V: Aristóteles, Epikúringar og Stóa um frelsi viljans

Í þessum tíma munum við beina sjónum að spurningunni um frelsi viljans. Við byrjum með því að líta á lítið ræddan texta í Siðfræði Nikomakkosar eftir Aristóteles og snúum okkur síðan að Epikúrosi. Meginviðfangsefni dagsins er kenning stóuspekinga um örlög og nauðsyn.

Aristóteles setur eftirfarandi vanda fram:

  • Fyrst ósk beinist að markmiði, en ráðgerð og val að leiðum að markmiði, hljóta athafnir sem lúta að leiðum að vera eftir vali og viljandi. Nú lýtur virkni dyggða að þessum leiðum. Dyggðir og lestir eru því á okkar eigin valdi. Sé á okkar valdi að breyta er einnig á okkar valdi að breyta ekki. Og sé á okkar valdi að breyta ekki er einnig á okkar valdi að breyta. Sé á okkar valdi að breyta þegar slíkt er göfugt, er einnig á okkar valdi að breyta ekki, sem er þá svívirða.
  • Siðfræði Níkomakkosar, III, 5; þýð. Svavar Hrafn Svavarsson.

Spurningin um frelsi viljans er ekki áberandi í heimspeki fornaldar fyrr en með stóuspekingum. Aristóteles viðrar þó vandann í siðfræðilegu samhengi - vandinn snýst þá um ábyrgð okkar sem einstaklinga á góðum og vondum gjörðum - og hann kemst á dagskrá hjá Epikúrosi. Hann var atomisti, þ.e. hann hélt fram kenningu um að heimurinn væri ekkert annað en safn einda sem hreyfast vélrænt. Allt sem gerist virðist því vera lögmálsbundin afleiðing fyrri atburða og þar með er allt bundið á klafa efnislegrar nauðsynjar. Epikúringar höfðu svar við þessum vanda og svarið er um margt undarlegt. Þeir gera einfaldlega ráð fyrir óútskýranlegri óreglu í reglulegri hreyfingu atomanna og hafna þar með, þegar upp er staðið, algerri nauðhyggju.

Stóumenn setja fyrstir spurninguna um frelsi viljans á dagskrá af einhverjum þunga. Þeirra kenning um eðli heimsins segir að allt sé efni og að allt sé bundið á klafa lögmála. Allt sem við, fólk, gerum og hugsum er afleiðing fyrri atburða og fullkomlega fyrirsjáanlegt. Þrátt fyrir þetta gerðu stóuspekingar ráð fyrir að við værum frjáls. Þeirra kenning er tilraun til að samræma nauðugan heim og ákvarðanafrelsi (í anda Aristótelesar).

Meginspurning dagsins er: Ef heimurinn er lögmálsbundinn og allir atburðir í eðli sínu fyrirsjáanlegir er þá eitthvað pláss fyrir frelsi athafna og hugsana? Við lesum texta eftir Aristóteles, Epikúros og texta um stóu en einnig grein eftir Sarah Broadie þar sem hún greinir vandann og tilraunir stóumanna til lausna. Hún skýrir líka muninn á ýmsum tegundum nauðungar og örlaga.

Lesefni (fornaldartextar úr Hellenistic Philosophy. Introductory Readings (2. útg.), ritstj. Inwood og Gerson, 1997):

  1. Epíkúros: bls. 64-65 (texti I 28); bls. 73-74 (texti I 34). (Ugla, texti 5a)
  2. Stóa: bls. 179-190 (textar II 76-93). (Ugla, texti 5a)
  3. Sarah Broadie „From necessity to fate: An inevitable step?“, í Aristotle and Beyond. Essays on Metaphysics and Ethics, Cambridge University Press, 2007 (upphaflega birt 2001), bls. 33-49 (Ugla, texti 5b).

Ítarefni: