IV: Aristóteles um verundir, breytingu og varanleika

Nú snúum við okkur að Aristótelesi og tökum upp þráðinn frá Platoni. Í Timajosi reynir hann að skýra hvernig hinn efnislegi heimur skynjunar og breytinga verður til sem afrit af fullkomnum heimi frummynda með því að kynna til sögunnar ílátið, það sem tekur við formi. Í verkinu Um tilurð og eyðingu fjallar Aristóteles um sambærilegan vanda. Hann greinir allt sem er í form og efni. Sérhver hlutur er úr einhverju efni, t.d. er leirker úr leir. En úr hverju er leir? Leir sem slíkur hefur sjálfur form og er samsettur úr formi og efni. Efni leirs gæti t.d. verið jörð og vatn, sem eru tvö af frumefnunum skv. Aristótelesi. Hin tvö eru eldur og loft. Þá verður að spyrja um frumefnin: Eru þau ekki samsett? Er jörð ekki eitthvað enn meira grundvallandi efni í ákveðnu formi? Vatn líka? Og loft og eldur líka? Hvaða efni er það? Er yfirhöfuð hægt að benda á eitthvað frumefni sem er ekki í ákveðnu formi og því samsettur hlutur úr formi og efni. Við umfjöllun sína um þennan vanda fjallar Aristóteles líka um muninn á breytingu (e. alteration) og tilurð (e. coming to be). Þegar eitthvað ákveðið verður (eitthvað x verður F) þá getur það hafa orðið til (úr engu?) eða orðið það sem það er (Fx) við breytingu einhvers úr einu í annað (t.d. að vatn og jörð komi saman og myndi leir sem síðan verður að leirkeri).

Við snúum okkur síðan að kjarna frumspeki Aristótelesar, sem er kenningin um verundir, og lesum alla 7. bók Frumspekinnar. Nemendur ættu að hafa greiningu Cohen á bókinni til hliðsjónar (sjá ítarefni „Outline of Metaphysics Z“). Í þessari bók kafar Aristóteles í fyrirbærið verund (e. substance) út frá grundvallarhugtökunum efni og form en líka möguleika og veruleika. Nemendur ættu að rifja upp kynningu á frumspeki Aristótelesar úr inngangsnámskeiðinu áður en þeir leggja út í þennan texta.

Ég mun leggja áherslu á seinni hluta Um tilurð og eyðingu og á kafla 1-6 og 13-17 í Frumspekinni, bók VII.

Við lesum líka yfirlitsgrein eftir Mary Louise Gill um frumspeki Aristótelesar (með áherslu á bls. 359-368 - restin gefur gott yfirlit yfir frumspekina og er gagnlegt að lesa).

Grundvallarspurning dagsins er: Þegar upp er staðið, á hverju hvílir veruleikinn?

Lesefni:

  • Aristóteles, Um tilurð og eyðingu, úrval (þýð. S. Marc Cohen, Gail Fine og Terence Irwin) (Ugla, texti 4a).
  • Aristóteles, Frumspekin, bók VII (þýð. Gail Fine og Terence Irwin) (Ugla, texti 4b) (Fyrir þá sem hafa áhuga er grískur texti og önnur þýðing á Frumspekinni hér.)
  • Mary Louise Gill „First Philosophy in Aristotle“, í A Companion to Ancient Philosophy, ritstj. Mary Louise Gill og Pierre Pellegrin, Blackwell 2009, bls. 347-373 (Ugla, texti 4c).

Ítarefni: