VIII: Þekking og samhengi

Samhengishyggja (e. contextualism) er nýleg kenning í þekkingarfræði. Í fjórða hlut námskeiðsins (þekkingarfræðileg lokun) kynntumst við kenningum Fred Dretske og Gail Stine um viðeigandi valkosti (e. relevant alternatives). Þessi kenning er náskyld samhengishyggjunni, en samkvæmt henni fer merking hugtaksins „þekking“ eftir samhenginu sem það er notað í. Við eðlilegar aðstæður skiptir t.d. möguleikinn á að við gætum verið heili í krukku ekki máli en þegar þekkingarfræðingar koma saman til að ræða efahyggjuna þá skiptir sá fjarstæðukenndi möguleiki máli.

Samhengiskenningar eru oftast settar fram frá sjónarhóli þess sem eignar öðrum þekkingu (e. knowledge attributor). Einhver (A) segir um annan (S): „S veit að f.“ Hvort að þessi fullyrðing A um þekkingu S sé sönn fer eftir samhengi A. Ef samhengið er strangt (t.d. ef A situr með þekkingarfræðingum og ræðir efahyggjuna) þá eru kröfurnar sem S þarf að uppfylla til að fullyrðing A sé sönn (þ.e. að fullyrðingin „S veit að f“ sé sönn) mun meiri en ef samhengið er milt (t.d. ef A situr í strætó og ræðir við dóttur sína um þekkingu föður hennar). Þannig fer sanngildi fullyrðingarinnar eftir samhenginu sem A er í.

Meginhugmynd samhengishyggjunnar má orða á þann hátt að þekkingarfullyrðingar séu sama eðlis og samhengisháðar fullyrðingar eins og:

  1. Ég er kennari.
  2. Það rignir.
  3. Þetta er kaktus.

Merking þessara fullyrðinga er háð samhengi. Án samhengis eru þær merkingarlausar, eða: Sanngildi þeirra er skilyrt af samhengi.

Fullyrðing eins og:

  • „Unnur veit að það rignir“

er á sama hátt samhengisbundin þar sem samhengið er þekkingarfræðileg staða (e. epistemic position) þess sem fullyrðir að Unnur viti að það rigni. Fullyrðingin er sönn í hversdagslegu samhengi en ósönn í rökræðu um efahyggju. Óbreytanleikasinnar (e. invariantism) hafna þessu og sætta sig ekki við að fullyrðingin geti við sumar aðstæður verið sönn en við aðrar aðstæður ósönn.

Við lesum eftirfarandi texta:

  • Keith DeRose „Solving the Skeptical Problem“ (má sleppa köflum 3-7), David Lewis „Elusive Knowledge“.
  • Nagel „Shifting standards?“

Ítarefni:

Keith DeRose „Solving the Skeptical Problem“

DeRose leggur út af klassískum efahyggjurökum (sjá sömu rökfærslu í öðru formi í IV. kafla) og reynir að svara þeim:

  1. Ég veit ekki að mig er ekki að dreyma.
  2. Ef veit ekki að mig er ekki að dreyma þá veit ég ekki að ég stend hér.
  3. Þess vegna – ég veit ekki að ég stend hér.

Gallinn við þessa rökfærslu (vanþekkingarrökin, e. argument from ignorance, skammstafað AI) er að mælikvarðinn á þekkingu er allt of hár og um leið og við samþykkjum forsendur efahyggjunnar við allar hugsanlega aðstæður þá getum við aldrei gert ráð fyrir þekkingu. En þetta er rangt, að mati DeRose. Svo strangur mælikvarði á þekkingu á einfaldlega ekki við alla jafna. Við aðrar og eðlilegri aðstæður er mælikvarði okkar á þekkingu annar og við getum hafnað forsendu 1 - við eðlilegar aðstæður vitum við að okkur er ekki að dreyma. En hvernig skilgreinum við þessar aðstæður? Í samhengi hvaða rökræðu eða samtals á við að hækka mælikvarða þekkingar og í hvaða samhengi á það ekki við?

Rökin um þekkingartileinkun eða eignun (e. knowledge attribution): Einhver (A) segir: „S veit að f“ um sanna skoðun S að f. Samhengishyggjan segir:

  • Ýmis sérkenni (e. features) við samtalsaðstæður (e. conversational context) A stjórna því hversu sterk þekkingarfræðileg staða (e. epistemic position) S þarf að vera til að fullyrðing A sé sönn.

Viðbjóðslega samtengingin (e. the Abominable Conjunction) er hugtak sem DeRose notar um óásættanleg viðbrögð við efahyggjurökum:

  • Þó ég viti ekki að ég sé ekki heili í krukku þá veit ég að ég hef hendur.
  • (A: Ég veit ekki að ég er ekki heili í krukku; B: Ég veit að ég hef hendur; „A og B“ er viðbjóðslega samtengingin).

DeRose hafnar þessari „lausn“.

David Lewis „Elusive Knowledge“

Þekking hefur tilhneigingu til að sleppa frá okkur þegar við reynum að ná til hennar. Hún er ekki óskeikul - allar tilraunir til að skilgreina þekkingu út frá óskeikulleika hafa mistekist - en hugsunin um skeikula þekkingu (e. fallible knowledge) er sérkennileg eða óþægileg. Til að bregðast við þessu reynir David Lewis að ná utan um þekkingu með því að skoða hana í samhengi. Hann skilgreinir þekkingu svona:

  • Þú veist að f ef og aðeins ef allir möguleikar sem gera f ósanna 1) eru útilokaðir af sönnunargögnum sem þú hefur eða 2) eru réttilega sniðgengnir.

Liður 2 í þessari skilgreiningu gerir kenningu hans að samhengiskenningu. Lewis tekur sér síðan fyrir að skilgreina hvernig við getum réttilega sniðgengið ákveðna möguleika. Í leiðinni kemur hann fram með djarfar hugmundir um eðli þekkingar.

Lewis kynnir og skýrir nokkrar reglur sem við verðum að huga að við skoðanamyndum (þar sem fyrstu þrjár hafa nokkra sérstöðu):

  1. Raunveruleikareglan (e. Rule of Actuality), sem bindur skoðanir við raunveruleikann. Við getum aldrei sniðgengið það sem raunverulega er tilfellið.
  2. Skoðunarreglan (e. Rule of Belief) sem bendir á mikilvægi skoðana sem fólk hefur. Við getum aldrei sniðgengið það sem við raunverulega teljum vera tilfellið.
  3. Líkindareglan (e. Rule of Resemblance) sem kveður á um að við eigum að gera líkar kröfur til líkra fyrirbæra.
  4. Áreiðanleikareglans (e. Rule of Reliability) sem segir að við getum alla jafna stólað á það sem er áreiðanlegt.
  5. Aðferðarreglan (e. Rule of Method) sem segir að við getum alla jafna stólað á gögn sem við höfum.
  6. Íhaldsreglan (e. Rule of Conservatism) sem segir að við getum alla jafna útilokað möguleika sem fólk í kringum okkur útilokar.
  7. Athyglisreglan (e. Rule of Attention) sem segir að við getum ekki útilokað möguleika sem athygli okkar beinist að.

Af þessum reglum getur athyglisreglan valdið þekkingunni hvað mestum skaða. Efahyggjan beinir athygli okkar að villtustu möguleikum og um leið og athyglinni er beint að þeim getum við ekki útilokað þá.