Rússar ráðast á það sem gerir sjálfstæði Íslands mögulegt

Eftirfarandi er grein sem birtist í Stundinni, þann 25. febrúar 2022 (Jón Trausti Reynisson).


Mótmælendur í Edinborg Mótmælendur komu saman í Skotlandi í gær, líkt og í öðrum Evrópuríkjum. MYND: AFP

Vla­dimir Pútín hef­ur kom­ist upp með of margt, seg­ir Bald­ur Þór­halls­son stjórn­mála­fræðing­ur, sem sér­hæf­ir sig í stöðu smáríkja, eins og Ís­lands, sem er ógn­að af breyttri heims­mynd Pútíns.

Sjálfstæði Íslands og annarra smáríka byggir á því heimskerfi sem Rússar ráðast gegn með innrás sinni í Úkraínu. Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur og sérfræðingur í stöðu smáríkja, segir að þeirri heimsmynd sé ógnað með framferði Rússa.

„Nú þegar rússnesk stjórnvöld endanlega sýna fram á að þau virða einskis sjálfsákvörðunarrétt ríkja, þá eru öryggismál í Evrópu komin í uppnám,“ segir Baldur í samtali við Stundina. „Sérstaklega fyrir smáríki - sem byggja tilverurétt sinn á vilja stórra ríkja til þess að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi þeirra - vegna þess að hernaðarlega og efnahagslega eru stór ríki miklu öflugri heldur en smærri og geta valtað yfir þau ef þau vilja gera það.“

Tilvist smáríkja byggir á viðhorfi
Baldur segir tilvist smáríkja, eins og Íslands sem hefur verið sjálfstætt frá seinna stríði, byggja á grundvallarviðhorfi sem var innleitt eftir að bandamenn sigruðust á Adolf Hitler og öðrum einræðisherrum í Seinni heimsstyrjöld.


Baldur Þórhallsson Hefur gagnrýnt íslenska sérfræðinga í málefnum Úkraínu, sem sögðu stríð ekki yfirvofandi. „Smáríki eru í rauninni til vegna vilja stórra ríkja að viðurkenna þau. Lög og grundvallarviðmið í núverandi alþjóðakerfi byggja á sjálfsákvörðunarvaldi þjóða. Sjálfstæði og fullveldi ríkja, eru grundvöllur fyrir tilvist smáríkja. Þetta lagalega umhverfi, sem sett var á fót, innan Sameinuðu þjóðanna, eftir síðari heimsstyrjöld, hefur gert það að verkum að smáríkjum í heiminum hefur stórfjölgað. Vegna þess að stór ríki eru viljug til að viðurkenna þetta grundvallarviðmið sem er ríkjandi í alþjóðakerfinu.“

„Smáríki eru í rauninni til vegna vilja stórra ríkja að viðurkenna þau.“
Baldur vill ekki ganga svo langt að segja ástandið beina ógn við stöðu Íslands. „Öryggi borgara Nató-ríkja er ekki ógnað með beinum hætti. Vegna þess að Nató ætlar ekki að verja Úkraínu. Hvort þessi átök vindi upp á sig og það geti orðið mistök og menn lendi í átökum, það er næsta skref. Í augnablikinu lítur ekki út fyrir að þessi átök breiðist út fyrir landamæri Úkraínu. En eigi að síður, þrátt fyrir það er þetta ógn við öryggiskerfi Evrópu sem mótað var eftir Seinni heimsstyrjöld og fall Sovétríkjanna. Öllum þeim ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu, sem ekki hafa gengið í Nató, stendur bein ógn af Rússlandi. Ef Rússland vill taka þau yfir hernaðarlega og með valdi, þá mun það gera það.“


Pútín líkt við Hitler Mótmælendur fyrir utan byggingu Nató í Haag í Hollandi líktu Pútín við Adolf Hitler, eins og gert var víða annars staðar. MYND: AFP

Íslendingar reyndu að hætta við refsiaðgerðir
Íslenskir stjórnmálamenn hafa tekið seinna við sér en flestir evrópskir í aðdraganda þess að Vladimir Pútín fyrirskipaði innrás í Úkraínu. Þannig heyrðist ekkert frá forsætisráðherra Íslands fyrr en innrásin var orðin að veruleika.

Baldur segir íslensk stjórnvöld hafa reynt að bakka út úr refsiaðgerðum sem settar voru á Rússa eftir að þeir innlimuðu Krímskaga. 


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Ríkisstjórn Sigmundar vildi hætta refsiaðgerðum gegn Rússum. MYND: AFP

„Stjórnvöld íhuguðu mjög gaumgæfilega 2015 að hætta að taka þátt í refsiaðgerðum gegn Rússlandi. Bandaríkin mótmæltu harðlega og við hættum við,“ segir hann.

Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi utanríkisráðherra, lýsti því nýlega í hlaðvarpsviðtali að hann hefði reitt Vladimir Pútín til reiði á fundi, þannig að hann auðsýndi andstöðu sína með því að losa skóþveng sinn, en þá hafði Guðlaugur reynt að benda Pútín á að setja ekki innflutningsbann á íslenskt sjávarfang, heldur fremur evrópskan iðnað.

Baldur bendir á að Íslendingar fylgi Evrópusambandinu í yfirlýsingum nánast í einu og öllu. „Ísland tekur þátt í pólitískum yfirlýsingum Evrópusambandsins út af viðauka í EES-samningnum. Þetta þýðir á mannamáli að Ísland fylgir Evrópusambandinu eftir í utanríkismálum. Íslenskir ráðamenn hins vegar vilja ekkert tala um þetta. Sérstaklega þeir sem eru andsnúnir aðild Íslands að Evrópusambandinu.“

„Við tökum þátt í 97% svokölluðum pólitískum yfirlýsingum frá Evrópusambandinu.“
Baldur hefur greint þetta. „Við tökum þátt í 97% svokölluðum pólitískum yfirlýsingum frá Evrópusambandinu. Þegar við gerum það ekki þá er það yfirleitt vegna tæknilegra mistaka. Það á að vera samráð um þetta, en samráðið er ekki neitt. Við fáum bara sent með skeyti hver yfirlýsingin á að vera og yfirleitt segjum við bara já. Mér finnst að Ísland, Noregur og Liechtenstein eigi að fara fram á það að það sé alvöru pólitísk samræða á milli og Íslendingar fái að taka þátt í viðræðum um hvaða viðskiptaþvinganir eigi að setja, á Rússland til dæmis, vegna þess að við munum taka þátt í þeim.“


Þrír forsetar Vladimir Pútín Rússlandsforseti, Volodomyr Zelensky Úkraínuforseti, og Biden Bandaríkjaforseti. Zelensky er nú umsetinn rússneska hernum í höfuðborginni Kyiv. MYND: AFP

Pútín hefur komist upp með þetta
Tilkynnt hefur verið um refsiaðgerðir gegn stærstu bönkum Rússlands og nokkrum auðmönnum, ásamt útflutningsbanni á tilteknum tæknivörum til Rússlands.

Baldur segir að refsiaðgerðir hafi litlar afleiðingar, nema helst fyrir lítil ríki. „Sagan og rannsóknir sýna að viðskiptaþvinganir og refsiaðgerðir Bandaríkjanna virka helst gegn litlum ríkjum í Afríku og Mið- og Suður-Ameríku.“

Þær refsiaðgerðir sem nú hafa verið boðaðar nægja ekki, að mati Baldurs. Útiloka þurfi rússneskt fjármálakerfi að fullu frá vestrænum löndum. Bæði Frakkar og Bretar hafa nú sagst reiðubúnir að útiloka Rússa frá alþjóðlega greiðslukerfinu SWIFT.

Að hans mati er ástæðan fyrir því að Pútín gengur stöðugt lengra einfaldlega sú að hann hefur komist upp með svo margt.

„Hann gengur sífellt lengra. Ég held að það spili inn í klárlega að honum er ekki veitt nægilega mikil viðspyrna,“ segir hann. Spurður hvað ætti að gera segir Baldur: „Til dæmis ef rússnesku bankarnir og ríkið hefðu verið útilokuð frá þátttöku í fjármálamarkaði vestrænna ríkja, það hefði kannski geta bitið. Þá værum við hugsanlega ekki í þeirri stöðu sem við erum í dag. Menn voru ekki viljugir til að ganga þetta langt.“

Baldur tekur annað dæmi. „Hann hefur alltaf komist upp með þetta. Mér finnst besta dæmið varðandi Ólympíuleikana. Rússnesk stjórnvöld standa fyrir umfangsmesta svindli í íþróttum sem sést hefur, þegar þegar þeir brutust inn á eftirlitsstofur með lyfjanotkun íþróttamanna og skiptu um blóðglös með eitruðu blóði rússneskra íþróttamanna og létu eitthvað saklaust í staðinn. Og hver er refsingin? Jú, að þeir keppa undir öðru nafni á Ólympíuleikunum. Mér finnst þetta lýsandi fyrir viðbrögð heimsins við sífelldum brotum rússneskra stjórnvalda á lögum og reglum og viðmiðum og normum. Þeir bara komast upp með þetta, rétt eins og núna, munu komast upp með að taka Úkraínu með valdi.“

Forsetar án takmarkana
Pútín vill verða forseti til 2034, Xi Jinping, forseti Kína, hefur fengið tveggja kjörtímabila hámarksvaldatíma forseta afnuminn og getur því verið við völd án takmarkana. Þeir hittust á fundi fyrir um þremur vikum. MYND: AFP

Austurblokk með Asíurisunum
Önnur fjölmennustu ríki heims hafa ekki tekið undir þá túlkun að Rússar séu í órétti í Úkraínu. Fulltrúi Kínverska utanríkisráðuneytisins gaf til kynna að heimsmynd Kínverja sé önnur en Vesturveldanna. Kínverjar, sem telja 1,44 milljarða manna, hafa ekki viljað taka afstöðu gegn innrás Rússa í Úkraínu og þvert á móti neitað að skilgreina árásina sem „innrás“. Indverjar, á sama tíma, taka ekki þátt í refsiaðgerðum og leita leiða til að eiga bein viðskipti við Rússa með rupee, gjaldmiðli Indlands, þar sem refsiaðgerðir ná til dollara, evru og jena.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í ávarpi í gær að helmingur heimshagkerfisins tæki þátt í refsiaðgerðum gegn Rússum, nánar til tekið rússneskum bönkum og tilteknum fjölda rússneskra auðmanna, ásamt útflutningsbanni á tæknivörum. Eftir stendur að hinn helmingur heimsins stendur Rússum opinn.

Spurður hvort hann telji að Rússar muni halla sér upp að Kínverjum í auknum mæli, segist Baldur ekki vera í nokkrum vafa. „Já, þeir munu gera það. Þeir í rauninni neyðast til að gera það. Þetta mun ekki hafa áhrif á viðskiptin við Kína nema bara auka það. Indverjar munu líklega ekki heldur taka þátt í refsiaðgerðunum. Rússar hafa fjölda ríkja í Miðausturasíu, í Afríku og jafnvel í Suður-Ameríku, sem þeir geta átt viðskipti við. Það að skrúfa fyrir gas- og olíuútflutning frá Rússlandi til Evrópu mun ekki skila miklu. Þeir munu auðveldlega finna nýja markaði. Það eru svo mörg ríki sem munu ekki taka þátt í þessu. Og fyrir utan það, þessar aðgerðir koma alltof seint. Ef eitthvað gæti virkað þá væri það helst að loka alveg á rússneska fjármálamarkaðinn og aðgang rússneskra stjórnvalda að fjármagni í Vestur-Evrópu. Það er það eina sem ég sé fyrir mér að gæti virkað, en að því sögðu, þá hafa þeir aðgang að Kína og Indlandi. Og viðskipta- og refsiaðgerðir munu ekki hafa nein áhrif á það sem er að gerast á jörðu niðri í Úkraínu núna.“

Tveir skólar: Að einangra eða tengjast
Spurður hvort það verði alltaf metið réttlætanlegt að eiga frjáls viðskipti við einræðisríki segir Baldur tvo meginskóla hafa verið ríkjandi. „Annars vegar að eiga engin samskipti við einræðisríki og einangra þau. Eða eiga sem mest viðskipti þau, menningar-, mennta- og íþróttasamskipti, og reyna þannig smám saman að fá þau til að taka upp þau gildi og viðmið sem viðurkennd eru á Vesturlöndum hvað mannréttindi og lýðræði varðar. Þessir skólar takast endanlaust á Vesturlöndum.“

Norræn ríki hafa nú farið fram á að Rússum verði haldið frá Evróvisjón-keppninni og þegar hefur verið ákveðið að úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu verði færður frá Pétursborg, uppeldisborg Vladimirs Pútín, til Parísar.


Biðja um flugbann Úkraínskur mótmælandi í Belgíu biður Nató að framfylgja flugbanni yfir Úkraínu. Nató hefur ekki í hyggju að skipta sér af. MYND: AFP

Öllu snúið á hvolf
Úkraínsk stjórnvöld hafa lýst áhuga á að ganga í Nató og hafa áform um formlega aðildarumsókn að Evrópusambandinu árið 2024. Varðandi þá Íslendinga, kínversk stjórnvöld og aðra sem segja Pútín einfaldlega vera að verja sitt öryggissvæði með innrásinni í Úkraínu, segir Baldur öllu snúið á hvolf.

„Að mínu mati er þarna hlutunum alveg snúið á haus. Vegna þess að það hefur verið þannig eftir fall Berlínarmúrsins og fall Sovétríkjanna að þau ríki sem losnuðu undan járnhæl kommúnismans í Mið- og Austur-Evrópu, hafa flestöll verið að sækja um aðild að Nató og Evrópusambandinu. Nató og Evrópusambandið var mjög tregt í fyrstu að hleypa þeim inn. Það var andstaða, bæði meðal Bandaríkjastjórnar og flestra ríkja Nató, við að hleypa þeim inn til að byrja með, á fyrri hluta 10. áratugarins, vegna þess að menn áttuðu sig alveg á því að með því að hleypa þeim inn, þá væri Nató að færast til austurs og að rússnesk stjórnvöld myndu líta á það sem ögrun og þeir myndu líta á það sem ógn. En vegna þrábeiðni þessara þjóða í Mið- og Austur-Evrópu, sem nákvæmlega bentu á að ríki ættu að ráða sér sjálf og haga sinni utanríkisstefnu þannig, og að dyr Nató og Evrópusambandsins ættu að standa þeim opnar. Frumkvæðið að þessu kemur alfarið frá þessum sjálfstæðu og flestum litlu ríkjum í Austur-Evrópu, sem eru að leita í skjól frá rússneska birninum.“


Viðurkennir sjálfstæði Donbass-héraða
Vladimir Pútín sagðist ekki ætla að fyrirskipa innrás í Úkraínu, þegar hann stillti upp hernum við landamærin. Síðar tilkynnti hann að hann viðurkenndi sjálfstæði Luhansk- og Donetsk-héraða. Um leið sagðist hann senda friðargæslulið til héraðanna. Í kjölfarið fyrirskipaði hann „sértækar aðgerðir“, sem nú birtast í því að hermenn hans eru komnir í höfuðborg Úkraínu. MYND: AFP

Nató-ríkin eru veik
Baldur telur að ástæða þess að Pútín lætur til skarar skríða núna sé að hann sá að síðar yrði það of seint.

„Hvers vegna er hann að þessu núna? Það tengist að í vaxandi mæli hefur Úkraína verið að þrýsta á aðild að Nató. Stjórnvöld í Úkraínu hafa í vaxandi mæli verið að þrýsta á það. Stjórnvöld í Kreml sjá ekki fram á að Úkraína ætli að snúa sér frá vestrinu. Það er núna eða aldrei.

Númer tvö. Stóru ríkin í Nató eru veikari en þau hafa oft verið. Hvernig Bandaríkin skildu við Afganistan, plús innanlandsátök í Bandaríkjunum og minni vilji í Bandaríkjunum til að skipta sér af hernaðarlega málefnum erlendis, gera þau veikari.“

Þannig sé Bretland veikara eftir Brexit, Boris Johnson í vandræðum pólitískt og innanflokks, Macron Frakklandsforseti á leið í erfiðar kosningar í apríl og ný ríkisstjórn í Þýskalandi enn að fóta sig. „Olaf Sholz er engin Merkel,“ segir hann.

Kína fylgist með
Veikari Vesturlönd og árangur Pútíns getur haft áhrif inn í framtíðina, á hinn raunverulega keppinaut Vesturlanda: Einræðisríkið Kína.

„Ég held að Kína horfi vökulum augum á hvernig brugðist verður við allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu, til þess að meta hversu langt þeir geta gengið sjálfir annars staðar, eins og til dæmis gagnvart Taívan.“

Bandaríkin hafa stutt Taívan hernaðarlega, án þess að viðurkenna sjálfstæði ríkisins. Kínverjar hafa beitt hörðum refsiaðgerðum gegn hverjum þeim sem tekur upp samskipti við Taívan eða viðurkennir ríkið með nokkrum hætti.

„Valdasamkeppnin í framtíðinni verður á milli Vesturlanda og Kína.“
„Rússland er ekki svipur frá sjón borið saman við Sovétríkin. Við getum ekki borið saman deilur Rússlands við Nató við Kalda stríðið. Við eru ekkert komin í þannig stöðu. Rússland er miklu veikara en Sovétríkin voru. Kína er nýja heimsveldið sem Bandaríkin eru að fara að keppa við, og í rauninni líka Evrópa, bæði pólitískt og efnahagslega. Þannig að valdasamkeppnin í framtíðinni verður á milli Vesturlanda og Kína.“

Þannig gæti innrásin í Úkraínu þvingað fram breytta afstöðu milli vesturs og austurs. Það er einmitt Kalt stríð sem er efnið í leiðara New York Times í dag, þar sem bent er á að þær raddir hafi heyrst í kínverskum fjölmiðlum að Kínverjar þurfi að gefa Rússum tilfinningalegan og siðferðislegan stuðning, án þess að stíga á tær Bandaríkjanna og Evrópusambandsins, vegna þess að Kína muni þurfa stuðning Rússa þegar kemur að Taívan.

Baldur telur að spurningin sé hvort verði ofan á, aflsmunur einræðisríkja, eða lýðræðisríki sem verndi smáríki eins og Ísland. „Þessum grundvelli fyrir tilvist smáríkja, þeim bát er ruggað með þessu. En það hefur ekki orðið grundvallarbreyting á þessu í alþjóðakerfinu engu að síður. Það þarf meira að gerast til þess.“

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.