Hvernig má styrkja varnir Íslands?

Eftirfarandi greining er til þess að vekja fólk til umhugsunar um hvað það feli í sér að enn er engin formleg föst viðvera varnarliðs hér á landi. Eru þeir stjórnmálaflokkar sem eru fylgjandi aðild Íslands að NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin búnir að sætta sig við ákvörðun Bandaríkjanna um að ekki sé varanleg viðvera varnarliðs hér á landi?

Lítil ríki eins og Ísland og veik stór ríki eins og Úkraína þurfa á níu atriðum að halda til að tryggja fullveldi og sjálfstæði sitt:
1. Ísland og Úkraína eiga allt sitt undir því að vera í pólitísku skjóli voldugra ríkja eða ríkjabandalaga. Löndin tvö hafa ekki burði til að verja sig sjálf. Þess vegna gekk Ísland á sínum tíma í NATO og Úkraína sækist eftir aðild að bandalaginu.
2. Lítil ríki eru sjálfstæð vegna stefnu stórra ríkja að þola tilvist þeirra. Lög og viðmið í alþjóðakerfinu sem stóru ríkin, sigurvegarar í seinni heimsstyrjöldinni, settu að henni lokinni hafa verið hagstæð litlum ríkjum. Smáríkjum fer stöðum fjölgandi þar sem voldug ríki veigra sér við í meira mæli en áður að brjóta á sjálfsákvörðunarrétti þjóða. En lög og reglur eru eitt og raunveruleiki alþjóðastjórnmála annað. Allur gangur er til dæmis á því hvort að ákvæði og viðmið alþjóðasamfélagsins á yfirlýstri hlutleyisstefnu ríkja séu virt. Stórveldin virtu til dæmis að vettugi hlutleysisstefnu Íslands, Noregs, Danmerkur og Finnlands í seinni heimsstyrjöldinni.
3. Lykilatriði í utanríkisstefnu lítils ríkis er að koma í veg fyrir að verða fyrir árás óvinveittra aðila. Ríki geta orðið fyrir margskonar árásum eins og netárásum, hryðjuverkaárás, klippt sé á sæstrengi eða beinni innrás herafla. Fagurgali á tyllidögum um stuðning hefur takmarkaða þýðingu þegar áföll ríða yfir og öll ríki hugsa fyrst og fremst um að eigin hagsmuni. Veikburða ríkja þurfa á skriflegum skuldbindingum stærri ríkja eða ríkjabandalag að halda um að þau komi þeim til varnar. Þannig skuldbindingar þarf að gera á friðartímum áður en að áfall skellur á.
4. Grunnvallaratriði í varnarstefnu veikburða ríkja felst í fælingarstefnu, það er að fæla utanaðkomandi aðila frá því að ráðast á ríkið. Fælingarstefna stórveldanna í kalda stríðinu, það er að hóta að beita kjarnorkuvopnum, gerði það líklega að verkum að heraflar þeirra lentu aldrei í beinum hernaðarátökum og kjarnorkuvopnum var ekki beitt. Sovétríkin réðust ekki inn í smáríki í NATO og Bandaríkin réðust ekki inn í smáríki og veikburða ríki í næsta nágrenni Sovétríkjanna sem þau töldu að væru á yfirráðasvæði sínu.
5. Hér á landi birtist fælingarstefnan í fastri viðveru bandarískra hermanna á landinu. Herstöðinni var ætlað að fæla ráðamenn í Kreml frá því að ráðast á landið. Í dag á aðild Íslands að NATO og varnarsamingurinn við Bandaríkin að fæla óvinveitt ríki eða aðila frá því að ráðast á landið.
6. Ef að veikburða ríki verður hins vegar fyrir árás, er lífsspursmál fyrir það að fá þegar í stað aðstoð utankomandi aðila sem getur hrint árásinni. En samkvæmt fræðunum vantar Íslandi mikilvægt atriði til viðbótar við varnarsamninginn og aðildina að NATO.
7. Föst viðvera öryggissveita eða herafla frá aðildarríkjum NATO er forsenda þess að fæla óvinveittan aðila frá því að ráðast á landið. Líklega þarf ekki nema áhöfn eins kafbáts eða einnar lúxussnekkju rússnesks auðjöfurs - sem lóna fyrir utan hafnir landins öll sumur - til að taka yfir helstu stofnanir landsins. Skyndiárásum verður að vera hægt að bregðast við þegar í stað. Hætt er við að sérsveit ríkislögreglustjóra geti ekki lengi varist innrás hersveitar þó að lítil sé. Öflugar varnarsveitir verða að vera til staðar. Það getur verið of seint eða mjög dýrkeypt að bregðast við að nokkrum klukkustundum liðum þegar helstu stofnanir landsins eru komnar í hendur óvinasveitar.
8. Í tengslum við loftrýmis- og kafbátaeftirlit yfir Íslandi skiptast bandalagsríki NATO (auk Svíþjóðar og Finnlands) á að vera með tímabundna viðveru á öryggissvæðinu í Keflavík. Aukin viðvera tengist auknum áhyggjum þeirra og þá sérstaklega Bandaríkjanna af framtíðaráformum rússneskra og kínverskra stjórnvalda á Norðurskautinu. Viðvera herafla eða loftrýmis- og kafbátaeftirlitsins er ekki föst að nafninu til en spurning hvort að hún sé það í raun. Á tímabilinu frá 2014 til 2017 var tímabundinni viðveru hermanna þannig háttað að hver sveitin tók við af annarri þannig að um stöðuga viðveru hermanna var að ræða. Þessi staðreynd virðist vera nokkuð feimnismál á stjórnarheimilinu og í raun ekki mikið rædd almennt. Samkvæmt íslenskum stjórnvöldum og bandalagsríkjunum er ekki um fasta viðveru herafla að ræða. Ef viðvera herafla er í rauninni föst þá er hér um tvískinnung að ræða. Tvískinnung sem er alvarlegri en í fyrstu virðist. Það að viðurkenna ekki opinberlega nær stöðuga viðveru varnarliðs á vellinum eða koma ekki á formlegri fastri viðveru varnarliðs dregur úr þeim fælingarmætti sem aðildin að NATO og varnarsamingurinn við Bandaríkin felur í sér. Þannig myndi föst viðvera varnarliðs fæla óvinasveitir frá árás.
9. Að lokum, ráðamenn hins vestræna heims gleymdu sér í gleðinni yfir hruni Sovétríkjanna. Mikilvægi fælingarstefnunnar gleymdist en hún var lykillinn að sigri vestrænna ríkja í kalda stríðinu. NATO-aðildin, varnarsamingurinn við Bandaríkin og föst viðvera varnarliðs var ætíð hryggjarstykkið í utanríkisstefnu Íslands. Fæla skyldi óvininn frá því að ráðast á landið og bregðast við þegar í stað ef kæmi til innrásar. Nú hefur rússneski björninn vaknað úr dvala. Það kallar á að látið verið af þeim tepruskap sem einkennir umræðuna um varnarmál hér á landi. Ræða þarf mikilvægi fælingar og varnarstefnu Íslands.


Meira hér: Föst viðvera herliðs á Íslandi hafi fælingarmátt

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.