Rússar skilja ekkert nema afl

 

Ríki á Vesturlöndum og nágrannaríki verði að taka hótanir Rússa alvarlega. Þar á meðal séu hótanir Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, um að Eystrasaltsríkin eigi að tilheyra Rússlandi sögu þeirra vegna. Geri menn það ekki gætu þeir staðið frammi fyrir sömu mistökum og í Úkraínu nú. Rússnesk stjórnvöld skilja ekki neitt annað en afl en hingað til hafa þau komist upp með allt.

Allt sem Pútín hefur gert; í Georgíu 2008, í Úkraínu 2014 og í dag í Úkraínu, hefur hann komist upp með. Hann hefur sagst ætla að gera þetta áður en hann grípur til aðgerða og svo framkvæmir hann þetta. Við á Vesturlöndum erum eingöngu að tala við okkur sjálf og höldum að við séum að ræða við leiðtoga sem hugsar og framkvæmir eins og við. Við verðum að fara að horfast í augu við það að rússnesk stjórnvöld skilja ekkert annað en afl, að þeim sé mætt af fullri hörku og með afli.

Í augnablikinu eru NATO-ríkin að draga línuna við sín landamæri og segja að það verði ekki liðið að það verði ráðist inn í NATO-ríki. Fyrirvarinn er þó sá að ef einhver ræðst á NATO-ríki þá þýði það ekki sjálfkrafa að öll NATO-ríkin bregðist við þeirri innrás. Ef Rússland ræðst inn í Litáen þá þýðir árás á eitt ríki árás á þau öll en það þarf að virkja fimmtu grein sáttmálans til þess að ríkin komi til aðstoðar og verjist innrásinni. NATO þarf að tala mjög skýrt núna um að fimmta grein Atlantshafssáttmálans verði virkjuð ráðist utanaðkomandi aðili á aðildarríki. Úr samtali við Baldur Þórhallsson í Vikulokin á Rás 1.

 

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.