Search: Laxdal

Skáldskaparfræði Eiríks Laxdals

Jón Karl Helgason, 18/12/2023

Í nýútkominni Griplu birti ég fræðigrein um frásagnarfræðileg einkenni Sögu Ólafs Þórhallasonar eftir Eirík Laxdal. Greinin er skrifuð á ensku og ber titilinn "“Should she tell a story …” In Quest of Eiríkur Laxdal’s Poetics". Á það er bent að sagan eigi ýmislegt sameiginlegt með frásagnarbókmenntum fyrri alda og í því sambandi gerður samanburður á henni og hinni forngrísku Ódysseifskviðu, arabíska  sagnasafninu  Þúsund  og  einni  nótt  og  franska  miðaldatextanum  Leitin að  hinum  helga  gral.  Þegar  tekið  er  tillit  til  efniviðar,  uppbyggingar  og  jafnvel  persónusköpunar  Ólafssögu  má  líta  á  hana sem skilgetið afkvæmi aldalangrar bókmenntahefðar lagskiptra frásagna þar sem ekki er aðeins unnið úr munnlegri sagnahefð heldur er sú hefð beinlínis sett á svið.

Skáldskaparfræði Eiríks Laxdals

Jón Karl Helgason, 12/03/2023

Í framhaldi af fyrirlestri mínum á Hugvísindaþingi tek ég þátt í ráðstefnu í Zurich 23.til 24. mars um frásagnarbókmenntir átjándu aldar. Ráðstefnan er hluti af viðamiklu rannsóknarverkefni sem Lena Rohrbach og fleiri fræðimenn við háskóla í Zurich og Basel hafa staðið að undanfarin ár og beinist þar athyglin að þróun skáldsögunnar sem bókmenntagreinar á Norðurlöndum á viðkomandi tímabili. Ég hyggst fjalla um tengsl Ólafssögu við sígildar frásagnarbókmenntir fyrri alda, einkum Odysseifskviðu, Þúsund og eina nótt og Leitina að hinum helga gral. Sæki ég í þessari umfjöllun mjög til skrifa búlgarsk-franska fræðimannsins Tzvetans Todorov í verkinu The Poetics of Prose. Nefnist fyrirlesturinn "Saga Ólafs Þórhallasonar and the Literary Tradition" og er á dagskrá föstudaignn 24. mars kl. 11.30.

Listasmiðurinn Eiríkur Laxdal

Jón Karl Helgason, 10/03/2016

saga ólafs"Margt smátt ...." er yfirskrift málstofu sem ég tek þátt í á Hugvísindaþingi föstudaginn 11. mars kl. 15.15-17.15 í stofu 220 í aðalbyggingu Háskóla Íslands. Þar verða kannaðir snertifletir smásögunnar við aðrar skyldar bókmenntagreinar, svo sem örsögur, þjóðsögur, nóvellur og skáldsögur. Rúnar Helgi Vignisson fjallar um breytileg birtingarform smásagna, Ástráður Eysteinsson ræðir um sagnaheim Franz Kafka, Kristín Guðrún Jónsdóttir varpar ljósi á bókmenntahugtökin örsaga, smáprósi og prósaljóð en sjálfur hyggst ég kanna tengsl einnar elstu og jafnframt merkust skáldsögu íslenskrar bókmenntasögu við íslenska þjóðsagnahefð. Fyrirlestur minn ber titilinn "Listasmiðurinn Eiríkur Laxdal. Frásagnarrammar og þjóðsögur í Sögu Ólafs Þórhallasonar." Ég mun sérstaklega skoða þjóðsöguna „Selmatseljan“, sem birtist í þjóðsagansafni Jóns Árnasonar árið 1862. Um hana hef ég nýverið birt stutta grein á Hugrás. Frumgerð sögunnar er að finna í Sögu Ólafs Þórhallasonar sem er talin vera skrifuð í kringum aldamótin 1800. Dæmið sem hér um ræðir varpar skýru ljósi á listræn tök Eiríks á því flókna frásagnarformi sem hann velur skáldsögu sinni.

Óland kortlagt

Jón Karl Helgason, 08/02/2024

"Óland kortlagt - Skáldskapur Eiríks Laxdals í íslensku og alþjóðlegu samhengi" er titill á ráðstefnu sem haldin verður í Eddu - Húsi íslenskunnar dagana 30. og 31. ágúst 2024. Ráðstefnan er haldin undir merkjum Árnastofnunnar og Bókmennta- og listfræðastofnunar og verða fyrirlestrar ýmist fluttir á íslensku eða ensku. Ráðstefnustjórn skipa: Romina Werth, Margrét Eggertsdóttir og Jón Karl Helgason. Hér fyrir neðan má dagskrá og einnig (enn neðar) skrá yfir efni sem tengist Eiríkum og verkum hans:

 

Föstudagur 30. ágúst eftir hádegi

Setning

Margrét Eggertsdóttir býður gesti velkomna fyrir hönd ráðstefnustjórnar

Þorsteinn Antonsson: Um hvern haldið þið að ég sé að tala?

 

Prósaverk Eiríks Laxdals í bókmenntalegu samhengi

Lena Rohrbach: Genre memory and novelization: Laxdal and the saga tradition

Eiríkur Laxdal‘s two prose texts Ólands saga and Ólafs saga Þórhallasonar have been denoted as early Icelandic novels or also proto-novels due to their radical innovativeness of storytelling in close relation to earlier and contemporaneous foreign literary models. In all their innovativeness, the two texts are however deeply rooted in the Icelandic premodern narrative tradition, not only in terms of their self-designation as sagas, but also in their recourse to traditional narrative patterns, techniques and modes. In my paper, I will discuss how the peculiar literary style of these two sagas unfolds exactly in this tension between innovativeness and indebtedness to tradition. In this regard, Laxdal‘s sagas are in line with and in certain ways a paradigmatic example of the continuous reformulation and reinvention of narrative traditions over centuries and a reflection of a productive and active genre memory at work.

Ásdís Rósa Magnúsdóttir: Um Ólafs sögu Þórhallasonar og rammafrásagnir á 18. öld.

(Lýsing á fyrirlestri væntanleg)

Kaffihlé

Kristján Bjarki Jónasson: Andupplýsing á Skaga? Frásagnarlist alþýðunnar í Ólafs sögu Þórhallasonareftir Eirík Laxdal í ljósi fagurfræði Sturm und Drang

Íslenskur skáldskapur á seinni hluta 18. aldar sem stendur á grunni eldri íslenskra bókmenntagreina virðist ekki láta sveigja sig svo glatt undir nytsemis- og ögunarkröfur upplýsingarmanna. Efamál er þó að þar sé á ferð hugsuð andstaða við fagurfræði upplýsingarinnar. Hins vegar viðra samtímamenn og jafnaldrar Eiríks Laxdal á þýskumælandi menningarsvæðinu á 7. og 8. áratug 18. aldar hugmyndir um listaverk sem beinlínis er teflt gegn upplýsingunni. Þar er án efa áhrifamestur Johann Gottfried Herder sem gagnrýnir hve fjarri alþýðunni og menningu hennar upplýsingin sé. Það er áleitin spurning hvort Eiríkur Laxdal sé sama sinnis og Herder, Hamann eða von Gerstenberg í leit þeirra að „rödd og anda alþýðunnar“ í andstöðu við nytsemishyggju og siðferðisögun upplýsingar.

Jón Karl Helgason: Eiríkur Laxdal og Baldvin Einarsson: Frumkvöðlar í skáldsagnagerð?

Það var lengi haft fyrir satt að Jón Thoroddsen, höfundur Pilts og stúlku (1850) og Manns og konu (1868), væri frumkvöðull skáldsagnagerðar á Íslandi.  Í seinni tíð hafa verið gerðar ýmsar athugasemdir við þessa söguskoðun, einkum með hliðsjón af handritum sem lítil þekking lá fyrir um fram á tuttugustu öld. Þar marka tímamót rannsóknir Steingríms J. Þorsteinssonar frá 1943 en hann var fyrstur til að kortleggja þá „skáldsagnaritun eða tilraunir þær til skáldsagnagerðar“ sem gerðar höfðu verið áður en Piltur og stúlka kom út. Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að stöðu Ólafssögu í þessari meintu þróunarsögu íslensks prósaskáldskapar en einnig vakin athygli á vissum sameiginlegum einkennum hennar og fyrsta árgangs tímaritsins Ármanns á Alþingi (1829) eftir Baldvin Einarsson. Spurt verður hvort þar sé á ferð elsta frumsamda skáldsagan sem prentuð var hér á landi á nítjándu öld.

Ráðstefnukvöldverður

***

Laugardagur 31. ágúst fyrir hádegi

Heimur þjóðsagna og yfirnáttúru í verkum Laxdals

Sveinn Yngvi Egilsson: Kóngafólk og kynjaverur í ímyndaðri Evrópu: Sagnaheimur Ólandssögu

Í fyrirlestrinum verður fjallað um Ólandssögu (1777) eftir Eirík Laxdal (1743–1816). Sagan gerist í goðsögulegri fortíð víkingaaldar og fjallar um átök konungsætta og kynjavera um völd og áhrif. Höfundurinn býr til ævintýralegan heim sem tengist þó þekktum stöðum og staðreyndum. Einhvers konar Evrópa er sögusviðið en hún er hér kölluð Óland. Persónusafnið er stórt og litríkt, mannanöfn táknræn og lýsandi og örnefni sömuleiðis. Sagnaminnin eru fengin úr ýmsum áttum, ekki síst úr rómönsum og ævintýrum. Við sögu koma álög, barnsburðir, draumar, ferðalög, forneskja, fóstbræðralög, giftingar, hamskipti, haugbúar, hernaðir, kvonbænir, risar, skipbrot, töfl, tröll, útburðir, veislur og víg, svo fátt eitt sé talið. Allt fléttast þetta saman í flókinni frásögn sem skiptist í ákveðna þætti og undirsögur. Í fyrirlestrinum verður hugað að heimsmynd Ólandssögu og þá sérstaklega að því hlutverki sem yfirnáttúra og ummyndanir gegna í henni.

Rósa Þorsteinsdóttir: Ólensk, íslensk og erlend ævintýri

Ætlunin er að skoða bæði íslensk og erlend tilbrigði ævintýra sem eiga sér samsvörun í Ólandssögu Eiríks Laxdals. Þarna er hægt að finna ævintýri sem hafa auðsjánlega verið þekkt mjög lengi á Íslandi, svo sem sagan af Vilfríði Völufegri og sagan af Finnu forvitru sem bæði voru skráð snemma á 18. öld. Einnig nokkur sem ekki eru skráð fyrr en á 19. öld en hafa þó yfir sér þann blæ að teljast verður líklegt að þau hafi gengið í munnmælum mun fyrr. Áhugaverðust í þessu sambandi er þó sagan sem samkvæmt alþjóðlegu flokkunarkerfi þjóðsagna er flokkuð sem ATU 710 Our Lady’s Child, en sú saga virðist helst hafa borist út í munnlega íslenska þjóðsagnahefð eftir að hún birtist fyrst í þýðingu Jóhanns Halldórssonar á Grimmsævintýrinu „Marienkind“ árið 1841.

Kaffihlé

Romina Werth: Sagnagerðin ATU 706 Stúlkan án handa og birtingarmynd hennar í Ólandssögu

Sagnagerðin ATU 706 Stúlkan án handa, eða nánar tiltekið undirgerðin ATU 706C Faðirinn sem vildi giftast dóttur sinni, er gömul og alþjóðleg ævintýragerð. Hún finnst m.a. í enskum, frönskum og þýskum miðaldabókmenntum en hefur einnig verið vinsælt sagnaefni í almúgabókum. Samkvæmt Einari Ól. Sveinssyni kynntist Eiríkur erlendu sagnaefni og sagnasöfnum á meðan hann var staddur í Kaupmannahöfn á árunum 1769‒1775 (1940, 102‒5). Það er því athyglisvert að Eiríkur notar sagnagerðina í Ólandssögu, í þætti Af Helgu hinni vænu (kafli 1‒19) sem og í lok Rauðsþáttar (kafli 30‒34) en ævintýragerðin er einnig útbreidd meðal íslenskra ævintýra sem safnað hefur verið á 19. öld. Í erindinu mínu mun ég fjalla um hvernig Eiríkur hefur unnið úr sagnagerðinni ATU 706/706C og aðlagað henni að Ólandssögu. Notaði hann erlendar fyrirmyndir af ATU 706/706C að einhverju marki eða vann hann alfarið úr íslenskum munnmælasögum og jafnvel íslenskum miðaldabókmenntum? Er sá möguleiki fyrir hendi að Ólandssaga hafi mótuð yngri íslensk tilbrigði af ATU 706/706C?

Aðalheiður Guðmundsdóttir: Um heima og geima í Ólafs sögu Þórhallasonar

Á ferðalagi sínu umgengst Ólafur Þórhallason fjölda fólks, bæði mennska menn og álfa. Söguheimurinn er í senn sérstæður og hefðbundinn, og í raun er um að ræða ímyndaðan heim sem er þó að sama skapi kunnuglegur, því að allar helstu efniseiningarnar eru sóttar í innlenda sagnahefð, bæði þjóðsögur og bókmenntir fyrri alda. Innan hins breiða söguramma sem snýr að ferðalögum Ólafs kemur höfundur að mörgum sagnaeiningum þannig að til verða þættir innan þátta, þræðir innan þráða og jafnvel útúrdúrar innan útúrdúra. Í fyrirlestrinum mun ég taka fyrir einn þátt úr sögu Ólafs, en uppistöður hans eru kaflar 11–19 undir öðrum kvöldvökulestri. Í þættinum segir frá Sveini og bræðrum hans sem hafa búið á hálendinu frá því að foreldrar þeirra lögðust út vegna sakamáls. Við sögu koma einnig tólf bræður, útlegumenn, sem urðu fyrir álögum og kemur það í hlut Sveins að leysa þá úr ánauð.

 

Matarhlé

***

Laugardagur 31. ágúst eftir hádegi

Formtilraunir og framhaldslíf verka Laxdals

María Anna Þorsteinsdóttir: Leitin að réttu formi: Af Hermóðsrímum og Ingibjargarrímum alvænu og sama efni Ólandssögu.

Eftir Eirík Laxdal liggja sex rímur í handritum. Fernar þeirra fjalla um efni sem tengist riddara- og fornaldarsögum, en tvennar greina frá ævintýrum sem einnig segir af í Ólandssögu, fyrri skáldsögu höfundarins. Í handriti segir að rímurnar séu ortar annars vegar 1777 og hins vegar 1778. Ritunartími Ólandssögu hefur verið miðaður við að rímurnar séu ortar eftir skáldsögunni (E.Ó.S. Um íslenzkar þjóðsögur, 1940) eins og algengast var í rímnaskáldskap Íslendinga. Líkt og í Sögu Ólafs Þórhallasonar síðari skáldsögu Eiríks, sem kölluð hefur verið álfasagan mikla, er efniviður Ólandssögu sóttur að mestu til íslenskra þjóðsagna og þá íslenskra ævintýra. Hliðstæður við ævintýri Ólandssögu má finna í útgefnum þjóðsagnasöfnum og sum ævintýrin birtast oftar en einu sinni í skáldsögunni. Bygging Ólandssögu er ekki eins nútímaleg og í Ólafssögu, heldur líkist hún svokölluðum þáttasögum fyrri tíma.  Ævintýrin eru fléttuð saman með ýmsum hætti í tíma og rúmi og persónurnar flækjast um í annarra manna sögum, ef svo má segja.  Markmiðið virðist vera að skrifa samfelldan texta um ættarsögu Ólandskonungs og Helgu drottningar hans þar sem lesa má hugmyndir Eiríks um hið nýja þjóðskipulag Evrópu 18. aldar, hið svokallaða upplýsta einveldi. Íslenskur rímnaskáldskapur verður seint kallaður frumlegur hvorki hvað varðar efni né form og í 500 ár fólst frumleikinn helst í að skapa nýjar kenningar og bragarhætti. Eiríkur er afar frumlegur í báðum skáldsögum sínum svo að líkja má við ósvífni gagnvart hugmyndum samtímamanna hans um hvaðeina er viðkom vísindum og sálfræðilegu innsæi. Athygli vekur að eitt helsta einkenni ævintýra, sem eru álög og hamskipti persóna, skýrir Eiríkur út frá persónulegum einkennum líkt og nútíma sálfræðingar gera og það sem þjóðtrúin kallaði galdra á fyrri tímum skýrir hann með nýjustu tækni í vélfræði. Er Eiríkur jafnróttækur í rímnaskáldskapnum og Ólandssögu  þegar hann skrifar um sama efni? Um það fjallar þessi fyrirlestur.

Katelin Marit Parson: Gáðu að því að Gvendur hér ei gelur kvæði: Kortlagning áhrifavalda í rímnakveðskap Eiríks Laxdals

(Lýsing á fyrirlestri væntanleg)

Kaffihlé

Madita Knöpfle: The materiality of storytelling: Eiríkur Laxdal's sagas in manuscript and print

This paper delves into the manuscripts of Eiríkur Laxdal’s Ólandssaga and Ólafs saga Þórhallasonar, examining the visual presentation of the stories. Drawing from narrative theory (i.e., Wolf Schmid) and media philosophy (i.e., Sybille Krämer) with consideration of New Philology, I discuss the correlation of narrativity and the materiality of writing. Through an analysis of Laxdal’s manuscripts, I show that so-called paratextual elements such as chapter headings or different types of scripts contribute to the formation of meaning. The findings suggest that in order to gain a deeper understanding of Laxdal's works, narratological research benefits from taking the manuscripts into consideration, using the prints only as an aid and not as objects of research. In this way, historical narrative theory finally puts the demands of New Philology into practice.

Lokaávarp

Sjón: Af álfum var þar nóg 

Samtal nýsúrrealista við neðanjarðarbókmenntir Eiríks Laxdals

 

--------------------------------

Efni sem tengist Eiríki Laxdal og verkum hans

Handrit að sögum

  • Ólandssaga. Lbs 554 4to. Ísland, 1820.
  • Ólafs saga Þórhallasonar. Lbs 152 fol. Ísland, 1800.
  • Ólafs saga Þórhallasonar. Lbs 151 fol. Ísland, 1800-1899.
  • Þjóðsögur teknar upp úr Ólafs sögu. ÍB 51 8vo. Þjóðsögur. Ísland, 1856.

Handrit að rímum

  • Heiðbjartsríma. JS 51 4to. Rímur af Reinald og Rósu. Ísland, 1770.
  • Heiðbjartsríma. JS 52 4to. Ísland, 1798.
  • Heiðbjartsríma. ÍB 783 8vo. Samtíningur. Ísland, 1801-1875.
  • Heiðbjartsríma. Lbs 188 8vo. Rímnakver. Ísland, 1850-1870.
  • Rímur af Belflor greifa og Leónóra. JS 585 4to. Rímur eftir Eirík Laxdal. Ísland, 1777-1786.
  • Rímur af Ingibjörgu alvænu. JS 585 4to. Rímur eftir Eirík Laxdal. Ísland, 1777-1786.
  • Rímur af Ingibjörgu alvænu. Lbs 2300 8vo. Rímnabók. Ísland, 1822-1823.
  • Rímur af Ingibjörgu alvænu. Lbs 4848 8vo. Rímnabók. Ísland, 1898-1898.
  • Rímur af Hálfdani Barkarsyni. ÍB 392 8vo.Upsabók. Ísland, 1750-1799.
  • Rímur af Hálfdani Barkarsyni. Lbs 540 8vo. Rímnakver. Ísland, 1810-1841.
  • Rímur af Hálfdani Barkarsyni. Lbs 2300 8vo. Rímnabók. Ísland, 1822-1823.
  • Rímur af Hálfdani Barkarsyni. ÍB 505 8vo. Ísland, 1867.
  • Rímur af Hálfdani Barkarsyni. Lbs 4848 8vo. Rímnabók. Ísland, 1898-1898.
  • Rímur af Hermóði og Hlaðvöru. JS 585 4to. Rímur eftir Eirík Laxdal. Ísland, 1777-1786.
  • Rímur af Hermóði og Hlaðvöru. Lbs 2300 8vo. Ísland, 1822-1823.
  • Rímur af Hermóði og Hlaðvöru. Lbs 4848 8vo. Rímnabók. Ísland, 1898-1898.
  • Rímur af Norna Gesti. Lbs 247 8vo. Rímnasafn X. Ísland, 1700-1899.
  • Rímur af Pólenstator og Möndulþvara. ÍB 622 8vo. Ísland, 1852.

Handrit með stökum kvæðum, sálmum og ljóðabréfum 

Útgáfur

  • Eiríkur Laxdal. Saga Ólafs Þórhallasonar. Álfasagan mikla, Útg. Þorsteinn Antonsson og María Anna Þorsteinsdóttir. Reykjavík: 1987.
  • Eiríkur Laxdal. Ólandsaga. Útg. Þorsteinn Antonsson og María Anna Þorsteinsdóttir. Reykjavík: 2006 og 2018.

Fræðileg umfjöllun

  • Einar Ól. Sveinsson. Um íslenzkar þjóðsögur. Reykjavík: Sjóður Margrétar Lehmann-Filhés, 1940.
  • Einar Ólafur Sveinsson. Verzeichnis isländischer Märchenvarianten. Mit einer einleitenden Untersuchung. Folklore Fellows’ Communications 83. Helsingfors; Leipzig: Suomalainen Tiedeakatemia; [O. Harrassowitz], 1929, s. LXXII og áfram.
  • Einar Ól. Sveinsson. The Folk-Stories of Iceland. Þýð. Benedikt S. Benedikz. London: Viking Society for Northern Research, 2003.
  • Guðbrandur Vigfússon. “Formáli að 1. útgáfu.” Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Safnað hefur Jón Árnason. 2. bindi. Útg. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1954, xv−xxxviii.
  • Jón Karl Helgason. “Should she tell a story…” In Quest of Eiríkur Laxdal's Poetics." Gripla 34 (2023): 347-374.
  • Jón Özur Snorrason. "„Ófrumlegir síðalingar“ og „herfilegur samsetningur“." Lesbók Morgunblaðsins 24. apríl 1993, 8-9.
  • Knöpfle, Madita. “Conceptions of Authorship. The Case of Ármanns rímur and Their Reworkings in Early Modern Iceland.” In Search for the Culprit. Aspects of Medieval Authorship. Ritstj. Stefanie Gropper og Lukas Rösli. Berlin and Boston: De Gruyter, 2021, 239−264.
  • Margrét Eggertsdóttir. „From Reformation to Enlightenment“. Í A History of Icelandic Literature. Ritstj. Daisy L. Neijmann. Histories of Scandinavian literatures 5. Lincoln; London: University of Nebraska Press, 2006, 174–250.
  • María Anna Þorsteinsdóttir. Tveggja heima sýn. Saga Ólafs Þórhallasonar og þjóðsögurnar. Studia Islandica 53. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun, Háskóli Íslands, 1996.
  • Matthías Viðar Sæmundsson. “Sagnagerð frá upplýsingu til raunsæis.” Íslensk bókmenntasaga, vol. 3, ed. by Halldór Guðmundsson. Reykjavík: Mál og menning, 1996, 495−588.
  • Rohrbach, Lena. "Romanhaftwerdungen. Isländische Prosaliteratur der späten Vormoderne, Mikhail Bakhtin und Ansätze einer historisch-mediologischen Narratologie". Í Medialität. Historische Perspektiven. Newsletter 23 (2021), 14-19.
  • Rohrbach, Lena. “Subversive Inscriptions. The Narrative Power of the Paratext in Saga Ólafs Þórhallasonar.” Væntanleg í Scandinavian Studies.
  • Rohrbach, Lena. “Weibliche Stimmen – männliche Sicht. Rekalibrierungen von Gender und Genre in der Ólafs saga Þórhallasonar.” Þáttasyrpa. Studien zu Literatur, Kultur und Sprache in Nordeuropa. Festschrift for Stefanie Gropper, ed. by Anna Katharina Heiniger, Rebecca Merkelbach, and Alexander Wilson, Beiträge zur Nordischen Philologie 72. Tübingen: Francke, 2022, 257−265.
  • Rósa Þorsteinsdóttir. “Íslensk og ólensk ævintýri.” Tímarit Máls og menningar 69/1 (2008): 131−135.
    Rósa Þorsteinsdóttir. “Middle Eastern Tales in Icelandic Tradition.” Narrative Culture 10/1 (2023): 151-173.
  • Stefán Einarsson. A History of Icelandic Literature. New York: Johns Hopkins Pr, 1957.
  • Stefán Einarsson. Íslensk bókmenntasaga 874−1960. Reykjavík: Snæbjörn Jónsson, 1962.
  • Steingrímur J. Þorsteinsson. Jón Thoroddsen og skáldsögur hans. 1. bindi. Reykjavík: Helgafell, 1943, 180 og áfram.
  • Sveinn Yngvi Egilsson. “Leiðin til nútímans.” Íslenskar bókmenntir. Saga og samhengi. 2. bindi. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2022, 405−525.
  • Werth, Romina. “Inngangur.” Andlit á glugga. Úrval íslenskra þjóðsagna og ævintýra. Útg. Romina Werth og Jón Karl Helgason. Reykjavík: Mál og menning, 2021, 9−35.
  • Þorsteinn Antonsson. “Höfundurinn og sagan.” Í Eiríkur Laxdal, Saga Ólafs Þórhallasonar. Álfasagan mikla, ed. by Þorsteinn Antonsson and María Anna Þorsteinsdóttir. Reykjavík: Þjóðsaga, 1987, 373−427.
  • Þorsteinn Antonsson and María Anna Þorsteinsdóttir. Útsýni til Ólands. Um uppruna, hugmyndir, viðhorf og samhengi Ólandssögu eftir Eirík Laxdal. Reykjavík: Sagnasmiðjan, 2018.
  • Örn Ólafsson. "Upplýsing í gegnum þjóðsögur. Um Ólafs sögu Þórhallasonar eftir Eirík Laxdal." Tímarit Máls og menningar 60/2 (1999): 95−104.

Er unnt að lesa Ólafssögu eins og leynilögreglusögu?

Jón Karl Helgason, 12/03/2023

Í annað sinn á sjö árum held ég fyrirlestur um Sögu Ólafs Þórhallasonar eftir Eirík Laxdal á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands laugardaginn 11. mars. Árið 2016 ræddi ég um tengsl verksins við þjóðsöguna "Selmatseljan" en að þessu sinni hyggst ég skoða réttarhöld sem fara fram í sögunni. Þau eru dæmi um þá tilhneygingu höfundar að lýsa sömu viðburðum oftar en einu sinni og varpa stöðugt nýju ljósi á þá. Sagan er að þessu leyti lík hefðbundinni leynilögreglusögu. Fyrirlesturinn er hluti af málstofu um lög og rétt sem er á dagskrá kl. 15-16.30 í stofu 304 í Árnagarði. Ps. Í framhaldi af fyrirlestrinum var ég í viðtali við Gunnar Smára Egilsson á Rauða borðinu um þetta efni.

Bókmenntir og lögfræði - annáll

Jón Karl Helgason, 05/01/2022

Í júní 2020 fékk ég styrk frá HÍ vegna stuðnings við samfélagsvirkni akademísks starfsfólks. Verkefnið, „Lög og bókmenntir“, miðaði að því að efla samræðu milli sviða lögfræði og bókmenntafræði um lög og bókmenntir, m.a. með námskeiðahaldi. Vegna COVID frestaðist upphaf verkefnis um rúmt ár en í millitíðinni hóf ég samstarf við Hafstein Þór Hauksson, dósent við Lagadeild, um þetta verkefni og hafa allir viðburðir verið skipulagðir af okkur í sameiningu. Alls hafa verið skipulögð þrjú tengd námskeið, hið fyrsta með þátttöku starfsfólks Héraðsdóms Reykjavíkur, og síðari tvö með félögum í Lögfræðingafélagi Íslands, og tvær málstofur, sú fyrri á Hugvísindaþingi og sú síðari á Þjóðarspegli. Einnig hefur verkefnið tengst ferð Lögfræðingafélagsins á söguslóðir Sjöundármála, þátttöku Jóns Karls á öðru Hugvísindaþingi og umfjöllun í Lögmannablaðinu. Hér á eftir eru viðburðirnir raktir í tímaröð.

  • 4. nóvember 2021, kl. 20-22. Starfsfólk úr Héraðsdómi ræddi skáldsöguna Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson. Fundarsalur LÍ við Álftamýri.
  • 1. desember 2021, kl. 20-22. Starfsfólk úr Héraðsdómi ræddi skáldsögurnar Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson og Vaðlaklerk eftir Steen S. Blicher og dómsskjöl Sjöundármála. Matsalur Héraðsdóms við Lækjartorg.
  • 9. febrúar 2022, kl. 20-22. Starfsfólk úr Héraðsdómi ræddi skáldsöguna Gott fólk eftir Val Grettisson. Fundarherbergi Lögfræðideildar í Lögbergi. (Fundur átti að vera 12. janúar en var frestað vegna COVID).
  • 13. mars 2022, kl. 13-14.30. Jón Karl Helgason, Ingibjörg Þorsteinsdóttir og Hafsteinn Þór Hauksson fluttu erindi á málstofunni Svartfugl: Vannýtt kennsluefni í lögfræði? en hún var hluti af Hugvísindaþingi. Stofa 202 í Odda.
  • 16. mars 2022, kl. 20-22. Starfsfólk úr Héraðsdómi ræddi skáldsöguna Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón eftir Vigdísi Grímsdóttur. Fundarsalur LÍ við Álftamýri.
  • 26. apríl 2022, kl. 20-22. Starfsfólk úr Héraðsdómi ræddi leikritið Kaupmaðurinn í Feneyjum eftir William Shakespeare. Kaffistofa Héraðsdóms við Lækjartorg.
  • 27. apríl 2022, kl. 17.00. Jón Karl Helgason flutti erindi um Svartfugl fyrir félaga í Lögmannafélagi Íslands. Salur Blaðamannafélags Íslands við Síðumúla. Hluti af undirbúningi fyrir ferð félaga úr Lögfræðingafélagi Íslands viku síðar á söguslóðir Sjöundármála og málstofu á Patreksfirði um réttarhöldin yfir Bjarna Bjarnasyni og Steinunni.
  • 4. október 2022, kl. 17-18.30. Félagar úr Lögfræðingafélaginu ræddu skáldsöguna Útlendinginn eftir Albert Camus. Fundarsalur LFÍ í Álftamýri.
  • 28. október 2022, kl. 11-12.30. Jón Karl Helgason, Hafsteinn Þór Hauksson, Ástráður Eysteinsson og Guðrúnu Steinþórsdóttir fluttu erindi um skáldsögurnar Svartfugl, Réttarhöldin og Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón á málstofunni Lög og bókmenntir en hún var hluti af Þjóðarspegli Félagsvísindasviðs. Stofa 101 Odda.
  • 1. nóvember 2022, kl. 17-18.30. Félagar úr Lögfræðingafélaginu ræddu skáldsöguna Réttarhöldin eftir Franz. Sérstakur gestur Ástráður Eysteinsson. Fundarsalur LFÍ í Álftamýri.
  • 5. desember 2022, kl. 17.-18.30. Félagar úr Lögfræðingafélaginu ræddu skáldsöguna Gott fólk eftir Val Grettisson. Fundarsalur LFÍ í Álftamýri.
  • 10. janúar 2023, kl. 17-19. Félagar úr Lögfræðingafélaginu ræddu skáldsöguna Að drepa hermikráku eftir Harper Lee. Fundarsalur LFÍ í Álftamýri.
  • 7. febrúar 2023, kl. 17-19. Félagar úr Lögfræðingafélaginu ræddu Hrafnkels sögu Freysgoða. Sérstakur gestur Viðar Pálsson. Fundarsalur LFÍ í Álftamýri.
  • 7. mars 2023, kl. 17-19. Félagar úr Lögfræðingafélaginu ræddu leikritið Kaupmanninn í Feneyjum eftir William Shakespeare. Fundarsalur LFÍ í Álftamýri.
  • 11. mars 2023, kl. 13-14.30. Jón Karl Helgason ræddi réttarhöld í Sögu Ólafs Þórhallasonar eftir Eirík Laxdal í málstofunni Í heimi laganna á Hugvísindaþingi. Stofa 304 í Árnagarði.
  • 5. september 2023, kl. 17-19. Félagar úr Lögfræðingafélaginu ræddu Sögu Natans Ketilssonar og Skáld-Rósu eftir Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi. Fundarsalur LFÍ í Álftamýri.
  • 3. október 2023, kl. 17-19. Félagar úr Lögfræðingafélaginu ræddu skáldsöguna Kötu eftir Steinar Braga. Fundarsalur LFÍ í Álftamýri.
  • 31. október 2023, kl. 17-19. Félagar úr Lögfræðingafélaginu ræddu Njáls sögu. Sérstakur gestur Torfi H. Tulinius. Fundarsalur LFÍ í Álftamýri.
  • 5. desember 2023, kl. 17-19. Félagar úr Lögfræðingafélaginu ræddu Sögu þernunnar eftir Margaret Atwood. Fundarsalur LFÍ í Álftamýri.
  • 6. desember 2023, kl. 20-22.30. Félagar úr Lögfræðingafélaginu fór á leiksýninguna Orð gegn orði eftir Suzie Miller og hlýddu á pallborðsumræður í lok sýningar. Kassinn í Þjóðleikhúsinu.
  • 9. janúar 2024, kl. 17-19. Þrettándaboð leshrings félaga í Lögfræðingafélaginu þar sem litið verður um öxl og rætt um eftirminnilegustu verkin sem tekin hafa verið til umræðu, auk þess sem leikritið Orð gegn orði og kvikmyndin Anatomy of a Fall gætu komið við sögu.

Prentað efni sem tengist verkefninu

Lög og bókmenntir. Þemahefti Ritsins 18/1 (2018) í ritstjórn Jóns Karls Helgasonar og Láru Magnúsardóttur.

Glæpir og refsing í bókmenntum.“ Viðtal Eyrúnar Ingadóttur við Jón Karl Helgason um tengsl bókmenntafræði og lögfræði. Lögmannablaðið 28/2 (2022), s. 20-21.

Bókmenntir og lög.“ Lögmannablaðið 28/4 (2022) s. 20-21. Grein eftir Eyrúnu Ingadóttur um námskeið Hafsteins Þórs Haukssonar og Jóns Karls Helgasonar.