II: Hugsun og veruleiki: Parmenídes og Anscombe

Í þessum tíma spyrjum við fyrst um viðfangsefni frumspekinnar og sérstaklega um tengsl hugsunar og veruleika í frumspekilegum skilningi. Tveir textar liggja til grundvallar: Heimspekiljóð Parmenídeser frá 5. öld f.o.t. og klassísk grein eftir Elizabeth Anscombe um frumforsendur Parmenídesar.

Parmenídes spyr: Hvað er? Hann setur síðan ýmis skilyrði fyrir leitinni að því sem er. Hann hefur því verið kallaður „faðir frumspekinnar“, eflaust með nokkrum rétti. Ekkert samkomulag er um túlkun á kenningu Parmenídesar, ekki einu sinni um hvaða tegund af kenningu hann leggur fram (sjá yfirlit yfir nokkrar af helstu túlkunum á kenningum Parmenídesar hjá John Palmer í ítarefni hér að neðan). Við spyrjum á grunni heimspekiljóðs Parmenídesar: Ef þetta er frumspeki hvað er þá frumspeki?

Í kjölfarið snúum við okkur að spurningunni um tengsl hugsunar og veruleika í kenningu Parmenídesar og styðjumst við grein Anscombe til að greina þessa spurningum. Parmenídes tengir hugsun og veruleika fastari böndum en flestir heimspekingar hafa gert í gegnum tíðina og virðist álíta að hugsun og veruleiki séu eitt og hið sama. Hvaða þýðir þetta?

Ljóð Parmenídesar og grein Anscombe eru frekar stuttir textar en þeir eru báðir mjög þungir. Því má gera ráð fyrir að þurfa að lesa þá oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Til að auðvelda lestur á grein Anscombe er rétt að skýra í upphafi muninn á in sensu diviso og in sensu composito. Þetta orðalag er í miðaldaheimspeki notað til að greina að merkingu fullyrðinga í háttarökfræði og má nota dæmi til að skýra muninn. Tökum fullyrðinguna „kötturinn sem liggur á mottunni getur hlaupið“.

  • In sensu composito er hún ósönn því hér skiljum við fullyrðinguna sem eina heild og hún merkir að kötturinn geti hlaupið á meðan hann liggur.
  • In sensu diviso er hún sönn því hún merkir að kötturinn, sem liggur, geti hlaupið (þó hann geti það ekki á meðan hann er liggjandi).

Athugið líka eftirfarandi:

  • x stendur fyrir einstakling eða stak.
  • F stendur fyrir eiginleika.

Í ljóði Parmenídesar legg ég áherslu á brot 2-7, sem leggja út forsendur fyrir rökfærslunni, og síðan brot 8, sem dregur niðurstöðurnar fram.

Lesefni:

  • Ljóð Parmenídesar í þýðingu John Palmer (Ugla, texti 2a)
  • „Parmenides: Mystery and Contradiction“ eftir Elizabeth Anscombe (í Proceedings of the Aristotelian Society, New Series, Vol. 69 (1968-1969, bls. 125-132) (Ugla, texti 2b)

Ítarefni: