Ritgerð í þekkingarfræði

Nemendur skrifa ritgerð um efni að eigin vali í þekkingarfræði. Sé efnið utan við lesefnið námskeiðsins skal leita samþykkis kennara. Nemendur þurfa að afla sér heimilda um ritgerðarefnið, en kennari getur verið þeim innan handar við það. Á námsbókasafni, efstu hæð Háskólabókasafns, eru valdar bækur í þekkingarfræði. Eins er ráðlegt að notast við efni á netinu eins og Stanford Encyclopedia of Philosophy.

Ritgerðin á að vera á bilinu 3000 til 4000 orð. Æskilegt er að nemendur setji ritgerðina upp með 12 punkta letri (Times New Roman eða sambærilegt), línubili 1,5 og með eðlilegum spássíum. Blaðsíðutal skal vera í fæti hverrar síðu. Nemendur eru hvattir til að vanda frágang ritgerða og huga vel að skráningu heimilda og tilvísinun í heimildir (ath. t.d. að skrá greinar úr Stanford Encyclopedia á réttan hátt - þ.e. fylgið upplýsingum í „Author and Citation Info“).

Á forsíðu skal koma fram:

  • Titill ritgerðar.
  • Nafn nemanda.
  • Nafn kennara.
  • Heiti námskeiðs.
  • Dagsetning.
  • Upplýsingar um orðafjölda.

Nemendur skila heildardrögum að ritgerð í síðasta lagi föstudaginn 3. nóvember (frestur rennur út á miðnætti) á heimasvæði námskeiðsins í Uglu (undir „verkefni og hlutapróf“). Áður en ritgerð er send skal hún vistuð sem pdf skjal og skal titill á vistuðu skjali innihalda nafn nemanda („NAFN NEMANDA-Ritgerð“).

Kennari leggur ekki mat á heildardrögin sem skilað er 3. nóvember. Þau fara í yfirlestur hjá öðrum nemendum sem gefa skriflega umsögn. Kennari mun hins vegar draga frá fyrir sein skil, 0,5 fyrir hvern dag sem líður eftir að skilafrestur rennur út. Eins mun kennari draga 0,5 frá einkunn nái ritgerð ekki lengdarmörkum eða fari hún yfir efri lengdarmörk. Nemendur sem lenda í vandræðum með að halda skilafrest eða með lengdarmörk geta haft samband við kennara og beðið um undanþágu. Slíkum bónum verður mætt af skilningi séu góð og gild rök fyrir beiðninni.

Nemendur fá ritgerðina aftur ásamt mati annars nemanda („jafningjamati“) eigi síðar en mánudaginn 13. nóvember. Endanlegri gerð ritgerðar skal svo skila í síðasta lagi 30. nóvember (fyrir miðnætti). Sömu reglur um frádrátt einkunnar gilda þá og fyrir skilin 3. nóvember. Nemendur eiga að taka tillit til umsagnar samnemanda í lokaritgerð. Þetta þýðir ekki að þeir eigi að vera sammála því sem sagt er í jafningjamatinu, einungis að þeir eigi að taka tillit til þess (þ.e. bregðast við á einhvern hátt).

Endanlegri útgáfu af ritgerð skal skilað á heimasvæði námskeiðsins í Uglu (undir „verkefni og hlutapróf“) eigi síðar en 30. nóvember. Ritgerðin skal vistuð sem pdf skjal undir titli sem inniheldur nafn nemanda („NAFN NEMANDA-Ritgerð“).

Um tilvísanir í textasafn námskeiðsins: Best er að vitna sérstaklega í hverja grein í safnritinu, en hafa svo upphaflega útgáfuárið innan hornklofa. T.d. væri best að hafa heimildaskráningu fyrir Williamson svona (eða á sambærilegan hátt ef önnur kerfi eru notuð): Timothy Williamson 2008 [2000], „A State of Mind“, Epistemology. An Anthology, ritstj. E. Sosa o.fl., Blackwell Publishing: Malden, Oxford, Victoria, bls. 213-230. Síðan væri hægt að nota „Williamson (2008 [2000]) bls. 213“ þegar vísað er í einstaka blaðsíður innan textans.

Um jafningjamat: Eftir að nemendur hafa skilað heildardrögum að ritgerð 3. nóvember fá þeir ritgerð annarra nemenda til yfirlesturs og umsagnar. Umsögninni skal skilað á sérstöku eyðublaði eigi síðar en föstudaginn 10. nóvember. Við mat á ritgerð samnemenda er mikilvægt að vera kurteis og uppbyggileg og fylgja leiðbeiningum á eyðublaði. Gagnrýni ætti að orða með þessi gildi í huga. Sjálfsagt er að benda á atriði sem eru torskiljanleg eða sem gætu valdið misskilningi en eins ætti að draga fram það sem vel er gert. Kennari gefur einkunn fyrir jafningjamat. Einkunn mun fyrst og fremst endurspegla hvort matið sá uppbyggilegt og vandað en einnig taka mið af skilningi nemenda á viðfangsefninu.

Hér er hægt að sækja eyðublað til að nota við jafningjamat á ritgerðum.

Yfirlit:

  • 3. nóvember: Skil á heildardrögum að ritgerð.
  • 10. nóvember: Skil á jafningjamati.
  • 13. nóvember: Nemendur fá ritgerð til baka með jafningjamati.
  • 30. nóvember: Lokaskil á ritgerð.