V: Kenningar um þekkingarfræðilegan rökstuðning

Eitt helsta umræðuefni þekkingarfræðinga síðustu áratugi er rökstuðningur (e. justification). Gettiervandinn sýnir að það að hafa sanna rökstudda skoðun er ekki nóg til að hafa þekkingu (þó það geti enn verið nauðsynlegt). Viðbrögðin hafa í mörgum tilfellum verið að skoða betur rökstuðningshluta klassísku skilgreiningar þekkingar og reyna að bæta hann eða styrkja. Í þessum hluta námskeiðsins beinum við sjónum að rökstuðningi og kenningum um hann. Við munum fyrst og fremst fjalla um utanhyggju (e. externalism) og gagnrýni á hana.

Við lesum eftirfarandi texta:

 • Richard Feldman og Earl Conee „Evidentialism“, Alvin I. Goldman „What Is Justified Belief?“, Laurence BonJour „Externalist Theories of Empirical Knowledge“ og Richard Fumerton „Externalism and Skepticism“.
 • Nagel „Internalism and externalism“.

Ítarefni:

Alvin Goldman býr til hugtakið „innanhyggja“ og ræðst svo gegn kenningunni (í grein sem við lesum ekki). Hann nálgast innanhyggjuna út frá spurningunni um þekkingarfræðilegar skyldur. Rökin fyrir innanhyggju eru einhvern vegin svona að mati Goldman:

 1. Gerum ráð fyrir að við höfum þekkingarfræðilegar skyldur.
 2. Af þessu leiðir að við verðum að hafa aðgengilega réttlætingarþætti (e. justifiers – hugtak sem Goldman bjó til).
 3. Aðgengiskilyrðið leiðir svo til innanhyggju, þ.e. að við þurfum að hafa innri aðgang réttlætingarþáttum.

Richard Feldman og Earl Conee „Evidentialism“

Í þessum texta færa Feldman og Conee rök fyrir kenningu um réttlætingu sem þeir telja augljóslega rétta. Kenninguna kalla þeir sönnunargagnahyggju (e. evidentialism). Þeir mæta síðan nokkrum mótbárum til að standa uppi með sterka kenningu. Kenning þeirra um þekkingarfræðilegan rökstuðning (ÞR) er þessi (e. EJ: Epistemic Justification):

 • ÞR: Doxastísk afstaða D til fullyrðingar f er þekkingarfræðilega rökstudd fyrir S á tíma t ef og aðeins ef það að hafa D til f passar við sönnunargögn sem S hefur á tíma t.

Doxastísk afstaða vísar í skoðanabundna afstöðu okkar til einhvers og er almennt talað um þrjár tegundir: a. ég held að; b. ég held ekki að; c. ég hvorki held né held ekki að.

Það sem er áhugavert við þessa kenningu er sú sterka - raunar algera - tenging sem þeir telja vera milli þess að hafa sönnunargögn (e. evidence) og þess að hafa rökstudda skoðun. Maður hefur rökstudda skoðun ef og aðeins ef maður hefur sönnunargögn sem styðja hana (það er því bæði nauðsynlegt og nægjanlegt að hafa sönnunargögnin).

Til að mæta gagnrýni um að kenning þeirra standist ekki vegna þess að ekkert sé sem bindi skoðunina á fullnægjandi hátt við sönnunargögnin bæta Feldman og Conee við skilyrði um góðan grunn, GG (e. WF; well-foundedness).

 • GG: Doxastísk afstaða D sem S hefur á tíma t til fullyrðingar f er á góðum grunni ef og aðeins ef
  1. að hafa D til f er rökstutt fyrir S á tíma t; og
  2. S hefur D til f á grunni sönnunargagnabálks e, þannig að
   1. S hefur e sem sönnunargögn á tíma t;
   2. að hafa D til f passar við e; og
   3. S hefur engan annan meira tæmandi bálk sönnunargagna e’ á tíma t þannig að það að hafa D til f passi ekki við e’.

Athugið að maður getur haft rökstudda skoðun sem ekki er á góðum grunni.

Kenning Feldman og Conee er innanhyggjukenning (e. internalism) um rökstuðning. Kenning Goldmans, sem er að mörgu leyti lík kenningu Feldman og Conee, er hins vegar hrein utanhyggjukenning (e. externalism).

Alvin I. Goldman „What Is Justified Belief?“

Goldman er einn þekktasti utanhyggjukennismiðurinn um þekkingarfræðilegan rökstuðning og þessi grein, sem birtist 1976, olli straumhvörfum í þekkingarfræði (fyrst og fremst innan rökgreiningarheimspeki). Samkvæmt honum er skoðun rökstudd ef hún er fengin við ferli sem alla jafna leiðir til sannra skoðana. Kenningin gengur undir nafninu áreiðanleikahyggja (e. reliabilism). Hann kallar kenninguna sjálfur sögulega áreiðanleikahyggju (e. historical reliabilism) en hún gengur almennt undir nafninu ferlis áreiðanleikahyggja (e. process reliabilism).

Kenninguna má orða á þennan hátt (út frá nauðsynlegum og nægjanlegum skilyrðum; ath. þetta er ekki upprunlegt orðalag Goldmans):

 • Það er nauðsynlega svo, fyrir sérhverja skoðun f, f er rökstudd ef og aðeins ef f varð til við áreiðanlegt hugrænt ferli.

Það sem gerir kenninguna að utanhyggjukenningu er sá hluti hennar sem segir að sá sem hefur skoðunina þurfi ekki að hafa aðgang að rökstuðningnum til að skoðunin teljist rökstudd. Að skoðunin sé fengin við raunverulega áreiðanlegt ferli er nægilegur rökstuðningur.

Goldman nálgast kenninguna í gegnum greiningu á öðrum og eldri tilraunum til að skilgreina rökstuðning og þá sérstaklega tilraunir til að funna grundvöll þekkingar*. Hann hafnar ýmsum kenningum og greinir vandann þannig að alltaf vanti trausta tengingu skoðunar við rökstuðning (ath. að kenning Feldman og Conee um rökstuðning uppfyllir ekki þetta skilyrði, ekki heldur með viðbótinni um góðan grunn). Hann leggur þess vegna fram kenningu um skoðanamyndandi ferli sem hefst með ílagi (e. input) og lýkur með frálagi (e. output). Frálagið er skoðun. Ferli sem skilar áreiðanlegri skoðun er nóg fyrir þekkingarfræðilega rökstudda skoðun.

Vandi Goldmans felst síðan í því að skilgreina hvað ferli er og hversu áreiðanlegt það þurfi að vera til að geta virkað sem rökstuðningur.

* Þýðing á kenningunum sem Goldman gagnrýnir og telur skorta orsakatengingu milli rökstuðnings og skoðunar:

 1. Ef S hefur skoðun f á t, og f er óvefengjanleg (e. indubitable) fyrir S á t, þá er skoðun S að f á t rökstudd.
 2. Ef S hefur skoðun f á t og f er sjálfgefin (augljós; e. self-evident), þá er skoðun S að f á t rökstudd.
 3. Ef fullyrðingin f er sjálfvísbendandi (e. self-intimating), og f er sönn fyrir S á t, og S hefur skoðun f á t, þá er skoðun S að f á t rökstudd.
  1. Sjálfvísbendingarskilyrði: Fullyrðingin f er sjálfvísbendandi (e. self-intimating), ef og aðeins ef: nauðsynlega svo, fyrir sérhvert S og sérhvert t, ef f er sönn fyrir S á t, þá hefur S skoðun að f á t.
 4. Ef f er óleiðréttanleg (e. incorrigible) fullyrðing, og S hefur skoðun f á t, þá er skoðun S að f á tíma t rökstudd.
  1. Óleiðréttanleikaskilyrði: Fullyrðing f er óleiðréttanleg ef og aðeins ef: nauðsynlega svo, fyrir sérhvert S og sérhvern t, ef S hefur skoðun f á t, þá er f sönn fyrir S á t.

Laurence BonJour „Externalist Theories of Empirical Knowledge“

BonJour gagnrýnir utanhyggjukenningar sem bjarghyggjukenningar, þ.e. sem kenningar sem eiga að leysa afturhvarfsvandann (hvernig veit ég að f? Vegna þess að g. Hvernig veit ég að g? Vegna þess að ... o.s.frv. þar til við finnum leið til að stoppa - og ef við finnum ekki leið til að stoppa þá tekur efahyggjan við). Það er þó vel hægt að lesa BonJour sem almenna gagnrýni á utanhyggjukenningar.

Sú utanhyggjukenning sem BonJour tekur fyrir er áreiðanleikahyggja (hann gagnrýnir útgáfu Armstrong en gagnrýnin á allt eins við um Goldman). Hann gengur út frá því að til séu fullkomlega áreiðanleg ferli sem leiða til sannra skoðana. Að því gefnu spyr hann: Erum við í þessum tilfellum með þekkingu, líka þegar maður hefur ekki sjálfur aðgengilegan rökstuðning fyrir sínum skoðunum?

Hann gengur út frá dæmum um skyggnigáfu. Dæmigert BonJour dæmi er:

 • Oddný er fullkomlega skyggn (þetta er staðreynd um Oddnýju, en hún hefur þrátt fyrir það enga ástæðu til að ætla að hún sé skyggn eða að skyggnigáfa sé yfirhöfuð möguleg). Dag einn sér hún með skyggnigáfu sinni að Helgi er að spila á tónleikum í Genf og myndar sér ósjálfráða skoðun um að svo sé. Er skoðun Oddnýjar þekkingarfræðilega rökstudd?

Richard Fumerton „Externalism and Skepticism“

Hér gagnrýnir Fumerton kenningar utanhyggjunnar á forsendum frum-/for-þekkingarfræði (e. meta-epistemology). Frumþekkingarfræði er ekki kenning um þekkingu heldur fæst hún við kenningar um kenningar í þekkingarfræði. Í þessum texta spyr Fumerton um hvort utanhyggjunni takist að bægja efahyggjunni frá. Hann efast um að henni takist það. Í meginatriðum gengur gagnrýni hans út á eftirfarandi:

 • Ef við gefum okkur að til séu áreiðanleg skoðanamyndandi ferli þá getum við notað þetta áreiðanlega ferli til að meta áreiðanleika skoðanamyndandi ferlis. En þetta er ómögulegt (rétt eins og það er ómögulegt að meta áreiðanleika stjörnuspeki með því að spá í stjörnukort).