IX: Vitnisburður, minni og skynjun

Þekkingarfræði hefur mestmegnis fengist við einstaklinga og þekkingu þeirra, hvort sem það er innanfrá (innanhyggja) eða utanfrá (utanhyggja). Undir lok síðustu aldar fór félagsleg þekkingarfræði (e. social epistemology) að ryðja sér til rúms (stundum í formi gagnrýni á hefðbundna þekkingarfræði en stundum byggð á henni). Hún beinir sjónum sínum að skoðunum einstaklinga, hópa eða stofnana og þekkingarfræðilegum einkennum þeirra. Í þessum hluta námskeiðsins munum við beina sjónum að félagslegri þekkingarfræði sem takmarkast við einstaklinga, að kenningum í þekkingarfræði sem greina skoðanir einstaklinga sem byggjast á félagslegum sönnunargögnum. Vitnisburður (e. testimony) er dæmi um félagsleg gögn sem við byggjum skoðanir okkar - og þekkingu - á.

Við lesum eftirfarandi texta:

 • Judith Baker „Trust and Rationality“, Elizabeth Fricker „Against Gullibility“ og Jennifer Lackey „Testimonial Knowledge and Transmission“.
 • Nagel „Testimony.“

Ítarefni:

Judith Baker „Trust and Rationality

Samfélag byggir á trausti og traust er krafa sem við gerum í fjölskyldu- og vinasambandi. En traust virðist ekki ríma við kröfu um skynsemi eða það að vera þekkingarfræðilega skynsamur (e. epistemically rational). Til að vera þekkingarfræðilega skynsöm þurfum við, skv. kenningunni, að byggja skoðanir okkar á áreiðanlegum sönnunargögnum.

Baker fjallar um skynsemi og traust og tilraunir til að bregðast við þessum vanda.

Elizabeth Fricker „Against Gullibility“

Fricker beinir sjónum sínum að vitnisburði sem uppsprettu þekkingar og hvernig við getum rökstutt (eða réttlætt) skoðanir myndaðar á grunni vitnisburðar. Ef við gerum strangar þekkingarfræðilegar kröfur til vitnisburðar þá gætum við endað með að þurfa að hafna öllum vitnisburði - þ.e. trúa engu sem neinn segir. Ef við gerum veikari kröfur gætum við endað með að þurfa að samþykkja allan vitnisburð - þ.e. trúa öllu sem allir segja. Fricker, sem er innanhyggju-þekkingarfræðingur, gerir strangar þekkingarfræðilegar kröfur til vitnisburðar og telur nauðsynlegt að maður leggi mat á áreiðanleika vitnisins í hverju tilfelli.

Fricker bregst við kenningu um vitnisburð þar sem gert er ráð fyrir, án frekari rökstuðnings, að vitni séu áreiðanleg. Kenningin sem hún bregst við er í tvennu lagi (jákvæðu og neikvæðu). Í fyrsta lagi er forsendan um líklegan rétt (LR, e. presumptive right), og í öðru lagi er neikvæða kenningin (NK):

 • LR: Við sérhvern vitnisburð hefur áheyrandi þekkingarfræðilegan rétt til að ætla, án sönnunargagna, að vitnið sé trúverðugt, þ.e. að það sem vitnið segi sé satt – nema eitthvað sérstakt við aðstæðurnar sigri (e. defeat) þessa ætlun.
 • NK: Almennt er ekki mögulegt fyrir áheyranda að fá óháða staðfestingu á að vitni sé trúverðugt – að það sem vitnið segi sé satt.

Leið Fricker til að hafna LR er að hafna NK, á þeirri forsendu að NK sé liður í rökfærslu fyrir LR.

 1. Þekking getur og er oft fengin í gegnum vitnisburð.
 2. Almennt er ekki mögulegt fyrir áheyranda að fá óháða staðfestingu á að vitni sé trúverðugt – að vitnið segi satt. (=NK)
 3. Þess vegna: Þekking fæst aðeins í gegnum vitnisburð ef áheyrandi hefur líklegan rétt til að treysta hvaða vitni sem er.
 4. Þess vegna: Líklegur réttur til að treysta er til (sem leiðir til LR).

Fricker setur kenningu sína um vitnisburð fram í tveimur liðum (greinin fjallar mest um lið 2):

 1. S staðhæfir að f við aðstæður A.
 2. Vitni S er trúverðugt með tilliti til staðhæfingar þess U, sem er staðhæfð við aðstæður A, og þar sem það fullyrðir f, ef og aðeins ef:
  • i) U er einlæg;
  • ii) S er hæft með tilliti til f á A, þar sem við skilgreinum þetta svo:
   • Ef S staðhæfði U einlæglega við A þá væri tilfellið að f.

Jennifer Lackey „Testimonial Knowledge and Transmission“

Orðið „vitnisburður“ og orðalagið „að bera vitni“ fela í sér að eitthvað sé flutt frá einum stað til annars. Við getum skilið þetta sem svo að einhver sem veit flytji þessa vitneskju sína til annars sem veit ekki (sjá um „vitni“ í Íslensku orðsifjabókinni). Í þekkingarfræði er vitnisburður oft skýrður á þennan hátt. Vitnisburður er flutningur þekkingar í gegnum vitni til þess sem tekur við vitnisburðinum. Forsenda þess að þekking (eða vitneskja) flytjist með vitninu er að vitnið sjálft hafi þekkinguna (vitnið gæti haft hana frá öðru vitni; í þessu tilfelli þarf keðja vitnisburða að stoppa hjá einhverjum sem veit á annan hátt en í gegnum vitnisburð). Lackey hafnar þessari kenningu og sýnir fram á, með vel völdum dæmum, að maður getur öðlast þekkingu í gegnum vitnisburð án þess að vitnið hafi þekkinguna.

Hefðbundna kenningin sem Lackey færir rök gegn felur eftirfarandi í sér:

 1. Áheyrendur fá þekkingu frá vitni.
 2. Vitnið verður sjálft að vita það sem það vitnar um.

Lackey greinir lið tvö síðan í tvennt, eftir því hvort nauðsynlegt sé að öll vitni hafi þekkingu að miðla eða hvort nóg sé að fyrsti liður keðjunnar hafi þessa þekkingu, og orðar svona:

 • 2: Fyrir sérhvert vitni S og áheyranda ÁH, ef ÁH lærir f af vitnisburði S um að f þá verður S að vita að f.
 • 2*: Fyrir sérhverja vitnakeðju K, til að áheyrandi ÁH í K læri að f í gegnum vitnisburð S í K þarf í það minnsta fyrsti S í K að vita að f.

Hún færir síðan rök gegn báðum möguleikum og telur ekki í neinu tilfelli nauðsynlegt að vitni, eða liður í vitnaleiðslukeðju, hafi þekkingu. Hún gerir það með dæmum. Eitt er dæmið um þróunarkenningarkennarann sem er sannfærður um að sköpunarsagan sé sönn:

 • Kennari er sannfærður um að sköpunarsagan sé sönn og þróunarkenningin röng. Ástæðu fyrir þessu má finna í barnæsku og óbilandi trú á sköpunarsögunni – þetta er einföld staðreynd um kennarann. Hann kennir hins vegar þróunarkenninguna og miðlar eftir bestu getu, kynnir sér allar nýjustu rannsóknir og vitnisburður kennarans er í öllum grundvallaratriðum mjög nærri vísindalega viðurkenndum sannleika. Samt hefur kennarinn ekki þá skoðun að þróunarkenningin sé sönn. Nemendurnir vita þetta ekki heldur aðeins hitt að kennarinn hefur reynst mjög góður og áreiðanlegur hingað til.

Þetta dæmi sýnir að vitni getur miðlað þekkingu án þess að hafa sjálft skoðunina (og þar með án þess að hafa sjálft þekkinguna) sem það er að miðla.

Önnur dæmi byggjast á kenningu um sigrara (e. defeaters), þ.e. dæmi þar sem sönn rökstudd skoðun er sigruð (eða ónýtt) af öðrum skoðunum eða staðreyndum. Dæmi um slíkt væri eftirfarandi:

 • Anna situr á tröppum Aðalbyggingarinnar í þungum þönkum. Hún hefur á þessari stundu algerlega sannfærst af almennum efahyggjurökum (var að ljúka við að horfa á Westworld) og er viss um að gervigreind sé svo þróuð að við séum öll bara hluti af tilbúnum heimi. Kofi Annan, sem á að opna Hugvísindaþing í Hátíðasalnum, kemur að Önnu og spyr: „Er þetta Aðalbyggingin?“ Anna svarar játandi, þrátt fyrir að vera sannfærð um að hún viti í raun ekkert um það.
 • Eydís bóndi er góður vinur minni, heiðarleg veit ég. Hún kvartar yfir því dag einn að sveitungar hennar hafa tekið upp á þeirri hégómlegu iðju að setja upp gervihlöður við bæi sína í Skagafirðinum, allt til að sveitin líti út fyrir að vera blómlegri en hún er. Hún fyrirlítur þetta. Dag einn kemur Óli til mín og segist hafa séð nýja hlöðu við bæ Eydísar bónda. Ég veit að sveitin er full af gervihlöðum, ekki Óli.

Spyrja má hvort Nanna og Bjarki séu áreiðanleg vitni í þessum samhengjum. Lykilatriði fyrir Lackey er að miðlun þekkingar veltur ekki bara á vitninu og skoðunum þess heldur á því sem vitnið staðhæfir og á forsendum áheyrandans til að meta staðhæfingu vitnisins.

Lackey skilgreinir að lokum þekkingarfræðilegan vitnisburð (ÞV) á þennan hátt:

 • ÞV: Fyrir sérhvert vitni S og áheyranda ÁH, ÁH lærir að f af staðhæfingu S að f ef og aðeins ef: 1) staðhæfing S um að f er á fullnægjandi hátt tengd við staðreyndina að f og 2) ÁH hefur enga sigrara sem benda til hins gagnstæða.