Leikur Framsóknarflokkurinn tveimur skjöldum eða er um raunverulega stefnubreytingu að ræða?

Forystufólk Framsóknarflokksins hefur kallað eftir breytingum á stjórnarstefnunni í málaflokkum sem hafa verið mjög umdeildir í samfélaginu. Kallað er eftir því að sjávarútvegurinn og bankar greiði mun hærra hlutfall af arði sínum í sameiginlega sjóði landsmanna. Og nú síðast upplýsir ráðherra bankamála að hún hafi alla tíð verið andvíg þeirri leið sem farin hafi verið við sölu á hlut ríkissins í Íslandsbanka. Hún telur söluna hafa misheppnast hrapalega og að fjármálaráðherra eigi að axla ábyrgð á henni. Í raun er hún að kalla eftir afsögn ráðherrans, formanns Sjálfstæðisflokksins, sem gæti þýtt stjórnarslit. – Þessi áköll um stefnubreytingar og að ráðherra samstarfsflokks axli lagalega og pólitíska ábyrgð á gjörðum sínum eru athyglisverð einkum í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur setið í 5 ár, að undangenginni gerð tveggja stjórnarsáttmála, og að Framsóknarflokkurinn fer með bankamál í ríkisstjórninni. Framsóknarflokknum hefði verið í lófa lagið að hafa áhrif á þessa þrjá þætti stjórnarstefnunnar, það er aukna skattheimtu á sjávarútveginn og bankana og sölu Íslandsbanka. - Sú spurning hlýtur að vakna hvað vakir fyrir Framsóknarflokknum. Þrennt kemur helst til greina. Í fyrsta lagi að flokkurinn hafi orðið undir í valdataflinu við ríkisstjórnarborðið og telji að við það verði ekki unað lengur. Í öðru lagi að um sé að ræða áherslubreytingu hjá flokknum eða að honum hafi einfaldlega snúist hugur í þessum málaflokkum. Í þriðja lagi að þetta sé einungis lýðskrum til þess fallið að þyrla ryki í augu kjósenda fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. – Að þessu sögðu er mikilvægt að hafa í huga að Framsóknarflokkurinn er annar af áhrifmestu stjórnmálaflokkum landsins og hefur verið það allt frá stofnun. Síðustu hálfa öldina hefur Framsóknarflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn í 39 ár. Flokkurinn hefur haldið um stjórnartaumana í sjávarútvegs- og bankamálum á mikilvægum tímamótum í þessum málaflokkum, þar er þegar núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var komið á og bankarnir einkavæddir. – Framsóknarflokknum er í lófa lagið að ýta kröftuglega eftir þessum áherslum sínum á stjórnarheimilinu sem að hann gæti verið að gera með þessum afdráttalausa málflutningi nema að hann sé að stunda lýðskrum. Næstu misseri munu skera úr um þetta. Í augnabliknu þarf hver að dæma fyrir sig.

Meira hér:

Túlka megi orð Lilju sem svo að hún kalli eftir afsögn fjármálaráðherra

Ekki hægt að líta á þetta öðruvísi en svo að Lilja kalli eftir afsögn fjármálaráðherra

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.