Gagn hugvísinda*

Heimurinn er að breytast. Sem eru auðvitað engar fréttir – þannig hefur það alltaf verið og mun alltaf verða. Við erum líka stöðugt að breytast, bæði „við“ sem samfélag og „við“ sem einstaklingar. Breytingar munu eiga sér stað hvort sem við viljum eða ekki en hæfileikar okkar til að skilja og hafa áhrif á þessar breytingar eru misgóðir og alls ekki sjálfsagðir. Við þurfum að mennta okkur til að geta tekist á við breytingar og tekið breytingum.

Í síðustu viku kom út bókin Áhrif og framtíð hugvísinda (The Impact and Future of Arts and Humanities, Palgrave 2016) eftir þá Benneworth, Gulbrandsen og Hazelkorn. Niðurstaða höfunda er að hugvísindin geri samfélög hæfari til að taka breytingum og að í þessu felist ótvírætt gagn þeirra. Samfélög sem eru hæfari til að taka breytingum eru öflugri samfélög en þau sem eru breytingafælin. Samfélög sem rækta hugvísindi og listir eru hæfari til að taka breytingum en þau sem leggja hugvísindum og listum ekki lið. Þau eru því betri og öflugrin sem samfélög. Sama á við um einstaklinga.

Fólk getur augljóslega lært að takast á við lífið með eða án formlegrar menntunar. Hins vegar má spyrja um gæði menntunar með tilliti til hversu góð hún er í að efla hæfileika manna og samfélaga til að takast á við síbreytilegan heim. Maður getur auðveldlega orðið leiksoppur breytinga sem getur síðan leitt til þess að maður fer að berjast gegn breytingum, óháð því hvort þær séu til hins betra eða til hins verra. Menntun og rannsóknir sem auka skilning og þjálfa okkur í að meta breytingar á umhverfi okkar á gagnrýninn hátt gera okkur hæfari til að taka breytingum. Við vitum frekar hvað er að gerast og getum betur haft stjórn á því (en eins og Sjón benti á í vikunni er fólk veikt fyrir stjórnun og þarf að vinna í að láta ekki stjórna sér). Við getum líka orðið afl til breytinga samfélaginu til góða.

Páll Skúlason, heimspekingur og háskólarektor, var alla tíð sannfærður um að háskóli án hugvísinda væri merkingarlaus. Háskóli sem ekki ræktaði gagnrýna hugsun stæði ekki undir nafni og þar sem gagnrýnin hugsun lægi nær kjarna hugvísinda en annarra fræðasviða stæði háskóli án hugvísinda ekki undir nafni (sjá t.d. í síðasta verki Páls, Merking og tilgangur, sem kom út að honum látnum árið 2015). Þó gagnrýnin hugsun sé vissulega eitt af aðalsmerkjum hugvísindanna er hæfileikinn til túlkunur ekki síður mikilvægur hluti þeirra – jafnvel mikilvægari en gagnrýnin hugsun. Gagnið sem af þessu hlýst fyrir einstaklinga og samfélög verður seint metið til fjár. Í pólitísku landslagi þar sem peningar virðast eini mælikvarðinn á menntun og rannsóknir eiga rök um gagn hugvísinda sem ekki vísa í auknar ævitekjur eða þjóðarframleiðslu lítinn hljómgrunn. En einmitt þessi staðreynd um pólitískt ástand sýnir nauðsyn öflugra hugvísinda.

Tvö dæmi (af mörgum mögulegum) sýna hversu gagnleg íslensk hugvísindi eru í alþjóðlegu samhengi. Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna er rekinn innan Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Hann hefur þegar útskrifað 68 nemendur úr alþjóðlegu diplómanámi í jafnréttisfræðum á meistarastigi. Nemendurnir eru frá þróunarríkjum eða stríðshrjáðum löndum og fara aftur til síns heimalands með reynslu og þekkingu úr náminu á Íslandi. Þeir snúa til baka með hæfileika til að taka breytingum og til að leiða breytingar. Hjá íslenska gestgjafanum skilja þeir eftir sömu hæfileika.

Hitt dæmið er Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar sem er hluti af stofnunum UNESCO. Vigdísarstofnun hefur að markmiði að stuðla að fjöltyngi til að „auka skilning, samskipti og virðingu milli menningarheima og þjóða“. Stofnunin lítur ekki fyrst og fremst inn á við heldur út í heim og mun leggja sitt fram til að efla skilning milli manna í gegnum öflugar rannsóknir á tungumálum.

Hvorug þessi stofnun væri möguleg ef ekki væri fyrir öflugar rannsóknir og kennslu í hugvísindum. Gagn hugvísinda er ótvírætt og ómetanlegt.

*Einnig birt á Vísi 9. desember 2016.

Þessi færsla var birt í Hugvísindi og merkt sem . Bókamerkja beinan tengil.