Hugtök: Þýðingar og skilgreiningar

Hér á eftir eru nokkur lykilhugtök sem koma fyrir í lesefninu. Hugtökin eru skráð á ensku, þeim fylgir tillaga að þýðingu og síðan skýring á merkingu. Nemendur hafa í mörgum tilfellum verið hjálplegir við að finna góð íslensk orð eða frasa (í tímum, dagbókum og ritgerðum) og þakka ég þeim fyrir framlagið.

 • Access internalism: aðgangs innanhyggja. Um þá kenningu að maður þurfi að hafa aðgang að rökstuðningi fyrir skoðun, að það sé ekki nóg að rökstuðningurinn sé til heldur að maður geti verið meðvitaður um hann.
 • Attitude: afstaða. Notað um fullyrðingar og afstöðu einstaklings til fullyrðinga. Afstaða getur t.d. verið skoðanabundin (e. doxastic), þekkingarbundin (e. epistemic) eða staðreyndabundin (e. factive).
 • Belief dependent process: skoðanabundin ályktun. Notað í utanhyggjukenningum um ályktinir sem byggja á skoðunum til að skilja þær frá ályktunum sem byggjast ekki á öðrum skoðunum. Þessi greinarmunur er í samræmi við greinarmun innan bjarghyggjunnar á grunnskoðunum og afleiddum skoðunum.
 • Cognitive: hugrænt. Í þekkingarfræði oft notað um það sem við höfum aðgang að í huganum. Þannig er Cognitive justification hugrænn rökstuðningur, þ.e. rökstuðningur sem við höfum aðgang að í huganum. Cognitive contact with reality hugrænt samband við raunveruleikann, er notað í stað sannleika um tengingu hugsunar og veruleika.
 • Coherentism: samræmishyggja. Hafnar líkingunni um húsið og grunninn og hafnar því að rökstuðningur sé „línulegur“ (A vegna B, B vegna C o.s.frv.). Því er misvísandi að tala um hringrök. Skoðun er rökstudd (og sönn) er hún er hluti af kerfi sem er samræmt, eða ef hún gerir kerfi skoðana meira samræmt en það var fyrir. Lykilatriði er að kerfið sé laust við mótsagnir. Veikari samræmishyggja gefur pláss fyrir að sumar skoðanir sé, í það minnsta að hluta til, rökstuddar öðru vísi en með tilvísun í samræmt kerfi. T.d. sjálfsprottnar skoðanir.
 • Conjunctive belief: tengd skoðun. Þegar niðurstaða (t.d. skoðun) er fengin við ályktun sem byggist á annarri skoðun þá getur sú skoðun verið tengd, þ.e. fleiri en ein („ég held að A vegna B&C“).
 • Disposition: hneigð. M.a. notað í dyggðaþekkingarfræði til að lýsa því sem maður reglulega hneigist að og er því stöðugt einkenni á fari manns. Dispositional belief: hneigð til skoðunar. Notað um skoðanir sem maður hefur án þess (endilega) að vera að hugsa þær. Ég get t.d. verið sannfærður um ágæti lýsis án þess að vera stöðugt að hugsa um lýsi.
 • Doxastic: skoðunar-/skoðana-. Notað um allt sem tengist því að hafa skoðun. Innanhyggjukenningar um rökstuðning gera t.d. ráð fyrir því að réttlæting sé alltaf doxastic. (Dæmi um notkun: Doxastic voluntarism: viljahyggja um skoðanir. Notað til að lýsa afstöðu til skoðanamyndunar sem segir að við ákveðum hvaða skoðanir við höfu. Doxastic Decision Principle: ákvarðanalögmál fyrir skoðanir. Notað um lögmál sem við byggjum á þegar við myndum skoðanir.)
 • Epistemic: þekkingar-. T.d. um epistemic perception. Er skynjun einhvern tímann þekkingarlaus? Þ.e. er til skynjun sem ekki er bundin hugtöku á einhvern hátt, þ.e.a.s. skynjun sem er non-cognitive (ekki-hugræn)? Þetta er grundvallaratriði í deilu grundvallarhyggju og samræmishyggju.
 • Externalism: utanhyggja. Kenning sem segir að rökstuðningur (justification) eða heimild (warrant) fyrir skoðun sé hlutlæg og þurfi ekki endilega að vera aðgengileg þeim sem hefur skoðunina. Utanhyggjukenningar vísa oftast í orsakir, áreiðanleika, næmni eða öryggi (flokkast allt undir heimild) í viðbót við sannar skoðanir til að skilgreina þekkingu.
 • Factive: staðreynda-. Um afstöðu sem felur í sér staðreynd. Þannig er staðreyndabundin afstaða til fullyrðingar þess eðlis að hún felur í sér að fullyrðingin er sönn.
 • Faculty: gáfur. Epistemic faculties: þekkingarfræðilegar gáfur. Notað um gáfur eins og skynjun, innsæi og fleira sem getur leitt til þekkingar.
 • Foundationalism: bjarghyggja. „Foundation“ vísar í grunn húsa og því er bjarghyggja hugsanlega misvísandi. Grunnurinn sem vísað er hluti af byggingunni og ekki það sem grunnur byggingarinnar hvílir á. Veikari útgáfur af bjarghyggju opna fyrir möguleikann á að samræmi skoðana hafi hlutverk í rökstuðningi.
 • Function: starf eða virkni. Proper function: rétt eða viðeigandi virkni. Notað sem heitir yfir gáfur sem virka eins og þeim er ætlað að virka og er andstaðan við starfstruflun (e. malfunction).
 • Internalism: innanhyggja. Kenning sem segir að rökstuðningur með skoðunum eigi ávalt að vera aðgengilegur þeim sem hefur skoðunina „innan frá“.
 • Justification: rökstuðningur, réttlæting. Notað um það sem þarf að koma í viðbót við sannleika og skoðun til að mynda þekkingu og er hluti af klassískri skilgreiningu þekkingar sem „sönn rökstudd skoðun“.
 • Malfunction: starfstruflun. Notað um starf eða virkni (e. function) sem ekki virkar samkvæmt áætlun.
 • Meta-belief: frumskoðun. T.d. um samræmishyggju. Skoðanir eru rökstuddar ef þær eru hluti af kerfi sem hangir saman, sem er samræmt. Til að stóla á samræmt kerfi þurfum við að hafa eftirfarandi frumskoðun: „Innan kerfis skoðana minna eru skoðanir rökstuddar.“ Eða: „Kerfi skoðana minna er samræmt.“ Eða: „Þessi skoðun [um einhverja nýja skoðun] gerir kerfi skoðana minna meira samræmt en það var.“ En hvernig rökstyðjum við þessa skoðun? BonJour kemst að þeirri niðurstöðu að við verðum bara að gera ráð fyrir að hún sé sönn.
 • Motivation: hvati. M.a. notað í dyggðaþekkingarfræði um hneigð (e. disposition) eða tilfinning sem beinir manni að ákveðnu markmiði.
 • Nomological: lögmálsbundið. Notað um eina tegund nauðsynjar. Hin tegundin er logical, eða rökfræðilega nauðsyn. Rökfræðileg nauðsyn er sterkari en lögmálsbundin nauðsyn, þar sem lögmál eru ekki eins í öllum mögulegum heimum. Sama gildir ekki (í það minnsta ekki að sama marki) um rökfræðilega nauðsyn. M.a. notað í utanhyggjukenningum um þekkingu og vísar þá í (náttúru-)lögmál sem gerir að ákveðið skoðanamyndandi ferli er áreiðanlegt.
 • Occurrent belief: virk skoðun. Notað um skoðun sem maður hefur þegar maður er að hugsa hana eða er meðvitaður um hana. Þegar ég hugsa um að lýsi sé hollt þá er sú skoðun virk.
 • Penetrate, penetrating: smjúga eða nísta, smjúgandi eða nístandi. Notað í kenningum um þekkingarfræðilega lokun þegar spurt er um
 • Reliabilism: áreiðanleikahyggja. Utanhyggjukenning sem sérstaklega er tengd við Alvin Goldman. Samkvæmt henni er þekking sönn skoðun mynduð af áreiðanlegu ferli. Sú sem hefur sönnu skoðunina þarf ekki sjálf að hafa vitneskju um ferlið eða áreiðanleika þess (þess vegna er kenningin utanhyggjukenning).
 • Reliability: áreiðanleiki. Þegar skoðun er mynduð við áreiðanlegt ferli, þ.e. ferli sem leiðir alla jafna til sannra skoðana. Skynfæri sem virka vel eru dæmi um áreiðanlegt ferli.
 • Salient: áberandi.
 • Safety: öryggi. Skoðun er örugg ef hún gæti ekki auðveldlega verið ósönn. Sett fram til að mæta göllum við kenningu um næmni.
 • Sensitivity: næmni. Sérstaklega tengt kenningu Nozick um þekkingu. Til að sönn skoðun teljist þekking þarf hún að vera næm fyrir staðreyndum. Útgáfa Nozick er þessi: 1. f er sönn; 2. S heldur að f; 3. ef það væri ekki tilfellið að f, þá héldi S ekki að f; 4. ef f væri enn sönn við aðrar aðstæður þá héldi S enn að f.
 • Spontaneous beliefs: sjálfsprottnar skoðanir. Hugtak sem BonJour notar til að skýra hvernig skynjun hefur ákveðinn forgang á aðrar skoðanir. Þessar skoðanir kalla ekki á neinn rökstuðning, þær bara spretta upp og það er ákveðinn varanleiki í þeim (ég lít til vinstri og sé tré; ég lít aftur til vintstri og tréð er enn þarna).
 • Warrant: heimild, réttmæti. Hér er átt við það sem heimilar okkur að álykta um að við vitum eitthvað í ákveðnu samhengi. Oft notað í stað rökstuðnings í utanhyggjukenningum um þekkingu.