Af mbl.is - Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Hásjóla Íslands, segir líklegt að Þjóðverjar hafi ákveðið að takmarka straum flóttafólks gegnum Austurríki til landsins til að skapa þrýsting á önnur lönd Evrópusambandsins til að taka við flóttafólki. Flóttafólk sofi á götum borga í sunnanverðu Þýskalandi, og að fylki og birgir Þýskalands eigi erfitt með að ráða við flóttamannastrauminn. Baldur segir Þýskaland hafa leikið svipaðan leik skömmu eftir að Berlínarmúrinn féll í sama tilgangi.
„Í fyrsta lagi þá er straumur flóttamanna það mikill að þýsku fylkin og borgirnar eiga orðið erfitt með að ráða við hann,“ segir Baldur. „Í München var fólk farið að sofa á götunum.“
„Í öðru lagi held ég að þýsk stjórnvöld séu að setja þrýsting á önnur aðildarríki Evrópusambandsins, sem funda á morgun í Brussel þar sem á að ræða hvort eigi að koma á þessum svokallaða kvóta sem fæli í sér að hvert og eitt ríki þurfi að taka við ákveðið mörgum flóttamönnum. Ég held að þetta sé því pólitísk strategía til að þrýsta á stjórnvöld, sérstaklega í Mið- og Austur-Evrópu, til að taka við hluta af flóttamönnunum,“ segir Baldur. Tímasetningin sé því engin tilviljun.
„Í þriðja lagi gætir vaxandi óánægju í Þýskalandi með ákvörðun kanslarans að taka við svona miklum fjölda flóttafólks. Hún sætir líka vaxandi gagnrýni fyrir það í öðrum ríkjum Evrópusambandsins. Það er einfaldlega vegna þess að fólk sem er á flótta og hefur flúið t.d. Sýrland fréttir að Þýskaland ætlar að taka við hundruðum þúsunda flóttamanna. Þá eru meiri líkur á að fleira flóttafólk leggi af stað,“ segir Baldur.
„Í fjórða lagi, atriði sem tengist öðrum liðnum, þá hefur Þýskaland leikið þennan leik áður. Eftir fall Berlínarmúrsins 1989 og í kjölfarið kommúnistastjórna í allri Mið- og Austur-Evrópu, þá streymdu til Evrópu flóttamenn frá austrinu. Þetta voru nokkrar milljónir,“ segir Baldur. „Flestir þeirra voru þýskumælandi en þó ekki allir og á ákveðnum tímapunkti takmörkuðu þýsk stjórnvöld móttöku þeirra. Fyrst tóku þeir við öllum, eins og þeir hafa gert þangað til í dag. Svo hættu þeir að ráða við strauminn og fóru að takmarka hann. Það leiddi til þess að önnur ríki í Evrópusambandinu lentu í verulegum vandræðum. Um leið og Þýskaland lokar landamærunum, þá hætta flóttamennirnir ekki að koma; þeir fara einfaldlega annað,“ segir Baldur.
Viljugri að ganga frá Schengen
Þetta varð að hans sögn meðal annars til þess að ríki innan Evrópusambandsins voru viljugri til að ganga frá Schengen-samkomulaginu og koma á frjálsu flæði fólks og þeirra ákvæða sem voru í kjölfarið samþykkt í Schengen árin 1995 og 1996. „Merkel er því að taka sama snúning, vegna þess að ef Þýskaland loka landamærum sínum þá streymir flóttafólkið til annarra ríkja sem lenda í mjög verulegum vanda.“
Baldur segir Þjóðverja vera mun betur búna til að taka á móti stórum hópum flóttamanna en aðrir. Landið sé til að mynda mjög stórt og Þýskaland hefur reynslu af því að taka á móti flóttafólki, allt frá síðari heimsstyrjöld. „Þeir kunna þetta og geta tekið við mörgum. Hin ríkin eru miklu verr í stakk búin til þess. Ég held að um leið og Þjóðverjar byrja að loka landamærunum og hóta að loka alfarið, þá gæti það leitt til þess að ríki í Austur-Evrópu gefi eftir og taki við fleiri flóttamönnum,“ segir Baldur.
Mikill munur milli landa í Evrópu
Aðaláherslan virðist að hans sögn vera að fá lönd í Austur-Evrópu til að taka að sér fleiri flóttamenn, en þetta séu líka ákveðin skilaboð til annarra ríkja Evrópusambandsins. „Þjóðverjar eru að taka á móti hundruðum þúsunda flóttamanna. Á sama tíma sagði David Cameron í breska þinginu að Bretar ætluðu að taka við 20.000 flóttamönnum á næstu fimm árum. Í samanburði við Þýskaland er það ekki mikið,“ segir Baldur.
„Þetta er því tvennskonar. Bæði er [flóttamannastraumurinn] farinn að skapa vandamál, Þjóðverjar ráða ekki við þetta, og það er verið að senda pólitísk skilaboð að fleiri verði að hjálpa til,“ segir Baldur. Hann er þessa stundina staddur í Berlín í Þýskalandi, og hann verður ekki var við flóttamannastrauminn svo norðarlega í landinu.
Verða að vinna með Þjóðverjum
„Ef Þjóðverjar eru að grípa til þessara drastísku ráðstafana - að koma á tímabundnu eða varanlegu landamæraeftirliti - það fer eftir því hver verða viðbrögð annarra ríkja í Schengen. Ég held að nágrannalönd Þýskalands eigi ekki annan kost en að vinna með Þjóðverjum og taka við fleiri flóttamönnum. Það virðist vera reglan frekar en undantekninga að þegar Evrópusambandið er að glíma við erfið mál, hvort sem það er flóttamannastraumurinn eða efhanagskrísur, þá eru samningaviðræður milli ríkjanna mjög erfiðar og það næst ekki sátt um málin fyrr en á úrslitastundu. Menn beita öllum brögðum til að ná fram sínum málum og ég held að það sé það sem kanslarinn er að gera,“ segir Baldur.
Hann rifjar upp þegar Danmörk tók upp landamæraeftirlit við Þýskalands. Það hafi verið að kröfu danska Þjóðarflokksins sem gerði það að skilyrði fyrir að styðja fjárlagafrumvarp stjórnarinnar. „Þessi aðgerð var talin ólögleg af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem mótmæli henni mjög kröftuglega. Hins vegar hef ég talið að ef ríki telur að grundvallarhagsmunum þess sé stefnt í voða, til dæmis vegna gríðarlegs streymis fólks yfir landamæri þess sem það ræður ekki við að taka á móti, þá sé ríkið í rétti til þess að grípa til ráðstafana, einfaldlega til þess að ráða við aðstæðurnar. Þar mundi koma fram þessi grundvallarregla ESB að ef ríki bera fyrir sig grundvallarhagsmuni, þá taki aðrir tillit til þess,“ segir Baldur.
Frjálst flæði vegna EES - ekki Schengen
Í þessu samhengi má nefna að í EES-samningnum sem kveður á um frjálst flæði fólks þar eru sérstök ákvæði um að Ísland geti takmarkað straum fólks til landsins vegna fámennis. „Það er skrifað inn í EES-samninginn,“ segir Baldur og segir því ákvæði einu sinni hafa verið beitt þegar Falun Gong menn komu til að mótmæla komu forseta Kína til landsins. Baldur vekur athygli á að það sé algjör misskilningur að frjálst flæði fólks sé í gegnum Schengen.
„Það er það ekki heldur vegna ákvæða EES-samningsins um fjórfrelsið,“ segir Baldur. Í fjórfrelsinu felst krafa um frjálst fæði vara, þjónustu, fjármagns og fólks milli landa Evrópusambandsins og aðildarríkja EES-samningsins. „Í Schengen felst einfaldlega krafa um að mega ferðast milli aðildarríkja Schengen án þess að sæta persónueftirliti.“ Í Schengen felist líka náin lögreglusamvinna. „Hún hefur skipt miklu meira máli en menn héldu þegar þeir skrifuðu undir samninginn á tíunda áratugnum vegna vaxandi alþjóðlegrar glæpastarfsemi sem menn sáu ekki fyrir. Lögreglusamvinnan hefur því verið mun stærri angi samstarfsins og mikilvægari en þeir héldu að hún yrði,“ segir Baldur.