I: Inngangur og efahyggja

Inngangur

Í fyrsta tíma verður námskeiðið og efni þess kynnt og nemendur fara yfir námsáætlun. Mjög góð almenn kynning á þekkingarfræði og viðfangsefnum hennar er í bókarkorni eftir Jennifer Nagel:

  • Knowledge. A very short introduction, sem kom út árið 2014. Jennifer gefur  gott yfirlit yfir sögulega þróun þekkingarfræðinnar (efahyggju, raunhyggju og rökhyggju) og meginstrauma umræðu síðustu áratuga. Í tilefni af útkomu bókarinnar var tekið viðtal við Jennifer Nagel hjá Philosophy Bites (ágúst 2014).

Eins bendi ég á grein um þekkingarfræði í Stanford Encyclopedia of Philosophy (neðst í greininni eru krækjur í síður sem fjalla um ýmis sértæk viðfangsefni í þekkingarfræði).

Efahyggja

Fyrsti hluti námskeiðsins fjallar um efahyggju. Samkvæmt efahyggjunni getum við ekki vitað neitt með nokkurri vissu og stór hluti nútíma þekkingarfræði fæst við að svara þessari ögrun. Við lesum klassíska grein eftir Barry Stroud, sem túlkar kenningar efahyggjunnar eins jákvætt og honum er unnt, og enn klassískari greinar eftir G.E. Moore, sem er höfundur frægustu - en umdeildustu - afsannana efahyggju. Á næstu vikum munum við síðan mæta fleiri tilraunum til að losna úr klóm efahyggjunnar.

Hugartilraun René Descartes í Hugleiðingum um frumspeki (fyrsta hugleiðing) er þekktasta og ein róttækasta útgáfa af efahyggjurökunum og er oft vísað í hana - eða nútímalegri útgáfur af sömu rökum („heili í krukku“) - þegar efahyggjan er tekin til umfjöllunar. Efahyggjan á sér þó mun eldri sögu og í fornöld var hún sett fram á  kerfisbundinn hátt sem allsherjar atlaga að möguleikum þekkingar.

  • Hugleiðingar um frumspeki eftir Descartes er til í íslenskri þýðingu Þorsteins Gylfasonar. Hún kom út í Lærdómsritum Hins íslenska bókmenntafélags 2001.
  • Þeir sem vilja kynna sér forna efahyggju og rök hennar gegn öllum tilraunum til að færa rök fyrir þekkingu geta lesið grein um Sextos Empeirikos í Stanford Encyclopedia of Philosophy (sérstaklega kafla 3.5) eða hlustað á pistil Peter Adamson um Sextos í History of Philosophy without any gaps.

Við lesum eftirfarandi texta:

  • Barry Stroud „The Problem of the External World“ og G.E. Moore „Proof of an External World“, „Four Forms of Scepticism“ og „Certainty“.
  • Nagel „Introduction“ og „Scepticism.“

Ítarefni:

Barry Stroud: „The Problem of the External World“

Ein leið að setja fram túlkun Barry Stroud á rökum Descartes eru eftirfarandi tvær rökfærslur:

Stroud 1

  1. Ef Descartes veit ekki að hann situr við eld þá veit hann ekki neitt um hinn ytri heim.
  2. Descartes veit ekki að hann situr við eld.
  3. Descartes veit ekki neitt um hinn ytri heim.

Stroud 2

  1. Descartes veit að draumamöguleikinn samræmist ekki því að hann viti að hann sitji við eld.
  2. Ef Descartes veit að draumamöguleikinn samræmist ekki því að hann viti eitthvað ákveðið (að ákveðin fullyrðing um hinn ytir heim sé sönn), þá – til að vita eitthvað ákveðið – verður hann að vita að möguleikinn sé óraunverulegur.
  3. Þannig að – til að Descartes geti vitað að hann sitji við eld verður hann að vita að draumamöguleikinn sé ekki raunverulegur (af a og b).
  4. En Descartes getur ekki vitað að draumamöguleikinn sé rangur.
  5. Descartes veit ekki að hann situr við eld (af c og d; niðurstaðan = #2 í Stroud 1).

 

G.E. Moore: „Proof of an External World“, „Four Forms of Scepticism“ og „Certainty“

Ágreininginn milli Moore („Certainty“) og efahyggjunnar má setja fram í eftirfarandi rökfærslum, sem báðar eru gildar.

Moore

  1. Ef ég veit að ég stend hér þá hlýt ég að vita að mig er ekki að dreyma.
  2. Ég veit að ég stend hér.
  3. Þess vegna – ég hlýt að vita að mig er ekki að dreyma.

Efahyggjan

  1. Ef ég veit að ég stend hér þá hlýt ég að vita að mig er ekki að dreyma.
  2. Ég veit ekki að mig er ekki að dreyma.
  3. Þess vegna - ég veit ekki að ég stend hér.

Tvær fullyrðingar, ólík rökform (Modus Ponens eða Modus Tollens).

  1. Ég veit að ég stend hér.
  2. Ég veit að mig er ekki að dreyma.