Athugið eftirfarandi (gildu) rökfærslu (frá Moore, sjá hér):
- Ef ég veit að ég stend hér þá hlýt ég að vita að mig er ekki að dreyma.
- Ég veit að ég stend hér.
- Þess vegna – ég hlýt að vita að mig er ekki að dreyma.
Nú segir efahyggjufólkið: Þú veist ekki að þig er ekki að dreyma. Fyrir þessu má færa alls kyns og mjög öflug rök. Útgáfa efafyggjunnar væri svona:
- Ef ég veit að ég stend hér þá hlýt ég að vita að mig er ekki að dreyma.
- Ég veit ekki að mig er ekki að dreyma.
- Þess vegna - ég veit ekki að ég stend hér.
Hvernig veljum við á milli? Þurfum við yfirhöfuð að velja á milli? Ein leið til að glíma við þetta vandamál er út frá kenningunni um þekkingarfræðilega lokun (e. epistemic closure). Kenningin segir að ef ég veit að f og ef ég veit að g er falið í f (þ.e. ef f þá g), þá veit ég líka að g. Þessi kenning hefur áhrif á mat á rökunum hér að ofan því ef við höfnum kenningunni um þekkingarfræðilega lokun þá getum við samþykkt eftirfarandi leið út úr efahyggjunni:
- Ef ég veit að ég stend hér þá hlýt ég að vita að mig er ekki að dreyma.
- Ég veit að ég stend hér.
- Ég veit ekki að mig er ekki að dreyma.
Til að geta sætt okkur við þessar þrjár fullyrðingar saman þurfum við rök fyrir því að sögnin „ég veit“ (sem tæknilega má kalla virki, á ensku operator) flyst ekki frá 1 til 3. Fyrir þessu þarf góð rök því með því höfnum við eftirfarandi: ef ég veit að f og ef ég veit að g er falið í f (þ.e. ef f þá g), þá veit ég líka að g - þ.e. við höfnum kenningunni um þekkingarfræðilega lokun.
Við lesum eftirfarandi texta í þessum hluta:
- Fred Dredske „Epistemic Operators“, Gail Stine „Skepticism, Relevant Alternatives, and Deductive Closure“ og Jonathan Vogel „Are There Counterexamples to the Closure Principle?“
Ítarefni:
Fred Dredske „Epistemic Operators“
Dretske hafnar þekkingarfræðilegri lokun (e. epistemic closure) til að verjast efahyggjunni. Lokun á við um að ef ég veit að f og ég veit líka að f felur í sér g þá leiðir af því að ég veit að g:
- Ég veit að f.
- Ég veit að g leiðir af f.
- Ég veit að g.
Dretske hafnar því að „ég veit“ smjúgi alltaf í gegnum (e. penetrate) afleiðsluna og hann kemur með ýmis dæmi máli sínu til stuðnings. Hann leggur til kenningu sem byggir á viðeigandi valkostum (e. relevant alternatives). Þegar ég segist, við venjulegar aðstæður, vita að ég hafi tvær hendur þá er valkosturinn ég gæti verið heili í krukku ekki viðeigandi og kemur því ekki upp. Ég veit þess vegna að ég hef tvær hendur. En ef ég er í tíma í Inngangi að þekkingarfræði þá er valkosturinn – ég gæti verið heili í krukku – viðeigandi og ég þarf að geta svarað honum. Þessar aðstæður eru þó frekar óvenjulegar.
Gail Stine „Skepticism, Relevant Alternatives, and Deductive Closure“
Stine heldur í kenningu Dretske um viðeigandi valkosti en vill halda í þekkingarfræðilega lokun. Ástæðan er sú að hún telur Dretske í raun gefast upp fyrir efahyggjunni. Ef upp koma aðstæður þar sem kenning um heila í krukku væri viðeigandi valkostur, t.d. í inngangi að þekkingarfræði, þá hefur Dretske ekkert svar - segir Stine. Hún telur því að við verðum að grípa hitt hornið og segja: Ef ég veit að ég hef tvær hendur þá veit ég líka að ég er ekki heili í krukku (skv. Dretske getum við vitað að við höfum tvær hendur án þess að vita að við séum ekki heili í krukku).
Jonathan Vogel „Are There Counterexamples to the Closure Principle?“
Líkt og Stine vill Vogel halda í þekkingarfræðilega lokun. Hann telur dæmið um sebrahestana ekki sannfærandi því undir eðlilegum kringumstæðum byggjum við mat okkar á því hvort dýr í dýragarði séu sebrahestar eða eitthvað annað á því sem við sjáum ásamt fjölda annarra bakgrunnsupplýsinga. Hins vegar telur hann svokallaðar lottófullyrðingar, sem eru þess eðlis að þó þær séu að öllum líkindum sannar þá geti þær allt eins verið ósannar, stærra vandamál fyrir þekkingarfræðilega lokun. Vandinn felst í eftirfarandi:
- Gefum okkur sem forsendu eitthvað sem er eðlilegt að trúa og taka sem dæmi um hversdagslega þekkingu (fullyrðing nr. 1: „það verður tími í Inngangi að þekkingarfræði á mánudag“). Á sama tíma verðum við að viðurkenna að það eru einhverjar (mjög litlar samt!) líkur á að þetta sé ósatt.
- Við ímyndum okkur nú aðstæður sem gera fullyrðinguna („það verður tími í Inngangi að þekkingarfræði á mánudag“) ósanna. Þetta er lottódæmi (t.d. það brýst út eldgos á Reykjanesskaga á mánudag og tími fellur niður). Tölfræðilegar líkur á að þetta gerist eru mjög litlar en samt einhverjar og við getum ekki með góðu móti útilokað þennan möguleika (fullyrðing nr. 2: „það brýst ekki út eldgos á Reykjanesskaga á mánudaginn.“).
- Þekkingarfræðileg lokun krefst þess í svona tilfelli að við höfnum annað hvort að vita fullyrðingu nr. 1 eða fullyrðingu nr. 2.
Lottófullyrðingar uppfylla, skv. Vogel, eftirfarandi skilyrði:
- Þó lottófullyrðing sé að öllum líkindum sönn þá væri ekkert óeðlilegt við að hún væri ósönn.
- Það eru einhverjar tölfræðilegar líkur á að lottófullyrðing geti verið ósönn.
- Lottófullyrðingar eru stök í mengi fullyrðinga sem eiga eftirfarandi sameiginlegt:
- Það er álíka líklegt að sérhver fullyrðing í menginu sé sönn.
- Það væri handahófskennt að taka eina fullyrðingu fram yfir aðra.
- Það getur ekki átt við að samþykkja allar fullyrðingarnar.
Dretkse, Stine og Vogel hafa síðan hvert sína útgáfuna af því hvernig við tökum á múlösnum sem hafa verið málaðir eins og sebrahestar.