Þekkingarfræði (e. epistemology) fæst við eðli og möguleika þekkingar frá heimspekilegu sjónarmiði. Við getum rakið sögu þekkingarfræðinnar á Vesturlöndum í það minnsta aftur til Platons og verksins Þeætetosar, þar sem Sókrates færir rök fyrir því að þekking sé meira en sönn skoðun. Í viðbót þurfum við, að mati Sókratesar, logos – sem segir okkur af hverju sönn skoðun er sönn. Frá Platoni höfum við skilgreiningu á þekkingu sem er svona: þekking er sönn rökstudd skoðun (e. knowledge is justified true belief). En af hverju þurfum við meira en sannar skoðanir? Við erum öll full af skoðunum sem við myndum eftir mismunandi leiðum. Sumar af skoðunum okkar eru sannar á meðan aðrar eru ósannar. Hrein tilviljun getur í sumum tilfellum ráðið því að skoðun sé sönn en í öðrum tilfellum er ástæðan sú að við höfum góða og gilda ástæðu fyrir því að telja skoðunina sanna – þ.e. við höfum rökstuðning fyrir skoðuninni (ath. að enska hugtakið justification er hér þýtt sem rökstuðningur, en það er stundum þýtt sem réttlæting). Til að um þekkingu sé að ræða er almennt talið nauðsynlegt að hafa rökstudda skoðun, þ.e. að vita af hverju maður veit (við komum nánar að vandamálum við þetta skilyrði síðar).
Ekkert af hugtökunum skoðun, sannleikur eða rökstuðningur er einfalt eða auðvelt að skilgreina. Á þessu stigi ætti eftirfarandi að duga.
- Skoðun er hugrænt fyrirbæri sem beinist að fullyrðingu. Að hafa skoðun er að halda að eitthvað og þetta eitthvað sem maður heldur er eðlilegt að setja fram sem fullyrðingu. Dæmi: „ég held að þú sért frænka mín“; í þessu tilfelli höfum við þá hugrænu afstöðu til fullyrðingarinnar „þú ert frænka mín“ að hún sé sönn eða líklega sönn.
- Sannleikur merkir að viðkomandi fullyrðing sé sönn (þetta er auðvitað klifun en í þessu samhengi er óþarfi að skilgreina hugtakið sannleika á annan hátt). Dæmi: Fullyrðingin „þú ert frænka mín“ er sönn ef og aðeins ef „þú“ ert frænka mín (eða sú manneskja sem „þú“ vísar í sé frænka þeirrar mannesku sem „mín“ vísar í; í þessu samhengi er óþarfi að velta fyrir sér skilgreiningu á „frænka“).
- Rökstuðningur er sú ástæða sem við höfum til að ætla að tiltekin fullyrðing sé sönn. Dæmi: Ég held að þú sért frænka mín vegna þess að mamma sagði mér það í gær. Ef ég treysti mömmu til að vita þetta og ef ég treysti henni til að segja mér satt þá hef ég góða og gilda ástæðu til að ætla að „þú“ sért frænka mín.
Öll þessi hugtök eru umdeilanleg og umdeild innan þekkingarfræðinnar. Þetta á sérstaklega við um rökstuðning.
Námskeiðið er í níu hlutum sem samsvara níu köflum í lesbók námskeiðsins. Hér á eftir er yfirlit yfir námskeiðið og hvernig kaflar þess tengjast.
I: Inngangur og efahyggja
Efahyggjan er stóra grýla þekkingarfræðinnar. Hún kemur í ýmsum myndum sem eiga allar sameiginlegt að efast er um möguleika þekkingar. Efahyggjan getur verið sértæk, þ.e. átt við um ákveðin svið þekkingarinnar eins og hinn ytri heim (e. external world), huga annarra (e. other minds) eða minningar (e. memory). Hún getur líka verið altæk, eins og t.d. í sögunni um illa anda Descartes.
Hér að ofan kom fram að það að hafa rökstudda skoðun sé að vita af hverju maður veit eitthvað ákveðið (t.d. að vita af hverju ég veit að þú ert frænka mín). Rökstuðningur af þessu tagi felur oftast í sér tilvísun í einhverja aðra skoðun en þá sem maður telur sig vita. En þá má spyrja um þessa nýju skoðun: Hvernig veistu að hún er sönn? Ef við táknum skoðun með litlum skáletruðum bókstaf má orða þetta svona: Ég veit að f vegna þess að g. En hvernig veit ég að g? Vegna þess að h. Og svo framvegis. Þessi rök hafa verið kölluð afturhvarfsrökin (e. epistemic regress) og út úr þeim virðast bara þrjár leiðir:
- Að stöðva afturhvarfið með því að benda á skoðanir sem þarf ekki að rökstyðja, skoðanir sem eru augljóslega sannar í einhverjum skilningi;
- Sætta sig við að afturhvarfið fari í hring þannig að við endum með því að segja: Ég veit að h vegna þess að f;
- Sætta sig við að rökstuðningurinn haldi áfram endalaust. Einnig gæti maður sætt sig við efahyggjuna og sagt að þekking sé ómöguleg.
II: Uppbygging þekkingar og rökstuðnings
Í þessum hluta skoðum við nánar tilraunir til að mæta afturhvarfsrökunum. Leiðirnar þrjár sem voru nefndar hér að ofan eru eftirfarandi:
- Bjarghyggja (e. foundationalism). Hér er þekking byggð á föstum undirstöðun (stundum kölluð undirstöðuhyggja á íslensku) sem eru skoðanir sem þarfnast ekki rökstuðnings.
- Samkvæmnishyggja (e. coherentism). Hér er þekking byggð á rökstuðningi sem fer í hring.
- Óendanleikahyggja (e. infinitism). Hér er þekking byggð á rökstuðningi sem heldur áfram endalaust (sumir telja þetta í raun vera það sama og að fallast á efahyggjuna).
Við fjöllum fyrst og fremst um tilraunir til að finna undirstöðu fyrir þekkingu og þá sérstaklega fyrir þekkingu á hinum ytri heimi, þ.e. þekkingu sem byggist á skynjun. Skoðanir sem ekki þarfnast rökstuðnings til að teljast þekking eru stundum kenndar við „hið gefna“ (e. the given). Til að kenning af þessu tagi gangi upp þarf að sýna fram á að til séu skoðanir sem uppfylla skilyrði um að teljast áreiðanleg þekking án þess að þarfnast rökstuðnings. Þetta verkefni hefur reynst erfitt – ef ekki ómögulegt – m.a. vegna þess að efahyggjan ræður yfir svo öflugum tækjum. Eins eru önnur og jafnvel alvarlegri heimspekileg vandamál við hugmyndina um hið gefna.
Í þessum hluta kynnumst við líka samkvæmnishyggjunni og síðan tilraun til að blanda saman bjarghyggju og samkvæmnishyggju í því sem kalla mætti bjargkvæmnishyggju (e. foundherentism).
III: Skilgreining þekkingar
Eins og kom fram í inngangi er þekking almennt skilgrein sem sönn rökstudd skoðun. Í þessu felst að til að eitthvað geti talist þekking þarf það að uppfylla þrjú skilyrði:
- Það þarf að vera skoðun;
- Það þarf að vera satt;
- Það þarf að vera rökstutt.
Þessi skilyrði voru alla jafna talin bæði nægjanleg og nauðsynleg. Örstutt grein sem birtist árið 1963 eftir bandaríska heimspekinginn Edmund Gettier sýndi fram á að skilyrðin væru ekki nægjanleg. Hann bjó til dæmi sem sýndu að maður gæti haft sanna rökstudda skoðun án þess að hafa þekkingu. Dæmin virðast langstótt en þau ullu straumhvörfum í þekkingarfræðinni. Eftir Gettier var ekki lengur hægt að ganga að skilgreiningu þekkingar vísri. Viðbrögðin voru af ýmsu tagi. Sumir vildu bæta fjórða skilyrðinu við, skilyrði sem gerði skilgreininguna ónæma fyrir svokölluðum Gettierdæmum. Þetta hefur reynst mikil þraut en leitt til þess að eðli þekkingarfræðilegs rökstuðnings hefur fengið mikla athygli (V. hluti fjallar nánar um kenningar um þekkingarfræðilegan rökstuðning).
Önnur leið til að mæta Gettiervandanum er að hafna því að þekking þarfnist skilgreiningar, þ.e. að hafna því að þekking sé greinanleg í meira grundvallandi þætti. Ein slík kenning segir að þekking sé hugtak sem þarfnast ekki skilgreiningar, að þekking sé grundvallar hugarástand. Þessi kenning er almennt kölluð þekking fyrst (e. knowledge first) og fær talsvert mikla athygli þessi árin.
IV: Þekkingarfræðileg lokun
Ein leið til að reyna að mæta efahyggjuvandanum er að hafna því að rökfærslur sem leiða til efahyggju séu gildar. Ein slík leið er að hafna því að lögmálið um þekkingarfræðilega lokun (e. epistemic closure) eigi við í dæmigerðum efahyggjurökum. Þau geta verið í þessu formi:
- Ef ég veit að ég sit hér og les þá veit ég að mig er ekki að dreyma.
- Ég veit ekki að mig er ekki að dreyma.
- Þess vegna veit ég ekki að ég sit hér og les.
Rökfærsla af þessu tagi hefur oft verið notuð til að grafa undan möguleikum þekkingar. Lögmálið um þekkingarfræðilega lokun segir að ef ég viti eitthvað þá viti ég líka það sem felst í því sem ég veit. Af þessu leiðir af ef hægt er að sýna fram á að ég viti ekki það sem leiðir af því sem ég tel mig vita – í þessu tilfelli ef ég veit ekki að mig sé ekki að dreyma – þá viti ég ekki það sem ég taldi mig upphaflega vita. Sumir heimspekingar hafa hafnað lögmálinu um þekkingarfræðilega lokun og þar með talið sig komast undan niðurstöðu efahyggjunnar.
Málið snýst um hvort við þurfum, við gefnar aðstæður, að geta útilokað allt sem felst í því sem við teljum okkur vita eða bara það sem kalla má aðra viðeigandi valkosti (e. relevant alternatives). Stundum gæti skipt máli að spyrja sig hvort mann gæti verið að dreyma en alla jafna gerir það ekki (þessi kennig líkist því sem við fjöllum um í kafla VIII. og kallast samhengishyggja (e. contextualism)).
V: Kenningar um þekkingarfræðilegan rökstuðning
Ein leið til að mæta Gettiervandanum er að endurskilgreina hugtakið þekkingarfræðilegan rökstuðning (e. epistemic justification). Almennt hefur verið litið svo á að telji maður sig vita þurfi maður sjálfur að hafa aðgang að rökstuðningi fyrir skoðun sinni, að maður hafi hugrænan (e. cognitive) aðgang að rökstuðningnum. Þetta byggir m.a. á þeirri hugmynd að það felist ákveðin ábyrgð í því að halda einhverju fram sem þekkingu og að okkur beri skylda til að geta sagt (og hugsað) af hverju við teljum okkur vita eitthvað.
Kenningar sem segja að við þurfum að hafa hugrænan aðgang að rökstuðningi fyrir skoðunum okkar (þ.e. næstum allar kenningar í þekkingarfræði fram á 8. áratug síðustu aldar) hafa verið flokkaðar saman og kallaðar innanhyggja (e. internalism). Gegn þeim hafa verið þróaðar kenningar sem kallast sameiginlega utanhyggja (e. externalism). Þekktasta utanhyggjukenningin er svokölluð áreiðanleikahyggja (e. reliabilism), en samkvæmt henni er þekking skoðun sem hefur fengist við áreiðanlegt ferli. Dæmi um áreiðanlegt ferli er skynjun við eðlilegar aðstæður. Það sem gerir þessar kenningar að utanhyggjukenningum er sú hugmynd að sá sem telur sig vita þurfi ekki nauðsynlega að hafa hugrænan aðgang að rökstuðningi fyrir þeirri skoðun. Í stað rökstuðnings sem við höfum hugrænan aðgang að höfum við áreiðanlegt ferli sem þarf ekki að vera hugrænt aðgengilegt. Rökstuðningurinn er í þessum skilningi fyrir utan okkur.
Áreiðanleikahyggjan og aðrar utanhyggjukenningar hafa reynst öflugt tæki til að mæta efahyggjunni en þær hafa líka valdið deilum um hvort þekkingarfræði sé yfirhöfuð verkefni fyrir heimspekina. Ferli sem leiðir til áreiðanlegra skoðana er, í skilningi utanhyggjunnar, alla jafna ekki ferli sem hægt er að greina til fullnustu með aðferðum heimspekinnar. Verkefni þekkingarfræðinnar færist þannig frá heimspekinni yfir til annarra fræði- og vísindagreina. Mörgum finnst þetta í lagi en öðrum ekki.
VI: Dyggðaþekkingarfræði og gildi þekkingar
Ef við gefum okkur að áreiðanlegt skoðanamyndandi ferli sé mikilvægt fyrir þekkingu þá hvílir á okkur að greina hvaða ferli leiða til þekkingar (með öllum eðlilegum fyrirvörum um réttar aðstæður o.s.frv.). Til þess þurfum við að greina og meta hugræna hæfileikann eða hugrænu hæfnina (e. cognitive faculty) sem myndar skoðunina. Ein leið til að nálgast það er út frá dyggðahugtakinu. Þetta er nálgun dyggðaþekkingarfræði (e. virtue epistemology) en samkvæmt henni er hugrænt ferli þekkingarfræðilega einhvers virði ef það er þekkingarfræðilega dyggðugt. Dyggð (e. virtue - stundum þýtt sem ágæti) er eitthvað sem maður þroskar með sér í gegnum langan tíma. Það á jafnt við um siðfræðilegar sem þekkingarfræðilegar dyggðir. Sá sem þroskar með sér hæfileikann til að komast að því hvað er satt og rétt í hverju máli hefur þroskað með sér þekkingarfræðilega dyggð eða, með öðrum orðum, áreiðanlegt skoðanamyndandi ferli. Með þessu móti svarar dyggðaþekkingarfræðin kröfunni um að við höfum þekkingarfræðilegar skyldur en heldur jafnframt í meginþætti áreiðanleikahyggjunnar.
Dyggð er oft skilin með tilvísun í markmið. Sú manneskja er dyggðug sem er góð í að ná markmiðum sínum (getur átt við í siðfræði, þekkingarfræði og á öðrum sviðum). Nú má spyrja hvort þekking sé best til að ná ákveðnum þekkingarfræðilegum markmiðum. Gæti sönn skoðun ekki verið alveg eins góð, eða bara rökstudd skoðun? Eða skilningur (e. understanding), sem margir innan þekkingarfræðinnar telja mikilvægari en þekkingu því með skilningi uppfyllum við þekkingarfræðileg markmið okkar betur en með þekkingu.
VII: Náttúruleg þekkingarfræði og a priori þekking
Ein leið áfram fyrir utanhyggju í þekkingarfræði er að líta á manninn sem náttúrulegt fyrirbæri sem myndar sér skoðanir á náttúrulegan hátt. Í sumum tilfellum er um þekkingu að ræða og í sumum ekki. Til að rannsaka þetta náttúrulega skoðanamyndandi fyrirbæri ber að beita aðferðum sem við almennt beitum á náttúruleg fyrirbæri. Í þessu ljósi er eðlilegt að hafna þekkingarfræði eins og hún hefur almennt verið stunduð og gera hana í staðinn að hluta náttúruvísinda. Náttúrvísindalegar rannsóknir (t.d. í sálfræði) á skoðanamyndun eru mun betri aðferð, að mati þeirra sem aðhyllast náttúrulega þekkingarfræði (e. naturalized epistemology), en aðferð heimspekinga. Þekking er eins og hver önnur náttúruleg tegund sem ber að rannsaka sem slíka.
Þessi nálgun á þekkingarfræðina felur ýmislegt í sér. Til dæmis getur falist í henni að við verðum að hafna a priori (fyrirfram gefnum) sannindum eins og grundvallarlögmálum hugsunarinnar. Ef öll tegund þekkingar er viðfang náttúruvísinda þá er hending hver niðurstaða þeirra rannsókna verður. Það á jafnt við um a priori þekkingu sem aðra þekkingu og því er í það minnsta fræðilega möguleg niðurstaða rannsókna að 2+2 séu eitthvað annað en 4 eða A ekki það sama og A.
Náttúruhyggja (e. naturalism) í þekkingarfræði ræðst gegn nokkrum höfuðvígjum heimspekinnar, m.a. áherslu á skynsemi og innsæi sem aðferð sem eigi að stuðla að hlutlægum (e. objective) niðurstöðum. Algeng gagnrýni á hefðbundna heimspeki, sérstaklega frá sjónarhóli feminisma, gengur út frá því að afstaða okkar sé alltaf inngreypt (e. embedded), að við séum aldrei laus við fordóma (e. bias). Rannsókn á manneskjunni sem skoðanamyndandi veru verður að taka tillit til þess. Aðferðafræði náttúruvísindanna, sérstaklega sálfræðinnar, sé mun betri til þess en aðferðir hefðbundinnar heimspeki. Þetta kallar síðan á umræðu um stöðu innsæis við rannsóknir í þekkingarfræði.
VIII: Þekking og samhengi
Byrjum með dæmi úr þriðja hluta (um þekkingarfræðilega lokun). Eftirfarandi gild rökfærsla er dæmigerð innan efahyggjunnar:
- Ef ég veit að ég sit hér og les þá veit ég að mig er ekki að dreyma.
- Ég veit ekki að mig er ekki að dreyma.
- Þess vegna veit ég ekki að ég sit hér og les.
Ein leið út er að hafna forsendu 1. Önnnur leið er að hafna forsendu 2. Þriðja leiðin er að segja að þó forsendur 1 og 2 séu báðar sannar sé niðurstaðan ekki fengin (t.d. vegna þess að „ég veit“ hafi ekki sömu merkingu í gegn). Samhengishyggja (e. contextualism) samþykkir í raun rökfærsluna en svarar efarökunum með því að halda því fram að þessi rökfærsla eigi ekki alltaf við. Hún eigi við í samhengi þar sem efahyggja er til umræðu en hún eigi ekki við í hversdagslegu samhengi (hún á t.d. ekki við þegar við sitjum og lesum við venjulegar aðstæður).
Leið samhengishyggjunnar er að skoða forsendu 2 (forsendu sem gengur út á að útiloka möguleika sem grefur undan öðru sem við teljum okkur vita). Ef við gerum svo ríka kröfu til þekkingar að við verðum alltaf að gega útilokað þessa forsendu (eða aðra sambærilega) þá er þröskuldurinn einfaldlega of hár. Við allar eðlilegar aðstæður á hann að vera lægri; við allar eðlilegar aðstæður vitum við að okkur er ekki að dreyma.
Verkefni samhengishyggjunnar er síðan að skilgreina eðlilegar og óeðlilegar aðstæður (þ.e. aðstæður sem við útilokum alla jafna en myndu ella grafa undan því sem við teljum okkur vita).
IX: Vitnisburður, minni og skynjun
Í þessum hluta munum við einbeita okkur að þekkingu sem er fengin með vitnisburði (e. testimony). Langmest að því sem venjuleg manneskja veit er fengið í gegnum vitnisburð (þetta á t.d. við um það sem við lærum í skóla). Hefðbundnar kenningar um þekkingu í gegnum vitnisburð gera ráð fyrir keðju þar sem fullyrðing um það sem við teljum okkur vita (t.d. að það snjói á Egilstöðum) megi rekja aftur til „beinnar“ þekkingar sem einhver hefur. Hlekkirnir í keðjunni verða síðan allir að vera áreiðanlegir til að þekking fáist í gegnum vitnisburð. Oftast hefur verið litið svo á (í samræmi við innanhyggju) að maður verði að vita að maður geti treyst hlekkjunum í keðjunni (mamma, sem er á Egilstöðum, hringdi og sagði mér frá snjókomu - ég treysti mömmu og treysti því að hún þekki snjókomu). Þessi kenning um þekking í gegnum vitnisburð hefur verið kenndi við smættarhyggju (e. reductionism).
Þekkingarfræðilegar kenningar um vitnisburð hafa fengið talsverða athygli á síðustu árum. Spurningin um hvort traust samrýmist gagnrýninni hugsun (eða skynsemi almennt, sbr. klassíska kenningu Cliffords) hefur verið tekin til umræðu með nýjum kenningum um eðli skynsemi - sem innlimar í stað þess að hafna trausti. Eins hefur athyglinni verið beint að vitnisburði sem sjálfstæðri uppsprettu þekkingar með kenningum um að traust á vitninu sé ekki nauðsynlegt til að vitnisburður leiði til þekkingar og líka að vitnið þurfi ekki sjálft að telja sig búa yfir þekkingu til að geta borið vitni um eitthvað sem leiðir til þekkingar hjá öðrum.
Á mælikvarða heimspekinnar er þekkingarfræði innan rökgreiningarheimspeki frekar karllæg grein - og er þá mikið sagt. Athygli vekur því að konur eru leiðandi í kenningum um vitnisburð.