Fornfræði er námskeið fyrir nemendur við Menntaskólann í Reykjavík sem taka bæði latínu og grísku til stúdentsprófs. Í námskeiðinu kynnast þeir lykilverkum í bókmennta- og menningarsögu grísk-rómverskrar fornaldar og lesa ítarlega úrval texta. Ég kenni námskeiðið í 6. bekk. Þar einbeitum við okkur að sögu vísinda, fræða og heimspeki og lesum texta eftir frumherja heimspekinnar, Hippókrates, Heródótos, Þúkýdídes, Aristófanes, sófistana og Platon. Við spyrjum spurninga um eðli heimsins og mannsins, um sálina, samfélagið og réttlæti, um frelsi og lýðræði, um stöðu kynja, kynþátta og stétta og um margt fleira sem þessi lykilverk fást við. Forsendan er alltaf sú að verkin hafa mótað nútímann og að greining á þeim hjálpi okkur að skilja menningu okkar - bæði kosti hennar og galla.