Alvarlegur boðaður bannlisti

Við megum ekki sofna á verðinum og gera lítið úr því að blaðamenn og fræðimenn séu settir á bannlista.
Eitt er að vestræn og rússnesk stjórnvöld skiptist á diplómatískum refsiaðgerðum með því að setja stjórnmálamenn á bannlista annað þegar fræðimenn, blaðamenn og fólk sem tekur þátt í þjóðfélagsumræðunni er sett á bannlista.
Tilgangurinn með bannlistanum er miklu víðtækri en eingöngu að meina fólki landvist í Rússlandi. Markmiðið með listanum er að fæla fræðimenn og blaðamenn frá því að fjalla á gagnrýnan hátt um ráðamenn í Kreml. Vonast er til að bannlistinn og sú ógn sem felst í því að verða hugsanlega settur á hann leiði til þess að menn fari mjúkum höndum um stríðsrekstur Rússlands í Úkraínu.
Níu Íslendingar
Morgunblaðið í ágætri frétt veltir fyrir sér hvaða Íslendingar gætu hugsanlega verið á bann­listanum sem rúss­neska ut­an­rík­is­ráðuneytið hefur greint frá að verði samþykktur í Dúmunni fljótlega. Fram hefur komið að á listanum séu 9 Íslend­ing­ar, 16 Norðmenn, 3 Fær­ey­ingar og 3 Græn­lend­ingar. Mér finnst aukaatriði hvort að ég sé á þessum lista (eins og Morgunblaðið telur að gæti verið) eða ekki. Það mikilvæga í málinu er þessi tilraun til að draga úr frelsi fjölmiðla og fræðimanna að tjá sig um framferði rússneskra stjórnvalda.
Hingað til hafa rússnesk stjórnvöld nær eingöngu sett stjórnmálamenn og einstaka yfirmenn eða embættismenn í herjum Vesturlanda á þennan bannlista sinn sem svar við bannlistum vestrænna ríkja á rússenska stjórnmálamenn og fólk úr viðskiptalífi Rússlands.
Takmörkun fræðilegar umræðu og frjálsra skoðanaskipta
Það er hart sótt að frelsi fjölmiðla og vísindum þessa dagana með falsfréttum og árásum stjórnvalda víðsvegar um heiminn. Við megum ekki láta sem svo að bannlisti Rússlands sé einfaldlega ekkert mál. Bannlistinn eru hluti af herferðinni að takmarka fræðilega umræðun, frjálsa fjölmiðlun og frjáls skoðanaskipti.

Sjá frétt morgunblaðsins um málið hér.

Sjá bannlista Rússa í Úkraínu stríðinu hér.
This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.