Ráðstefna um Einlyndi og marglyndi

Jón Karl Helgason, 27/04/2019

Öld einlyndis og marglyndis er titill málþings sem fram fer í Hannesarholti 27. apríl en tilefnið er 100 ára afmæli fyrirlestra sem Sigurður Nordal flutti í Bárubúð í Reykjavík veturinn 1918-1919. Ráðstefnan er haldin í þeirri trú að hugtök Nordals einlyndi og marglyndi, og flókið samspil þeirra, geri okkur kleift að hugsa upp á nýtt um áleitnustu deilumál í heimspekilegri sálfræði og siðfræði samtímans en einnig til að skilja hræringar í bókmenntum og menningarlífi Íslands á tuttugustu öld. Í fyrirlestinum sem ég flyt á þessari ráðstefnu beini ég sjónum að síðarnefndu atriðunum, einkum því hvernig Nordal gerði í Bárubúð upp við arfleifð naturalismans í skáldskap og listum.

Great Immortality: greinasafn um þjóðardýrlinga

Jón Karl Helgason, 24/04/2019

Great Immortality: Studies on European Cultural Sainthood er titill á nýútkomnu greinasafni sem við Marijan Dović ritstýrum en útgefandi er Brill. Þar er að finna umfjöllun tuttugu höfunda um fjölbreytilegt framhaldslíf evrópskra listamanna, einkum þjóðskálda, í menningarlegu minni og pólitísku lífi innan einstakra ríkja. Bókin er óbeint framhald af bók okkar Marijans, National Poets, Cultural Saints, frá árinu 2017. Báðar bækurnar eru hluti af ritröðinni National Cultivation of Culture (12. og 18. bindi ) sem hollenski bókmenntafræðingurinn Joep Leerssen ritstýrir en hann er meðal þeirra sem eiga grein í Great Immortality. Meðal annarra höfundar er Simon Halink sem fjallar um þjóðardýrlinginn Snorra Sturluson. Formála bókarinnar skrifa Marko Juvan og Sveinn Yngvi Egilsson en þeir lögðu með okkur Marijan og Joep grunninn að þeim rannsóknum sem þessar tvær bækur eru ávöxtur af. Ég lít á þessa nýju bók sem lokaáfanga þeirrar vinnu sem ég hóf með bók minni Ferðalok árið 2003 og hélt áfram í greinasafninu Ódáinsakur árið 2014.

Víkingurinn með róðukrossinn

Jón Karl Helgason, 24/04/2019

"Víkingurinn með róðukrossinn" er titill greinar sem ég birti í 2, hefti Tímarits Máls og menningar 2019 sem er nýútkomið. Kveikja greinarinnar er bandaríska kvikmyndin The Viking (1928) í leikstjórn Roy William Neill. Um er að ræða frjálslega aðlögun á skáldsögunni, The Thrall of Leif the Lucky (1902), eftir bandarísku skáldkonuna Ottilie A. Liljencrantz sem sótt hafði innblástur í íslenskar fornsögur. Viðfangsefni sögunnar og kvikmyndarinnar er sigling Leifs heppna Eiríkssonar til Norður Ameríku. Í grein minni er rakið með hvaða hætti Leifur ferðast úr íslenskum miðaldaheimildum, eftir síðum skáldsögunnar bandarísku og þaðan yfir á hvíta tjaldið og loks aftur til baka til Íslands árið 1932, nánar tiltekið upp á Skólavörðuhæð.

Norræn goð í myndasögum, kvikmyndum og þungarokki

Jón Karl Helgason, 24/01/2019

 "Nordic Gods and Popular Culture," er titill á viðamikilli grein sem ég birti í í einu bindi bókaflokksins The Pre-Christian Religions of the North (PCRN) sem Brepols gaf út skömmu fyrir áramótin. Þarna fjalla ég um myndasögur, þungarokk og kvikmyndir þar sem trúarlíf og goðsögur forfeðra okkar eru í brennidepli. Þetta er seinna bindi af tveimur í þessum flokki sem helgaðar eru viðtökum edduarfsins og er sjónum hér beint að tímabilinu 1830 til samtímans. Ritstjóri er hin öfluga ástralska fræðikona Margaret Clunies Ross. Upphaf og lok kaflans skarast við umfjöllun mína um myndasögur í bókinni Echoes of Valhalla sem út kom árið 2017 en útgáfa PCRN hefur dregist svolítið á langinn, eins og gjarnan gerist með viðamikil verkefni af þessu tagi.

Grein um dægurmenningu og menningarminni

Jón Karl Helgason, 04/12/2018

Nýlega kom út hjá De Gruyter ritið Handbook of Pre-Modern Nordic Memory Studies í ritstjórn Jürg Glauser, Pernille Hermann og Stephen A. Mitchell. Þau hafa á liðnum árum verið í fararbroddi fræðimanna sem beitt hafa aðferðum minnisfræða í rannsóknum á norrænum fornbókmenntum.  Hafa þau meðal annars haldið úti vefsíðu um þetta efni og staðið fyrir vinnufundum, málstofum og ráðstefnum. Ég tók þátt í einum þessara viðburða, ráðstefnunni Nature, Landscape, and Place: Memory Studies in the Nordic Middle Ages sem fram fór í Uppsala á liðnu ári. Ég á líka eina grein í þessari nýju bók. Hún ber titilinn "Popular Culture", og fjallar um fornbókmenntir, dægurmenningu og minnisfræði.

Dráp Kambans og Snorra

Jón Karl Helgason, 09/11/2018

Árið 1241 var Snorri Sturluson tekinn af lífi á heimili sínu, Reykholti í Borgarfirði og herma sagnir að andlátsorð hans hafi verið „Eigi skal höggva“. Um sjö hundruð árum síðar var Guðmundur Kamban tekinn af lífi í matsal gistiheimilisins þar sem hann bjó í Kaupmannahöfn og herma sagnir að andlátsorð hans hafi verið: „Saa skyd. Jeg er ligeglad“. Laugardaginn 24. nóvember held ég fyrirlestur í Snorrastofu Reykholti sem ég nefni "Eigi skal höggva: Jeg er ligeglad. Lausbeislaðar hugleiðingar um fullveldið og karlveldið." Þar hyggst ég tilraun til að tengja saman dauða skáldanna við ártalið 1918 og skrif Sigurðar Nordals.

Hin hliðin á þjóðskáldinu

Jón Karl Helgason, 08/11/2018

Jónas Hallgrímsson: Hin hliðin er titill á málþingi sem Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar efnir til um heilsufar Jónasar Hallgrímssonar og "hina hliðina" á þjóðskáldinu. Þingið fer fram laugardaginn 17. nóvember í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu klukkan 10.00.-13.00. Fyrirlesarar, auk mín, eru Dagný Kristjánsdóttir, Óttar Guðmundsson, Torfi Tulinius og Páll Valsson. Ætlunin er að taka til umfjöllunar líf, ástamál, drykkju og dauðdaga Jónasar, sem og tíðaranda 19. aldar.  Mitt erindi hnitast um líkamsleifar skáldsins og tengsl þeirra við aðrar og alþjóðlegri beinaleifar. Nálgast má dagskrá þingsins á fésbókarsíðu FÁSL.

Þriðji ársfundur ISPS í Barcelona

Jón Karl Helgason, 11/10/2018

Dagana 25.-27. október er ég meðal fyrirlesara á þriðja ársfundi International Society for Polysystem Studies (ISPS) sem fram fer að þessu sinni í Barcelona á Spáni. Fyrsti fundurinn var haldinn í Reykholti í Borgarfirði árið 2016 og annar fundurinn í Levico Terme (Trento) á Ítalíu árið 2017. Markmiðið er að stefna saman fræðimönnum frá ólíkum löndum og úr ólíkum fræðigreinum sem sótt hafa innblástur fyrir rannsóknir sínar í skrif ísraelska fræðimannsins Itamars Even-Zohar um bókmenntir og menningu sem fjölþætt kerfi (polysystem). Aðalfyrirlesari í Barcelona er Elias J. Torres Feijó sem er prófessor við Universidade de Santiago de Compostela. Ég mun á ráðstefnunni kynna ásamt Maximilliano Bampi áform okkar um að skrifa saman almennt inngangsrit um fjölkerfafræði.

Þriðja bindi Smásagna heimsins

Jón Karl Helgason, 11/10/2018

Smásögur heimsins er titill á fimm binda ritröð sem við Rúnar Helgi Vignisson og Kristín Guðrún Jónsdóttir höfum verið að ritstýra undanfarin ár. Þriðja bindið er nú nýkomið út en þar er að finna um 20 smásögur í nýjm íslenskum þýðendum eftir höfunda frá Asíu og Eyjaálfu. Við erum þegar farin að undirbúa næsta bindi, sem helgað verður Afríku. Í fyrra þegar við gáfum út smásögur Rómönsku Ameríku stóð Kristín Guðrún í brúnni en nú (líkt og þegar við gáfum út smásögur Norður Ameríku) hefur Rúnar Helgi dregið vagninn, enda búinn að heimasækja báðar heimsálfur oftar en einu sinni á undirbúningstímanum. Fjöldi frábærra þýðenda hefur lagt okkur lið, enda er lagt kapp á að sem flestar sögur séu þýddar úr frummálinu. Nú eru bara tvö bindi eftir: Afríka (sem við erum þegar byrjuð að undirbúa fyrir næsta ár) og Evrópa (sem kemur út 2020)

Ráðstefna og vefur um bankahrunið

Jón Karl Helgason, 04/10/2018

Hrunið, þið munið er titill viðamikillar ráðstefnu sem haldin verður í Háskóla Íslands dagana 5.-6. október. Ein kveikja ráðstefnunnar var vefur með sama titili sem við Guðni Th. Jóhannesson, þáverandi dósent í sagnfræði, hófum að þróa með nemendum okkar í sagnfræði og íslensku á árunum 2014 en fjölmargir fleiri aðilar innan Háskóla Íslands og víðar hafa verið að leggja þar inn efni allar götur síðan. Meðal þeirra atkvæðamestu eru Markús Þórhallsson, Einar Kári Jóhannsson, Andrés Fjelsted og Halldór Xinyu Zhang. Í framhaldi af þessu starfi höfðum við Kristín Loftsdóttir forgöngu um ráðstefnuhaldið, háskólarektor Jón Atli Benediktsson tók vel undir hugmyndina og hefur styrkt verkefnið með margvíslegum hætti en Berglind Rós Magnúsdóttir, Magnús Diðrik Baldursson, Ragnar Sigurðsson. Rúnar Vilhjálmsson og Jón Bragi Pálsson hafa unnið með okkur að undirbúningi. Á ráðstefnunni taka um 100 fræðimenn og -konur til máls í um 20 málstofum.