Sumarið 2013 sá ég auglýsingu um tónlistarhátíðina Gæruna á sjoppuvegg á Króknum. Þar stóð „Fylgdust með okkur á Facebook“. Það var sem sé greinilegt að þessi boðháttarmyndun var enn notuð á Króknum, og eftirgrennslan bendir til að myndir af þessu tagi séu helst notaðar á Norðurlandi.

Stofn boðháttar er venjulega eins og nafnháttur sagna að frádreginni nafnháttarendingunni -a (eða -ja, ef nafnhátturinn endar þannig); í sögnum sem enda á -aði í þátíð eins og kalla er -a hluti stofns en ekki nafnháttarending. Boðháttur setja er því set, boðháttur fylgja er fylg, boðháttur gera er ger, og boðháttur kalla er kalla. En stofninn er sjaldan eða aldrei notaður einn sér nema í formlegu máli. Þess í stað er bætt við hann -ðu, eins og í gerðu, -du, eins og í fylgdu, eða -tu, eins og í settu. Þetta -ðu/-du/-tu er komið úr annarrar persónu fornafninu þú, og það er gerð (hljóðafar) sagnstofnsins sem ræður því hvert afbrigðið er notað en ástæðulaust að fara út í það hér enda reglurnar ekki alveg einfaldar.

Sagnirnar gera, fylgja og setja eru í miðmynd gerast, fylgjast og setjast. Miðmyndarendingin –st sem bætist við nafnháttinn var áður -sk og er orðin til úr afturbeygða fornafninu sig sem áður var sik. Það er ástæðulaust að rekja þá þróun hér. En þetta þýðir að í boðháttarmyndum eins og gerstu, fylgstu og sestu bætast við stofninn tvær endingar sem báðar eru í raun eins konar leifar sjálfstæðra orða. Samsetning orðanna er því ger+st+tu, fylg+st+tu, set+st+tu. Þarna „ættu að“ koma saman tvö t en slík sambönd eru óhugsandi í íslensku hljóðkerfi og styttast ævinlega. Útkoman er því gerstu, fylgstu, sestu (ekki *gersttu, *fylgsttu, *sesttu).

Í myndum eins og gerðust, fylgdust, settust er endingunum tveimur, miðmyndarendingunni og annarrar persónufornafninu, er bætt við stofninn í öfugri röð við það sem venja er. Í stað ger+st+tu, fylg+st+tu, set+st+tu er röðin ger+ðu+st, fylg+du+st, set+tu+stgerðust, fylgdust, settust. Hvers vegna þessi víxl verða er svo annað mál. Ein ástæða gæti verið sú að miðmyndarendingin er venjulega aftast í orðum, á eftir öðrum endingum – við segjum þetta gerðist (ger+ði+st, ekki *gerstði, ger+st+ði), þau fórust (fór+u+st, ekki *fór+st+u). E.t.v. finnst málnotendum að miðmyndarendingin sé ekki á réttum stað í gerstu, fylgstu og sestu.

Vissulega er boðháttarendingin, leifar annarrar persónufornafnsins, venjulega líka aftast. En ekki geta tvær endingar verið aftast – önnur verður að víkja. Það gæti haft hér áhrif að í venjulegu boðháttarmyndunum gerstu, fylgstu og sestu er ekkert eftir af annarrar persónu fornafninu nema -ut-ið fellur brott vegna þess að það fer á eftir öðru t. Hugsanlega veldur þessi skerðing því að málnotendum finnst boðháttarendingin ekki nógu áberandi og finna leið til að leyfa henni að njóta sín – með því að færa hana fram fyrir miðmyndarendinguna og segja gerðust, fylgdust og settust.

En ekki eru öll kurl komin til grafar. Ég hef heyrt af því að einnig séu til boðháttarmyndir eins og settustu. Þar lítur út fyrir að annarrar persónufornafninu sé bætt tvisvar við stofninn – set+tu+st+tu. Ég kann ekki að skýra þetta. Annað sem er vert að nefna eru myndir eins og við hittustum/sáustum í stað hittumst/sáumst o.s.frv. sem áður voru algengar og heyrast oft enn. Þetta eru vissulega ekki boðháttarmyndir, en í þeim verða líka víxl á endingum – í stað hitt+um+st kemur hitt+u+st+um (látum liggja á milli hluta af hverju u kemur þarna tvisvar fram).

Tilgangurinn með þessum pistli er ekki að gera ítarlega úttekt á þessum sérstöku boðháttarmyndum eða skýra þær til fulls, enda er þetta ekki fræðilegur vettvangur. Mig langaði bara til að vekja athygli á þessu og benda enn einu sinni á að það eru ekki endilega rétt viðbrögð að afgreiða frávik frá „réttu“ máli einfaldlega sem „villur“ – skynsamlegra og skemmtilegra er að velta þessum frávikum fyrir sér og skoða hvað þau geta sagt okkur um tungumálið og notendur þess.

Posted on Færðu inn athugasemd

Málvillur hinna

Ég hef oft sagt 40 ára gamla sögu af því þegar ég hitti afa heitinn einhvern tíma á námsárum mínum. Hann vissi auðvitað að ég væri í íslenskunámi og fór að ræða við mig um málfar og býsnast yfir því hvað mál unglinga í Reykjavík væri orðið spillt – t.d. segðu þeir nú mér langarmér vantar og annað eftir því. Ekki mótmælti ég því en spurði á móti hvort honum fyndist þá í lagi að tala um að hitta læknirinn. Hann varð hvumsa við, en sagðist ekki vita betur en það væri fullkomlega eðlilegt og rétt mál. Ég sagði honum þá að það mætti ekki á milli sjá hvor „villan“ þætti verri í setningunni Mér langar að hitta læknirinn. Hann þagnaði um stund, en kvað svo upp úr með það að seinni villan væri miklu minni því að hún væri norðlenska en hin sunnlenska. (Hvorug er reyndar landshlutabundin, en það er annað mál.)

Ég er ekki að segja þessa sögu til að gera grín að afa eða gera lítið úr honum á nokkurn hátt – síður en svo. Viðbrögð hans voru fullkomlega eðlileg og dæmigerð fyrir okkur mörg. Okkur finnst ósjálfrátt að sú íslenska sem við erum sjálf alin upp við, hvert og eitt, hljóti að vera betri og réttari en sú sem fólk af öðru landshorni eða á öðrum aldri talar, og okkur hættir til að telja að annað en það sem við þekkjum sjálf eða erum vönust – eða okkur hefur verið kennt – sé rangt. Afi var fæddur rétt fyrir 1900 og þekkti örugglega ekki annað úr uppeldi sínu en hitta læknirinn – á þeim tíma hafði baráttan gegn þessari beygingu ekki náð til almennings. Ég hef lesið fjölda sendibréfa frá afa og úr umhverfi hans frá þessum tíma og undantekningarlaust er þessi beyging notuð þar.

En í þessum bréfum er notað blæbrigðaríkt mál – góð og eðlileg íslenska, eins og ég tel mig vera alinn upp við hjá þessu fólki og afkomendum þess. Aldrei hefði það fólk sagt mér langar eða ég vill, enda ekki alið upp við það. Hins vegar fór það að hitta læknirinn og finna systir sína – enda alið upp við það. Það er fráleitt og raunar móðgun að segja að þetta fólk hafi talað „rangt mál“ þótt það viki frá hinum viðurkennda staðli að þessu leyti – það talaði bara þá íslensku sem það hafði lært af foreldrum sínum, öfum og ömmum. Það er engin skynsemi í að kalla þessa beygingu „ranga“ í máli þeirra sem hafa alist upp við hana. En á sama hátt er fráleitt að segja að það fólk sem elst upp við mér langar og ég vill tali rangt mál.

Sú íslenska sem við ölumst upp við og tileinkum okkur á máltökuskeiði getur ekki verið röng. Hún er okkar mál og annað fólk er ekki þess umkomið að segja okkur að það sé rangt. Það þýðir ekki að maður eigi ekki að leitast við að vanda mál sitt, og það þýðir ekki heldur að leiðbeiningar um málfar eigi ekki rétt á sér. Við eigum að hvetja fólk til að virða málhefð og halda íslensku að börnum og unglingum. En við eigum ekki að berja niður það mál sem fólk er alið upp við og er því eiginlegt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Þjóðarsátt um „þágufallssýki“

Í áratugi hefur verið barist hatrammlega gegn svokallaðri „þágufallssýki“ eða „þágufallshneigð“ sem felst í því að notað er þágufall á frumlag nokkurra sagna sem áður tóku með sér þolfalls- eða nefnifallsfrumlag. Þetta eru einkum sagnirnar langavanta og hlakka, en einnig dreymakvíða og nokkrar fleiri – sumar sjaldgæfar. En andstætt því sem ætla mætti af harðri andstöðu við þessa breytingu er það engin ný bóla að sagnir breyti um frumlagsfall. Sögnin vænta, sem nú hefur alltaf nefnifallsfrumlag, tók til skamms tíma iðulega með sér þolfall – mig væntir. Sama máli gegnir um vona – á tímarit.is eru eldri dæmi um mig vonar en um ég vona.

Í frægum ritdómi um „Rímur af Tistrani og Indíönu“ í Fjölni 1835 skrifar Jónas Hallgrímsson: „Það eru farnar að rísa upp raddir móti þessum ósóma; og ein af þessum röddum, sem talar og lætur til sín heira á eiðimörku, hún er ekkji ónít, og hefir — að mig vonar — komið einhvurju til leiðar.“ Í „Ágrip af ræðu áhrærandi íslenzkuna“ í Fjölni 1838 skrifar Konráð Gíslason: „Mig væntir, að allir, sem það hugleiða, muni hljóta að verða okkur samdóma.“ Hvorki Jónas né Konráð hefur þótt sérstakur bögubósi í meðferð móðurmálsins – eftir Sigurði Nordal prófessor er haft: „Það sem Jónas Hallgrímsson hefur skrifað og Konráð samþykkt, það kalla ég íslensku.“

Á 19. öld tóku sagnirnar fækka og fjölga yfirleitt nefnifallsfrumlag. Dæmi um það má sjá í Fjölni 1839, þar sem segir „fólkið hafi ekki gjetað aukist, síðan það fór að fækka á 14. öld“ og „hjáleigur eru lagðar í eiði, til þess að ríma um heimajarðir, so að heimabændur fjölga“. Þessar sagnir taka nú ævinlega þágufallsfrumlag – við segjum fólkinu fækkarbændum fjölgar. Samt dettur engum í hug að kalla þetta „þágufallssýki“ eða reyna að snúa þessum breytingum við. Þarna eru fjórar sagnir – fjölgafækkavona og vænta – þar sem frumlagsfall hefur breyst síðan á 19. öld. Tvær þær fyrrnefndu taka nú þágufall í stað nefnifalls áður, en tvær þær síðarnefndu taka nú ævinlega nefnifall í stað þolfallsins sem þær tóku iðulega með sér áður.

Þetta eru algengar sagnir, rétt eins og þær sem tengdar eru við „þágufallssýki“. Samt dettur engum í hug að halda því fram að breytingar á frumlagsfalli þessara sagna hafi spillt málinu á einhvern hátt. Vitaskuld gerir „þágufallssýkin“ það ekki heldur. Það eru engin rök fyrir því að breyting á frumlagsfalli fáeinna sagna af þeim þúsundum sem eru í málinu stefni íslenskunni í hættu. En þessi „sýki“ hefur þó verið talin hin verstu málspjöll og einhvern veginn orðið „móðir allra málvillna“ ef svo má segja. Hægt er að finna fjölmörg dæmi úr dagblöðum frá seinni hluta 20. aldar þar sem „sýkinni“ er hallmælt og hinum „sýktu“ valin hin verstu orð.

En þrátt fyrir áratuga hatramma baráttu gegn „þágufallssýki“ sýna fjölmargar rannsóknir sem hafa verið gerðar á tíðni og útbreiðslu hennar undanfarin 40 ár allar það sama: Hún er útbreidd um land allt (þrátt fyrir að hún hafi hér áður oft verið tengd við Reykjavík), hún er algengari meðal yngra fólks en eldra, og hún nær til sífellt stærri hluta málnotenda. Miðað við hina viðurkenndu skilgreiningu á „réttu“ máli og „röngu“ sem hér hefur áður verið vitnað til – „Rétt mál er það sem samræmist málvenju, rangt mál samræmist engri málvenju“ – er alveg ljóst að ekki er hægt að kalla „þágufallssýki“ rangt mál, því að hún er ótvírætt málvenja umtalsverðs hluta málnotenda.

En vandinn er sá að það er búið að gera hana að slíkri grýlu í marga áratugi að fyrir mörgum er hún – ósjálfrátt og ómeðvitað – ímynd lélegs málfars, vankunnáttu og hirðuleysis, að ekki sé sagt fáfræði og jafnvel heimsku. Þar að auki finnst mörgum hún hryllilega ljót. Þetta er tilfinning sem ekki má gera lítið úr, heldur ber að taka alvarlega. Ég skil hana vel – sjálfur kippist ég við þegar ég heyri þágufall með langavanta og hlakka. Ég veit að ég á ekki að dæma mælandann fyrir það, og geri það ekki – vona ég – en ég þarf virkilega að passa mig.

Vegna þess hversu útbreidd tilfinningin er og sterk hjá mörgum er ekki einfalt að snúa við blaðinu í einu vetfangi og viðurkenna þágufall sem jafnrétta og eðlilega íslensku og þolfall með umræddum sögnum. En við verðum samt að stefna í þá átt – það er hvorki í þágu málnotenda né íslenskunnar að líta niður á mál sem umtalsverður hluti þjóðarinnar er alinn upp við. Við þurfum að hætta að prófa nemendur í fallnotkun með umræddum sögnum, og svo þurfum við öll að reyna að breyta hugarfari okkar og taka „þágufallssýkina“ í sátt. Þjóðarsátt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Þannig mönnum er ekki treystandi

Á landsprófi í íslensku 1971 var spurt: „Hvers vegna er rangt mál að segja: Þannig mönnum er ekki treystandi?“ Þessari spurningu gat ég ekki svarað og hafði raunar ekki hugmynd um það á þessum tíma að þannig mönnum er ekki treystandi væri talið rangt mál, hvað þá að ég gæti útskýrt hvers vegna. En síðar, væntanlega þegar ég var kominn í menntaskóla, fékk ég útskýringu á því. Orðið þannig er nefnilega atviksorð, og atviksorð standa ekki með nafnorðum á þennan hátt – það er hlutverk lýsingarorða og fornafna. Það má sem sé segja vafasömum mönnum er ekki treystandi, og slíkum mönnum er ekki treystandi – en ekki þannig mönnum, og ekki heldur svona mönnum eða svoleiðis mönnum, því að svona og svoleiðis eru líka atviksorð. En er þetta örugglega svona?

Það er auðvitað rétt að dæmigerð atviksorð standa ekki með nafnorðum – við segjum ekki *mjög mönnum, *vel mönnum, *ákaflega mönnum, en hins vegar mjög vafasömum mönnum, vel gerðum mönnum, ákaflega stórum mönnum, o.s.frv., þar sem atviksorðið stendur með lýsingarorðinu og ákvarðar það. En orðin þannig, svona og svoleiðis hafa samt staðið með nafnorðum um langan aldur – elstu dæmi sem ég fann eru frá síðasta fjórðungi 19. aldar. Í Suðra 1884 segir t.d.: „þó „ofviti“ í sumum héröðum landsins sé einnig haft um svona menn, þó þeir ekki yrki“; í Lögbergi 1895 segir: „Þeir eru ekki svoleiðis menn, að þeir nenni að lesa pólitík eða neitt nýtilegt“; og í Lögbergi 1896 segir: „Hann er skynsamur og hygginn, vel að sjer í öllu tilliti og þannig maður, sem allir mundu óska að hafa fyrir starfsmann“.

Við stöndum því frammi fyrir þremur kostum. Einn er sá að halda okkur við þá afstöðu sem kom fram í landsprófinu 1971, sem sé að þannig – og svona og svoleiðis – séu atviksorð, og atviksorð eigi ekki að standa með nafnorðum, og þar með sé þannig mönnum rangt. Annar möguleiki er að segja að þótt meginreglan sé sú að atviksorð standi ekki með nafnorðum séu undantekningar frá henni, einkum atviksorðin þannig, svona og svoleiðis. Þriðji möguleikinn er að segja að þannig, svona og svoleiðis séu alls ekki alltaf atviksorð, heldur geti líka verið lýsingarorð (eða fornöfn) og þar með staðið með nafnorðum eins og önnur orð af þeim flokkum. Samkvæmt bæði öðrum og þriðja kosti væri þannig mönnum er ekki treystandi í lagi, en á ólíkum forsendum.

Ég gef mér að fyrsti kosturinn sé úr sögunni – með hliðsjón af aldri og tíðni finnst mér fráleitt að halda sig við að þannig mönnum sé rangt mál, enda hef ég ekki séð því haldið fram nýlega. Valið milli annars og þriðja kosts fer þá eftir því hvernig við lítum á orðflokkagreiningu. Er hlutverk orðflokkagreiningar það að hengja á orðin merkimiða sem þau halda síðan hvar sem þau koma fyrir, óháð því hvernig þau eru notuð – eða er hlutverkið þess í stað að skoða hvernig orðin eru notuð, hvar í setningu þau standa, og ákvarða orðflokkinn út frá því? Samkvæmt fyrri skilgreiningunni væru þannig, svona og svoleiðis alltaf atviksorð, þótt þau stæðu stundum með nafnorði; samkvæmt þeirri seinni væru þau lýsingarorð (eða hugsanlega fornöfn) ef þau stæðu í dæmigerðri stöðu lýsingarorðs (eða fornafns) í setningu.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að seinni kosturinn er vænlegri, og ég tek eftir því að hann hefur orðið fyrir valinu í Íslenskri nútímamálsorðabók – þar eru þannig, svona og svoleiðis skráð sem lýsingarorð (og vitanlega atviksorð líka). Einhverjum gæti dottið í hug að hafa það á móti þeirri greiningu að orðin stigbreytast ekki – en þótt stigbreyting sé vissulega eitt megineinkenni lýsingarorða fer því fjarri að öll lýsingaorð stigbreytist (sbr. hugsi, þurfi, andvaka, samferða og fjöldi annarra sem enda á -a). Það kæmi líka til greina að líta á orðin sem fornöfn, enda standa þau að merkingu og notkun mjög nálægt orðinu slíkur sem stundum er kallað „óákveðið ábendingarfornafn“ en greint sem lýsingarorð í Íslenskri nútímamálsorðabók. En þau eru ekki atviksorð í þessari notkun.

Posted on Færðu inn athugasemd

Á nóinu

Orðasambandið á nóinu merkir 'þegar í stað, umsvifalaust' og er komið af enska sambandinu in no time sem hefur sömu merkingu. Á tímarit.is má finna samtals 60 dæmi um á no time og á nó tæm, þar sem „no time/nó tæm“ er oftast innan gæsalappa. Elsta dæmið er frá 1963 og fram til 1980 eru dæmin samtals 21, en fækkar þá snögglega. Elsta dæmið um íslensku útgáfuna á nóinu er frá 1968 – úr sögunni „einsog kirkja“ eftir Megas, hvort sem hann er upphafsmaður þessa eða ekki. Dæmin fram til 1980 eru samtals sex, en fjölgar þá snögglega. Umskiptin úr á no time / nó tæm í á nóinu eru því mjög skýr.

Megas sá vitaskuld enga ástæðu til að biðjast afsökunar á þessu orðfæri með gæsalöppum en það var þó iðulega gert framan af, og einnig fylgdu sambandinu oft afsakanir í orðum – „eins og nú er sagt“, „eins og það heitir á nútímaíslensku“ o.fl. En bæði gæsalappir og slíkar afsakanir sjást mjög sjaldan á síðari árum sem bendir til þess að sambandið sé orðið viðurkennt í málinu. Það komst líka snemma inn í bókmenntirnar – áðurnefnd saga Megasar er reyndar nánast óþekkt en þeim mun þekktari er texti Bjartmars Guðlaugssonar, „Týnda kynslóðin“, frá 1987 – „Barnapían er með blásið hár / og pabbi yngist upp um átján ár á nóinu“.

Þarna er enska neitunin, no, tekin og gerð að íslensku nafnorði sem yfirtekur merkingu sambandsins í heild – enska nafnorðið, time, dettur alveg út. En neitunin er ekki tekin óbreytt inn, heldur látin hafa ákveðinn greini og beygingarendingu sem sýnir að orðið er meðhöndlað sem hvorugkynsorð. Það er ekkert athugavert við sem hvorugkynsorð – það rímar t.d. við frjó, gró, hró o.fl. Orðið kemur að vísu bara fyrir í þessu sambandi og þar af leiðandi aðeins í myndinni nóinu, en það er ekki einsdæmi – sama er að segja um taktein í sambandinu á takteinum, boðstól í sambandinu á boðstólum, o.fl.

Þegar að er gáð er þetta því í raun afskaplega skemmtileg orðmyndun sem sýnir vel sköpunarmátt málsins. Þarna er hráefnið að vísu erlent en málið vinnur úr því á mjög frumlegan hátt. Það væri mikil skammsýni að amast við þessari nýjung – þess í stað eigum við að nota hana sem dæmi um að íslenska er lifandi mál – ef hún bara fær að sprikla.

Posted on Færðu inn athugasemd

Eiga von á

Stundum verður þess vart að fólki finnst undarlegt eða beinlínis rangt að tala um að eiga von á einhverju þegar það sem um er rætt er óæskilegt á einhvern hátt. Á bak við þetta liggur þá að fólk telur að von hafi þarna sömu merkingu og í sögninni vona. Það er í sjálfu sér skiljanleg til­finning en hún styðst ekki við málhefð – sambandið er „yfir­leitt notað í svipaðri merkingu og orðasam­band­ið búast við, þ.e. úr tengslum við merkingu orð­anna von og vonasegir í Málfarsbankanum. Svo lengi sem rakið verður hefur það verið notað um óæskilega hluti ekki síð­ur en æskilega.  Þannig segir í Fjölni 1835: „Það er von á halastjörnu í haust.“ Í Skírni 1845 segir: „vissu þeir að þeir fyrir þá sök áttu von á þúngbærri hegníngu.“ Í Þjóðólfi 1850 segir: „af því þú lifir og hrærist í auðvirðilegasta hjegóma, þá áttu von á auðvirðilegustu æfilokum.“ Ekkert af þessu getur talist æskilegt.

Í Málfarsbankanum segir: „Orðið von hefur skýra merkingu í málinu og þ.a.l. getur verið óheppilegt að nota orðasambandið eiga von á einhverju þegar um eitthvað slæmt er að ræða.“ En raunar er það í fleiri tilvikum sem von getur vísað til einhvers sem alls ekki er vonast eftir, t.d. í samböndunum eiga ekki von á góðu og eiga sér einskis ills von. Í sambandinu það er von að … er ekki heldur vísað sérstaklega til einhvers æskilegs. Öðru máli gegnir hins vegar um sögnina vona og samböndin vonast eftir og vonast til. Þau vísa held ég alltaf til einhvers sem er æskilegt. Þótt það sé vissulega algengast að nafnorð og samstofna sögn hafi hliðstæða merkingu er það alls ekkert sjálfgefið.

Í fornu máli má líka finna fjölda dæma þar sem von er síður en svo jákvætt orð – það nægir að nefna hér tvö. Í frásögn Gísla sögu af vígi Vésteins segir: „Hún fer heim og segir Gísla að Þorgrímur sat með hjálm og sverð og öllum herbúnaði en Þorgrímur nef hafði bolöxi í hendi en Þorkell hafði sverð og brugðið af handfang „allir menn voru þar upp risnir, sumir með vopnum.“ „Slíks var að von,“ segir Gísli.“ Í frásögn Sturlungu af Flugumýrarbrennu segir: „Og er Gissur kom fram úr hvílunni þá var Sámur rekkjufélagi hans högginn banahögg. Gissur heyrði er Sámur mælti þetta er hann fékk höggið: „Slíks var von,“ segir hann.“ Þarna er augljóst að slíks var () von merkir ekki 'ég vonaðist eftir þessu', heldur 'þetta var viðbúið'.

Hitt má til sanns vegar færa að í einstöku tilvikum getur þessi notkun verið óheppileg eins og bent er á í Málfarsbankanum: „Þetta getur verið neyðarlegt og jafnvel meiðandi, t.d. í setningum á borð við: hann á jafnvel von á að að fleiri hafi farist í jarðskjálftanum.“ Í slíkum tilvikum geta hugrenningatengsl við vona og vonast til/eftir vissulega truflað fólk og sjálfsagt að taka tillit til þess og forðast að nota eiga von á við slíkar aðstæður. En það breytir því ekki að sambandið eiga von á er og hefur alltaf verið hlutlaust – felur ekki í sér að sérstaklega sé vonast til þess sem um er rætt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Slæsa

Nýlega kom orðið slæsa sem stundum er notað um pitsusneið upp í umræðum í Málspjalli á Facebook. Þetta orð er augljóslega komið af enska orðinu slice og mér fannst það óþarft í fyrstu. En ég skipti um skoðun þegar ég fór að átta mig betur á orðinu og merkingu þess. Þess vegna gat ég ekki stillt mig um að smella af mynd þegar ég átti leið fram hjá nýjum pitsustað vestur í bæ, um leið og ég ítreka ég þá skoðun mína að það sé ekkert við þetta orð að athuga þótt það sé komið úr ensku. Fyrir því eru fjórar ástæður.

Í fyrsta lagi fellur orðið ágætlega að íslensku hljóðkerfi og beygingarkerfi – við enska orðið hefur verið bætt -a til að gera það að veiku kvenkynsorði, sbr. dræsa. Í öðru lagi þjónar þetta orð ákveðnum tilgangi, hefur merkingu sem ekki var áður til sérstakt orð fyrir, þ.e. 'pitsusneið sem er seld sér'. Í þriðja lagi kemur orðið ekki í staðinn fyrir sneið og mun ekkert útrýma því orði, heldur er notað meðfram, einmitt vegna þessarar sérhæfðu merkingar sem það hefur.

Í fjórða og síðasta lagi er orðið sjálfsprottið meðal (ungra) málnotenda. Eins og ég hef áður nefnt er mikilvægt að gefa unga fólkinu hlutdeild í málinu – láta ekki eins og íslenska sé einkaeign okkar fullorðna fólksins (jafnvel eftirlaunafólks eins og mín) sem ekki megi hrófla við. Unga fólkið verður að fá að nota íslenskuna eins og það kýs, þótt jafnframt sé sjálfsagt að leiðbeina því og leggja áherslu á gildi þess að halda í hefðir málsins.

Posted on Færðu inn athugasemd

Af rökréttu máli

Algengasta röksemd sem beitt er gegn nýjungum og tilbrigðum í máli er að þau séu ekki rökrétt. Að margra áliti er það hin endanlegi dómur yfir tilbrigðum og gefur ótakmarkað veiðileyfi á þau. Meðal þess sem er talið órökrétt er

Ég hef fjallað um flest þessi atriði í pistlum, og það væri auðvelt að tína til margfalt fleiri af sama tagi. Ég gæti líka auðveldlega vísað í heimildir um að amast hafi verið við þessum atriðum á þeim forsendum að þau séu ekki rökrétt en það er óþarfi – þið þekkið þetta örugglega öll. Sumt af þessu byggist reyndar á misskilningi á merkingu orða. Það er t.d. ljóst að erlendis hefur alla tíð getað merkt bæði ‚í útlöndum‘ og ‚til útlanda‘. Sömuleiðis merkir slátra ekki bara ‚drepa‘ heldur ‚lóga dýri til matar og tilreiða kjöt og innmat í því skyni‘.

En þetta er ekki aðalatriði málsins, heldur hitt að tungumálið er ekki, hefur aldrei verið, og á ekki að vera rökrétt. Tungumálið er samskiptakerfi sem hefur þróast í hundruð þúsunda ára og mótast af alls konar aðstæðum á tilviljanakenndan hátt. Í ljósi sögunnar væri mjög undarlegt ef það væri fullkomlega „rökrétt“. Tungumálið þarf hins vegar að vera nothæft sem samskiptatæki og til þess þarf að vera sæmilegt samkomulag í málsamfélaginu um form þess og beitingu. En forsenda þess samkomulags er ekki að málið sé „rökrétt“.

Það sem ég hef hins vegar reynt að sýna fram á í pistlunum sem vísað er í hér að framan er að þessi „órökréttu“ tilbrigði séu miklu merkilegri og áhugaverðari en svo að það sé hægt að vísa þeim út í hafsauga sem tilviljanakenndum rökleysum, „málvillum“. Þvert á móti – í flestum tilvikum er hægt að sýna fram á, eða a.m.k. leiða rök að því, að tilbrigðin stafi af því að málnotendur eru – ómeðvitað – að leita að kerfi. Máltilfinning þeirra finnur eitthvað athugavert við það sem hefur verið talið „rétt“, finnst það ekki falla almennilega að því málkerfi sem þeir hafa komið sér upp, og leitast við að bæta úr því.

Sú hugmynd eða krafa að tungumálið eigi alltaf að vera rökrétt ber vott um djúpstæðan en almennan misskilning á eðli tungumálsins. Hún er vond vegna þess að hún er röng. En hún er líka vond vegna þess að hún vinnur gegn tungumálinu. Hún bannar málnotendum að leita betra samræmis í málkerfi sínu og eykur þannig á óstöðugleika sem á endanum getur ýtt undir málbreytingar í stað þess að hamla þeim. Og síðast en ekki síst – hún hamlar hvers kyns nýsköpun, frjórri hugsun, og leik með tungumálið. Tungumál sem væri fullkomlega rökrétt væri óbærilega leiðinlegt. Þá gætum við eins talað forritunarmál.