Kennari: Eiríkur Smári Sigurðarson (esmari@hi.is). Viðtalstími kennara verður auglýstur síðar en hann er almennt tilbúinn til skrafs og ráðagerða eftir tíma.
Markmið námskeiðsins er a) að nemendur kynnist helstu viðfangsefnum þekkingarfræðinnar síðastliðna öld og öðlist haldgóðan grunn á þessu sviði, b) að nemendur þjálfist í skipulegum lestri á fræðilegum heimspekitextum og greiningu raka og c) að nemendur þjálfist í að skrifa fræðilegan texta með greiningu á rökum annarra heimspekinga ásamt eigin hugmyndum.
Forkröfur eru engar en gert er ráð fyrir að nemendur hafi grunn í fornaldarheimspeki og nýaldarheimspeki og lágmarksþekkingu í rökfræði.
Samskipti kennara við nemendur fara fyrst og fremst fram í kennslustundum. Formlegar tilkynningar frá kennara til nemenda eru sendar í gegnum námskerfi Háskóla Íslands, Uglu, og því er mikilvægt að nemendur athugi reglulega hi-netfang sitt. Að auki verður notast við Piazza fyrir samskipti og umræður og er æskilegt að nemendur tengist þessum hópi strax í upphafi (piazza.com/hi.is/fall2017/hsp304g/home).
Kennsla fer fram á mánudögum frá 11.40 til 13.10 í stofu 301 í Árnagarði og á miðvikudögum frá 10.00 til 11.30 í stofu 207 í Aðalbyggingu. Fyrir hvern tíma liggja fyrir einn eða fleiri textar (oftast einn) og verða þeir til kynningar og umræðu. Hver tími byrjar með kynningu á viðfangsefni dagsins. Í kjölfarið verður umræða um efnið, þar sem við m.a. notum forritið eða heimasíðuna socrative.com. Nemendur þurfa að mæta með fartölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma og hafa aðgang að Socrative í tímum. Kennari notar ekki glærur en hann birtir skýringar við lesefnið á heimasíðu námskeiðsins.
Hér er krækja í myndband með Jeremy Fantl um mikilvægi þekkingar. Jeremy er einn af ritstjórum kennslubókar námskeiðsins (sjá undir námsáætlun). Myndbandið er á YouTube rásinni Inngangur að þekkingarfræði.