VI: Dyggðaþekkingarfræði og gildi þekkingar

Dyggðaþekkingarfræði (e. virtue epistemology) er eðlilegt framhald kenninga um áreiðanleika. Athyglin beinist að þeim - einstaklingum eða samfélögum - sem hafa skoðanir og þekkingu og hvernig hún myndast. Áreiðanleikahyggjan á erfitt með að gera grein fyrir þeirri ábyrgð eða skyldu sem maður ber sem skoðanamyndandi vera. Dyggðakenningin svarar þessu. Hún byggir á samanburði við siðfræði sem sótti í smiðju Aristótelesar og beindi sjónum að hinum dyggðuga einstaklingi. Að vera góður í einhverju er að vera dyggðugur. Að vera góður siðfræðilega séð er að hafa til að bera siðfræðilegar dyggðir (réttsýni, heiðarleika o.s.frv.). Að vera góður í að mynda áreiðanlegar skoðanir er að hafa til að bera þekkingarfræðilegar dyggðir.

Dyggðaþekkingarfræðinni er oft skipt í tvennt. Annars vegar eru áreiðanleikadyggðir (e. virtue reliabilism), þar sem áherslan er lögð góða virkni skoðanamyndandi ferla eins og skynjunar og minnis, og hins vegar er ábyrgðardyggðir (e. virtue responsibilism), þar sem áherslan er á ábyrgð einstaklingsins. Í þessum hluta munum við einbeita okkur að ábyrgð.

Dyggðir eru ekki meðfæddar heldur þroskum við þær með okkur. Grunnhugmynd dyggðaþekkingarfræðinnar er að við þroskum með okkur hæfileikann til að mynda áreiðanlegar skoðanir. Við gerum þetta viljandi og uppfyllum þar með kröfuna um að bera ábyrgð á skoðunum okkar. Til að þroska þennan hæfileika með okkur þurfum við að vita til hvers við þroskum hann og bera virðingu fyrir sannleikanum.

Við lesum eftirfarandi texta:

 • Alvin Plantinga „Warrant: A First Approximation“, Linda Zagzebski „Virtues of the Mind, Selections“, Duncan Prichard „Cognitive Responsibility and the Epistemic Virtues“ og Jonathan I. Kvanvig „Why Should Inquiring Minds Want to Know? MenoProblems and Epistemological Axiology.“

Ítarefni:

Alvin Plantinga „Warrant: A First Approximation“

Plantinga beinir sjónum að heimild eða réttmæti (e. warrant) og spyr um hvað þurfi til að skoðun sé heimil í þekkingarfræðilegum skilningi. Lykilhugtak í kenningu hans er hæfni eða virkni (e. function), sem við getum skilið í aristótelískum skilningi út frá kenningum hans um eiginverk (gr. ergon). Samkvæmt Plantinga virkum við, skoðanamyndandi verur, í ákveðnu samhengi eða aðstæðum sem við erum hönnuð til að virka í. Stundum virkum við vel og stundum virkum við illa. Þegar við virkum vel í réttu samhengi þá má reikna með að skoðanir sem við myndum séu, líklega, sannar og þar með dæmi um þekkingu.

Eftir nokkrar tilraunir til að skilgreina heimild leggur Plantinga fram eftirfarandi hugboð um hvað í því felst:

 • Manneskja M hefur heimild (e. warrant) fyrir skoðun S eff viðeigandi hlutar (e. relevant segments) hönnunarinnar (þeir sem tengjast mótun skoðunar S) virka vel í hugrænu umhverfi (e. cognitive environment) sem líkist nægilega mikið því sem gáfur (e. faculties) M voru hannaðar fyrir;
 • og einingar (e. modules) hönnunarinnar (e. design plan) sem stjórna myndun skoðunar S (1) miða að sannleikanum og (2) eru þess eðlis að það eru miklar hlutlægar líkur á því að skoðanir sem myndast í samræmi við þessar einingar (í slíku hugrænu umhverfi) eru sannar;
 • og því sterkar sem M trúir S því meiri heimild hefur M fyrir S.

Linda Zagzebski „Virtues of the Mind, Selections“

Í kafla bókarinnar Dyggðir hugans sem hér er til umræðu fjallar Linda Zagzebski um andlegar dyggðir í samanburði við siðfræðilegar dyggðir. Þekking og önnur doxastísk ástönd eru dæmi um andlegar dyggðir. Hún skilur dyggð (e. virtue) á hefðbundinn hátt sem ágæti (e. excellence), það að gera eitthvað vel. Slíkt ágæti beinist að markmiðum sem eru ólík eftir þeim dyggðum sem um ræðir.

Zagzebski skilgreinir dyggð á eftirfarandi hátt:

 • Djúpt og varanlegt áunnið ágæti manneskju sem felur í sér einkennandi (e. characteristic) hvöt til að ná fram ákveðnu æskilegu markmiði og áreiðanleika í að ná því fram.

Tvö lykilhugtök í kenningu Zagzebski eru hvöt (e. motivation) og áreiðanleiki (e. reliability).

 • Hvöt er, skv. Zagzebski, hneigð (e. disposition) eða tilfinning sem beinir manni að ákveðnu markmiði.
 • Áreiðanleikinn kemur fram í því að það er hægt að reiða sig á að maður hafi og fylgi þessari hvöt.

Siðfræðilegar dyggðir beinast að hinu góða en þekkingarfræðilegar dyggðir beinast að raunveruleikanum.

Duncan Prichard „Cognitive Responsibility and the Epistemic Virtues“

Prichard færir rök gegn dyggðaþekkingarfræði í sínu framlagi. Hann beitir dæmum sem tengjast þekkingarfræðilegri heppni til að sýna fram á galla við dyggðaþekkingarfræðina. Hann greinir þekkingarfræðilega heppni í tvennt:

 • RÞH: Raunveruleg þekkingarfræðileg heppni (e. veritic epistemic luck): Um hvernig skoðun var raunverulega mynduð.
 • ÍÞH: Íhugandi þekkingarfræðileg heppni (e. reflective epistemic luck): Um hvernig maður heldur að skoðun sín sé mynduð.

Um tvær tegundir dyggðaþekkingarfræði:

 • Ströng dyggðaþekkingarfræði (e. austere virtue epistemology): Þekking er sönn skoðun fengin í gegnum hugræna dyggð, þar sem hugræn dyggð er hæfileiki til að öðlast sannar skoðanir á áreiðanlegan hátt og forðast ósannar skoðanir.
 • Ábyrgðar dyggðaþekkingarfræði (e. responsibilist virtue epistemology): Bætir við fyrri skilgreiningu að sá sem hefur skoðunina hafi hugrænu dyggðina sem skiptir máli vegna þess að hún er ábyrg.

Dæmið um Maríu (sem bæði Zagzebski og Prichard nota):

 • María fer inn í stofu og sér mann í hægindastólnum sem maður hennar situr alla jafna í. Hún hugsar með sér: „Maðurinn minn situr inni í stofu“, og fer síðan á klósettið. En María ruglaðist, maðurinn í stólnum er ekki maður hennar heldur bróðir hans sem hún hafði enga ástæðu til að ætla að væri á staðnum (hann hefur verið erlendis í áratugi). Hins vegar situr maður hennar annars staðar í stofunni, þar sem hún sér hann ekki.

Prichard telur öryggiskröfu betri en dyggðakenningu til að mæta vandanum sem þekkingarfræðileg heppni skapar. Öryggiskrafan er eftirfarandi:

 • A heldur að f aðeins ef f er sönn (sterk útgáfa).
 • Það er mjög ólíklegt að A haldi að f án þess að f sé sönn (veik útgáfa).

Jonathan I. Kvanvig „Why Should Inquiring Minds Want to Know?: Meno Problems and Epistemological Axiology“

Úr Menóni eftir Platon, 97D-98A (þýðing: Sveinbjörn Egilsson)

Menón
Mér sýnist það verða að vera svo. Ég undra mig á því, Sókrates, ef þessu er svoleiðis varið, að það skuli vera haldið langtum meira upp á þekkingu en rétta meiningu, og á því hvers vegna þessir hlutir eru sitt hvað.

Sókrates
Veiztu þá af hverju þú undrar þig yfir því, eða á ég að segja þér það?

Menón
Blessaður segðu mér það.

Sókrates
Það er af því þú hefur ekki tekið rétt eftir myndastyttunum hans Daídalosar. En kannski hafið þið engar myndastyttur.

Menón
Hvað ertu nú að fara?

Sókrates
Að þessar myndastyttur hlaupa líka burtu og strjúka ef þær eru ekki bundnar, en eru kyrrar ef þær eru bundnar.

Menón
Og?

Sókrates
Það er ekki mikið í það varið að útvega sér þá af smíðisgripum Daídalosar sem lausir eru eins og strokumenn, því að þeir standa ekki hjá manni, en það er mikils vert að útvega sér þá sem bundnir eru, því að þeir gripir eru mjög fallegir. Hvað er ég nú að fara? Ég er að hugsa um réttu meiningarnar, því á meðan þær standa við hjá manni, þá eru þær fallegur hlutur og framkvæma allt sem gott er. En þær vilja ekki standa lengi við, heldur strjúka burt úr sál mannsins. Því þær eru ekki mikil verðar fyrr en maður er búinn að binda þær með góðum og gildum rökum. Það er nú upprifjunin, Menón minn góður, eins og okkur kom saman um í samtali hérna á undan. Þegar búið er að fjötra þær niður, þá verða þær fyrst að þekkingu og úr því verða þær stöðugar hjá manni. Og þess vegna er þekking meira verð en rétt meining. Það eru fjötrarnir sem skilja að þekkingu og rétta meiningu.

Kvanvig spyr sókratísku spurningarinnar:

 • Af hverju ættum við að vilja þekkingu frekar en sanna skoðun?

Hann spyr líka sókratísku eftir-getterísku spurningarinnar:

 • Af hverju ættum við að vilja þekkingu frekar en sanna rökstudda skoðun (því þekking er annað en sönn rökstudd skoðun, eins og Gettier og fleiri hafa sýnt fram á)?

Í öllum tilfellum telur Kvanvig að þekking sé óraunhæft eða óþarft markmið og að við ættum að einbeita okkur að öðru til að ná hugræunum eða vitsmunalegum markmiðum okkar.

Hugræn eða vistmunaleg (e. cognitive eða intellectual) markmið okkar eru ekki þekking sem slík, að mati Kvanvig, heldur eiginleikar sem við tengjum við þekkingu. Eiginleikar eins og óbetranleiki (e. incorrigibility), óbrigðulleiki (e. infallibility), varanleiki (e. permanence), fjötrun (e. tetheredness), frumspekileg fullvissa (e. metaphysical certainty) og fleira svipað. Kvanvig er ekki viss um að við getum náð þessum markmiðum með því að bæta einhverju við sanna (rökstudda) skoðun sem gerir hana að þekkingu.

Spurning: Hvaða eiginleika getur skoðun haft, aðra en einfaldlega að vera sönn, sem leiða mann til sannleikans?

Í þessu samhengi veltir Kvanvig m.a. fyrir sér kenningum um rökstuðning (eða réttmæti eða eitthvað annað sem við getum bætt við sanna skoðun til að búa til þekkningu) sem ganga út á að rökstuðningur sé leið eða tæki til að ná markmiði. Markmiðið sé sönn skoðun. Hann hafnar þessari hugmynd með greiningu sem hann sækir til athafnakenninga (e. action theory) og gerir greinarmun á virkum leiðum (e. effective means) og ætlandi leiðum (e. intentional means). Virkar leiðir eru áreiðanlegar leiðir að markmiði en ætlandi leiðir þurfa ekki að vara það (þær eru bara það sem við ætlum okkur og segja ekkert um hvað við getum). Hvernig getur rökstuðningur (eða eitthvað annað) verið ætlandi eða virk leið að markmiðinu um sannleika?

Að lokum veltir Kvanvig upp spurningunni um skilning (e. understanding) sem vitsmunalegri dyggð (e. intellectual virtue) sem er ómöguleg án þekkingar. Kvanvig sér ekki að þekking sé nauðsynleg til að öðlast skilning (kenningar um skilning hafa verið áberandi undanfarin ár).