VII: Náttúruleg þekkingarfræði og a priori þekking

Náttúruhyggja (e. naturalism) í heimspeki gengur almennt út á að tengja heimspeki við náttúruvísindi og jafnvel gera hana að hluta náttúruvísinda. Í þekkingarfræði má tengja náttúruhyggju við utanhyggju - sérstaklega áreiðanleikahyggju - og skilja hana sem tilraun til að rannsaka manninn sem náttúrulegt fyrirbæri sem myndar skoðanir, sem sumar eru sannar en aðrar ekki. Til að skilja hvernig hann gerir þetta þarf að rannsaka manninn eins og önnur náttúruleg fyrirbæri og beita bestu aðferðum sem völ er á. Ef þessar aðferðir eru aðrar en þær sem heimspekin hefur hingað til beitt þá verður svo að vera.

Hefðbundin þekkingarfræði hefur ákveðin einkenni sem náttúruhyggjan hafnar (sjá grein í SEP sem vísað er í hér að neðan). Hún lítur á sig sem sjálfstæða fræðigrein; hún vinnur út frá a priori forsendum (með dæmum sem fólk metur með innsæið að vopni); hún fjallar um viðmið (e. normative); hún vill kveða efahyggjuna niður.

Við lesum eftirfarandi texta:

  • W.V. Quine „Epistemology Naturalized“, Louise M. Antony „Quine as Feminist: The Radical Import of Naturalized Epistemology“ og Hilary Kornblith „Investigating Knowledge Itself“.
  • Nagel „Knowing about knowing.“

Ítarefni:

W.V. Quine „Epistemology Naturalized“

Í grein sinni frá 1969 ræðst Quine gegn hefðbundinni þekkingarfræði og leggur til að hún verði gerð að undirgrein sálfræðinnar (í seinni verkum bætir hann öðrum raunvísindum við). Hann byrjar með fullyrðingu um að þekkingarfræði fáist við grundvöll vísinda - rétt eins og Descartes hafði gert nokkrum öldum áður. Leið Quine að markmiðinu er að beina sjónum að ákveðnum kenningum í þekkingarfræði og í gegnum gagnrýni á þessar kenningar að sýna hvernig eigi í staðinn að nálgast spurninguna um hvernig þekking verður til. Ein leið að gagnrýna Quine er því að beina sjónum að kenningunum sem hann gagnrýnir og benda á að þær séu alls ekki dæmi um þekkingarfræði eins og hún er - eða var - stunduð. Þessi gagnrýni hefur oft verið borin upp á Quine - og hún er að miklu leyti réttmæt - en það breytir ekki því að grein Quines hafði mikil áhrif á þróun þekkingarfræðinnar. Hann kom náttúruhyggju (e. naturalism) á koppinn með þessari grein.

Kenningin sem Quine gagnrýnir tilheyrir Vínarskólanum (e. Vienna Circle) svokallaða, sem Quine sjálfur var hluti af. Carnap, sem Quine gagnrýnir mest, var kennari og leiðbeinandi Quine að loknu doktorsnámi. Kenning Vínarskólans hefur oft verið kennd við rökfræðilega raunhyggju (e. logical empiricism eða logical positivism). Rökfræðihlutinn gengur út á að endurbyggja heiminn (sem Quine kallar á ensku rational reconstruction) á rökfræðilegum forsendum út frá einföldum setningum sem gefa beina mynd af heiminum eins og hann er. Þar liggur einmitt raunhyggjuhlutinn - og sá hluti sem Quine gagnrýnir hvað mest. Ein af meginkenningum Vínarskólans var kenning um merkingu sem kallaðist sannreyndarhyggja (e. verificationism), en samkvæmt henni hefur setning ekki merkingu öðru vísi en hún sé falin í lokuðu mengi athugunarsetninga (e. observation sentences). Grunnurinn, eða bjargið, sem þekking byggir á skv. þessari kenningu eru þessar athugunarsetningar. Kenning Quine er sú að ef við höfnum þeim - sem við verðum að gera - þá standi ekki eftir neitt sem mætti kalla sjálfstæða þekkingarfræði.

Quine setur spurninguna um hvernig þekking verður til fram sem spurningu um hvernig áreiti (e. stimulus) leiðir til kenningar (e. theories) (síðasta bókin sem hann skrifaði heitir From Stimulus to Science og kom út árið 1995, þegar Quine var 88 ára). Besta leiðin að hans mati er að gera þekkingarfræði að undirgrein sálfræðinnar.

Louise M. Antony „Quine as Feminist: The Radical Import of Naturalized Epistemology“

Hefðbundin þekkingarfræði hefur oft verið gagnrýnd fyrir að þjóna hagsmunum ríkjandi afla og þá ekki síst karllægum hagsmunum. Louise Antony tekur þessa gagnrýni til umræðu í grein sinni. Hún er að miklu leyti sammála en á sama tíma er hún gagnrýnin á feminíska gagnrýni á hefðbundna þekkingarfræði. Í fyrri hluta greinarinnar (bls. 556-566) fer hún yfir svið hefðbundinnar þekkingarfræði og fjallar um gagnrýni á hana. Í seinni hluta greinarinnar (bls. 566-578) beinir hún sjónum sínum að náttúruhyggju í þekkingarfræði, sérstakleg að Quine, og sér í henni lausn við þeim vanda sem þekkingarfræðin á við að stríða.

Hver er vandi þekkingarfræðinnar? Antony sér vandann í því sem mætti kalla ímyndina um hlutlægni (e. ideal of objectivity). Hún sér lausnina í því að viðurkenna fordóma (e. bias) og telur náttúrulega þekkingarfræði besta til að fjalla um þá. Þekkingaröflun, sama í hvaða formi hún er, á sér alltaf stað í einhverju samhengi. Þeir sem stunda hana eru aldrei lausir við fordóma og því er eðlilegt að gagnrýna þá sem afneita fordómum - eins og feminísk gagnrýni hefur gengið út á. Antony sér hins vegar ákveðna þversögn í þessari gagnrýni, fordómaþversögnina (e. bias paradox) eins og hún kallar hana. Þeir sem gagnrýna aðra fyrir að viðurkenna ekki fordóma eru oft blindir á eigin fordóma og áhrifin sem þeirra fordómar hafa á gagnrýnina. Náttúruhyggjan hjá Quine, með áherslu sinni á sálfræði, er leið til að rannsaka fordóma og áhrif þeirra á skoðanamyndun. Þess vegna er Quine, í skilningi Louise Antony, feministi.

Hilary Kornblith „Investigating Knowledge Itself“

Augljósast er, þar sem við erum að rannsaka eitthvað ytra fyrirbæri sem við höfum áhuga á, að við ættum að nálgast það eins beint og við mögulega getum frekar en óbeint með því að skoða það sem við höldum um fyrirbærið núna.
Hilary Kornblith

Ein helsta aðferðafræði heimspeki í gegnum aldirnar hefur verið að beita ljósi skynseminnar eða innsæi á viðfangsefni sitt. Í dæmum sem þekkingarfæðingar framleiða til að rannsaka hugtakið þekkingu erum við beðin um að meta hvort dæmin séu dæmi um þekkingu eða ekki með innsæið eitt sem mælikvarða. Kornblith hafnar alfarið þessari aðferðafræði en telur innsæi samt eiga erindi sem eitt tæki af mörgum til að greina fyrirbærið þekkingu. Kornblith gengur lengra með náttúruhyggjuna en margur og lítur á þekkingu sem náttúrulega tegund, rétt eins og gull, ketti, stjörnur eða eitthvað úr náttúrunni. Ef þekking er náttúruleg tegund þá eigum við að rannsaka hana sem náttúrulega tegund.

Í þessum fyrsta kafla bókarinnar Knowledge and its Place in Nature frá 2002 svarar Kornblith gagnrýni á náttúruhyggju sem nokkrir helstu forsvarar innanhyggju í þekkingarfræði höfðu borið fram (sjá t.d. grein eftir Bealer í textasafninu). Gagnrýnin sem hann tekur fyrir er þríþætt:

  1. Náttúruhyggjan hafnar innsæi en byggir samt kenningar sínar á innsæi.
  2. Náttúruhyggjan getur ekki gert grein fyrir aðleiðslu (e. inference) og því getur hún ekki gert grein fyrir neinni þekkingu.
  3. Náttúruhyggja útilokar þekkingarfræðilegan orðaforða.

Kornblith svarar þessum rökum gegn náttúruhyggju og á sama tíma sýnir hann hvers eðlis náttúruhyggja hans er og hversu mikið náttúruhyggja hefur þróast frá því að Quine, Goldman og fleiri lögðu hana til. Að lokum dregur hann ályktanir af þessari deilu og telur hana að miklu leyti snúast um sjálfstæði heimspekinnar - sem hann sjálfur hefur engar áhyggjur af.